Hoppa yfir valmynd
5. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Velferðarvaktin skipar í vinnuhópa

Frá fundi velferðarvaktarinnarVelferðarvaktin skipaði á fundi sínum fyrir helgi sex vinnuhópa sem hver um sig tekur fyrir mál sem snerta einstaklinga og fjölskyldur í kjölfar kreppunnar.

Í einum vinnuhópnum verður hugað að málefnum barna upp að 18 ára aldri en annar tekur fyrir aðstæður ungs fólks á aldrinum 18 til 25 ára. Afleiðingar efnahagshrunsins á þá sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu verður tekin fyrir auk þess sem hugað verður að fólki án atvinnu í öðrum vinnuhópi. Fjármál heimilanna verða til umfjöllunnar og gætt verður að áhrifum kreppu á heilsufar. Sérstakur ráðgjafarhópur um rannsóknir verður velferðarvaktinni til leiðbeiningar um upplýsingar úr fyrirliggjandi rannsóknum og hvar bæta þurfi úr þekkingu á viðfangsefninu.

Ásta R. Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra sem skipaði stýrihóp velferðarvaktarinnar segir að „starf velferðarvaktarinnar og vinnuhópanna sé afar mikilvægt. Lykilatriði sé að fá sem gleggsta mynd af áhrifum efnahagsástandsins á fólk til að tryggja að aðgerðir stjórnvalda séu markvissar og skili sér þar sem þeirra er mest þörf.“

Hlutverk vinnuhópanna er fyrst og fremst að leggja mat á áhrif kreppunnar á málaflokk sinn, tilgreina hvaða upplýsingar vantar til að skýr mynd fáist af afleiðingum hrunsins og leggja fram tillögur til úrbóta.

„Áhrifa efnahagsþrenginganna gætir víða í samfélaginu en okkur þótti mikilvægt að beina sjónum að þeim hópum sem hætta er á að verði fyrir varnalegu tjóni vegna kreppunnar og miðast vinnuhóparnir við það“, segir Lára Björnsdóttir, sviðsstjóri velferðasviðs félags- og tryggingamálaráðuneytisins og formaður stýrihóps velferðarvaktarinnar.

Hlutverk velferðarvaktarinnar er margþætt en snýr ekki síst að því að skoða aðgerðir sem stjórnvöld hafa þegar gripið til, afla fræðilegra upplýsinga um afleiðingar kreppunnar, kanna reynslu annarra þjóða af svipuðu ástandi og leggja til leiðir til úrbóta. Velferðarvaktin var stofnuð um miðjan febrúar samkvæmt verkefnaáætlun ríkisstjórnarinnar en í henni sitja fulltrúar ríkis, sveitarfélaga, hagsmuna- og félagasamtaka. Velferðarvaktin fundar vikulega og mun skila áfangaskýrslu til félags- og tryggingamálaráðherra um miðjan mars.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum