Hoppa yfir valmynd
15. júní 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 15. maí 2009

Mætt: Lára Björnsdóttir (LB) formaður, Björn Ragnar Björnsson (BRB), tiln. af fjármálaráðuneyti, Eiríkur Jónsson, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Öryrkjabandalagi Íslands og Þroskahjálp, Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB) tiln. af SA, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS) tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Stefán Stefánsson (StSt), tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir (SKV), tiln. af Reykjavíkurborg, og Vilborg Oddsdóttir (VO), tiln. af Biskupsstofu, auk Þorbjarnar Guðmundssonar (ÞG) og Ingibjargar Broddadóttur (IB).

1. Fundargerð 8. fundar stýrihópsins

Fundargerðin var samþykkt.

2. Hlutverk velferðarvaktarinnar

Vaktin hefur starfað í tæpa þrjá mánuði og tímabært að fara yfir hlutverk hennar.

Gert er ráð fyrir að vaktin haldi áfram að skila áfangaskýrslum til stjórnvalda, en síðasta skýrsla var tekin til umfjöllunar í ríkisstjórn og tillögur vaktarinnar hafa flestar fengið brautargengi og er unnið að þeim, meðal annars á vegum vinnuhópa vaktarinnar.

Mikilvægt er að niðurstaða fáist í hvert mál sem vaktin tekur til alvarlegrar umfjöllunar og málum komið í viðunandi farveg svo sem kostur er. Dæmi um slíkt er barnaverndarumræðan sem tekin var fyrir á 7. fundi vaktarinnar, en því máli verður fylgt eftir með öflun enn nánari upplýsinga frá Barnaverndarstofu og Samtökum félagsmálastjóra á fundi sem fulltrúar vaktarinnar munu halda með þeim 20. maí næstkomandi og síðan verður málinu fylgt nánar eftir.

Umboð velferðarvaktarinnar þarf að vera skýrt og mun LB fara yfir það við fyrsta tækifæri með nýjum félags- og tryggingamálaráðherra. Það getur skipt sköpum fyrir hið góða starf sem þegar er unnið á vegum vaktarinnar að allir hafi það á tilfinningunni að vinnan og niðurstöður vaktarinnar séu teknar alvarlega. Enn fremur að tryggt verði að ekki sé verið að vinna að sömu verkefnum á mörgum stöðum án samráðs milli aðila, eða með öðrum orðum að „... aðrir séu ekki að gera það sama og vaktin ...“.

Umræða var um framlag þriðja geirans til aðgerða vegna efnahagsástandsins. Framundan er meðal annars að koma úthlutunum Mótvægissjóðsins í farveg, en þar er gert ráð fyrir framlagi til að samræma verkefni félagasamtaka í almannaþágu Ákveðið að fá fulltrúa ÍSÍ og skáta á fund vaktarinnar hið fyrsta. Í þessu sambandi vakti VO athygli á að kirkjan, Fjölskylduhjálpin og RKÍ sjái öll um matargjafir og að einhverju leyti einnig um fjárstyrki. Hún taldi ljóst að hluti þeirra sem fá aðstoð þurfi ekki á henni að halda sem leiði til þess að minna sé til skiptanna handa þeim sem séu í brýnni þörf og nauðsynlegt að samtökin samræmi störf sín. SKV tók að sér að kanna þetta nánar hvað varðar aðstoð í Reykjavík á vegum framangreindra samtaka, en borgin veitir þessum samtökum fjárframlög.

3. Næstu áfangaskýrslur

Gert er ráð fyrir að áfangaskýrslur vinnuhópanna verði stuttar og gagnorðar og síðan settar saman í eina heildarskýrslu vaktarinnar. Skýrslur hópanna geti einnig staðið sem sjálfstæð skjöl. Í þeim komi meðal annars fram staða verkefna sem hópunum voru falin samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð, mars 2009, sem var meðal annars unnin upp úr tillögum velferðarvaktarinnar og fjallað var um á 7. fundi vaktarinnar. Einnig skoði hóparnir hvort enn vanti aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að draga úr afleiðingum efnahagshrunsins á einstaklinga og fjölskyldur svo og atriði sem hver hópur telur að skipti máli, þar með taldar tillögur til stjórnvalda. Skýrslurnar þurfa að vera tilbúnar upp úr miðjum júní.

4. Önnur mál

a) Heimsókn finnsks sérfræðings
LB greindi frá fyrirlestri finnsks sérfræðings um ábyrgð stjórnvalda gagnvart börnum og mikilvægi þess að þjónusta við börn og barnafjölskyldur verði ekki skorin niður á krepputímum. Fyrirlesturinn var haldinn á málþingi á Akureyri um þjónustu við geðfatlaða.
b) Velferðarsjóður barna styrkir sumarstarf barna
Kári Stefánsson kynnti nýlega framlag sjóðsins til sumarverkefna fyrir börn, 100 m.kr., sem rennur til frístunda barna í sumar, svo sem til íþrótta, listsköpunar og skákar. Boðið verður upp á heitar máltíðir. Kraftar 17 ára atvinnulausra verða nýttir og verða þeir leiðbeinendur, en Þórey Edda Elísdóttir mun stýra verkefninu.
c) Félagsvísar
Vinnuhópurinn er kominn til starfa undir forystu MS. Hún greindi meðal annars frá því að gert sé ráð fyrir tvenns konar félagsvísum sem annars vegar verði safnað á mánaðarfresti og hins vegar á hálfs/eins árs fresti.
d) Staða barna og ungs fólks í sumar
Umræða um könnun RKÍ bíður næsta fundar. Samþykkt að fá Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóra fræðslumála hjá Reykjavíkurborg á næsta fund vaktarinnar.
e) Aðgengi að Lánasjóði íslenskra námsmanna.
StSt kanni með möguleika þeirra sem orðið hafa atvinnulausir eftir áramót til lána hjá LÍN.

Næsti fundur verður föstudaginn 29. maí 2009 kl. 13.15–15.15.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum