Hoppa yfir valmynd
23. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Áhrifa kreppu á líðan barna lítið farið að gæta en vísbendingar um vaxandi erfiðleika

Ekki virðist gæta að ráði neikvæðra áhrifa fjármálakreppunnar á líðan og velferð barna en ýmsar vísbendingar eru um vaxandi erfiðleika sem mikilvægt er að bregðast við strax og beita fyrirbyggjandi aðgerðum. Þetta kom fram á umræðu- og upplýsingafundi velferðarvaktarinnar um áhrif og afleiðingar kreppunnar á velferð barna sem haldinn var nýlega með 16 sérfræðingum sem starfa við málefni tengd börnum.

Á fundinum komu ítrekað fram ábendingar hjá fundarmönnum sem voru nokkurs konar rauður þráður í umræðunum og endurspegla helstu áherslur þeirra:

  • Standa verður vaktina á hverjum stað. Staða barna virðist almennt góð þrátt fyrir alvarlegt ástand, svo sem atvinnuleysi foreldra. Börnum hefur ekki fækkað sem fá skólamáltíðir, heldur fjölgað. Afleiðingar kreppunnar eru ekki komnar í ljós, en margir nefna að tíminn í ævi barnsins skipti miklu máli og því verði að standa vel vaktina. Áföll í bernsku og æsku verða vart bætt upp síðar á lífsleiðinni. Áhrif kreppu á börn koma ekki fram á einni nóttu. Enn fremur dragi úr foreldrafærni undir streitu og álagi.
  • Efla þarf samvinnu. Mikil áhersla er lögð á að fólk vinni saman í velferðarþjónustunni, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Ráðgjafarþjónustan þarf að vera nær fólkinu og aðgengi að henni gott.
  • Styðja starfsfólk/hjálpa hjálpurunum. Álag hefur aukist á starfsfólk. Ekki er ráðið í störf sem losna. Foreldrar leita meira til starfsmanna skólanna og þar með hafa samskipti milli foreldra og skóla aukist, sem er kostur en hefur einnig í för með sér aukið álag á starfsfólk. Vart er við aukinn kvíða og „kveikiþráðurinn“ er styttri en áður. Þetta á ekki síst við um fjölskyldur sem stóðu höllum fæti fyrir kreppu. Kvíði er einnig gagnvart framtíðinni, einkum hjá atvinnulausum og einnig meðal foreldra fatlaðra barna.
  • Aðstoðarbeiðnum fjölgar. Fram kom hjá fulltrúum félagsþjónustu sveitarfélaga, hjálparsamtökum og fleirum að umsóknum barnafjölskyldna um aðstoð af ýmsu tagi hefur fjölgað umtalsvert á síðustu misserum. Víða eru úrræði fullnýtt og biðlistar lengjast.
  • Nýir hópar í erfiðleikum. Nýr hópur sækir um fjárhagsaðstoð til sveitarfélaganna, það er fólkið sem fyrir kreppu gat látið enda ná saman.
  • Berskjaldaðar fjölskyldur. Börn og fjölskyldur sem hafa lítið eða slakt tengslanet eru í áhættu. Einstakir hópar eru sérstaklega berskjaldaðir, þar með taldir innflytjendur, fátækar fjölskyldur og einstaklingar.
  • Börn og ungmenni sem hvorki eru í skóla né vinnu eru sérstakt áhyggjuefni og þarf að grípa til sérstakra úrræða til að virkja þau í nám og starf.

 Fundargerð frá upplýsingafundinum 23. febrúar 2010

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum