Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 6. apríl 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Ellý Þorsteinsdóttir frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar f.h. Stellu K. Víðisdóttur, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Guðrún Ögmundsdóttir frá menntamálaráðuneyti f.h. Stefáns Stefánssonar, Héðinn Unnsteinsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossi Íslands, Matthías Halldórsson, tiln. af Landlækni, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir.

Fundinn sat einnig Hanna Björnsdóttir, nemi í félagsráðgjöf, hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

1. Fundargerð 26. fundar
Fundargerðin var samþykkt.

2. Tillaga um samræmingu hjá þriðja geiranum
Á síðasta fundi var lögð fram tillaga frá vinnuhópi velferðarvaktarinnar um samræmingu hjá þriðja geiranum um stofnun miðstöðvar sem safni saman og veiti upplýsingar um sjálfboðið starf í samfélaginu. Vinnuhópurinn vann í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um velferð frá mars 2009 þar sem segir: „Frjáls félagasamtök í samvinnu við stjórnvöld og sveitarfélögin stuðli að því sameiginlega að störf þriðja geirans og opinberra aðila verði samræmd og skipulagðar markvissar aðgerðir svo félagsauðurinn verði nýttur sem best.“ Þrír fulltrúar frá velferðarvaktinni héldu utan um þessa vinnu, þau Kristján Sturluson, Vilborg Oddsdóttir og Guðríður Ólafsdóttir, og boðaði fulltrúi Rauða kross Íslands til fundanna. Alls tóku tæplega 20 manns þátt í starfi hópsins og er greinargerð um starfið ásamt tillögunni á vefslóð velferðarvaktarinnar. Hópurinn leggur til að sett verði á stofn sjálfstæð miðstöð sem safni saman og veiti upplýsingar um sjálfboðið starf í samfélaginu. Í tillögunni er rík áhersla lögð á samræmingu og er upplýsingamiðlun og samræða talin grundvallaratriði. Miðstöð með þessu hlutverki myndi opna möguleika minni samtaka til að halda úti sjálfboðastarfi.

Í umræðum í framhaldi af kynningu, sem fékk góðar undirtektir, kom fram að gera verði nánari þarfagreiningu áður en lengra er haldið, tryggja þurfi fjármögnun og finna miðstöðinni staðsetningu sem sátt yrði um. Samþykkt að fá Steinunni Hrafnsdóttur og Ómar Kristmundsson frá Háskóla Íslands til að koma á fund vaktarinnar og fjalla nánar um tillöguna og næstu aðgerðir velferðarvaktarinnar á þessu sviði.

3. Neysluviðmið kostir þeirra og gallar
Jón Þór Sturluson, dósent og forstöðumaður við HR, og Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í félags- og tryggingamálaráðuneyti, fluttu stutt innlegg og Stefán Ólafsson og Guðný Björk Eydal, prófessorar við HÍ, og Ingi Valur Jóhannesson, deildarstjóri í félags- og tryggingamálaráðuneyti, tóku þátt í umræðum.

Jón Þór byggði innlegg sitt á nefndaráliti um kosti og galla útgáfu neysluviðmiðs fyrir Ísland sem kom út í október 2006. Hann lagði út frá því sjónarmiði að umræðan hlyti fremur að snúa að því hvernig neyslumiðin skyldu útfærð en ekki hvort setja ætti slík viðmið. Hann benti á að viðmiðin hefðu margar víddir sem taka yrði tillit til, meðal annars hvort um væri að ræða skammtímaviðmið eða langtímaviðmið, taka yrði tillit til fjölskyldugerðar, búsetu og margs annars þannig sé ekki unnt að segja að til sé eitt útgjaldaviðmið. Kostir neysluviðmiða væru meðal annars að þau gætu orðið grundvöllur umræðu og samanburðar um mismunandi viðmiðunarfjárhæðir, auðveldað mat á áhrifum ýmissa breytinga, svo sem á skattkerfinu, þau gætu veitt góðar upplýsingar um neysluútgjöld, gætu skapað tilfinningu meðal almennings um hvað það kosti að reka fjölskyldu og gætu komið sér vel við ákvörðun bótafjárhæða. Meðal galla var nefnt að neysluviðmið hlytu að byggja á huglægum þáttum, hætta væri á að þau yrðu notuð í pólitískum tilgangi og þau gætu latt fólk til að skoða eigin stöðu og taka sjálfstæðar ákvarðanir um fjármál sín. JÞS taldi að lýsandi neysluviðmið myndu koma að bestu gagni við útfærslu neysluviðmiða á Íslandi.

Sigríður fjallaði um lágmarksframfærsluviðmið, lágtekjumark og lágmarksneysluviðmið. Hún fjallaði um mismunandi aðferðafræði og að til væru ýmsar leiðir til að mæla fátækt í hinum vestræna heimi. Samræmd lífskjararannsókn Evrópusambandsins (EU-SILC) hafi verið framkvæmd hérlendis frá 2004 og þar hafi Ísland lent í 2. sæti en sé miðað við Gini stuðul lendi Ísland í 11. sæti. Hún velti fyrir sér hvað gæti legið að baki viðmiðunum. Hún benti einnig á að lágmarksviðmið hafi verið sett á hinum Norðurlöndunum í versnandi efnahagsástandi og hér á landi hafi það margoft sýnt sig að efnahagsástand hafi forspárgildi um fjölda þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum og mikilvægt sé að bregðast skjótt við svo koma megi meðal annars í veg fyrir barnafátækt.

Guðný Eydal sagðist ekki skilja af hverju „við höfum ekki neysluviðmið“ nú þegar framundan væri að fólk verði á lægstu launum og framfærslu sveitarfélaga til lengdar. Ingi Valur minnti á að Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hafi komist að þeirri niðurstöðu strax í upphafi að „ekki væri hægt að veita viðunandi ráðgjöf án þess að menn þekktu viðmiðin“ og hafi stofan því komið sér upp viðmiðum. Einnig séu neysluviðmið lykilatriði við beitingu skuldaaðlögunarlöggjafar.

Stefán tók undir það sem fram var komið og rifjaði upp að reynt hafi verið reynt að setja lágmarksframfærsluviðmið sumarið 2008 en það hafi strandað á afstöðu SA, en ASÍ hafi viljað setja fátækramörk. Sett hafi verið lágmarksframfærslutrygging sem miðaðist við 150.000 kr. og hafi hún verið hækkuð um 20% (fullar verðbætur) árið 2009 og miðast lífeyrisgreiðslur almannatrygginga við þá fjárhæð og hafi tengslin milli örorkubóta og lágmarkslaun verið rofin með þessu.

GBB upplýsti að SA væri alfarið á móti því að sett yrðu neysluviðmið og lagði fram greinargerð frá september 2005 þar sem afstaða samtakanna kemur fram. Neysluviðmið myndu fara beint út í kjarasaminga og myndi óhjákvæmilega leiða til verðbólgusprengju. Lagði GBB til að velferðarvaktin byði Hannesi Sigurðssyni aðstoðarframkvæmdastjóra SA á fund vaktarinnar til að ræða nánar þetta mál.

Þeir fulltrúar í velferðarvaktinni sem tóku þátt í umræðunum voru allir á þeirri skoðun að rétt væri að setja neysluviðmið án þess að afstaða væri tekin til þess með hvaða hætti það yrði gert.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 20. apríl 2010, kl. 14.00–16.00.
Fundargerð skráði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum