Hoppa yfir valmynd
21. september 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 21. september 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Einar Jón Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gissur Pétursson, án tilnefningar, Guðmundur Örvar Birgisson, fulltrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytis, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Ragnhildur Bóasdóttir, varamaður Stefáns Stefánssonar, tiln. af menntamálaráðuneyti, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Geir Gunnlaugsson til. af heilbrigðisráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tilnefningar, Margrét Erlendsdóttir, Þorbjörn Guðmundsson og Ingibjörg Broddadóttir.

Starfsdagur

Starfsdagurinn hófst með erindi Stefáns Ólafssonar um stöðu lífeyrisþega og annarra í kreppunni. Glærur Stefáns eru á vefslóð vaktarinnar: http://www.felagsmalaraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/5208).

Í framhaldi hófst hópstarf í fjórum hópum.

Allir hóparnir svöruðu eftirfarandi spurningum:

  • Hvað hefur áunnist með starfi velferðarvaktarinnar?
  • Áherslur í starfi vetrarins – hver eiga að vera meginverkefnin?

Síðan fékk hver hópur eina af eftirfarandi spurningum:

  • Framtíð og hlutverk vinnuhópa velferðarvaktarinnar og skipulag starfs þeirra?
  • Velferð, fjölskylda og vinnumarkaður (börn, langtímaatvinnulausir, fólk sem missir vinnuna á – seinni hluta starfsævinnar). –Hvert er/á að vera hlutverk aðila vinnumarkaðarins?
  • Sýnileiki velferðarvaktarinnar – á velferðarvaktin að senda frá sér ábendingar og tilmæli – í hve miklum mæli og hvernig á að standa að því?
  • Staða velferðar- og skólamála hjá sveitarfélögunum.

Niðurstöður úr hópstarfi

Hvað hefur áunnist með starfi velferðarvaktarinnar? Allir hópar.

Vaktin hefur vakið athygli á mikilvægum málum, ekki síst málefnum barna.

Vaktin hefur skapað aðhald hjá stjórnvöldum og hefur áhrif á almenna umræðu í samfélaginu með því að senda frá sér skýrslur, ályktanir og ábendingar.

Í velferðarvaktinni hefur skapast gott og traust tengslanet milli aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda, stofnana og þriðja geirans. Hún er samráðsvettvangur aðila með breiða þekkingu og víðtæka reynslu sem hafa víða tengsl. Fólk skiptist á upplýsingum og kemur jafnframt skilaboðum á framfæri inn í sitt bakland.

Vaktin hefur dregið mikilvægi þriðja geirans fram í umræðunni.

Starf vaktarinnar er lýðræðislegt, skoðanaskipti eru opin og vinnuhópar hafa verið öllum opnir sem eru reiðubúnir að leggja málefnum vaktarinnar lið.

Ákveðin virðing er borin fyrir velferðarvaktinni og hún á auðvelt með að kalla eftir upplýsingum sem annars væri erfitt að afla. Margir sérfræðingar hafa haldið áhugaverða fyrirlestra sem eru jafnóðum settir á vefslóð vaktarinnar.

Auðvelt er að afla upplýsinga um störf vaktarinnar en öll gögn hennar eru aðgengileg á vefsvæði vaktarinnar.

Það er ekki auðvelt að meta ávinninginn af ábendingum sem vaktin sendir frá sér til dæmis til sveitarfélaga, en ætla má að vaktin virki eins og dropinn sem holar steininn.

Hver eiga að vera meginverkefni vetrarstarfsins? Allir hópar.

Velferðarvaktin þarf að fá endurnýjað skipunarbréf.

Vaktin haldi áfram að sinna málefnum barna en horfi í auknum mæli til fjölskyldunnar í því sambandi. Staða fjölskyldunnar hefur mikil áhrif á líðan og velferð barna og afkoma hennar hefur afgerandi áhrif á þroska þeirra og tækifæri til þátttöku á fjölbreyttum sviðum samfélagsins.

Vaktin sendi frá sér áfangaskýrslu/stöðuskýrslu fyrir næstu jól.

Tryggja þarf að jafnréttissjónarmiðin komi fram í tölfræði sem vaktin óskar eftir og horft sé til kynjasjónarmiða í öllu starfi vaktarinnar.

Félagsvísahópurinn þarf að ljúka sínu verkefni.

Vaktin þarf að fylgja fleiri málum eftir á sama hátt og könnunin sem gerð var á fjölgun barnaverndartilkynninga, meðal annars þarf að skoða stöðu þeirra mála. Nauðsynlegt er að fara yfir þau mál sem vaktin hefur látið til sín taka og endurmeta stöðuna í heild, þar með talið hópastarfið.

Velferðarvaktin efni til opinnar umræðu um málefni sem hún telur mikilvæg og vill vekja athygli á eða kanni stöðuna með öðrum hætti. Vaktin beini sjónum sínum að:

Vinnumarkaðnum, stöðu atvinnulausra, ekki síst langtímaatvinnulausra, verkefnum Vinnumálastofnunar og menntunarúrræðum.

Stöðu barna.

Stöðu innflytjenda og annarra sem standa höllum fæti.

Lýðheilsu.

Skuldum heimilanna.

Baráttu gegn félagslegri einangrun.

Þjónustu sveitarfélaganna sem snýr að börnum og fjölskyldum.

Stöðu þeirra sem eru án atvinnu án þess að vera skráðir atvinnulausir, þar á meðal konur og einyrkjar, en þessir hópar eiga ekki rétt á aðgangi að virkniúrræðum.

Framtíð og hlutverk vinnuhópa velferðarvaktarinnar og skipulag starfs þeirra, hópur 1.

Hópar starfi áfram samkvæmt framangreindum áherslum á verkefni, en þörf er á að:

Endurskilgreina hópastarf vaktarinnar.

Tímasetja starf vinnuhópanna – tveir mánuðir?

Fjalla um ákveðna hópa og kortleggja stöðu þeirra. Dæmi um hugsanlega hópa: Ein fyrirvinna á bótum, skattar á ákveðna hópa, ungir einstaklingar á langtímaatvinnuleysisbótum o.fl.

Enn fremur vinni velferðarvaktin að eftirfarandi:

Vaktin verði virkari í að benda markvisst á vandann á vinnumarkaði, hverjir standa höllum fæti og hvaða leiðir stjórnvöld geta farið til þess að bæta ástandið.

Áhersla verði lögð á að koma á einu vinnumarkaðskerfi.

Kynningum á atvinnuátaksverkefnum.

Efni til málþings um vinnumarkaðinn með áherslu á samvinnu milli ríkis og sveitarfélaga til að leita lausna á vandanum.

Stýrihópurinn hafi frumkvæði að því að tryggja virkni meðal einstaklinga sem eru atvinnulausir.

Íhugi vandlega hvaða ályktanir og ábendingar vaktin vill senda frá sér – ekki auðvelt að finna jafnvægið milli neikvæðrar og jákvæðrar umræðu í samfélaginu.

Nauðsynlegt að setja félagsvísaverkefnið í forgang þar sem vísarnir eru mikilvægt tæki til að greina betur ástandið í samfélaginu.

Benda stjórnvöldum á úrræði sem getur spornað við því að hópurinn sem stendur höllum fæti stækki ekki.

Fá inn nýja sérfræðinga til þess að kortleggja ákveðin þemu og styrkja slík verkefni.

Velferð, fjölskyldulíf og vinnumarkaðurinn, hópur 2.

Aðilar vinnumarkaðarins gegna mikilvægu hlutverki við að efla og verja velferðakerfið. Í því sambandi ætti velferðarvaktin að hugleiða:

Hvort vekja eigi athygli aðila vinnumarkaðarins á stöðu barna og fjölskyldna og þar með samþættingu atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs.

Hvort beina eigi því til aðila vinnumarkaðarins að staða eldri starfsmanna, 60 ára og eldri, verði skoðuð sérstaklega. Ljóst er að einstaklingar á þessum aldri eiga í miklum erfiðleikum með að finna störf missi þeir atvinnu til lengri tíma sem eykur líkur á félagslegri einangrun.

Velferðarvaktin skoði hvort það sé hlutverk hennar að koma með tillögur um forgangsröðun í velferðarkerfinu. Ómarkviss niðurskurður mun leiða til þess að velferðarkerfið mun eiga í miklum erfiðleikum með að gegna því hlutverki sem til er ætlast. Slíkur niðurskurður mun hafa í för með sér samfélagslegar breytingar án markvissrar umræðu eða stefnumótunar.

Sýnileiki velferðarvaktarinnar, hópur 3.

Sýnileikinn út á við hefur aukist að undanförnu og töluvert um að fjölmiðlar leiti til formanns vaktarinnar og vitni til hennar.

Æskilegt er að velferðarvaktin efni til opinnar umræðu um málefni sem hún telur mikilvæg og vill vekja athygli á, sambærilegt við fundinn um fjármál heimilanna.

Sýnileiki velferðarvaktarinnar þarf að vera meiri gagnvart ráðherra og ríkisstjórn – ein leið gæti verið að vaktin tæki saman minnisblöð til ráðherra um málefni sem hún vill vekja athygli á – ráðherra leggi þau eftir atvikum fyrir ríkisstjórn.

Velferðarvaktin á að senda frá sér ábendingar og tilmæli eftir því sem efni standa til, sbr. tilmæli sem send hafa verið sveitarfélögunum um skólamáltíðir o.fl.

Staða velferðar- og skólamála hjá sveitarfélögunum, hópur 4.

Sveitarfélögin tengjast á einn eða annan hátt öllum málaflokkunum sem velferðarvaktin hefur látið til sín taka.

Velferðarvaktin verður að fylgja eftir þeim áskorunum/átökum sem hún hefur sent frá sér eða styður með öðrum hætti, svo sem atvinnuátakið fyrir ungt fólk.

Leita verður leiða til að koma í veg fyrir að afleiðingar langtímaatvinnuleysis flytjist yfir á sveitarfélögin.

Standa verður vörð um lögbundna þjónustu í leik- og grunnskólum og tímabært er að taka út stoðþjónustu í grunnskólunum.

Grunnþjónustuhópur velferðarvaktarinnar þarf að halda áfram vinnu sinni við skilgreiningu á grunnþjónustu og gátlista fyrir sveitarfélögin og „hugleiða hvort félagsþjónusta sveitarfélaganna eins og hún var á góðæristímunum sé horfin?"

Þörf er á að hlúa að starfsfólki skólanna.

Ýmislegt hefur verið gert á vegum menntamálaráðuneytis til að fylgjast með stöðu barna í skólum, svo sem reglubundnar kannanir (skólavakt), áætlun um einelti í grunnskólum og fleira. Sveitarfélögin hafa einnig sett upp aðgerðir til að vakta velferð barna í skólum, en er það fullnægjandi?

Tímabært er að leggja fram eftirfarandi spurningu: Hefur samfélagið efni á að skera mjög djúpt í velferðarkerfið?

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum