Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 15. febrúar 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Marta D. Sigurðardóttir fyrir Eirík Jónsson, tiln. af KÍ, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Rafn Sigurðsson, tiln. af fjármálaráðuneyti, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln af menntamálaráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir, varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Þórhildur Þorleifsdóttir, tiln. af félags- og tryggingamálaráðherra, Þorbjörn Guðmundsson, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir.

1. Skólamál barna í ljósi efnahagsástandsins og hagræðingaraðgerða sveitarfélaganna

Gestir velferðarvaktarinnar voru:
Áslaug Björgvinsdóttir frá SAMFOK, Sjöfn Þórðardóttir, Olga Möller og Guðrún Jónsdóttir frá Heimili og skóla, Alda Agnes Sveinsdóttir, leikskólastjóri í Stekkjarási í Hafnarfirði, S. Ingibjörg Jósefsdóttir, formaður Félags skólastjórnenda í Reykjavík og skólastjóri í Hagaskóla, Ragnar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar, Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri hjá Leikskólasviði Reykjavíkurborgar, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

LB bauð gesti sérstaklega velkomna og hóf umræðuna með því að nefna mikilvægi þess að gæta velferðar barna við hagræðingu, huga að því með hvaða hætti efnahagsaðgerðirnar hafi áhrif á stöðu þeirra í bráð og lengd og minnti í þessu sambandi á að bernskan kemur ekki aftur í lífi hvers barns. Næst tóku gestir til máls.

Áslaug Björgvinsdóttir:
ÁB fagnaði því að Reykjavíkurborg hafi hætt við boðaðan niðurskurð í skólamálum á árinu 201, en þátttaka foreldra eða annarra fullorðinna utan hefðbundins skólastarfs er mjög fátækleg. Með breytingum á kjarasamningum 2001 er gæsla nemenda, svo sem í útiveru, ekki lengur skilgreind sem hluti af vinnuskyldu kennara heldur kveðið á um sérstakar greiðslur sem virðast það miklar að skólarnir hafi ekki efni á að greiða kennurum fyrir þessa vinnu, ekki síst á niðurskurðartímum. Þá væri heldur ekki til viðmið um hlutfall fjölda kennara eða annarra starfsmanna og fjölda barna við verkefni utan hefðbundins náms. Í grunnskólastarfi og endurskipulagningu þess eins og borgin fyrirhugaði yrði fyrst og fremst að hafa velferð og líðan barna að leiðarljósi, einkum öryggi þeirra. Stjórn SAMFOK sendi þegar í september síðastliðnum velferðarhópi mennta- og menningarmálaráðuneytisins bréf og lýsti áhyggjum af skorti á eftirliti og umsjón með börnum utan hefðbundinna kennslustunda og benti á að rétt væri að skoða sérstaklega tengsl milli skorts á eftirliti og umsjón með börnum í útiveru við andfélagslega hegðun, þar á meðal einelti og annað ofbeldi er börn sættu innan skólanna. Ekki væri útilokað að í sumum skólum væri slíkur eftirlitsskortur fyrir hendi að varðaði við lög um grunnskóla, sbr. ákvæði þeirra um að skipulag skólastarfs skuli vera með þeim hætti að velferð og öryggi nemenda skuli tryggt. Stjórn SAMFOK sé ekki andsnúin sameiningum skóla ef sýnt er fram á faglegan ávinning og að ásættanlegt samráð sé viðhaft. Þá geti vel komið til skoðunar að draga úr aðgreiningunni milli skóla og frístundaheimilis þannig að starfsmenn frístundaheimila eigi kost á fullu starfi allt árið sem væntanlega myndi efla bæði starfsmenn þeirra og þar með skólana/frístundaheimilin. Börn með sérþarfir og yngstu börnin séu sérstaklega viðkvæm gagnvart breytingum og niðurskurði.

Sjöfn Þórðardóttir:
Vellíðan, öryggi og fjölbreytt nám eru lykilatriði í skólastarfi. Aðkoma foreldra að skólastarfi hefur vaxið undanfarið og vinna í samráði við þá skilar miklum árangri. Hagræðingaraðgerðirnar birtast meðal annars með þessum hætti: Víða er engin forfallakennsla, skerðing er á list- og verkgreinakennslu, minna val hjá 8.–10. bekk og skerðing á stuðningskennslu. Foreldrum hefur verið gefinn of stuttur tími til að skila tillögum og ábendingum til borgarinnar og starfshópurinn sem vinnur að greiningu tækifæra við samrekstur/sameiningu leik- og grunnskóla og frístundaheimila er gagnrýndur fyrir að hafa hvorki fulltrúa foreldra né kennara innanborðs. SÞ benti á eftirfarandi leiðir til hagræðingar án þess að skerða grunnþjónustu: Nýta betur húsnæði, mögulega sameina leik- og grunnskóla og frístundaheimili og samþætta skólastarf, foreldrar gætu lagt sitt af mörkum, svo sem aðstoðað í mötuneytum og á skólavelli og komið inn í lífsleiknina. Bent var sérstaklega á viðkvæm börn, svo sem börn af erlendum uppruna, og er vinafjölskylduverkefnið í Vesturbæjarskóla talið til fyrirmyndar til að styðja og virkja heimili barna af erlendum uppruna. Einnig verði stjórnvöld að bjóða upp á betri þjónustu varðandi tannheilsu barna.

S. Ingibjörg Jósefsdóttir
SIJ sagðist löngu hætt að tala um hagræðingaraðgerðir heldur talar hún um niðurskurð. Það er mikilvægt að fagmenntað fólk starfi í mötuneytum skólanna, en þau hafi orðið fyrir niðurskurði. Það sé mikilvægt að standa vörð um þá hefð sem víða hefur skapast að bjóða öllum börnum hafragraut á morgnana, sem leiði til þess að þau fari mun minna í sjoppur. Ekki hefur verið skorið niður til sérkennslu en skólastjórar sjá ekki fram á að geta sinnt henni á sama hátt og áður þar sem annað fjármagn hefur dregist saman, en sérkennslan kostar víða mun meira en skólarnir fá til hennar. Kostnaður við list- og verkgreinar hefur vaxið verulega, ekki er heimilt að krefja foreldra um efniskostnað og því eru stundum valin ódýr og einsleit verkefni. Þrátt fyrir töluverða endurnýtingu í námskrá fær hún ekki alls staðar það vægi sem gert er ráð fyrir í list- og verknámi. Meira námsval ætti að vera í grunnskólunum, líka á miðstigi. Val á unglingastigi skiptir miklu fyrir þá nemendur og þjónar fjölþættum tilgangi, að styrkja listnám í framhaldsskóla er tilbreyting frá bóknámi og oft eina tækifærið fyrir nemendur sem geta ekki sótt dýrt listnám utan skólans. Lögbundinn réttur barna í grunnskóla til að stunda nám á framhaldsskólastigi er ekki virtur.

Alda Agnes Sveinsdóttir
Velferðin og skólastarfið stendur og fellur með hæfu starfsfólki og reglu, stöðugleika og öryggi í skólastarfi. Mannekla hefur alltaf staðið leikskólunum fyrir þrifum. Í þenslunni var starfsfólki boðinn afsláttur vegna eigin barna í leikskólunum, sem nú hefur verði lagt af og hefur leitt til þess að erfiðara er að fá hæft fólk til starfa á leikskólana, sem bitnar á velferð barna. Laun starfsmanna séu um 80% af rekstrarkostnaði leikskólanna, en laun hvers og eins starfsmanns eru ekki há. AAS telur að vel megi sameina allra minnstu leikskólana, með því myndi vinnuframlag skólastjóranna nýtast betur, en alltaf þarf að fara yfir hvað sparist og hverju sé fórnað. Þá megi skoða hvort þörf sé á að bjóða öllum börnum 8–9 tíma daglega leikskólavist og hvort börn þar sem foreldri sé heimavinnandi, án atvinnu eða í fæðingarorlofi, þurfi þetta langan leikskóladvöl. AAS benti á að það sé löng hefð fyrir því í leikskólum að endurnýta efnivið í föndri og öðrum verkefnum með börnunum. Að lokum lagði hún áherslu á að starfsmenn séu viðkvæmastir fyrir hagræðingaraðgerðum og það bitni óhjákvæmilega á börnunum.

Ragnar Þorsteinsson
Grunnskólar Reykjavíkur hafi þurft að hagræða um 13% á þriggja ára tímabili. Kennslu, sérkennslu og nýbúakennslu hefur verið hlíft, en það sé ekki mögulegt lengur. Menntasvið taki til sín um 30% borgarsjóðs og krafa sé um endurskipulagningu í grunn- og leikskólastarfi og mötuneytum. Menntamálaráðherra hefur lýst því yfir að skóladagurinn verði ekki styttur með lagabreytingum. Borgin hefur leitað eftir samstarfi við foreldra og hefur fengið um 600 ábendingar frá þeim, en óttast er að breytingarnar verði óafturkræfar. Sameining skóla er til athugunar. Forfallakennsla var of mikið skorin niður og er nú verið að bæta úr því. Tvenns konar vöktun er í gangi í skólakerfi borgarinnar: a) Skólapúlsinn sem gefur almennt gott yfirlit yfir skólastarfið en ekki um einstök börn, en meðal viðkvæmustu barnanna eru þau sem eru af erlendum uppruna, börn einstæðra foreldra og börn sem eiga foreldra sem eru án atvinnu. b) Börnin í borginni sem fylgist með líðan barna og starfsfólks í leik- og grunnskólum og á frístundaheimilum. Mikill metnaður er hjá Menntasviði til að ná sem bestu samstarfi við foreldra og er skólastjórum boðið upp á námskeið til að styrkja foreldrasamstarfið. Að lokum benti RÞ á að ofbeldi hafi ekki aukist í skólunum þrátt fyrir kreppuna og allir skólar séu með eineltisáætlanir, en börn í vanda búi nú við meiri vanda en áður. 

Hildur Skarphéðinsdóttir
Starfsmannahald í leikskólum Reykjavíkurborgar er mjög breytt frá því sem verið hefur síðastliðin ár, þ.e. betur gengur að ráða starfsfólk og þar af leiðandi ekki mannekla innan leikskólanna. Borgin hefur staðið vörð launin innan leikskólans og starfsmenn fá niðurgreidd leikskólagjöld fyrir börn sín bæði á leikskólum og hjá dagforeldrum. Börnum fækkar ekki í leikskólunum þrátt fyrir kreppuna heldur fjölgar þeim jafnt og þétt. Langflest eru í átta tíma dvöl og innheimta gjalda gengur vel. Áhersla er lögð á að veita öllum börnum gott uppeldi og menntun í leikskólum borgarinnar sem og hollt fæði. Börn sem búa við félagslega erfiðleika og börn með sérþarfir fá forgang í leikskóla. Börnum með sérþarfir hefur fjölgað verulega milli ára í leikskólunum og leitast hefur verið við að skerða ekki fjármagn til leikskólanna vegna þeirra barna heldur hefur það verið aukið verulega síðastliðin fimm ár. Má segja að fjölgun barna í árgöngum viðheldur rekstri leikskólanna og hefur þar af leiðandi jákvæð áhrif á atvinnulífið og veitir mörgum vinnu, en á hinn bóginn má segja að ekki er hægt að ganga nær leikskólunum hvað varðar hagræðingu í rekstri leikskóla.

Halldór Halldórsson
Enginn vill standa í þeim sporum að draga svo úr kostnaði við rekstur skólanna að það bitni á menntun barnanna. Það er misskilningur að sveitarstjórnarfólk hafi ekki farið að hagræða hjá öðrum en skólunum fyrr en nú. Strax haustið 2008 var farið í almennar aðgerðir, svo sem að lækka laun stjórnenda, fjárfestingar voru stöðvaðar eða dregið úr þeim og viðhaldskostnaður lækkaður. Haustið 2008 gaf Sambandið (Samband íslenskra sveitarfélaga) út viðmið um grunnþjónustu með lista yfir það sem standa yrði vörð um og var þess þá vænst að kreppan gengi yfir mun fyrr en raun ber vitni. Ljóst er nú að árið 2011 verður erfiðara í en 2010 og árið 2012 verður erfiðara en 2011. Varðandi skólamálin er mikilvægt að horfa á stöðuna út frá sjónarhóli nemandans. Er til dæmis mögulegt að fækka kennslustundum úr 35 í 33 en samhliða bjóða nemanda meira val? Skýrsla Sambandsins frá ágúst 2010 hefur að geyma leiðbeiningar um hagræðingaraðgerðir og markmið Sambandsins, meðal annars um samnýtingu grunnskólahúsnæðis. Grunnskólinn hefur lengst um sem nemur tveimur skólaárum á síðastliðnum 15 árum. Ætti að stytta hann aftur? Hefur þessi lenging hjálpað nemendum? Það gæti reynst nauðsynlegt að breyta kerfinu og auka sveigjanleika til að ná fram hagræðingu. Markmið sveitarfélaga með samrekstri eru meðal annars: a) Að fjölga leikskólarýmum með því að nýta betur skólahúsnæðið, b) nýta betur mannauðinn, húsnæði og gögn, c) tryggja rekstur og faglega starfsemi lítilla eininga, d) auka samþættingu náms, meðal annars milli skólastiga, e) einfalda rekstur stofnana í litlu samfélagi og f) hagræða í rekstri með sameiginlegum innkaupum, samvinnu milli skólastiga og samnýtingu starfsmanna. Í umræðum í framhaldi sagði HH að sveitarfélögin séu fyrst og fremst að veita grunnþjónustu og niðurskurðurinn muni óhjákvæmilega ná til hennar. Sambandið er með mjög viðamikla könnun í gangi um hagræðingaraðgerðir, en úrvinnsla gagna er ekki hafin.

Umræður með gestum:
Bent var á að mikill órói sé á leikskólunum, ótti við sameiningu þeirra en bæði Leikskólasvið og Menntasvið borgarinnar hafa miðlað hugmyndum um samrekstur til skólanna. Fram kom að Menntasvið sendir út upplýsingar á 40.000 netföng. Aðrar eins aðgerðir og þær sem nú hafa verið boðaðar hafa aldrei fyrr verði lagðar fram frá upphafi leikskólanna og er því skiljanlegt að þær skapi óróa. Bent var á að við samnýtingu húsnæðis grunn- og leikskólanna megi ekki gleyma hugmyndafræði leikskólans.

Rætt var um börn með sérþarfir og að einelti kunni að aukast við breytingar í kerfinu. Ef fullorðnu fólki fækkar meðal barnanna, hvort sem er í mötuneyti, á skólalóð, í frístund eða íþróttum, er líklegt einelti aukist. Þá sé varhugavert að lækka starfshlutfall lágtekjuhópa, til dæmis með því að bjóða þeim 70% starf, en á þeim launum sé ekki sé hægt að lifa. Ef fólk missir starfið í framhaldi á það einungis rétt á 70% atvinnuleysisbótum og slíkt sé skelfileg niðurstaða. Það sé allt of stór hópur fólks á allt of lágum launum í samfélaginu og stutt milli fjárhæðar atvinnuleysisbóta og launa margra sem vinna með börnum.

Bent var á niðurstöður OECD-könnunar 2010 Education at a Glance þar sem fram komi að íslenskir kennarar verji um 35% vinnutímans með nemendum en 65% tímans sé varið í annað.

Börnin sem eru verst stödd innan skólans eru í mestri áhættu. Fólk sem vinnur með börnum hefur ekki verið spurt hvað þeim finnist um hagræðingaraðgerðirnar og einnig verður að fara mun nánar yfir það hvernig megi styðja foreldra sem best við uppeldið. Vísað var til könnunar meðal foreldra sem sögðust flestir vilja leiðbeiningu um það hvernig þeir gætu hjálpað börnum sínum með heimanám. Það verði að setja börnin í forgang, öryggi þeirra og velferð, einkum þau sem verst eru sett. Vinna verður með nærsamfélaginu á hverjum stað og horfa heildstætt á velferð barna, þar með talið á næringu þeirra.

Umræður eftir að gestir voru farnir af fundi
Rætt var áfram um viðkvæmustu hópana. Minnt var á að um 10.000 börn eiga atvinnulaust foreldri og um 500 börn eru á heimilum þar sem báðir foreldrar eru án atvinnu. Faghópar, svo sem geðhjúkrunarfræðingar, hafa miklar áhyggjur af þeim börnum sem eiga veika foreldra og fjárhagsstaða fólks sé almennt verri ekki einungis hjá þeim sem eru án atvinnu.

Það sjónarmið kom fram að erfitt sé að greina á milli hagsmunagæslu og velferðar barna. Spurt var hvað valdi því að börnin hafa það verr í dag en fyrr? Staðan virðist versna með degi hverjum meðan það dregst á langinn að takast á efnahagsástandið með árangri.

Nauðsynlegt sé að fá nánari upplýsingar frá starfsmönnum skólanna um það hvers konar erindi þeim berast vegna barna í vanda og í hve miklum mæli, þar með talið frá skólahjúkrunarfræðingum, námsráðgjöfum, félagsráðgjöfum og öðrum lykilstarfsmönnum. Nú er skylda að allir skólar setji á laggirnar nemendaverndarráð og er lagt til að fulltrúi menntamálaráðuneytis í velferðarvaktinni kanni hvar þau mál standi.

Ríki og sveitarfélög verða að taka höndum saman um að börnin verði sett í forgang og efli samstarf sitt í átt að því markmiði.

Bent var á að rót vandans liggi í atvinnuleysinu og það verði ekki fyrr en atvinnustigið hækki sem hægt verði að efla og styrkja velferðarþjónustuna að einhverju marki.

Lagt var til að gerð yrði könnun á stöðu barna í skólum og horfa sérstaklega til þeirra barna sem höfðu það erfitt fyrir kreppu og standa hugsanlega enn verr í dag.

Samþykkt að fjalla nánar um þetta viðfangsefni á næsta fundi vaktarinnar að tveimur vikum liðnum.

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

** Skýrsla OECD í heild: http://www.oecd.org/document/52/0,3746,en_2649_39263238_45897844_1_1_1_1,00.html

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum