Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 15. janúar 2013

Fundargerð 76. fundar, haldinn hjá Umboðsmanni skuldara þriðjudaginn 15. janúar 2013,  kl. 14.00 – 16.00.

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ásta Sigrún Helgadóttir skipuð af Umboðsmanni skuldara, Svanborg Sigmarsdóttir varamaður Ástu S. Helgadóttur Umboðsmanni skuldara, Gissur Pétursson skipaður af velferðarráðherra,, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Björg Bjarnadóttir, tiln. af Kennarasambandi Íslands, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Kristján Sturluson, tiln. af Rauða krossinum á Íslandi, Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Reykjavíkurborg, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Unnar Stefánsson, tiln. af Landssambandi eldri borgara, Elín Rósa Finnbogadóttir varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Gyða Hjartardóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Salbjörg Bjarnadóttir varamaður Geirs Gunnlaugssonar landlæknis, Hugrún Jóhannesdóttir varamaður Gissurs Péturssonar, án tiln., Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Ingibjörg Broddadóttir velferðarráðuneyti og Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir velferðarráðuneyti

1. Fundargerð

Fundargerð 75. fundar frá 11.12.2012 var samþykkt.

2. Fjármál heimilanna: Svanborg Sigmarsdóttir og Gyða Hjartardóttir

a) Gyða kynnti afleiðingar efnahagshrunsins á félagsþjónustu sveitarfélaga.

Rekstrarkostnaður vegna fjárhagsaðstoðar hefur vaxið um 86% á árunum 2006-2011 - ath. skýrsla. Um 3 þúsund manns eru núna að missa atvinnuleysisbæturnar sem mun hafa mikil áhrif á sveitarfélögin.

Framtíðarspá fyrir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Atvinnuátaksverkefni ,Liðsstyrkur, til sex mánaða er samstarfsverkefni sveitarfélaga, ríkisins, SA, ASÍ, BHM, BSRB og KÍ og kemur Virk starfsendurhæfingarsjóður einnig að verkefninu. Átján sveitarfélög eru með 90% atvinnuleitenda, markmiðið er að skapa 2.2000 störf, sveitarfélögin 30%, ríki 10% og atvinnulífið 60%. Ætlað þeim sem annars myndu missa bótarétt á árinu 2013. Sjá nánar á vefslóð vel velferðarvaktarinnar.

Raunverulegt atvinnuleysi vs. opinberar tölur.
b) Svanborg kynnti stöðu skuldugra heimila. Tölur frá árinu 2011.

Staðan var kynnt út frá skráningu á skuldastöðu heimilanna samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum og Hagstofunni en nýjar tölur eru væntanlegar í júní/júlí.

  • Skuldsetning íslenskra heimila er mest fasteignaveðlán. Var 130% þegar mest var en 109% í árslok 2012. Seðlabankinn hefur greint hverjir eru í greiðsluvanda og eru 27% þeirra barnafjölskyldur.
  • Yfirdráttarlán heimilanna. Staða útlána og ÍLS og kom fram að 16% einstaklinga eru með a.m.k. eitt lán í vanskilulm.
  • Heimili með gengislán en samkvæmt Seðlabankanum eru 42.600 heimili með gengistryggð lán.
  • Niðurfærsla lána til heimila, 110% leiðin, sértæk skuldaaðlögun og fleira.
  • Stofnuð aðför og vanskilaskrá.
  • Nauðungarsala og gjaldþrot.
  • Umsóknir um greiðsluaðlögun/ráðgjöf. Um 14 þúsund manns hafa leitað til ráðgjafaþjónustunnar frá ágúst 2010. Svanborg fór yfir stöðu umsókna um greiðsluaðlögun og breytingar á umsækjendum. Færri í eigin húsnæði, fleiri í leiguhúsnæði. Sjá nánar á vefslóð velferðarvaktarinnar: http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/33719.

c) Stella K. Víðisdóttir hjá Reykjavíkurborg fór yfir húsaleigubætur, bæði skv. lögum og þær sem eru valkvæðar af hálfu sveitarfélaganna. Hún sat í nefnd um nýtt húsnæðisbótakerfi og horfði nefndin einkum til norska húsnæðisbótakerfisins. Árið 2014 verður þetta nýja kerfi innleitt en fyrsta skrefið var tekið 1. janúar 2013. Fram kom að í dag á lítill hluti láglaunafólks möguleika á húsaleigubótum. Samkvæmt reglugerð verður grunnfjárhæð hækkuð í tveimur áföngum, skerðing verður minni og tekjuviðmið hækkað. Ríkið hefur sett einn milljarð í þetta vegna ársins 2013. Hún kynnti sérstakar húsnæðisbætur og að reglur yrðu samræmdar á milli sveitarfélaga. Fram kom athugasemd um að "mix" milli sveitarfélaga og ríkis væri aldrei gott. Þá var spurt hvort búið væri að kynna þetta fyrir þeim sem í hlut eiga og lögð áhersla á að kynna þetta vel. Lára kvaðst munu beita sér fyrir því að þessu verði framfylgt við stjórnvöld með því að velferðarvaktin beini því til ráðuneytisins að reiknivél á vefnum verði uppfærð og aðgengi aukið að upplýsingum. - Stærstur hluti þeirra sem voru í greiðsluvanda voru með gengistryggð lán. Í dag er búið að breyta þeim nánast öllum í íslensk lán. Stella lýsti yfir áhyggjum af þeim sem eru með millitekjurnar og verðtryggð lán sem hafa hækkað mikið.

Fram kom hjá Ástu að tekin hafi verið markviss ákvörðun um að hjálpa þeim verst stöddu. Umsóknum til Umboðsmanns skuldara hefur fjölgað. Hún undirstrikaði að þessi mál væru mjög flókin og mikilvægt að þetta verði samfélagslegt verkefni. Hún telur að ráðgjöf og greiðsluúrræði eigi að vera helsta verkefni Umboðsmanns skuldara. Þá lagði hún áherslu á að efla fjármálalæsi.

Stella benti á að eðli velferðarúrræðis væri að hjálpa þeim sem eru verst settir en telur að ekki verði sátt í samfélaginu fyrr en búið verður að taka á málum allra.

3. Málþing um atvinnumál - framhald umræðu frá 75. fundi

Ákveðin gagnrýni kom fram varðandi þetta og nefnt að kjarasamningar væru langt komnir og aðilar vinnumarkaðarins væru að vinna það sama, þ.e. að móta atvinnustefnu. Fram kom að velferðarvaktin ætti e.t.v. að nálgast málið frá annarri hlið, t.d. félagslegu hliðinni og hvernig taka eigi á móti nýju erlendu vinnuafli. Ef halda eigi málþing þá eigi slíkt málþing að fjalla um félagslegu hliðina. Þeim tilmælum var beint til aðila vinnumarkaðarins í velferðarvaktinni að þeir haldi henni upplýstri um þróun atvinnumála. - Umræða um úttekt og rannsókn á þessum málum. Gissur talaði um liðsstyrksverkefni og ótrúlega lítil viðbrögð sem kunni að vera að ákveðinn hópur sem er búinn að nýta sér bótaréttindin geti bjargað sér.

Ákveðið var að fella niður fyrirhugað málþing en áhersla lögð á að gerðar verði úttektir á vinnumarkaðsaðgerðum á undanförnum árum og að velferðarvaktin fái kynningu á því.

4. Önnur mál

a) Lára er að fara um landið til að kynna velferðarvaktina. Hún hefur fundað með Suðurnesjavaktinni og verið beðin um að halda kynningu í Breiðholti þann 22. janúar nk., kl. 09:00-10:00. Framundan eru svo samræður við fólk á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi.

b) Samþykkt var að leitað verði eftir því að fulltrúi frá Mannréttindaskrifstofu Íslands taki sæti í velferðarvaktinni.

c) Í lok fundarins las Unnar Stefánsson upp ályktun frá kjaramálanefnd LEB 10.01.2013. Ályktunina má lesa á vefslóð velferðarvaktarinnar.

 

Fundargerð ritaði Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum