Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 27. ágúst 2013

Mætt:

Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ingibjörg Broddadóttir, velferðarráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af ÖBÍ og Þroskahjálp, Þórhildur Þorleifsdóttir, skipuð af velferðarráðherra, Elín Rósa Finnbogadóttir, varamaður Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir varamaður Geirs Gunnlaugssonar landlæknis, Unnar Stefánsson, tiln. af Landssambandi eldri borgara, Gyða Hjartardóttir, varamaður Gunnars R. Sigurbjörnssonar, Þórður Á. Hjaltested, varamaður Bjargar Bjarnadóttur, Kennarasambandi Íslands, Margrét Steinarsdóttir, tiln. af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Kristinn Bjarnason f.h. Garðars Hilmarssonar, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Þorbjörn Guðmundsson, Samiðn, Páll Ólafsson, varamaður Valgerðar Halldórsdóttur, Svanborg Sigmarsdóttir, varamaður Ástu S. Helgadóttur, Umboðsmanni skuldara, Hrafnhildur Tómasdóttir, varamaður Gissurs Péturssonar, Vinnumálastofnun og Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir, velferðarráðuneyti sem ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og fór yfir dagskrá fundarins.  Hún kynnti Kolbein Stefánsson sem kynnti niðurstöður nýrrar könnunar um húsaleigubætur. Auk þess minnti formaður á að velferðarvaktin væri nú að ljúka fjórða starfsári sínu og verið væri að vinna skýrslu um störf vaktarinnar á árabilinu 2009-2013.

1.      Kynning Kolbeins Stefánssonar á niðurstöðum nýrrar könnunar um húsaleigubætur

Kolbeinn fór yfir hvernig könnuninni var háttað og að viðmiðunartími hennar hefði verið 01.09.2012.  Fram kom að 19% heimila búa í leiguhúsnæði og að 10,2 % leigjenda er fólk undir lágtekjumörkum. Kolbeinn benti á að 42% einstæðra foreldra búa í leiguhúsnæði og að sá hópur stæði mjög höllum fæti.  Þriðjungur þeirra sem leigir fær húsaleigubætur. Þá fór Kolbeinn yfir skiptingu húsaleigubóta eftir tegundum leiguhúsnæðis svo og skiptingu nýrra umsækjenda um almennar húsaleigubætur eftir tegundum leiguhúsnæðis.  Hann kynnti skiptingu húsaleigubóta eftir aldri, atvinnustöðu og aldursskiptingu þeirra sem sóttu um almennar húsaleigubætur, skiptingu húsaleigubótaþega eftir kyni og fjölskylduaðstæðum, tegund leiguhúsnæðis og skiptingu eftir hjúskaparstöðu.  Þá fór hann yfir skiptingu þeirra sem fá húsaleigubætur eftir ríkisfangi og tekjum bæði varðandi einhleypt fólk og fólk í hjúskap.  Tekjumörk húsaleigubóta eru mjög lág og tók Kolbeinn sem dæmi að einstætt foreldri með þrjú börn á framfæri og 2-3 m.kr. í árstekjur búi ekki við góð kjör. 

Að mati Kolbeins er ekki þörf á að endurtaka könnun sem þessa heldur þurfi að setja á fót aðgerðarhóp.  Það sé ljóst að meira fjármagn þurfi í húsaleigubæturnar. Hér má sjá nánar um kynningu Kolbeins á slóðinni

http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/34018

Að lokinni kynningu Kolbeins urðu nokkrar umræður þar sem m.a. var vakin athygli á kjörum einstæðra mæðra og bent sérstaklega á viðvarandi fátækt kvenna.  Umræður um leiguverð húsnæðis á almenna markaðinum versus húsaleigubótaupphæð og að það væri áhyggjuefni að ekki væri mikill verðmunur á húsnæði á almennum markaði samanborið við félagslegt húsnæði.  Í þessu sambandi benti formaður á að nauðsynlegt væri að koma ábendingu um húsnæðismál á framfæri við stjórnvöld og að óskað hefði verið eftir því að Stella K. Víðisdóttir leiddi þá vinnu.

2.      Fundargerðir 84. og 86. funda

Farið yfir ofangreindar fundargerðir sem voru samþykktar að frátalinni 84. fundargerð sem samþykkt var með athugasemd við eftirfarandi setningu í kaflanum um Skóla og frístundasvið Reykjavíkurborgar, bls. 1: „Þá hafa gestir áhyggjur að því að úrlausn í barnaverndarmálum gangi og hægt og að löng bið sé eftir því að koma barni á Stuðla.“  Bent var á að ekki væri bið eftir vistun á Stuðlum.

3.      Kynning Hilmu Hólmfríðar Sigurðardóttur á verklagi og stöðu vinnu við skýrslu um störf velferðarvaktarinnar 2009-2013

Áður en Hilma hóf kynningu sína upplýsti formaður að Ísland færi með formennsku í norrænu ráðherranefndinni 2014 þar sem fyrirhugað væri að skoða möguleika á norrænni velferðarvakt í þriggja ára verkefni á grundvelli reynslunnar frá Íslandi.  Meðal annars er áætlað að gerð verði  rannsókn á árangri Velferðarvaktarinnar og yrði hún eins og allt verkefnið kostað af norrænu ráðherranefndinni.

Í upphafi kynningar sinnar sagðist Hilma hafa verið að lesa og fara yfir gögn velferðarvaktarinnar og að því starfi væri ekki lokið.  Hún kvaðst stefna að því að ljúka þessu um miðjan september nk.

Hilma kynnti ramma að skýrslu, greiningu gagna og lýsingu á velferðarvaktinni sem samþykkt var á 59. fundi stýrihóps þann 3. janúar 2012 og er svohljóðandi:  Velferðarvaktin var stofnuð að frumkvæði stjórnvalda snemma árs 2009 til að fylgjast með afleiðingum efnahagshrunsins á heimilin í landinu. Hún er óháður greiningar- og álitsgjafi sem leggur fram tillögur til stjórnvalda og hagsmunasamtaka og fylgir þeim eftir.  Að velferðarvaktinni standa samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélög.“ Þá fór hún yfir fyrirkomulag stýrihópsins og þema velferðarvaktarinnar (hreyfing-næring-svefn-félagsskapur). Hún rakti þemu starfsáranna 2009-2013, vinnuhópa velferðarvaktarinnar og að lokum næstu skref. Nánar má lesa um kynningu Hilmu á slóðinni

http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/34022

Í umræðum að lokinni kynningu kom m.a. fram að skoða þyrfti hvort fram komnar tillögur hafi komið til framkvæmda og að mikilvægt væri að sjá hverju starf velferðarvaktarinnar hefur skilað.  Þá var bent á mikilvægi miðlunar upplýsinga til bakhópanna, þær skiluðu sér og á þær væri hlustað. Nefnt dæmi um vinnumálamarkaðsúrræði. Þá var farið yfir hvaða vinnuhópar væru búnir að skila innleggi í skýrsluna og að mikilvægt væri að ljúka þeirri vinnu sem væri samhliða vinnu Hilmu. Fram kom að hugsanlega væru einhverjir á leið út úr velferðarvaktinni en bent á að vaktin hefur umboð þar til skýrslunni er lokið.

4.      Lagt fram erindi velferðarráðuneytisins um tilnefningu í samráðshóp um mótun fjölskyldustefnu

Í lok fundarins var lagt fram erindi velferðarráðuneytisins um tilnefningu í samráðshóp um mótun fjölskyldustefnu og gerði formaður tillögu um að Garðar Hilmarsson og Valgerður Halldórsdóttir yrðu tilnefnd til að taka þátt í starfi samráðshópsins og var það samþykkt.  Starfi samráðshópsins mun ljúka með þingsályktunartillögu og aðgerðaráætlun.

Fundi slitið kl. 16:00.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum