Hoppa yfir valmynd
20.02.2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 20. febrúar 2009


Mætt: Lára Björnsdóttir formaður (LB) fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra, Sigurrós Kristinsdóttir (SK) tiln. af ASÍ, Páll Ólafsson (PÓ) tiln. af BHM, Garðar Hilmarsson (GÓ) tiln. af BSRB, Vilborg Oddsdóttir (VO) tiln. af Biskupsstofu, Ása Ólafsdóttir (ÁÓ) tiln. af dómsmálaráðuneyti, Björn Ragnar Björnsson (BRB) tiln. af fjármálaráðuneyti, Guðrún Sigurjónsdóttir (GS) tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Stefán Stefánsson (StSt) tiln. af menntamálaráðuneyti, Kristján Sturluson (KS) tiln. af Rauða krossi Íslands, Stella K. Víðisdóttir (SKV) tiln. af Reykjavíkurborg, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson (GRS) tiln. af Sambandi ísl. sveitarfélaga og Guðrún Björk Bjarnadóttir (GBB) tiln. af SA, auk Þorbjarnar Guðmundssonar (ÞB) og Ingibjargar Broddadóttur (IB) starfsmanna.

Fulltrúar KÍ (Eiríkur Jónsson (EJ)) og viðskiptaráðuneytis (Margrét Sæmundsdóttir (MS)) boðuðu forföll.

1. Skipunarbréf stýrihóps velferðarvaktarinnar

Formaður bauð stýrihópinn velkominn til starfa, fór yfir skipunarbréf hópsins og ræddi nánar um verkefnin sem meðal annars felast í því að safna gögnum um það sem fyrir liggur um afleiðingar efnahagsástandsins, það sem þegar er verið að gera í samfélaginu til að bregðast við því, leggja til leiðir til úrbóta, afla fræðilegra upplýsinga um afleiðingar kreppunnar og kanna reynslu annarra þjóða. Einnig lægi fyrir að hópurinn skipti með sér verkum og myndaðir vinnuhópar með fulltrúum stýrihópsins ásamt fólki sem þekkir vel til um afmörkuð verkefni hvers vinnuhóps. Gert er ráð fyrir að stýrihópurinn skili áfangaskýrslu upp úr miðjum mars næstkomandi.

2. Upplýsingar frá fulltrúunum

Fyrir fund hafði verið óskað eftir að hver og einn kynni í stuttu máli hvort og hvernig hafi verið brugðist við efnahagsástandinu í þeirra baklandi og hvaða upplýsinga þurfi að afla. Óskað var eftir stuttu minnisblaði og gögnum sem kynnu að liggja fyrir. Lögð voru fram minnisblöð frá St.St., GBB, MS, EJ, GH, VO, auk gagna frá ASÍ og yfirlitsblaðs frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, dags. 22. janúar 2009.

Meginþemu umræðunnar voru:

  • Stýrihópurinn beini sjónum sínum einkum að þeim hópum sem hætta er á verði fyrir varanlegu tjóni vegna kreppunnar.
  • Börn og ungmenni verða að vera í brennidepli og hafa mörg sveitarfélaganna þegar brugðist við með aðgerðum, en huga þarf meðal annars að barnavernd, aðstoð við ungmenni, þjónustu innan sem utan skóla, aðstoð við foreldra og þá sem vinna með börnum og ungmennum. Menntamálaráðuneytið hefur sent öllum skólum og stofnunum ráðuneytisins bréf með ráðleggingum frá sálfræðingi um rétt viðbrögð við kreppuástandi.
  • Atvinnuleysið:Tryggja þeim sem eru án vinnu viðfangsefni, meðal annars með lækkun á aðgangseyri að til dæmis heilsurækt, menningarviðburðum, námskeiðum o.fl. svo koma í veg fyrir einangrun og til að viðhalda virkni. Fólk sækir síður námskeið og annað sem í boði er ef það er eyrnamerkt atvinnulausum - gæta þess að bjóða öllum. Mikilvægt að virkja fólk til sjálfboðaliðastarfa. Huga sérstaklega að ungu fólki sem er hefja störf á vinnumarkaði og þeim sem eru komnir nær eftirlaunaaldri (um sextugt). Athuga hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.
  • Horfa til heimilanna, greiðsluvanda þeirra, einkum vegna húsnæðislána.
  • Gæta jafnréttis í hvívetna og huga sérstaklega að viðkvæmum og berskjölduðum hópum, fólk sem á styrkt bakland: Geðfatlaðir, innflytjendur, aldraðir fátækir, einstæðir foreldrar og ef til vill fleiri.
  • Sveitarfélögin gegna lykilhlutverki, mikilvægt að samræma innan þeirra, milli þeirra og við ríkisstofnanir, svo sem Vinnumálastofnun. Velferðarþjónusta sveitarfélaganna: Mikil aukning í fjárhagsaðstoð og annarri aðstoð og landsbyggðin „sleppur ekki". Mörg sveitarfélaganna hafa þegar brugðist við með aðgerðum, borgin hefur sett á laggirnar aðgerðateymi, sem meðal annars fylgist með barnaverndinni og þjónustumiðstöðvunum, Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur verið styrkt og sérstakt samstarf stofnað „Börnin í borginni" með þeim sem vinna með börnum og unglingum.
  • Heilsufar og heilsugæslan: Markmið að fólk haldi heilsu. Efnahagsástandið leiðir til aukinnar hættu á sjúkdómum. Móttaka var strax opnuð á Landspítala og í janúar síðastliðnum var sett á laggirnar nefnd til að huga að sálrænum vandamálum: þar hefur komið fram fjöldi hugmynda. Börnin leita í auknum mæli til skólahjúkrunarfræðinga, auknar áhyggjur eru hjá skjólstæðingum ungbarnaverndarinnar og fylgjast þarf með komum barna til tannlækna.

3. Næstu skref

Á næsta fundi verður gengið frá því að skipta stýrihópnum upp í smærri vinnueiningar þar sem einstaklingar utan hópsins verða fengir til liðs. Samþykkt að fundað verði vikulega í stýrihópnum á föstudögum kl. 14.00–16.00 og verða fundir haldnir svo sem kostur er hjá þeim aðilum sem eiga fulltrúa í hópnum.

Næsti fundur verður föstudaginn 27. febrúar kl. 14.00–16.00 hjá Samiðn, Borgatúni 30, 6. hæð.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum