Hoppa yfir valmynd
09.02.2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 9. febrúar 2010

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Guðrún Björk Bjarnadóttir, tiln. af Samtökum atvinnulífsins, Guðríður Ólafsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Héðinn Unnsteinsson frá heilbrigðisráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af viðskiptaráðuneyti, Matthías Halldórsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Guðrún Ögmundsdóttir varamaður Stefáns Stefánssonar, tiln. af menntamálaráðuneyti, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tiln., og Þorbjörn Guðmundsson, Ingibjörg Broddadóttir og Margrét Erlendsdóttir, starfsmenn.

Fundinn sat einnig Hanna Björnsdóttir nemi í félagsráðgjöf hjá Hjálparstarfi kirkjunnar.

1. Fundargerð 22. fundar

Fundargerðin var samþykkt.

2. Kynin í kreppunni

Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flutti innleg undir heitinu Kynin í kreppunni. Margt fróðlegt kom fram og fá fundarmenn glærurnar sendar.

Í upphafi benti KÁ á að kyn væri ein mikilvægasta breyta hvers samfélags og benti á að ef tölur væru ekki kyngreindar gæti það falið vandamál. Hún vakti athygli á 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um skyldur opinberra aðila til að kyngreina tölfræði. Í dag eru konur færri en karlar á atvinnuleysisskrá, sem er ný staða og tengd afleiðingum kreppunnar. Fram kom að Jafnréttisstofa veit lítið um uppsagnir sem gripið hefur verið til á undanförnum misserum, svo sem um aldur og kyn, og benti KÁ á að þörf sé á að bæta alla skráningu, meðal annars hjá heilsugæslu og lögreglu. Stofan veit einnig lítið um þróun launamála, en fram kom að mun fleiri konur (8%) en karlar (5%) eru öryrkjar. Einnig kom fram að kvörtunum vegna kynferðislegrar áreitni hafi fjölgað á undanförnum mánuðum og ofbeldi á vinnustað fari vaxandi. KÁ fór yfir fjölda atriða sem rétt er að halda til haga í þessu sambandi og má sjá þau á glærunum.

Rætt var um jafnrétti kynjanna og starf velferðarvaktarinnar og samþykkt að samþætta kynjasjónarmiðin inn í allt starf vaktarinnar. Lítið er vitað um áhrif efnahagskreppu á kynin hvort um sig og samþykkt að setja á laggirnar vinnuhóp til skamms tíma sem fengi það verkefni að búa til skapalón sem velferðarvaktin gæti notað til að meta og halda til haga kyngreindum upplýsingum um áhrif kreppunnar. Hugrún Hjaltadóttir sérfræðingur á Jafnréttisstofu mun starfa með hópnum.

2. Velferð barna og umræða um stöðu þeirra

Fjölmiðlar hafa að undanförnu birt upplýsingar um að börnum líði verr en áður og birst hafa viðtöl við fólk í lykilstöðum hvað þetta varðar, svo sem við landlækni, yfirlækni Barna- og unglingageðdeildar og forstöðukonu Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Er umræðan tengd efnahagsástandinu.

Rætt var um erfiðleika við að meta líðan og velferð barna og að tölulegar upplýsingar annaðhvort skorti eða þær staðfesti hvorki né hreki að börnum líði verr í dag en fyrir kreppu. Nauðsynlegt er að afla haldgóðra upplýsinga um þetta og bregðast síðan við með viðeigandi hætti. Félagsvísahópurinn er meðal annars að huga að þessu. Samþykkt var að kalla lykilfólk á þessu sviði til fundar við velferðarvaktina, meðal annars yfirlækni Barna- og unglingageðdeildar, forstöðufólk frá Greiningar- og ráðgjafarstöðinni, Barnaverndarstofu og Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, fulltrúa félagsmálastjóra, frá Heimili og skóla og Ungmennafélagi Íslands.

3. Önnur mál
Í framhaldi var rætt almennt um starf velferðarvaktarinnar, með hvaða hætti hún gæti best komið til skila því sem hún telur mestu máli skipta og spurt var hversu kvik er vaktin? Ábendingin um að sparnaður í einu kerfi leiði ekki til aukinna útgjalda í öðru kerfi er til dæmis aldrei of oft kveðin, en komast skilaboðin til skila? Lagt var meðal annars til að vaktin sendi ráðherra reglulega minnisblað um stöðu mála.

Velferðarvaktin var sett á laggirnar í febrúar 2009 og var ætlað að starfa 80 daga. Rifjað var upp í þessu samhengi að í framhaldi af starfsdegi vaktarinnar á síðastliðnu hausti óskaði hún eftir endurnýjuðu umboði frá ráðherra sem enn hefur ekki borist.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 23. febrúar 2010 kl. 14.00–16.00.
Fundargerð skráði Ingibjörg Broddadóttir.


 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum