Hoppa yfir valmynd
17.05.2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 17. maí 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Alexandra Þórlindsdóttir, tiln. af innanríkisráðuneyti, Hrefna Óskarsdóttir varamaður Guðríðar Ólafsdóttur, tiln. af Þroskahjálp og Öryrkjabandalagi Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Gyða Hjartardóttir, varamaður Gunnars Rafns Sigurbjörnssonar, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristján Sturluson, tiln. af RKÍ, Salbjörg Bjarnadóttir varamaður Geirs Gunnlaugssonar, tiln. af heilbrigðisráðuneyti, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, og Ingibjörg Broddadóttir.

1. Fundargerð
Fundargerð 49. fundar var samþykkt.

2. Úttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjum
Rósa Dögg Flosadóttir og María Rún Bjarnadóttir frá innanríkisráðuneyti greindu frá störfum vinnuhóps sem vinnur að skýrslu Íslands og kynntu helstu málaflokkana sem fjallað verður um, en skýrslan takmarkast við 20 blaðsíður. Henni á að skila til Sameinuðu þjóðanna eigi síðar en 4. júlí næstkomandi. Skýrslan verður tekin fyrir á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum í október 2011 og er gert ráð fyrir að utanríkisráðherra fylgi henni úr hlaði og svari fyrirspurnum.

Áhersla er lögð á samráð við frjáls félagsamtök og almenning við skýrsluskrifin og er gerð grein fyrir því samráði í inngangskafla. Skýrslan mun fjalla um íslenska löggjöf, þ.m.t. um stjórnarskrána, alþjóðlegar skuldbindingar, stofnanir og hlutverk þriðja geirans, en um 60 félagasamtökum hefur verið sent bréf. Lýst verður hvernig mannréttindavernd er háttað með bæði góðum dæmum og hvað betur má fara. Fjallað verður um aðgerðir og löggjöf gegn mismunum á eftirfarandi sviðum: Jafnrétti kynjanna, uppruna og kynþáttahyggju, réttinda samkynhneigðra, fólks með fötlun, aldraðra og barna. Ofbeldi fær sérstaka umfjöllun, þ.m.t. heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og kynbundið ofbeldi, svo og mansal. Enn fremur verður fjallað um málefni innflytjenda, rétt til sómasamlegrar vinnu, tjáningarfrelsi og trúabragðafrelsi, rétt til menntunar, fátækt og félagafrelsi. Að lokum er fjallað um helstu forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda á sviði mannréttindamála bæði innanlands og í alþjóðlegu samhengi.

Í lok maí verða drög að skýrslunni sett á vef innanríkisráðuneytisins. Þar gefst almenningi tækifæri til að senda inn athugasemdir og eru fulltrúar í velferðarvaktinni hvattir til að fylgjast með þessu og eftir atvikum senda inn athugasemdir.

3. Velferð leikskólabarna og forvarnir – verkefni á vegum norrænu ráðherranefndarinnar
Verkefnið heitir snemmtæk íhlutun í málefni viðkvæmra fjölskyldna (tidiga insatser för sårbara familjer). Norræna velferðarskrifstofan, sem er ný norræn stofnun í Stokkhólmi, heldur utan um verkefnið og verkefnisstjóri hefur verið ráðinn. Ísland mun taka þátt í verkefninu og er LB fulltrúi Íslands í umsjónarhópnum. Ákveðið hefur verið að horfa til barna á leikskólaaldri og fjölskyldna þeirra og er bent á að það sé þekkt staðreynd að 50% allra barna sem vitað er að eiga erfitt í leikskóla eiga áfram í erfiðleikum á unglingsárum.

Verkefninu er skipt í fóra hluta:

  1. Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á bæði áhættuþáttum og verndandi þáttum í uppeldi og umhverfi barna?
    Ef þær eru til er mikilvægt að kynna niðurstöðurnar þeim sem vinna með börnum og fjölskyldum þeirra. LB hefur haft samband Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd um að kanna þetta hér á landi.
  2. Taka saman dæmi um verkefni og aðgerðir sem hafa reynst vel á þessu sviði á Norðurlöndunum.
    Hér þarf að tengja saman verkefni og rannsóknir og finna góð dæmi sem rannsóknir hafa sýnt fram á að virki vel og koma þeim síðan á framfæri sem víðast. Fulltrúar í velferðarvaktinni eru beðnir um að hugleiða og stinga upp á góðum dæmum.
  3. Einfalda algengi þjónustu.
    Skoða þarf hvaða þjónustuform nær best til barnanna og barnafjölskyldnanna sem búa við mestan vanda.Það er þekkt að þjónustan skilar sér iðulega alls ekki eða mjög seint til þeirra sem mest þurfa á henni að halda og því er spurt: Hvernig er hægt að nálgast viðkvæmustu heimilin? Virkja þarf þriðja geirann við þetta verk og skoða samstarf hinna fjölmörgu aðila sem veita börnum og barnafjölskyldum þjónustu.
  4. Raddir barna verða að heyrast.
    Nokkur dæmi voru nefnd um góð framtök á þessu sviði hér á landi, en mikilvægt er að taka þau saman.

Talsverð umræða varð um þetta verkefni, ekki síst með hvaða hætti megi best ná til viðkvæmra fjölskyldna svo þær fái notið góðrar þjónustu.

4. Önnur mál

  • LB greindi í upphafi fundar frá brýnum verkefnum velferðarvaktarinnar framundan: a) Taka þarf ákvörðun um hvar eigi að vista félagsvísana þegar þeir verða komnir í lokaútgáfu frá vinnuhópnum. b) Ljúka þarf við áfangaskýrslu vaktarinnar. c) Taka þarf aftur upp þráðinn varðandi samstarf þriðja geirans innbyrðis og við stjórnvöld og fleira því tengt.
  • IB greindi frá því að 20 námsmenn og ungt fólk í atvinnuleit munu koma til starfa í velferðarráðuneytið í sumar. Meðal annars verður starfsmaður ráðinn til að vinna úr spurningum velferðarvaktarinnar sem sendar voru til allra barnaverndarnefnda, heilsugæsla og grunnskóla um velferð þeirra barna sem áttu í erfiðleikum fyrir kreppu og hvernig þeim líður í dag. Einnig verður ráðinn starfsmaður til að kanna samstarf heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaganna, en það starf má e.t.v. tengja norræna verkefninu sem fjallað er um í 3. lið, punktur 3.
  • VO upplýsti að Þjóðkirkjan verður með þátt um hjálparstarfið innanlands á Stöð 2 þann 26. maí nk. Þar verður meðal annars viðtal við LB og ýmsa fleiri í beinni útsendingu, svo sem velferðarráðherra og notendur, þar á meðal fulltrúa frá BÓT.

Næsti fundur velferðarvaktarinnar verður haldinn 24. maí næstkomandi í velferðarráðuneytinu.

Fundagerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum