Hoppa yfir valmynd
18.10.2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 18. október 2011

Mætt: Lára Björnsdóttir formaður, Alexandra Þórlindsdóttir, tiln. af innanríkisráðuneyti, Björg Bjarnadóttir, tiln. af KÍ, Einar Jón Ólafsson, tiln. af velferðarráðherra, Garðar Hilmarsson, tiln. af BSRB, Hannes Ingi Guðmundson, frá Umboðsmanni skuldara, Hrefna K. Óskarsdóttir, frá ÖBÍ og Þroskahjálp, Guðrún Eyjólfsdóttir, tiln. af SA, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson og Gyða Hjartardóttir, frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Salbjörg Bjarnadóttir, frá landlækni, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, tiln. af velferðarráðherra, Ragnheiður Bóasdóttur, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af BHM, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Þórhildur Þorleifsdóttir, formaður jafnréttisráðs, tiln. af velferðarráðherra, Lovísa Lilliendahl, verkefnisstjóri velferðarvaktarinnar á Suðurnesjum, Ingibjörg Broddadóttir og Þorbjörn Guðmundsson starfsmenn.

1. Fundargerð
Fundargerð 53. fundar var samþykkt.

2. Niðurstöður hópavinnu frá starfsdegi, 4. október sl.
Lagt var fram vinnuskjal með niðurstöðum hópavinnu sem fram fór á starfsdegi velferðarvaktarinnar á 54. fundi, þann 4. október síðastliðinn, en unnið var í fjórum hópum. Unnið verður áfram með þetta vinnuskjal.

Helstu niðurstöður umræðunnar voru:

  • Fulltrúar í velferðarvaktinni miðli starfi og niðurstöðum vaktarinnar til baklandsins. Starf vaktarinnar verði þannig gagnkvæmt ferli þar sem fulltrúarnir, sem eru sérfræðingar hver á sínu sviði, miðla upplýsingum til vaktarinnar, sem hún kemur eftir atvikum á framfæri við stjórnvöld, og á hinn bóginn ferli þar sem fulltrúarnir eða vaktin í heild flytja upplýsingar og annan fróðleik til baklandsins.
  • Stofnaður verði rýnihópur um fjárlagafrumvarpið og munu eftirtalin taka þátt í því starfi:
    - Einar Jón Ólafsson sem tók að sér að halda utan um starfið
    - Ragnheiður Bóasdóttir
    - Þorbjörn Guðmundsson
    - Vilborg Oddsdóttir
  • Stofnaður verði hópur til að fjalla um viðbrögð velferðarvaktarinnar gagnvart þeirri reiði og geðshræringu sem birtist hjá fólki í dag vegna efnahagsástandsins, viðbragða stjórnvalda og stöðu heimilanna. Eftirtalin taka þátt í hópstarfinu:
    - Valgerður Halldórsdóttir sem tók að sér að halda utan um starfið
    - Salbjörg Bjarnadóttir
    - Hannes Ingi Guðmundsson
    - Björg Bjarnadóttir
    - Þórhildur Þorleifsdóttir

Rætt var um eftirfarandi en ekki komist að niðurstöðu:

  1. Hvernig best sé að ná til fjölmiðla og hver sé tilgangurinn með því? Rætt um mikilvægi lítilla/„lókal“ fjölmiðla.
  2. Vaktin metur starf sitt mikils, en hvað finnst þeim sem horfa á starfið utan frá?
  3. Stungið upp á að bjóða þingmönnum á fund velferðarvaktarinnar og rætt um samskipti við Alþingi. Minnt var á umræðuna í tengslum við áskorun vaktarinnar til Alþingis frá júní 2010 en þar sagði meðal annars að á fundi velferðarvaktarinnar „..kom það sjónarmið fram að umræðan á Alþingi í dag endurspegli ekki ástandið í samfélaginu og þær alvarlegu afleiðingar sem efnahagshrunið hefur haft á aðstæður fólksins í landinu. Áherslur séu ekki í samræmi við þann vanda sem blasi við mörgum heimilum. Á fundinum var samþykkt að skora á alþingismenn að beina sjónum sínum og umræðunni á Alþingi að velferð þeirra sem veikastir standa og horfa heildstætt og málefnalega á fjármál ríkisins þannig að skynsamleg forgangsröðun verði möguleg. sl. ári.“

3. Önnur mál 

Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar bauð Láru og Ingibjörgu á fund með trúnaðarmönnum þann 13. október 2011 þar sem LB kynnti hlutverk og störf velferðarvaktarinnar og IB greindi frá starfi Suðurnesjavaktarinnar. Í framhaldi voru fyrirspurnir og umræður sem snerust meðal annars um það hvort velferðarvaktin væri í raun sjálfstæð og óháð og hvort ástandið á Suðurnesjum væri mun frábrugðnara ástandi annars staðar í landinu.

Næsti fundur verður 1. nóvember nk.

Fundargerð ritaði Ingibjörg Broddadóttir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum