Hoppa yfir valmynd
29.10.2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð stýrihóps um velferðarvakt frá 29. október 2013

Mætt: Lára Björnsdóttir, formaður velferðarvaktarinnar, Ingibjörg Broddadóttir, velferðarráðuneyti, Valgerður Halldórsdóttir, tiln. af Bandalagi háskólamanna, Salbjörg Bjarnadóttir varamaður Geirs Gunnlaugssonar landlæknis, Sigurrós Kristinsdóttir, tiln. af ASÍ, Elín Rósa Finnbogadóttir, varam. Alexöndru Þórlindsdóttur, tiln. af innanríkisráðuneyti, Hrefna K. Óskarsdóttir, tiln. af Þroskahjálp og ÖBÍ, Svanborg Sigmarsdóttir frá Umboðsmanni skuldara, Margrét Sæmundsdóttir, tiln. af efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Margrét Steinarsdóttir, tiln. af Mannréttindaskrifstofu Íslands, Garðar Hilmarsson, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ragnheiður Bóasdóttir, tiln. af mennta- og menningarmálaráðuneyti, Unnar Stefánsson, tiln. af Landssambandi eldri borgara, Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Lovísa Lilliendahl, velferðarráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir, tiln. af Biskupsstofu, Anna Elísa Gunnarsdóttir, félagsráðgjafanemi, Þórhildur Þorleifsdóttir, án tiln. skipuð af velferðarráðherra og Ingiríður Hanna Þorkelsdóttir, velferðarráðuneyti, sem ritaði fundargerð.

Gestir fundarins: Guðný Björk Eydal, félagsráðgjafardeild HÍ, Sigríður Jónsdóttir, velferðarráðuneyti og Kolbeinn Stefánsson, Hagstofu Íslands sem var með kynningu á fundinum.

Formaður setti fund og fór yfir dagskrá fundarins.

1.         Fundargerð síðasta fundar.

Fundargerð síðasta fundar borin upp og samþykkt.

2.         Uppfærðir félagsvísar og nýtt fyrirkomulag.  Kolbeinn Stefánsson og Sigríður Jónsdóttir mæta á fundinn.

Kolbeinn Stefánsson, Hagstofu Íslands, var gestur fundarins og flutti kynningu á félagsvísunum, 2. útg. 2013, en hann heldur utan um félagsvísana af hálfu Hagstofunnar.  Hann upplýsti að ákveðinn stuðull, svonefndur fimmtungastuðull, væri notaður sem sýnir bilið á milli þeirra sem eru efstir og hinna sem eru lægstir.  Þá er notast við material deprivation sem er mæling sem er þróuð af Eurostat (Hagstofu Evrópu).  Ef fólk skortir þrjá hluti sem fram koma á listanum er það talið búa við skort.  Kolbeinn fór m.a. yfir skort á efnislegum lífsgæðum eftir aldurshópum og benti á að það var aldurshópurinn 25-30 ára sem varð fyrir mestum skorti árið 2008.  Þá nefndi hann að heimili, sem telja sig í vanskilum, hefðu verið tekin sérstaklega út og að ¼ heimila í landinu býr í leiguhúsnæði.  Það er ekki almennur lífskjaravandi á Íslandi en það eru ákveðnir hópar sem eru í vanda.  Þegar litið er á heildarmyndina má sjá að þróun flestra félagsvísa hefur verið jákvæð frá 2010/2011 og að samdráttur í efnahagslífinu þarf ekki að haldast í hendur við neikvæðar félagslegar afleiðingar á öllum sviðum. Að lokum benti Kolbeinn á að í þróunarmöguleikum félagsvísa fælist aukin áhersla á sundurgreinanleika á milli hópa á Íslandi annars vegar og aukin áhersla á alþjóðlegan sambærileika gagna hins vega. Samantekt og glærur Kolbeins má sjá á vefslóð ráðuneytisins:

http://www.velferdarraduneyti.is/velferdarvaktin/FrettirVelferd/nr/34230

Að lokinni kynningu Kolbeins var orðið gefið laust og sat Sigríður Jónsdóttir, velferðarráðuneyti, fyrir svörum.  Í umræðunum kom m.a. fram að sérfræðihópur hefði verið skipaður um þróun félagsvísanna með sérstakri áherslu á að meta tilefni til nauðsynlegra breytinga á núverandi efnisþáttum þeirra. Einnig kom fram að umsjón með samningnum um félagsvísa er í höndum samráðsnefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum frá velferðarráðuneyti og tveimur frá Hagstofu. Þá kom fram að það er Hagstofan sem safnar öllum þeim upplýsingum sem koma frá sveitarfélögunum og vinnur úr þeim.  Einnig að spurning er síðar að greina upplýsingarnar eftir landshlutum/svæðum og hverfum í Reykjavík. Rætt um lögheimilisskráningu og vandamál tengd henni varðandi skráningu fjölskyldu- og heimilisgerðar.

Á fundinum kom fram það sjónarmið að eðlilegt hefði verið að Samband íslenskra sveitarfélaga hefði átt fulltrúa og bent á mikilvægi þess að sambandið taki þátt í þessu starfi.  Í því sambandi var bent á yfirfærslu grunnskólanna, málefna fatlaðra og að framundan væri yfirfærsla málefna aldraðra. 

3.         Umræða um helstu áherslur og tillögur vaktarinnar í komandi skýrslu til ráðherra.

Fram kom að nú hefðu flest innlegg í skýrsluna borist.

Að beiðni formanns ræddi Þórhildur Þorleifsdóttir sína sýn á stöðu jafnréttismála m.a. með tilliti til skýrslu velferðarvaktarinnar.  Hún sagði að gjarnan væri hamrað á því að við værum efst á lista í heiminum í jafnréttismálum sem væri gott svo langt sem það næði. Staða jafnréttismála byggir m.a. á mælingum á menntun, heilbrigðismálum og atvinnuþátttöku kvenna og pólitískri þátttöku þeirra.  Þórhildur vakti athygli á ritunum Konur í kreppu eftir Evu Bjarnadóttur og Eyglóu Árnadóttur, Vinna og heimili eftir Kolbein Stefánsson og Þóru Kristínu Þórsdóttur og mastersritgerð Steinunnar Rögnvaldsdóttur frá 2012: Will you still need me, will you still feed me.  Það breytir því þó ekki að það er mikil misskipting.  Að mati Þórhildar eru eftirtaldir hópar þeir sem ættu að snúa sérstaklega að velferðarvaktinni:

a)      Einstæðar mæður sem eru um 91% af einstæðum foreldrum í landinu.  Um er að ræða 30 þúsund manns og þar af eru börnin 20 þúsund.  Þetta er sá hópur sem stendur verst, bæði menntunarlega og fjárhagslega.  Hlutfallslega eru mestir erfiðleikar hjá þessum börnum í skólum.

b)      Fullorðnar konur.  Kjör fullorðinna kvenna eru verri en kjör karla og þetta er ósýnilegur hópur kvenna.  Konur á bótum eru áberandi fleiri en karlar á bótum.  Einnig eru konur með lágan lífeyri samanborið við karla, fá 56% af lífeyri karla sem vissulega á sér skýringar.

c)      Erlendar konur. Þetta eru einstæðar konur, fullorðnar konur og eru jafnvel í ofbeldis-samböndum.

d)     Fatlaðar konur.

Að mati Þórhildar ber velferðarvaktinni að beina sjónum sínum sérstaklega að þessum hópum.

Í umræðum um þessi mál kom m.a. fram að einstæðar mæður búa við mismunandi kjör.

4.         Önnur mál

Margrét Steinarsdóttir, Mannréttindaskrifstofu Íslands, bauðst til að kynna fyrir velferðar-vaktinni tilskipanir EES um mismunun sem tekur til kyns, kynhneigðar, fötlunar, aldurs og uppruna.

Fundi slitið kl. 16:00

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum