Hoppa yfir valmynd
09.11.2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fundargerð velferðarvaktarinnar 9. nóvember 2015

Fundargerð 9. fundar Velferðarvaktarinnar
haldinn 9. nóvember 2015 hjá Rauða krossinum kl. 13-16.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Evald Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Anna Rós Jóhannsdóttir frá LSH, Védís Drafnardóttir frá Geðhjálp, Ellý A. Þorsteinsdóttir frá Reykjavíkurborg, Árni Múli Jónasson frá Þroskahjálp, Nína Helgadóttir og Guðný Björnsdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Einar Kvaran frá Geðhjálp, Héðinn Jónsson frá VIRK, Svanborg Sigmarsdóttir frá Umboðsmanni skuldara, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sólveig Hjaltadóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstofnun kirkjunnar, Sigurrós Kristinsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Vildís Bergþórsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Jenný Ingudóttir frá Heimili og skóla, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheill, Ásgerður Jóna Flosadóttir frá Fjölskylduhjálp Íslands, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.

Dagskrá fundar:

1. Linda Rós Alfreðsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, segir frá þeim réttindum sem flóttamenn fá við komu til Íslands.
2. Vilborg Oddsdóttir og Salbjörg Bjarnadóttir, formenn undirhópa, kynna vinnu þeirra.
3. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fer yfir vinnu ráðuneytis vegna tillagna sem Velferðarvaktin hefur lagt fram.
4. Hugrún Hjaltadóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, kynnir aðferð við jafnréttismat.
5. Ellý A. Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri velferðarsviðs Reykavíkurborgar, kynnir árangur Reykjavíkurborgar varðandi fjárhagsaðstoð.
6. Önnur mál.

1. Málefni flóttafólks
Linda Rós Alfreðsdóttir hélt erindi um málefni flóttafólks en íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að bjóða hópi kvótaflóttamanna hingað til lands á næstu mánuðum. Hún kynnti sérstaklega réttindi kvótaflóttafólks og þeirra sem fá stöðu flóttamanns eftir hælisleit en þar á milli er ákveðinn munur. Í kjölfarið skapaðist umræða um flóttafólk og haft var á orði að samfélagið mætti vanda betur umræðuna. Rætt var um að gott væri að fá samanteknar upplýsingar um réttindi þessara tveggja hópa í tengslum við t.d. fjárhagsaðstoð, tryggingar, örorku, námslán, búsetuskerðingar og fl. Nína hjá RKÍ bauðst til þess að taka saman upplýsingar varðandi þetta.
Rætt var um að gott væri að fá tölur frá sveitarfélögunum varðandi þjónustu við flóttafólk.

2. Vinna undirhópa
Sárafátæktarhópur – Vilborg sagði frá því að nú stæði yfir greining á sárafátæktarhópnum sem oft er skilgreindur sem 2% hópurinn. Hagstofan er að framkvæma greininguna og er von á niðurstöðum í lok janúar 2016.
Framundan er fundur með „PEP“ hópnum. Hópurinn leggur m.a. áherslu á aukið notendasamráð en fyrirhugað er að halda ráðstefnu um notendasamráð í þeim tilgangi að ræða og skýra betur hvað felst í þessu hugtaki.

Barnafjölskyldur – Salbjörg sagði frá því að hópurinn vildi fylgja eftir þeim tillögum sem settar voru fram í síðustu skýrslu Velferðarvaktarinnar í tengslum við barnabætur og húsnæðismál. Einnig hefur hópurinn áhyggjur af tómstundarmálum barna en þar sitja ekki allir við sama borð. Þá sagði Salbjörg frá könnun sem leiddi í ljós að menntun foreldra væri stór breyta í niðurstöðum nýlegrar Pisa könnunar. Félagslegur bakgrunnur foreldra var keyrður saman við niðurstöður úr Pisa könnun. Vaktin gæti mögulega fengið kynningu á þessu.
Í barnahópnum hefur einnig verið komið inn á umræðu um tíða flutninga barna í tengslum við skólagöngu. Fram kom að áhugavert væri að skoða fylgni á milli tíðra flutninga barna og brottfalls úr framhaldsskóla.

3. Kynjasamþætting
Hugrún Hjaltadóttir frá Jafnréttisstofu ræddi um „kynjasamþættingu“. Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða eða kynjasamþætting er aðferð sem beitt er við innleiðingu jafnréttissjónarmiða inn í almenna starfsemi stofnunar eða fyrirtækis. Hugtakið er skilgreint í 2. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en þar kemur fram að kynjasamþætting sé... „að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“ Lesa má nánar um kynjasamþættingu á vef Jafnréttisstofu: http://jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=Page3&ID=141

4. Þróun fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar
Ellý sagði frá þróun fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar en einstaklingum á fjárhagsaðstoð hefur fækkað frá árinu 2013. Þennan árangur má helst rekja til þess að aðgerðir sem Reykjavíkurborg hefur gripið til hafa skilað góðum árangri en í því samhengi má nefna samstarfsverkefni við Vinnumálastofnun og fleiri í þeim tilgangi að stuðla að valdeflingu og efla einstaklinga til að komast í virkni og viðhalda þátttöku á vinnumarkaði. Einnig má segja að komin sé góð reynsla á verkefni sem skilað hafa árangri eins og Kvennasmiðjan, Grettistak o.fl.
Hlutfall ungra notenda hefur ekki verið lægra síðan um aldamót þ.e. hópurinn 18-24 ára. Verið er að reyna að fækka þeim sem hafa verið styst með því að reyna að grípa þá einstaklinga strax og bjóða þeim virkniúrræði. Sá hópur sem fer aftur á móti vaxandi á fjárhagsaðstoð eru sjúklingar, sem þurfa mun meiri stuðning. Slóð á skýrslu:
http://reykjavik.is/sites/default/files/Frettir_skjol/samantekt_uppl_singa_vegna_fj_rhagsa_sto_ar_hj_velfer_arsvi_i_reykjav_kurborgar_01.10.2015.pdf

5. Staðan á tillögum velferðarvaktarinnar – Eygló Harðardótir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Félags- og húsnæðismálaráðherra fór yfir stöðuna á þeim sex tillögum sem vaktin lagði fram í skýrslu fyrr á þessu ári og upplýsti að það væri verið að vinna í þeim öllum með einhverjum hætti.

Húsnæðismál - Húsnæðismálin eru búin að vera í forgangi og mikil vinna hefur átt sér stað í ráðuneytinu í samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila. Fjögur frumvörp eru nú á leið fyrir þing en það eru frumvörp um húsnæðisbætur, almennar íbúðir, breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög og breytingar á húsaleigulögum.

Viðmið til lágmarksframfærslu – búið er að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem lögð er til breyting á fyrirkomulagi fjárhagsaðstoðar. Frumvarpið var lagt fyrir á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Er þar m.a. lagt til að bætt verði við lögin ákvæði sem skyldi ráðherra til þess að leggja árlega fram leiðbeinandi reglur til sveitarfélaga þar sem m.a. skuli kveðið á um viðmiðunarfjárhæðir vegna fjárhagsaðstoðar. Skilgreina þarf viðmiðunarfjárhæðir en þar verður að líta til markmiðs og tilgangs laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem m.a. er að tryggja fjárhagslegt öryggi einstaklinga.

Barnabætur og barnatryggingar – Eins og fram kemur í skýrslu Velferðarvaktarinnar í tillögu um barnabætur og barnatryggingar eru tekjutengingar talsverðar í barnabótakerfinu. Ríkisstjórnin hafði síðar frumkvæði að því að tekjutengingar voru minnkaðar í fjárlagavinnunni sem unnin var á Alþingi vegna fjárlaga yfirstandandi árs. Barnabætur voru hækkaðar um tæplega 16%. Til þess að sú hækkun nýttist betur tekjulægri barnafjölskyldum var einnig samþykkt hækkun á tekjuskerðingarhlutföllum um eitt prósentustig. Samanlag munu útgjöld ríkissjóðs vegna greiðslu barnabóta hækka um 1,3 milljaðar króna vegna þessara breytinga. Í vinnu á vegum velferðarráðuneytisins hafa komið til umræðu frekari breytingar á barnabótakerfinu, t.d. með upptöku barnatrygginga, en Velferðarvaktin bendir á slíkar tryggingar í tillögu sinni frá 28. janúar.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins vorið 2013 og ákvörðun félags- og húsnæðismálaráðherra hefur verkefnisstjórn nýlega skilað af sér drögum að þingsályktunartillögu um fjölskyldustefnu. Velferðarráðuneytið hefur yfirfarið tillögu verkefnisstjórnarinnar og hefur lagt fram drög að þingsályktunartillögu um fjölskyldustefnu til ársins 2020. Í drögunum er að finna áherslur varðandi fyrirkomulag barnabóta til framtíðar og er þar fjallað sérstaklega um barnatryggingar.

Grunnþjónusta – Margir þeirra þátta sem heyra undir grunnþjónustu falla undir sveitarfélögin og í framangreindri tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu til ársins 2020 er tillaga um að í hverju sveitarfélagi verði gerð áætlun um fyrirkomulag samþættingar og samstarfs í grunnþjónustu. Þar er grunnþjónusta skilgreind sem barnavernd, félagsþjónusta, frístundaþjónusta, þjónusta heilsugæslu, leik-, grunn- og framhaldsskólar og lögreglan.

Samhæfingaraðili máls – Þessi tillaga kemur einnig fram í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu til ársins 2020 en þar er lagt til að stefnt skuli að því að börn sem fá þjónustu frá mörgum þjónustuaðilum fái einstaklingsbundna þjónustuáætlun sem unnin verði í samráði við barn og fjölskyldu þess og að skipaður verði málstjóri sem er samhæfingaraðili. Kveðið er á um að málstjóri skuli vera sá aðili sem best þekkir til aðstæðna barnsins og fjölskyldu þess og tryggja að hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi í allri ákvarðanatöku. Þetta er gert til að minni hætta sé á að það skorti samstarf og samfellu í þjónustu, sem getur leitt til þess að börn og fjölskyldur þeirra falli milli kerfa þegar aðstoðar er þörf með ófyrirsjáanlegum afleiðingum til framtíðar bæði fyrir einstaklinga og samfélagið.

Samvinna við frjáls félagasamtök og verkefnasjóður – Ráðherra sagðist vilja leggja meiri áherslu á að auka samstarf við þriðja geirann í gegnum fjölbreytt verkefni.


Næsti fundur verður haldinn 11. janúar 2016 kl. 13-16./LL

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum