Hoppa yfir valmynd
12.01.2016 00:00 Félagsmálaráðuneytið

Fundargerð velferðarvaktarinnar 12. janúar 2016

Fundargerð 10. fundar Velferðarvaktarinnar
haldinn 12. janúar 2016 í velferðarráðuneytinu

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstofnun kirkjunnar, Eðvald Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Héðinn Jónsson frá VIRK, Ásta S. Helgadóttir frá Umboðsmanni skuldara, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Sólveig Hjaltadóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigurrós Kristinsdóttir frá Alþýðusambandi Ísland, Vildís Bergþórsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheill, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Haukur Ingibergsson frá Landssambandi eldri borgara, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Sigþrúður Sigurðardóttir frá Kvennaathvarfinu, Guðni Olgeirsson frá menntamálaráðuneytinu, Gunnhildur Gunnarsdóttir frá W.O.M.E.N.in Iceland, Ómar Örn Jónsson frá Sjónarhóli, Þröstur Jónasson frá Heimili og skóla, Garðar Hilmarsson frá BSRB og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.

Gestir: Una Jónsdóttir frá ASÍ og Áshildur Linnet frá Rauða krossinum á Íslandi.

Dagskrá fundar:
1. Kynning frá velferðarnefnd ASÍ um húsnæðismál, greining á leigumarkaði.
2. Upplýsingar um réttindi flóttafólks og hælisleitendur og um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, búsetuskerðingar.
3. Aukið svigrúm ungs fólks til virkni í sjálfboðaliðastarfi í Evrópu án bótamissis, kynning.
4. Kostnaður við skólagögn grunnskólanema og skólamáltíðir, bréf velferðarvaktarinnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga.
5. Upplýsingar um ráðstefna um notendasamráð haldin af PEP-Íslandi/People Experiencing Poverty þann 22. jan.
6. Upplýsingar um kynningu UNICEF þann 19. jan. á skýrslu um efnislegan skort barna á Íslandi.
7. Undirbúningur stöðuskýrslu velferðarvaktarinnar.
8. Önnur mál.

1. Kynning frá velferðarnefnd ASÍ um húsnæðismál - greining á leigumarkaðnum
- Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá ASÍ

Una kynnti skýrslu sem ASÍ birti sl. haust um stöðuna á leigumarkaðnum, með áherslu á höfuðborgarsvæðið. Í skýrslunni er m.a. gert grein fyrir umfangi húsnæðismarkaðarins, fjölda þeirra sem búa í eigin húsnæði samanborið við leiguhúsnæði og hvernig þær tölur hafa þróast síðustu ár. Fram kemur að opinber gögn gefi oft ekki rétta mynd af því hvernig staðan er raunverulega en vísbendingar eru uppi um að þinglýstir leigusamningar endurspegli ekki það verð sem birtist leigjendum og er fjallað nánar um það í skýrslunni. Í skýrslunni eru einnig tekin dæmi um það hve hár hluti ráðstöfunartekna fer í húsaleigu hjá ákveðnum hópum. Skýrsluna er að finna á: http://www.asi.is/media/266394/leigumarkadur_Una.pdf

Í umræðum var ýmsum spurningum varpað fram t.d. hvort fjölskyldusamsetning hafi verið skoðuð við gerð skýrslunnar en svo var ekki.
Ásta sagði frá því að niðurstöður skýrslunnar rímuðu við það sem starfsmenn Umboðsmanns skuldara eru að sjá í samskiptum við skjólstæðinga þar sem margir eru að sligast undan háu leiguverði.
Siv vísaði til sameiginlegrar yfirlýsingar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins frá síðasta ári um aðgerðir til úrbóta og byggja þau frumvörp, sem nú eru komin fyrir þing, á þeirri yfirlýsingu sem tekur m.a. til leigumarkaðarins, byggingu íbúða fyrir tekulægri, lækkun skatts á leigutekjum og fl. Í því samhengi sagði Sigurrós frá því að endurskoðun á kjarasamningi stæði nú yfir innan Flóabandalagsins þar sem horft verður til þess hvað hefði verið uppfyllt síðan samningar voru gerðir.
Í tengslum við kjarasamninga átti að byggja 2300 íbúðir fyrir tekjulága.

2. Upplýsingar um réttindi flóttafólks og hælisleitenda
- Áshildur Linnet og Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum á Íslandi.

Áshildur fór yfir upplýsingar um réttindi flóttafólks og hælisleitenda í framhaldi af kynningu um flóttamannamál á síðasta fundi. Hóparnir sem um ræðir eru a) kvótaflóttafólk, b) hælisleitendur, c) flóttafólk sem fengið hefur stöðu flóttamanns/viðbótarvernd/fólk sem kemur á grundvelli fjölskyldusameiningar við flóttamann og d) fólk sem fær dvalarleyfi af mannúðarástæðum.
Þessir hópar hafa ólíka réttarstöðu og hefur verið kallað eftir því hún verði jöfnuð. Fjöldi umsækjenda um hæli var 355 á síðasta ári en þeim hefur farið fjölgandi undanfarin misseri. Til stendur að RKÍ birti upplýsingar um meðal málsmeðferðartíma, hve margir hafa fengið dvalarleyfi og svo frv. RKÍ er með samning við innanríkisráðuneytið um þjónustu við hælisleitendur. Vaktin mun fá sent skjalið sem dreift var á fundi. Bent var á rannsókn Lilju Ingvarsson um iðjuleysi hælisleitenda.

Kynningin þótti mjög upplýsandi þar sem margt þykir vera óljóst í tengslum við stöðu þessara hópa. Rætt var um að þessar upplýsingar þyrftu að vera aðgengilegri fyrir alla, það gæti komið í veg fyrir þann misskilning að flóttafólk fái meiri stuðning en margir Íslendingar sem búa við skort en sú umræða kann að leiða til neikvæðs viðhorfs gagnvart flóttafólki.
Gyða bauð Áshildi og Nínu að kynna þessa samantekt fyrir Sambandi íslenska sveitarfélaga.

3. Fjárhagsaðstoð vegna búsetuskerðinga – erindi velferðarvaktarinnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga
Gyða sagði frá því hvernig erindinu reiddi af. Sambandið safnar ekki þessum upplýsingum en árlega er þó óskað eftir ákveðnum upplýsingum. Rætt hefur verið um að kalla eftir þessum upplýsingum á ca. 3 mánaða fresti. Gyða lagði fram minnisblað þar sem fram koma niðurstöður könnunar sem gerð var í apríl 2015 um fjölda þeirra sem fá fjárhagsaðstoð vegna búsetuskerðinga TR.
Þar var stærsti hópurinn af erlendum uppruna eða 84 af 98. Sá hópur er væntanlega stærri því það eru ekki allir á fjárhagsaðstoð.
Rætt var um að mikilvægt væri að þetta yrði talið reglulega til þess að fylgjast með þróuninni. Gyða benti á að þetta þyrfti að kostnaðarmeta ef gera þarf ráð fyrir fleirum á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.

4. Kostnaður við skólagögn grunnskólanema og skólamáltíðir - bréf velferðarvaktarinnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Bréf velferðarvaktarinnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga fékk jákvæð viðbrögð og Gyða bauð fulltrúum vaktarinnar á fund hjá Sambandinu til þess að ræða þessi mál frekar.
Guðni leiddi í ljós ánægju yfir því að Sambandið hafi tekið þetta upp og útbúið minnisblað sem nú þegar hefur verið rætt í samráðsnefnd um skólamál og boðað hefur verið til samráðs um greiningu á kostnaði vegna skólamáltíða og frístundastarfs. Þarna sé gott dæmi um að Velferðarvaktin geti haft áhrif með ýmsu móti.

5. Ráðstefna um notendasamráð haldin af PEP-Íslandi/People Experiencing Poverty þann 22. janúar.

Vilborg sagði frá fyrirhugaðri ráðstefnu PEP-hópsins um notendasamráð þar sem meðal annars verður rætt hvað felist í orðinu notendasamráð. Einnig verður rætt hvernig notendasamráði verði komið fyrir í endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks.

6. Aukið svigrúm ungs fólks til virkni í sjálfboðaliðastarfi í Evrópu án bótamissis

Siv sagði frá rétti ungs fólks til atvinnuleysisbóta samhliða sjálfboðastarfi í Evrópu vegna nýlegra breytinga í reglugerð. Þetta þarf að kynna betur fyrir fólki, þó sérstaklega félagsráðgjöfum.

7. Kynning Unicef á skýrslu um efnislegan skort barna á Íslandi þann 20. janúar nk.
Siv sagði frá fyrirhugaðri forkynningu á skýrslu Unicef um efnislegan skort barna á Íslandi. Þar kemur fram að efnislegur skortur barna hafi aukist þegar borin eru saman árin 2009 og 2014. Í skýrslunni kom m.a. fram að flest börn liðu skort á sviði húsnæðis.

Siv lagði til að velferðarvaktin kæmi á framfæri í bréfi til félags- og húsnæðismálaráðherra tveimur atriðum varðandi gagnaöflun sem myndu nýtast starfi vaktarinnar. Annarsvegar upplýsingum um vinnu við greiningu á þeim hópi sem býr við sárafátækt og hinsvegar upplýsingum um greiningu á efnislegum skorti meðal barna hér á landi og tillögu þar að lútandi. Varðandi fyrra atriðið er mikilvægt að upplýsa ráðherrann um vinnu vaktarinnar við að greina sárafátækt en Hagstofan mun kynna þær niðurstöður í lok janúar. 

Varðandi síðara atriðið telur velferðarvaktin könnun Unicef vera mjög gagnlega og vil leggja til við ráðherra að stjórnvöld skoði á faglegan hátt kosti þess að nota skortgreiningu Unicef eða aðrar álíka aðferðir til að greina sérstaklega skort meðal barna. Skoða þyrfti bæði aðferðafræðina og hversu oft ætti að gera slíka greiningu til að unnt væri að meta þróun yfir tíma. Einnig þyrfti að skoða hvort vista ætti slíkt verkefni hjá Hagstofunni eða ekki.

Fulltrúar velferðarvaktarinnar samþykktu að þessu yrði komið á framfæri í bréfi til ráðherra, sem búið að vinna í samvinnu við Unicef.

8. Stöðuskýrsla velferðarvaktarinnar
Siv ræddi um að gott væri að fá ábendingar vegna undirbúnings við vinnu að stöðuskýrslu Velferðarvaktarinnar. Var því beint til fulltrúa að fyrir næsta fund myndu þeir velta aðeins fyrir sér starfi vaktarinnar, hvort það sé eitthvað sem ætti að breyta, mögulega aðrar áherslur og svo frv.

Næsti fundur verður haldinn 23. febrúar kl. 13-16.
Nánari dagskrá verður send síðar en gert er ráð fyrir að Kolbeinn Stefánsson kynni niðurstöður á greiningu Hagstofunnar á sárafátæktarhóp. Einnig er gert ráð fyrir að kynntar verði tillögur um breytingar á löggjöf um almannatryggingar en vinnu við endurskoðun laga um almannatrygginga er nú að ljúka.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira