Hoppa yfir valmynd
04.04.2017

Fundargerð velferðarvaktarinnar 4. apríl 2017

Fundargerð 18. fundar Velferðarvaktarinnar
haldinn 4. apríl 2017 í velferðarráðuneytinu kl. 9.00-12.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna, Vildís Bergþórsdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Garðar Hilmarsson frá BSRB, Ellen Calmon frá Öryrkjabandalagi Íslands, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstofnun kirkjunnar, Sigurrós Kristinsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Gyða Hjartardóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jenný Ingudóttir frá Heimili og skóla, Eðvald Stefánsson frá Umboðsmanni barna, Guðni Olgeirsson frá menntamálaráðuneyti, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Ásta Helgdóttir og Sara Jasonardóttir frá Umboðsmanni skuldara, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Þroskahjálp, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Lovísa Lilliendahl frá velferðarráðuneyti.  

___

Dagskrá:

1. Heimsókn til velferðarnefndar Alþingis

Formaður sagði frá því að nokkrir fulltrúar vaktarinnar hafi farið á fund velferðarnefndar Alþingis 27. mars sl., að ósk nefndarinnar, í tengslum við umræðu um fátækt.

2. Ný löggjöf um húsaleigubætur, sérstakur húsnæðisstuðningur og stofnframlög

Lísa Margrét Sigurðardóttir og Rún Knútsdóttir, lögfræðingar í velferðarráðuneytinu, skýrðu frá nýrri löggjöf um húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaga og stofnframlög. Í kjölfarið fóru fram umræður og var meðal annars vakin athygli á dæmum um óhóflega mikla leiguhækkun hjá leigufélögum og að tímabært væri að setja reglur/þak á húsaleigu. Þá komu fram áhyggjur af því að allt of oft leiddu breytingar, sem eiga að vera til bóta, til skerðingar annarsstaðar.

3. Drög að tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra vegna ritfangakaupa

Salbjörg Bjarnadóttir, formaður barnahópsins, kynnti drög að bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem lagt er til að ráðherra beiti sér fyrir endurskoðun 31. greinar grunnskólalaga í ljósi þess að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi þann 20. febrúar 2013 og er nú hluti af íslenskri löggjöf, eiga börn rétt á ókeypis grunnmenntun. Lagðar voru fram nokkrar breytingatillögur og samþykkt að tillagan yrði send ráðherra. Sjá bréf: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=98337b91-581e-11e7-9416-005056bc4d74

3. Umræða um brottfall úr framhaldsskólum og nemendur sem mæta ekki í grunnskólann

Guðni Olgeirsson, fulltrúi í barnahóp, sagði frá aðgerðum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að draga úr brotthvarfi nemenda í framhaldsskólum en það hefur lengi verið áhyggjuefni hér á landi. Algengara er orðið að nemendur hætti námi vegna kvíða og þunglyndis en ekki vegna námserfiðleika. Einnig er vitað til þess að dæmi séu um að nemendur á skyldunámsaldri mæti ekki í skólann og það sé einnig mikið áhyggjuefni. Í þessu samhengi var bent á skýrslu Barnaheilla um tengsl milli menntunar og fátæktar.

Samþykkt var að vaktin myndi taka þessi mál nánar fyrir á næsta fundi.

 

4. Tillaga til félags- og jafnréttismálaráðherra um Þróunarsjóð innflytjendamála

Vilborg Oddsdóttir, formaður sárafátæktarhóps, kynnti drög að tillögu til félags- og jafnréttismálaráðherra um að útvíkka verkefnasvið Þróununarsjóðs innflytjendamála þannig að hann nái einnig til flóttamanna. Samhliða auknu hlutverki sjóðsins er lagt til að stofnframlag hans verði tvöfaldað úr 10 milljónum króna í 20 milljónir króna, í það minnsta. Samþykkt var að tillagan yrði send ráðherra. Sjá tillögu: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=98337b90-581e-11e7-9416-005056bc4d74

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum