Hoppa yfir valmynd
21.09.2021

Fundur Velferðarvaktarinnar 1. desember 2020

45. fundur Velferðarvaktarinnar (fjarfundur)

1. desember 2020 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Angelique Kelley frá WOMEN, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Anna Lára Steindal frá Þroskahjálp, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Ásta Dís Skjaldal frá Pepp samtökunum, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum á Íslandi, Erla Ósk Guðjónsdóttir frá Menntamálastofnun, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Hrafnhildur Tómasdóttir frá Vinnumálastofnun, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Kristjana Gunnarsdóttir frá Reykjavíkurborg, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, María Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Silja Björk Björnsdóttir frá Geðhjálp, Sólveig Anna Jónsdóttir frá ASÍ, Steinunn Bergmann frá BHM, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Tryggvi Hallgrímsson frá Jafnréttisstofu, Þuríður Sigurðardóttir frá ÖBÍ og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

 Formaður hóf fundinn á að bjóða fulltrúa Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Önnu Pétursdóttur, velkomna í Velferðarvaktina. Formaður upplýsti einnig um fund sem fulltrúar Velferðarvaktarinnar áttu með velferðarnefnd Alþingis um stöðuna á Suðurnesjum, en Covid-19 faraldurinn hefur komið illa niður á svæðinu og Velferðarvaktin hefur fylgst með gangi mála þar sl. mánuði.

1. Samtal við Svandísi Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ræddi við fulltrúa vaktarinnar um stöðuna í Covid-19. Hún var einnig spurð út í stöðuna á tillögum Velferðarvaktar um skólaforðun frá mars 2019. Spurt var sérstaklega út í eftirfarandi tillögur:

  • Að sett verði af stað vinna með það að markmiði að fyrirbyggja skólaforðun og koma til móts við þau börn sem glíma við hana með auknum beinum stuðningi, úrræðum og forvörnum innan skólanna í samstarfi skóla- heilbrigðis- og félagsþjónustu
  • Aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf verði bætt.

Í því samhengi var spurt hvort tillögur starfshóps um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í leik- grunn- og framhaldsskólum yrðu innleiddar?

Ráðherra ræddi almennt um Covid-19, stöðuna og aðgerðir stjórnvalda og tók fram að í þeim efnum hefði verið horft sérstaklega til hagsmuna barna.  

Varðandi skólaforðun þá ræddi ráðherra um að mikilvægt væri að beina sjónum að jaðarsettum hópum, þótt skólaforðun beindist ekki eingöngu að tilteknum hópum. Ráðherra sagði að skólinn gegndi mikilvægu hlutverki í þessum efnum, einkum skólahjúkrunarfræðingar. Leggja þurfi meiri áherslu á forvarnir og geðrækt. Skólinn eigi að vera griðastaður fyrir börn og mikilvægt að þar séu allir vakandi fyrir mismunandi aðstæðum barna.

Varðandi bætt aðgengi framhaldsskólanema að geðheilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf upplýsti ráðherra að heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið hefðu unnið saman að þessu m.a. í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema. Ráðherra vísaði í könnun sem gerð var meðal framhaldsskólanema þar sem fram kom að í sumum framhaldsskólum stæði sálfræðiþjónusta til boða. Hinsvegar stendur framhaldsskólanemum, eins og öðrum, til boða sálfræðiþjónusta á heilsugæslum um land allt, en í könnuninni kom fram að nemendur væru almennt ekki meðvitaðir um aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og verður bætt úr upplýsingagjöf til framhaldsskólanema um aðgengi að þjónustu.

Fram kom að Þróunarmiðstöð heilsugæslu skimaði fyrir kvíða og þunglyndi hjá grunnskólabörnum. Rætt var hvort teygja mætti þetta miðlæga hlutverk Þróunarmiðstöðvar upp í framhaldsskóla. Einnig kom fram að fyrir hrun hefði verið rætt um að setja hjúkrunarfræðinga inn í alla framhaldsskóla - það mætti skoða að nýju.

Spurt var hvort áform væru um að bæta öðrum fagstéttum inn í heilsugæsluna s.s. félagsráðgjöfum, iðjuþjálfum o.fl. Ráðherra sagðist hafa hvatt forstjóra heilbrigðisstofnana til þess að gera slíkt. 

Skýrsla um innleiðingu geðræktarstarfs  í leik- grunn- og framhaldsskólum

Ráðherra upplýsti að óskað hefði verið eftir tilnefningum í stýrihóp sem fylgja á eftir innleiðingu. Embætti landlæknis ber ábyrgð á því verkefni. Einnig leiðir Embætti landlæknis hóp um skimun, hegðun og félagsfærni í grunnskólum.

Annað sem kom til umræðu voru biðlistamál, heilsa og líðan eldri borgara.

2. Félagsleg heilsa aldraðra og einmanaleiki

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri á lýðheilsusviði hjá Embætti landlæknis, var með erindi um félagslega heilsu aldraðra og einmanaleika.

Sjá glærur.

3. Tillögur Velferðarvaktar á tímum Covid-19

Samþykkt var að beina því til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, að hafa eftirfarandi áherslur að leiðarljósi í þeim mótvægisaðgerðum sem fram undan eru vegna Covid-19.

  1. Stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, vinni stefnumótun og aðgerðaráætlun gegn fátækt efnalítilla barnafjölskyldna, þ.a. afleiðingar faraldursins verði sem minnstar á börn og ungmenni. Hafa má norsku stefnuna gegn barnafátækt, Like muligheter i oppveksten – Regjeringens samarbeidsstrategi for barn og ungdom i lavinntektsfamilier 2020-2023, til hliðsjónar. Reykjavíkurborg hefur nú þegar hafið slíka vinnu undir fyrirsögninni Aðgerðaráætlun stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra – október 2020.
  2. Hafin verið endurskoðun á lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem skýrslan Framkvæmd fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga – virkni og valdefling frá 2019 verði höfð til hliðsjónar. Þar erm.a. lagt til að skilgreind verði grunnfjárhæð til framfærslu og að heimildargreiðslur verði samræmdar milli sveitarfélaga.
  3. Biðtími eftir afgreiðslu atvinnuleysisbóta, endurhæfingalífeyris og örorkulífeyris er of langur og hefur lengst m.a. vegna aukins álags hjá þeim stofnunum sem að máli koma, innlendum sem erlendum. Kannaðir verði möguleikar á að veita lán frá stofnun þar sem biðtími er,  þ.a. fólk verði ekki tekjulaust á biðtíma. Láni verði breytti í styrk ef réttur til bóta er fyrir hendi að biðtíma loknum.
  4. Unnið verði að því að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika aldraðra sem orðið hefur vegna Covid-19. Eldri borgarar hafa víða þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun m.a. vegna sóttkvíar og innilokunar. Því er mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu og forvarnir sem auka lífsgæði þeirra og draga úr einmanaleika
  5. Aðgengi fólks að upplýsingagjöf um réttindi þeirra í velferðarþjónustu verði bætt.
  6. Hámarksgreiðslur barnabóta, sem nýtast einstæðum foreldrum og tekjulægsta hópnum, verði hækkaðar.
  7. Hagur öryrkja og barna þeirra verði bættur.
  8. Niðurgreiðslur vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar verði auknar.
  9. Börnum sem búa við fjárhagsþrengingar verði tryggðar ókeypis skólamáltíðir.
  10. Skólastjórnendur sjái til þess að aðgengi að viðeigandi tölvubúnaði hamli ekki námi barna.
  11. Unnið verði markvisst að því að draga úr brotthvarf úr námi m.a. með auknu aðgengi að skólaheilsugæslu, geðheilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf.
  12. Biðlistum eftir þjónustu fyrir börn s.s. hjá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð, talmeinafræðingum og bið eftir geðrænni þjónustu hjá heilsugæslu verði útrýmt.
  13. Börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda, fíknivanda og eða langvinna líkamlega sjúkdóma fái aukinn stuðning við hæfi frá nærsamfélaginu með samvinnu skóla, heilsugæslu, þjónustumiðstöðva og barnaverndar. Stuðningur komi meira heim.
  14. Sérstök áhersla verði lögð á þau landssvæði sem verða mest fyrir barðinu á faraldrinum þegar mótvægisaðgerðir eru útfærðar.

Tillögurnar verða sendar á félags- og barnamálaráðherra, heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

4. Rannsókn Félagsvísindastofnunar á fyrirkomulagi matarúthlutana

Ásdís A. Arnalds, verkefnastjóri, hóf kynningu á helstu niðurstöðum rannsóknar Félagsvísindastofnunar sem framkvæmd var fyrir félagsmálaráðuneytið og Velferðarvaktina um fyrirkomulag matarúthlutana og ráðgjafar þar sem meðal annars var kortlagt, í samvinnu við hjálparsamtök, notendur og félagsþjónustu, hvaða hópar eru að sækja þjónustu og hverjir þeirra búa við sérstaklega erfiðar aðstæður. Vegna tæknilegra örðugleika þurfti að slíta fundi fyrr en áætlað var. Ásdís mun koma aftur á næsta fund vaktarinnar með kynninguna.

Ekki meira rætt og fundi slitið/LL.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum