Hoppa yfir valmynd
05.05.1998 Forsætisráðuneytið

Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Fyrsta skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu


Efnisyfirlit



málsgreinar

Inngangur

I. HLUTI
Almennar athugasemdir 1 - 41
II. HLUTI
Upplýsingar varðandi einstök ákvæði í I. hluta samningsins 42 - 157
2. grein 42 - 48
3. grein 49 - 55
4. grein 56 – 66
5. grein 67 – 68
6. grein 69 – 76
7. grein 77 – 82
8. grein 83 – 87
9. grein 88 – 91
10. grein 92 – 103
11. grein 104 – 114
12. og 13. grein 115 – 127
14. grein 128 – 137
15. grein 138 – 145
16. grein 146 - 148

Inngangur


Þann 4. febrúar 1995 var samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984 undirritaður fyrir Íslands hönd með fyrirvara um fullgildingu. Þann 21. október 1996 var aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna afhent fullgildingarskjal Íslands vegna samningsins. Samningurinn öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 22. nóvember 1996.
Skýrsla þessi er unnin í samræmi við 19. gr. samningsins þar sem segir að aðildarríki skuli leggja fyrir nefndina gegn pyndingum, innan árs frá því samningur tók gildi gagnvart þeim, skýrslur um ráðstafanir sem þau hafa gert til að framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt honum. Skýrslan er unnin á vegum dómsmálaráðuneytisins í nóvember og desember 1997. Við gerð hennar var leitað upplýsinga hjá fjölda aðila sem fara með málefni á sviði samningsins. Meðal helstu stofnana sem upplýsingum var safnað frá voru fangelsismálastofnun, ríkissaksóknari, ríkislögreglustjóri, útlendingaeftirlitið, umboðsmaður Alþingis, lögregluskóli ríkisins, heilbrigðisráðuneytið og embætti landlæknis.
Við frágang skýrslunnar var m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningarreglum varðandi skýrslugerð um mannréttindasamninga í handbók Sameinuðu þjóðanna frá 1991. Einnig var byggt á leiðbeiningarreglum nefndarinnar gegn pyndingum frá 18. júni 1991 (CAT/C/4/Rev.2) um frágang skýrslna sem varða samninginn.
Þar sem um ræðir fyrstu skýrslu um framkvæmd samningsins er óhjákvæmilegt er að stór hluti hennar fari í lýsingu á efni íslenskra laga og einstaka lagaákvæða. Í stað þess að þýðingar laga birtist í fylgiskjölum er reynt að draga saman efni þeirra eftir því sem þurfa þykir og lýsa í meginmáli skýrslunnar. Í fylgiskjali I við skýrslu þessa er skýrsla frá 2. mars 1994 til ríkisstjórnar Ísland um heimsókn Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT) til Íslands, en nefndin kom hingað til lands sumarið 1993. Í fylgiskjali II má sjá svör ríkisstjórnar Íslands til fyrrgreindrar nefndar frá 27. september 1994. Í þessum gögnum eru ítarlegar upplýsingar, m.a. um skipan fangelsismála á Íslandi, meðferð og aðbúnað fanga og annarra frelsissviptra manna og fleiri atriði sem varða málefni á sviði samningsins.

I. HLUTI
Almennar athugasemdir.

1. Hér á eftir verður lýst í stórum dráttum stjórnskipan og stjórnarháttum á Íslandi og mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Einnig verður lýst helstu alþjóðlegu mannréttindasamningum sem Ísland er aðild að og hvernig staða þeirra er að íslenskum rétti. Gefið verður yfirlit yfir ákvæði íslenskrar löggjafar sem banna og gera refsiverðar pyndingar og reglna sem hafa það markmið að koma í veg fyrir þær. Loks verður lýst með almennum orðum úrræðum einstaklings sem heldur því fram að hann hafi verið beittur pyndingum. Hvað varðar nánari upplýsingar um land og þjóð má vísa til skjals HRI/CORE/1/Add.26 frá 24. júni 1993.
2. Þess má geta, að í skýrslu þessari verður samningurinn gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu nefndur til styttingar "samningurinn" eða "samningurinn gegn pyndingum".

1. Stjórnskipan og stjórnarhættir á Íslandi.
3. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Forseti lýðveldisins, Alþingismenn og sveitarstjórnir eru kosnar í almennum kosningum á fjögurra ára fresti. Íslenska ríkið fékk fullt sjálfstæði þegar sambandi við Danmörku var slitið árið 1944. Frá því ári er stjórnarskrá landsins en flest ákvæði hennar eru mun eldri og má rekja þau aftur til ársins 1874 þegar landið fékk fyrst stjórnarskrá. Árið 1995 voru gagngerar breytingar og viðbætur gerðar við mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en fram til þess tíma höfðu mannéttindaákvæði stjórnarskrárinnar staðið nánast óbreytt frá fyrstu stjórnarskrá Íslands. Verður efni hinna nýju mannréttindaákvæði lýst nánar hér á eftir. Meginreglan um þrískiptingu ríkisvaldsins er bundin í stjórnarskrána.
Löggjafarvaldið
4. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri, hlutbundinni kosningu til fjögurra ára í átta kjördæmum landsins.
Framkvæmdarvaldið.
5. Ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvalds, hver á sínu sviði en ráðuneyti eru fjórtán. Ráðherrar hafa oftast verið færri eða um tíu talsins, þannig að sumir þeirra fara með fleiri en eitt ráðuneyti. Verkaskipting ráðuneyta er ákveðin með lögum.
6. Umboðsmenn framkvæmdarvaldsins í héraði eru sýslumenn og eru þeir alls 27 í jafn mörgum stjórnsýsluumdæmum. Störf sýslumanna eru margvísleg, þ.á.m. lögreglustjórn, rannsókn afbrota, ákæruvald, tollstjórn, innheimta á tekjum ríkissjóðs, borgaralegar hjónavígslur og útgáfa skilnaðarleyfa, úrskurðir um umgengnisrétt við börn og meðlagsgreiðslur, lögræðismál, þinglýsingar, skráning látinna manna og ýmis afskipti af dánarbúum, fjárnám og aðrar aðfarargerðir, nauðungarsala o.fl. Ágreiningi um störf sýslumanna má í mörgum tilvikum skjóta beint til dómstóla, einkum hvað varðar fullnustugerðir og dánarbússkipti en ella er kæruleið opin innan stjórnsýslunnar til dómsmálaráðuneytisins. Þess má geta að í stærsta stjórnsýsluumdæminu, Reykjavík, er starfandi sérstakur lögreglustjóri, auk sýslumanns, og fer hann með almenna lögreglustjórn, rannsóknir brota og ákæruvald.
7. Ríkislögreglustjóri fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra. Hlutverk ríkislögreglustjóra er að annast margvíslega stjórnsýslu á sviði lögreglumála, svo sem almenn fyrirmæli til lögreglustjóra, tillögur um hagræðingu, samræmingu, framþróun og öryggi í starfsemi lögreglunnar. Ríkislögreglustjóri veitir lögreglustjórum aðstoð og stuðning í lögreglustörfum og annast löggæsluverkefni sem kalla á miðstýringu eða samhæfingu á milli lögreglustjóraembætta. Loks starfrækir ríkislögreglustjóri sérstakar rannsóknardeildir, s.s. deild sem rannsakar skatta- og efnahagsbrot, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum og mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum um brot í starfi. Ríkislögreglustjóri fer með ákæruvald í málum vegna framangreindra brota, að frátöldum málum sem varða brot lögreglumanna í starfa, en í þeim tilvikum er ákæruvald hjá ríkissaksóknara. Ríkislögreglustjóri tók til starfa 1. júlí 1997 með gildistöku nýrra lögreglulaga nr. 90/1996. Á sama tíma var lagt niður embætti rannsóknarlögreglu ríkisins en hlutverk hennar var einkum að annast rannsókn sakamála í Reykjavík og nærliggjandi umdæmum.
8. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Hlutverk hans er að fylgjast með því að þeir sem fremja afbrot verði beittir lögmæltum viðurlögum og hafa eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá lögreglustjórum. Ríkissaksóknari fer með ákæruvald vegna mála um alvarlegustu brot á almennum hegningarlögum, þ.m.t. brota sem opinberir starfsmenn fremja við framkvæmd starfa sinna.
Dómsvaldið.
9. Dómendur fara með dómsvaldið samkvæmt stjórnarskránni. Í landinu eru átta héraðsdómstólar, einn í hverju kjördæmi. Þeir hafa dómsvald í einkamálum og sakamálum, kveða upp gæsluvarðhaldsúrskurði og aðra úrskurði sem þörf er á vegna rannsóknar opinbers máls, úrskurði um gjaldþrotaskipti og leysa úr ágreiningi sem rís vegna starfa sýslumanna við fullnustugerðir. Dómendur skera jafnframt úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Er því unnt að skjóta ákvörðunum stjórnvalda til dómstóla til ógildingar. Byggt er á þeirri meginreglu að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur nær til nema það sé undan lögsögu þeirra skilið samkvæmt lögum, venju eða eðli sínu. Úrlausnum héraðsdómstóla verður skotið til Hæstaréttar Íslands sem er áfrýjunardómstóll fyrir landið allt. Dómum í opinberum málum má skjóta til Hæstaréttar að tilteknum skilyrðum uppfylltum og nokkur skilyrði um lágmarkshagsmuni eru fyrir því að einkamáli verði skotið til Hæstaréttar.
Umboðsmaður Alþingis.
10. Embætti Umboðsmanns Alþingis var stofnað árið 1988 með lögum nr. 82/1988. Umboðsmaður er kosinn af Alþingi og gefur því árlega skýrslu um störf sín, en er að öðru leyti sjálfstæður í störfum sínum. Hlutverk umboðsmanns er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Honum er ætlað að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnsýslunni. Umboðsmaður Alþingis rannsakar stjórnsýslumál eftir kæru eða að eigin frumkvæði. Hver sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum getur borið fram kvörtun við umboðsmann. Ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds með kæru er ekki unnt að kvarta við umboðsmann fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Starfssvið umboðsmanns nær ekki til dómsathafna og ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda sem bera skal undir dómstóla samkvæmd beinum lagafyrirmælum.
11. Umboðsmaður getur krafið stjórnvöld um þær upplýsingar sem hann þarfnast vegna starfs síns, þar á meðal getur hann krafist afhendingar á skýrslum, skjölum, bókunum og öðrum gögnum sem mál varða. Þá á hann frjálsan aðgang að starfsstöðvum stjórnvalda til athugana í þágu starfs síns og skulu starfsmenn láta í té alla nauðsynlega aðstoð af því tilefni. Í niðurstöðum umboðsmanns í einstaka málum gefur hann álit sitt um hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við við lög eða góðum stjórnsýsluháttum. Umboðsmaður getur komið með ábendingar eða tilmæli til stjórnvalda um úrbætur. Álit umboðsmanns er ekki formlega bindandi gagnvart stjórnvöldum t.d. með sama hætti og dómur og hann getur ekki ógilt formlega ákvarðanir stjórnvalda. Hins vegar hefur það mikil áhrif og í reynd er yfirleitt orðið við tilmælum hans og ábendingum.
12. Þess má loks geta að umboðsmaður Alþingis fylgist með því hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrá eða séu haldin öðrum meinbugum, þar á meðal hvort þau samrýmast alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að.

2. Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar.
13. Margvíslegar breytingar og viðbætur voru gerðar við mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995. Voru þessar breytingar taldar löngu tímabærar og voru mannréttindaákvæðin sem þar stóðu fyrir að ýmsu leyti orðin úrelt, enda stóðu þau nánast óbreytt frá árinu 1874. Þau höfðu verið gagnrýnd bæði í innlendri umræðu og á alþjóðlegum vettvangi. Sérstaklega var gagnrýnt að í stjórnarskrána skorti skýr ákvæði um ýmis grundvallarmannréttindi. Þótt almennt væri litið svo á að íslenskir þegnar nytu þessara réttinda í reynd var ekki lengur talið nægilegt að þau væru tryggð í almennri löggjöf eða með óskráðum undirstöðureglum stjórnarskrárinnar. Stjórnarskrárbreytingunum var ætlað að ráða bót á þessu, en samkvæmt þeim var ýmsum nýjum réttindum bætt við þau sem fyrir voru, auk þess sem orðalag sumra eldri ákvæða var gert mun ítarlegra.
14. Réttindi sem bættust í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar eru eftirfarandi, með vísun til greinarnúmera í stjórnarskránni:
- Almenn regla um jafnræði allra fyrir lögunum og að allir skuli njóta mannréttinda (1. mgr. 65. gr.)
- Jöfn réttindi karla og kvenna (2. mgr. 65. gr.)
- Bann við sviptingu íslensks ríkisfangs og réttindi íslenskra ríkisborgara (1. og 2. mgr. 66. gr.)
- Reglur um ferðafrelsi og rétt til að velja dvalarstað (3. og 4. mgr. 66. gr.)
- Bann við pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (1. mgr. 68. gr.)
- Bann við nauðungarvinnu (2. mgr. 68.gr.)
- Bann við afturvirkni refsilaga (1.mgr. 69. gr.)
Bann við lögleiðingu dauðarefsingar (2. mgr. 69. gr.)
- Lágmarksskilyrði fyrir réttlátri málsmeðferð fyrir dómstólum í einkamálum og sakamálum (70. gr.)
- Skylda ríkis til að veita börnum sérstaka lagavernd (3. mgr. 76. gr.)
- Bann við afturvirkni skattalaga (77. gr.)
15. Auk ofangreindra réttinda sem bættust við stjórnarskránna voru ákvæði um önnur réttindi orðuð með mun skýrari hætti og orðalag fært til nútímahorfs. Þar voru m.a. sérstaklega höfð til hliðsjónar ákvæði alþjóðlegra mannréttindasamninga um sama efni, einkum Mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Sem dæmi um réttindi sem sættu gagngerum breytingum að þessu leyti má nefna vernd persónufrelsis (67. gr.), friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu (71. gr.) og skoðana- og tjáningarfrelsi (73. gr.).
16. Önnur réttindi sem íslenska stjórnarskráin verndar eru trúfrelsi (63. og 64. gr.), friðhelgi eignarréttarins (72. gr.), félaga- og fundafrelsi (74. gr.), atvinnufrelsi og réttur manna til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu (75. gr.), réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku o.fl. (1.mgr. 76. gr.), réttur til menntunar (2. mgr. 76. gr.) og réttindi barna (3. mgr. 76. gr.).
17. Stjórnarskráin er æðsta réttarheimild íslensks réttar. Íslenskir dómstólar hafa talið sér heimilt að meta hvort lög eru að efni til andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar, þótt þetta endurskoðunarvald þeirra sé ekki berum orðum tekið fram í sjálfri stjórnarskránni. Telji dómstólar að lagaákvæði brjóti í bága við mannréttindaákvæði í stjórnarskránni virða þeir slíkt lagaákvæði að vettugi í dómum sínum og beita ákvæðinu ekki. Eru allmörg dæmi um slíkar niðurstöður úr íslenskri dómaframkvæmd. Hins vegar hafa íslenskir dómstólar ekki heimild til að fella lög formlega úr gildi þótt þau séu talin andstæð stjórnarskránni.

3. Alþjóðlegir mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að og staða þeirra í íslenskum rétti.
18. Ísland er aðili að fjölda mannréttindasamninga sem gerðir hafa verið á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins. Hér á eftir verða taldir nokkrir helstu mannréttindasamningar sem Ísland er aðili að á þessu sviði auk samnings Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum sem skýrsla þessi fjallar um. Í sviga er tilgreint ártal þegar samningur tók gildi gagnvart Íslandi.
Samningar á vegum Sameinuðu þjóðanna
* Samningur um afnám alls kynþáttamisréttis frá 1965 (1967). Ísland hefur gefið yfirlýsingu skv. 14. gr. samningsins um kæruleið einstaklinga vegna brota á samningnum til nefndar sem starfar samkvæmt honum.
*. Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 (1979). Ísland hefur samþykkt valfrjálsa bókun við samninginn um kæruleið einstaklinga vegna brota á samningnum til nefndar sem starfar samkvæmt honum og 2. valfrjálsa bókun um afnám dauðarefsingar.
* Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966 (1979).
* Samningur um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1979 (1985) .
* Samningur um réttindi barnsins frá 1989 (1992).
Samningar á vegum Evrópuráðsins
* Mannréttindasáttmáli Evrópu frá 1950 (1953) og 1., 4. 6. og 7. viðauki við sáttmálann sem bæta við efnisréttindum.
* Félagsmálasáttmáli Evrópu frá 1961 (1976).
* Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 1987 (1990).
19. Ísland tilheyrir þeim flokki ríkja sem aðhyllast kenninguna um tvíeðli (dualisma) landsréttar og þjóðaréttar. Af þeim sökum verða ákvæði alþjóðlegs mannréttindasamnings sem Ísland hefur fullgilt ekki gild lög í landinu nema sérstakar aðgerðir löggjafarvaldsins komi til. Ef leiða á ákvæði mannréttindasamnings inn í löggjöf þannig að hægt sé að byggja rétt beinlínis á ákvæðum hans fyrir dómstólum, þarf að lögfesta þau sérstaklega.
20. Íslenska ríkið hefur almennt litið svo á að íslensk löggjöf væri í samræmi við ákvæði þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga sem það er aðili að. Meginaðferðin við að koma ákvæðum mannréttindasamninga í framkvæmd hefur verið fólgin í því að laga íslenska löggjöf að ákvæðum samninganna. Jafnframt hafa dómstólar túlkað ákvæði íslenskra laga í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar um vernd mannréttinda. Að þessu leyti eru ákvæði mannréttindasamninga ótvíræð lögskýringargögn í íslenskum landsrétti, en engu að síður víkjandi réttarheimild ef íslensk lög stangast beinlínis á við þau. Frá síðustu áratugum finnast nokkur dæmi þess að dómstólar hafi þurft að láta Mannréttindasáttmála Evrópu víkja fyrir íslenskum lögum sem stönguðust á við ákvæði sáttmálans. Til að koma í veg fyrir slíkt misræmi landsréttar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu var sáttmálinn lögfestur í heild sinni með lögum nr. 62/1994. Er þetta í fyrsta og eina skiptið sem alþjóðlegur mannréttindasamningur hefur verið lögfestur hér á landi með þessum hætti.
21. Áhrif alþjóðlegra mannréttindasamninga á íslenskt réttarfar og beitingu stjórnarskrárákvæða um mannréttindi hafa aukist umtalsvert frá því Ísland gerðist aðili að þeim og þá sérstaklega á síðasta áratug. Hefur hlutverk þeirra við skýringu á íslenskum lögum aukist verulega. Breytingarnar sem gerðar voru á stjórnarskránni með stjskl. nr. 97/1995 má meðal annars rekja til þessara áhrifa. Vegna misræmis sem reynslan sýndi að gat skapast milli Mannréttindasáttmála Evrópu og íslenskrar löggjafar þótti nauðsynlegt að lögfesta sáttmálann sérstaklega, eins og áður er getið. Hefur athygli manna og opinber umræða í æ ríkara mæli beinst að því hvort íslenska ríkið hefur uppfyllt samningsskuldbindingar sínar samkvæmt öðrum alþjóðasamningum. Að svo stöddu er þó ekki fyrirhugað að lögfesta fleiri alþjóðlega mannréttindasamninga í heild sinni. Þess má geta að allir helstu ofangreindra mannréttindasamninga eru birtir í opinberri útgáfu á lagasafni sem gefið er út reglulega af dómsmálaráðuneytinu, en þar eru að öðru jöfn aðeins birt sett lög.
22. Eins og áður er nefnt taka hin nýju mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar að mörgu leyti mið af ákvæðum alþjóðlegra mannréttindasamninga. Ákvæði stjórnarskrárinnar eru þó eftir sem áður ekki jafn efnismikil og ákvæði þessara samninga, þar eru fyrst og fremst lagðar ákveðnar meginreglur. Hafa verður í huga að þessar grundvallarreglur hvíla á mun breiðari grunni, sem meðal annars birtist í hinum ítarlegu reglum alþjóðlegra mannréttindasamninga sem íslenska ríkið á aðild að. Í stjórnarskránni eru nú talin öll helstu grundvallarréttindi sem þessum samningum er ætlað að tryggja Samningarnir gegna nú enn mikilvægari hlutverki en áður við nánari skýringu á efni þessara réttinda.

4. Íslensk löggjöf um bann við pyndingum.
23. Á undanförnum áratug hefur íslensk löggjöf á sviði réttarfars og löggæslumála tekið stórfelldum breytingum. Í nýrri löggjöf á þessu sviði hefur í ríkari mæli en áður verið tekið tillit til alþjóðlegra skuldbindinga um mannréttindi, þ.m.t. um vernd gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
24. Íslensk löggjöf þar sem lagt er bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð er í meginatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi er lagt bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Í öðru lagi er sambærilegt bann í 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, en ákvæði sáttmálans njóta lagagildis eftir lögfestingu hans með lögum nr. 62/1994. Gildissvið þessara tveggja framangreindra ákvæði sem eru samhljóða, er nokkuð víðtækara heldur en leiða má af 1. gr. samningins gegn pyndingum, þar sem þau eru ekki bundin við að pyndingar séu framdar fyrir tilstilli opinbers starfsmanns eða annars handhafa opinbers valds heldur gilda þau á öllum sviðum.
25. Í þriðja lagi eru refsiákvæði í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 þar sem pyndingar eru gerðar refsiverðar. Ef opinber starfsmaður fremur líkamlegar pyndingar varðar brot hans við refsiákvæði um líkamsárásir í 217. og 218. gr. eftir því hversu alvarleg líkamsárás er. Í XIV. kafla laganna eru sérrefsiákvæði vegna brota í opinberu starfi, og eiga 131., 132., 134. og 135. gr. einkum við háttsemi sem lýst er í 1. gr. samningsins. Yrði þeim venjulega beitt samhliða refsingu fyrir líkamsárás, þegar líkamlegar pyndingar eru annar vegar. Ef ekki er um líkamlegar pyndingar að ræða veita þessi ákvæði, ein sér, heimild til að refsa opinberum starfsmanni fyrir andlegar pyndingar. Framangreind refsiákvæði ná tvímælalaust til allrar þeirrar háttsemi sem lýst er í 1. gr. samningsins gegn pyndingum, þótt hugtakið pyndingar sé ekki orðað sem slíkt. Auk þess ganga ákvæðin að ýmsu leyti lengra en skilgreining 1. gr. samningsins gegn pyndingum þar sem þau gera refsiverða misnotkun opinbers valds af öllu tagi en ekki aðeins misnotkun valds í þeim tilgangi sem lýst er í 1. gr. samningsins. Þess má loks geta að ásetningur er ekki alltaf skilyrði þess að unnt sé að refsa fyrir brot á þessum ákvæðum, því einnig er unnt að refsa fyrir brot framin af stórfelldu gáleysi. Efni framangreindra lagaákvæða verður nánar lýst í umfjöllun um 2. og 4. gr. samningsins gegn pyndingum.
26. Auk framangreindra lagaákvæða um brot í opinberu starfi eru líkamlegar pyndingar vitanlega refsiverðar samkvæmt fjölmörgum ákvæðum refsilaga þótt hugtakið pyndingar sé ekki notað þar. Almennt má segja að í öllum ákvæðum almennra hegningarlaga, þar sem ásetningsverknaðir, gegn lífi og limum einstaklinga eru gerðir refsiverðir, sé í reynd verið að gera líkamlegar pyndingar refsiverðar. Til viðbótar áðurgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga um líkamsárásir í 217. og 218. gr. má sem dæmi nefna 225. gr. um ólögmæta nauðung, 226. gr. um að svipta mann frelsi og ýmis ákvæði XXII. kafla laganna um kynferðisbrot.
27. Ýmis ákvæði íslenskrar löggjafar, einkum laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, vernda rétt handtekinna manna og gæslufanga í tengslum við lögreglurannsókn á sakamálum. Þau stefna sérstaklega að því að koma í veg fyrir að pyndingar eigi sér stað og ekki verði gengið of langt til þess að játning frelsissviptra manna verði fengin eða að handhafar opinbers valds geti þvingað þá til að gefa upplýsingar í þágu rannsóknar opinbers máls. Í 2. mgr. 69. gr. oml. og reglugerð um um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu nr. 395/1997 eru settar reglur um hámarkstíma sem yfirheyrsla má standa yfir sakborningi, en samkvæmt því má ekki prófa mann lengur en sex klukkustundir í einu, enda fái hann að öðru leyti nægilegan svefn og hvíld. Einnig tryggir 2. mgr. 42. gr. oml. að verjanda sé alltaf heimilt að vera viðstaddur þegar sakborningur er yfirheyrður. Í reglugerð um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992 eru ítarlegri reglur um tilhögun yfirheyrslna og meðferð gæslufanga. Þessum reglum verður nánar lýst í umfjöllun um 11. gr. samningsins.
28. Í lögum um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 eru almennar reglur um meðferð afplánunarfanga, t.d. hvaða réttinda þeir njóta í fangavistinni og að hvaða marki skylt er að taka tillit til sérstakra þarfa þeirra ef þeir eiga við andlega eða líkamlega fötlun að stríða. Einnig eru settar skýrar reglur um agaviðurlög og skilyrði þess að menn sæti einangrunarvist. Réttindum afplánunarfanga verður nánar lýst í umfjöllun um 11. gr. samningsins.
29. Vegna aðildar Íslands að Evrópusamningnum um varnir gegn pyndingum frá árinu 1990 voru sett sérstök lög, nr. 15/1990. Þar eru reglur um hvernig íslenskum stjórnvöldum ber að aðstoða nefnd sem starfar samkvæmt samningnum við athugun sína á aðstæðum frelsissviptra manna hér á landi. Nefndin kom hingað til lands sumarið 1993 og heimsótti nokkur fangelsi og lögreglustöðvar til að rannsaka aðstæður fanga og leita vísbendinga um hvort pyndingar ættu sér stað eða þeir sættu ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Í niðurstöðum hennar kom m.a. fram að hún hefði engar vísbendingar fengið í heimsókn sinni um að fangar sættu pyndingum eða ómannúðlegri meðferð. Hins vegar gerði hún ýmsar athugasemdir við lélegt ástand sumra gæslustaða sem hún heimsótti. Hafa margvíslegar úrbætur verið gerðar í fangelsismálum frá því nefndin kom hingað til lands. Meðal annars hefur nýtt fangelsi verið byggt og gæsluvarðhaldsfangelsi sem nefndin taldi að væri óviðunandi gæslustaður hefur verið lagt niður. Fyrirhugað er að nefndin heimsæki Ísland aftur á fyrri hluta ársins 1998.
30. Dauðarefsing og líkamlegar refsingar eru löngu afnumdar úr íslenskri löggjöf. Í 2. mgr. 69. gr. stjskr. er lagt bann við lögleiðingu dauðarefsingar. Þær refsitegundir sem heimilar eru samkvæmt íslenskri löggjöf eru einvörðungu sektargreiðslur og refsivist. Refsivist er tvíþætt, þ.e. fangelsi eða varðhald. Í reynd er enginn munur á afplánun þessara tveggja tegunda refsivistar en varðhald stendur venjulega í skemmri tíma. Kemur ekki til álita að maður verði dæmdur til refsingar samkvæmt íslenskum lögum sem í felast pyndingar eða að refsing teljist vera grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi.
31. Íslensk löggjöf veitir ekki aðeins úrræði til þess að vernda menn sem eru sviptir frelsi vegna gruns um refsiverða háttsemi eða vegna afplánun refsidóms, gegn pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð. Álitið er að hætta á slíkri meðferð geti ekki aðeins skapast í fangelsum, heldur ekki síður gagnvart mönnum, sem hafa verið sviptir frelsi vegna andlegrar vanheilsu og er haldið nauðugum á sjúkrahúsi, eða ósakhæfum ungmennum sem er haldið nauðugum á unglingaheimili svo dæmi séu tekin. Er einnig haft í huga að slík hætta geti almennt skapast þar sem einstaklingur er settur undir boðvald annars eða er háður öðrum vegna viðkvæmrar stöðu sinnar. Getur komið til álita í þessu sambandi meðferð barna á heimili eða í skólum og meðferð sjúklinga á sjúkrahúsum svo dæmi séu tekin.Í löggjöf er að nokkru leyti brugðist við þessu með sérstökum verndarákvæðum sem taka til þessara aðstæðna til að koma í veg fyrir grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð. Í 63. gr. laga um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 er lögð refsing við því að sá sem hefur barn eða ungmenni í sinni umsjá misþyrmi því eða misbjóði andlega eða líkamlega eða vanræki það þannig að lífi þess og heilsu sé hætta búin. Einnig er refsivert skv. 64. gr. að beita barn eða ungmenni refsingum, hótunum eða ógnunum sem ætla má að skaði það andlega eða líkamlega. Í 2. mgr. 53. gr. laganna sem fjallar um eftirlit með heimilum og stofnunum fyrir börn og ungmenni, er lagt bann við líkamlegum og andlegum refsingum. Sjúklingar njóta einnig sérstakrar lagaverndar gegn grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, m.a. samkvæmt ákvæðum laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Þar er til dæmis fjallað sérstaklega um rétt sjúklings til þess að neita læknismeðferð, sbr. 7. gr. laganna og skv. 10.gr. verður skriflegt samþykki sjúklings að liggja fyrir ef hann tekur þátt í vísindarannsóknum, svo sem tilraunum á nýjum lyfjum.

5. Úrræði og úrlausnarvald um hvort pyndingar hafi átt sér stað.
32.Ef maður heldur því fram að hann hafi verið beittur pyndingum af hálfu opinbers starfsmanns eins og skilgreint er í 1. gr. samningsins, veita íslensk lög úrræði til þess slík mál verði rannsökuð og höfðað refsimál gegn þeim sem fremur slíkan verknað. Hér verður þessum úrræðum og úrlausnarvaldi í slíkum málum lýst með almennum orðum, en nánari frásögn af þeim svo og tölfræðiupplýsingar um fjölda mála o.fl. verður í umfjöllun um 12. og 13. gr. samningsins.
Kæra til lögreglu og höfðun refsimáls fyrir dómstólum.
33. Í lögreglulögum nr. 90/1996 er kveðið á um hvernig fer um kæru gagnvart lögreglumanni fyrir ætlað refsivert brot í starfi. Fyrir gildistöku laganna 1. júlí 1997 voru reglur um meðferð slíkra kæra ólögfestar. Markmið með lögfestingu reglna um meðferð slíkra kærumála var að tryggja að mál hljóti vandaða og óhlutdræga rannsóknarmeðferð frá upphafi. Í 35. gr. lögreglulaganna segir að berist kæra á hendur lögreglumanni fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans eða vakni grunur um slík brot, skal lögreglustjóri þegar í stað tilkynna ríkissaksóknara um ætluð brot. Embætti ríkislögreglustjóra starfrækir sérstaka rannsóknardeild þar sem m.a. eru rannsökuð öll mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum vegna brots í starfi. Ríkissaksóknari stjórnar rannsókn slíks máls, en ekki ríkislögreglustjóri, svo sem á við um önnur brot sem rannsökuð eru hjá embætti hans. Ef rannsókn leiðir í ljós að háttsemi lögreglumanns sé líkleg til sakfellingar, höfðar ríkissakssóknari mál gegn honum fyrir dómstólunum. Á meðan kæra um meint brot lögreglumanns í starfi er til rannsóknar fær lögreglumaðurinn lausn frá starfi um stundarsakir. Það veltur síðan á niðurstöðu rannsóknarinnar og hvort refsimál er höfðað, hvort lögreglumaðurinn fær áminningu frá yfirmanni sínum sem er viðkomandi lögreglustjóri eða frávikningu úr starfi.
34. Ef fangi heldur því fram að fangavörður hafi beitt hann pyndingum, getur hann kvartað við yfirmann viðkomandi fangelsis eða til fangelsismálastofnunar sem fer með yfirstjórn fangelsismála í landinu eða sent kæru þess efnis beint til lögreglustjóra þess umdæmis þar sem fangelsið er staðsett. Berist fangelsismálastjóra, sem er forstöðumaður fangelsismálastofnunar, vitneskja um pyndingar eða annað harðræði af hálfu fangavarðar, getur hann með sama hætti lagt fram kæru hjá lögreglustjóra vegna meints brots fangavarðar í starfi. Feli háttsemi fangavarðar ekki sér pyndingar, en sé engu að síður óviðurkvæmileg gagnvart fanga, getur yfirmaður fangelsis veitt viðkomandi fangaverði áminningu sem getur verið undanfari brottvikningar. Fangaverði verður veitt lausn frá starfi um stundarsakir á meðan opinber rannsókn fer fram á því hvort hann hafi framið refsivert brot gagnvart fanga.


Umboðsmaður Alþingis
35. Unnt er að senda kæru um pyndingar, eða aðra grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð sem opinber starfsmaður hefur beitt við framkvæmd starfa sinna til umboðsmanns Alþingis. Þó er skilyrði þess að umboðsmaður taki kæru til meðferðar að umræddar athafnir stjórnvalds verði ekki bornar undir dómstóla samkvæmt beinum lagafyrirmælum.
Mannréttindanefnd og Mannréttindadómstóll Evrópu
36. Íslenska ríkið hefur samþykkt vald Mannréttindanefndar Evrópu skv. 25. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu til þess að taka við kærum frá einstaklingum um að brotið hafi verið gegn réttindum þeirra samkvæmt sáttmálanum. Íslenska ríkið hefur einnig samþykkt lögsögu Mannréttindadómstóls Evrópu. Íslenskum stjórnvöldum er ekki kunnugt um að íslenska ríkið hafi verið kært til Mannréttindanefndarinnar fyrir brot á 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Mannréttindanefnd alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
37. Íslenska ríkið hefur fullgilt valfrjálsa bókun við alþjóðasamning um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi um lögbærni nefndar sem starfar samkvæmt samningnum til þess að taka við kærum frá einstaklingum um brot á samningnum. Íslenskum stjórnvöldum er ekki kunnugt um að íslenska ríkið hafi verið kært til nefndarinnar fyrir brot á 7. gr. samningsins um bann við pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

6. Ýmsar upplýsingar um fangelsi og fangavist á Íslandi.
38. Í lok almennra athugasemda skýrslu þessarar má til hagræðis gefa stutt yfirlit um heimildir til frelsissviptingar vegna gruns um refsiverða háttsemi og fangelsi og fanga á Íslandi, í ljósi þess að á þessu sviði reynir helst á sérstakar verndarráðstafanir til að koma í veg fyrir pyndingar.
39. Samkvæmt 2. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar skal leiða hvern þann sem handtekinn er vegna gruns um refsiverða háttsemi án undandráttar fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Í framkvæmd gildir nú undantekningarlaust sú regla að leiða verður mann fyrir dómara innan eins sólarhrings frá handtöku og er hann fram til þess tíma vistaður í fangageymslu lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi. Þegar maður er leiddur fyrir dómara er venja að dómari ákveði í sama þinghaldi með rökstuddum úrskurði hvort maður skuli látinn laus eða skuli sæta gæsluvarðhaldsvist, en ella verður að kveða upp slíkan úrskurð innan sólarhrings. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem varðar fangelsisrefsingu. Í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 eru ítarlegar reglur um skilyrði gæsluvarðhalds að öðru leyti og m.a. er áskilið í 2. mgr. 105. gr laganna að gæsluvarðhaldi verði alltaf að marka ákveðinn tíma. Samkvæmt 3. mgr. 108. gr. er gæsluvarðhaldsfanga ávallt heimilt að bera atriði sem varða gæsluvarðhaldsvistina undir dómara. Nánari reglur um meðferð gæsluvarðhaldsfanga eru í reglugerð um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992.
40. Samkvæmt 3. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988, skiptast íslensk fangelsi í afplánunarfangelsi og gæsluvarðhaldsfangelsi. Í afplánunarfangelsum vistast þeir sem afplána refsidóma. Í gæsluvarðahaldsfangelsum vistast þeir sem hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli laga um meðferð opinberra mála vegna rannsóknar opinbers máls. Heildarfjöldi fangaplássa í íslenskum fangelsum er 138 pláss. Til upplýsingar um fjölda fanga undanfarin 4 ár má sjá eftirfarandi tölur: Tölurnar miðast við meðaltalsfjölda fanga á dag. Í sviga er getið fanga sem afplána refsingu utan fangelsis, t.d. á sjúkrahúsi eða á meðferðarstofnun vegna áfengis- eða fíkniefnavanda.
Afplánunarfangar Gæsluvarðhaldsfangar
1994 102 (2) 4
1995 107 (6) 4
1996 118 (14) 6
1997 (-1.des.) 101 (12) 12
41. Á síðustu fimm árum hafa margvíslegar umbætur verið gerðar á íslenskum fangelsum. Í fylgiskjali I við skýrslu þessa er skýrsla frá 2. mars 1994 til ríkisstjórnar Ísland um heimsókn Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT) til Íslands, en nefndin kom hingað til lands sumarið 1993. Í fylgiskjali II má sjá svör ríkisstjórnar Íslands til fyrrgreindrar nefndar frá 27. september 1994. Í þessum gögnum eru ítarlegri upplýsingar um skipan fangelsismála á Íslandi, meðferð fanga og úrræði þeirra ef þeir telja að þeir hafi verið beittir pyndingum eða öðru harðræði af lögreglu eða fangavörðum.

II. HLUTI
Upplýsingar varðandi einstök ákvæði í I. hluta samningsins.
2. grein.
42.Eins og áður var nefnt kveður 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar á um að engan megi beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Bann þetta er fortakslaust og engar undantekningar eru þannig heimilar frá því. Ákvæði þetta er sambærilegt 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1984.
43. Hugtakið pyndingar er ekki skilgreint frekar í íslenskri löggjöf. Með hliðsjón af viðtekinni túlkun á 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu á hugtakinu pyndingar þá verður hin ítarlega skilgreining 1. gr. samningsins gegn pyndingum lögð til grundvallar í þeim efnum.
44. Í stjórnarskránni er ekki sérstakt ákvæði sem heimilar að víkja frá mannréttindaákvæðum hennar vegna sérstakra aðstæðna svo sem ófriðarástands, ófriðarhættu, ótryggs stjórnmálaástands innanlands eða nokkurs annars almenns neyðarástands. Aldrei hefur reynt á að víkja þurfi frá mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar vegna neyðarástands hér á landi, hvorki á ófriðartímum né öðrum tímum. Ljóst er að skapist þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr. 2. gr. samningsins gegn pyndingum, tryggir 2. mgr. 15. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, að aldrei er hægt að réttlæta frávik frá grundvallarreglunni um bann við pyndingum. Einnig má benda á að íslenska ríkið er bundið af sambærilegri reglu í 2. mgr. 4. gr. alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi, þess efnis að engar aðstæður geti réttlætt frávik frá banni við pyndingum í 7. gr. samningsins.
45. Margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar á sviði löggjafar, stjórnsýslu og réttarvörslu til þess að koma í veg fyrir pyndingar. Segja má að þessar ráðstafanir séu margþættar, en þeim verður nánar lýst í umfjöllun um eftirfarandi ákvæði samningsins gegn pyndingum. Af þessum ráðstöfunum má þó sérstaklega nefna setningu löggjafar sem bannar pyndingar af öllu tagi svo og aðra ómannúðlega, grimmilega eða vanvirðandi meðferð og refsingu. Pyndingar eru gerðar refsiverðar í íslenskri löggjöf og sérstakar refsireglur gilda á sviði réttarvörslunnar þegar opinberir starfsmenn eiga í hlut. Þessum reglum verður ítarlega lýst í umfjöllun um 4. gr. samningsins.
46. Í öðru lagi má benda á reglur almennra hegningarlaga sem gera kleift að saksækja mann fyrir brot sem lýst er í 1. gr. samningsins gegn pyndingum. Samkvæmt íslenskri löggjöf er nú unnt að saksækja mann fyrir íslenskum dómstólum fyrir slík brot, án tillits til þess hvar slíkt brot er framið og hvert er ríkisfang þess sem grunaður er um slíka háttsemi. Verður þessum reglum nánar lýst í umfjöllun um 5. gr. samningsins.
47. Í þriðja lagi má nefna ráðstafanir sem miða sérstaklega að því að koma í veg fyrir pyndingar. Þar má nefna reglur um yfirheyrslur og meðferð handtekinna manna, fanga og annarra frelsissviptra manna sem veita opinberum starfsmönnum á þessu sviði sérstakt aðhald í störfum sínum. Í því sambandi er einnig mikilvægt að nefna fræðslu um bann við pyndingum til starfsmanna á þessu sviði sem er liður í menntun þeirra og faglegar kröfur sem gerðar eru til þessara starfsmanna. Ráðstöfunum sem gerðar hafa verið í þessu skyni verður nánar lýst í umfjöllun um 10. og 11. gr. samningsins.
48. Refsilöggjöf veitir engar heimildir til þess að unnt sé að komast undan refsingu með því að vísa til fyrirmæla yfirboðara eða stjórnvalds til réttlætingar pyndingum. Það er meginregla íslensks refsiréttar að refsing sé persónuleg og byggð á sök manns. Ef maður fremur þá háttsemi sem lýst er í 1. gr. samningsins gegn pyndingum verður honum refsað fyrir þá háttsemi án tillits til þess hvort hann fékk skipun yfirboðara um að fremja hana eða ekki. Almenn hegningarlög veita að auki veitt heimild til þess að refsa yfirboðara sem gefur undirmanni sínum fyrirmæli um að beita pyndingum, þótt hann fremji verknaðinn ekki sjálfur. Í reynd eru slík fyrirmæli litin sérstaklega alvarlegum augum. Þannig segir í 135. gr. laganna að ef opinber starfsmaður tekur þátt í broti annars opinbers starfsmanns sem er undirmaður hans, eða leitast við að koma honum til að fremja slíkt brot, þá skal hann sæta þeirri refsingu sem við brotinu liggur en þó svo aukinni að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.
3. grein.
49.Íslensk löggjöf tryggir að maður verði ekki framseldur eða endursendur til annars ríkis ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum. Fyrirmæli þessa efnis er einkum að finna í lögum framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965. Sérstök lög nr. 7/1962 gilda um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnland, Noregs og Svíþjóðar.
50. Samkvæmt lögunum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann til ríkis þar sem hann er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Lögin setja þó ýmsa fyrirvara við þessa meginreglu. Samkvæmt 3. gr. laganna er framsal á manni þannig aðeins heimilt ef verknaður getur varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmd íslenskum lögum. Í 5. gr. laganna er lagt bann við framsali vegna stjórnmálaafbrota. Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að framselja mann ef veruleg hætta er á að hann eftir framsal vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar, stjórnmálaskoðana eða að öðru leyti vegna stjórnmálaaðstæðna verði að sæta ofríki eða ofsóknum sem beinist gegn lífi hans eða frelsi eða er að öðru leyti alvarlegs eðlis. Þá heimilar 7. gr. laganna að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður.
51. Dómsmálaráðuneytið tekur við beiðni frá erlendu ríki um framsal og eru nánari reglur um málsmeðferð slíkra beiðna í 13.-18. gr. laganna. Telji dómsmálaráðuneytið, á grundvelli framsalsbeiðni og þeim upplýsingum sem henni fylgja, að hafna beri beiðninni þá þegar, skal það gert. Sé beiðninni ekki hafnað strax hjá dómsmálaráðuneytinu, ber að senda ríkissaksóknara beiðnina og ber honum að sjá til þess að nauðsynleg rannsókn fari strax fram. Maður sem óskast framseldur getur krafist úrskurðar dómstóla um hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Ríkissaksóknari skal, jafnframt því sem hann tilkynnir manni um framsalsbeiðnina og rök fyrir henni, láta hann vita um rétt sinn til að bera málið undir dómstóla og að hann eigi þess kost að fá sér skipaðan réttargæslumann. Laun slíks réttargæslumanns og annar sakarkostnaður eru greidd úr ríkissjóði.
52. Samkvæmt framangreindum reglum getur dómstóll metið hvort lagaskilyrði um framsal eru uppfyllt ef viðkomandi maður sem á að framselja krefst þess. Dómstóllinn metur þá m.a. hvort framangreindar 6. og 7. gr. laganna hindra að framsal geti átt sér stað. Ef veruleg ástæða er til að ætla að maður muni sæta pyndingum í landi sem hann verður framseldur til, eru lagaskilyrði ekki uppfyllt og dómstóll synjar þá um framsal.
53. Nýlega reyndi í fyrsta skipti á tilvik af þessu tagi fyrir íslenskum dómstólum, en með dómi Hæstaréttar frá 17. október 1997 var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem neitað var um framsal hjóna til Bandaríkjanna. Í máli þessu höfðu bandarísk stjórnvöld krafist framsals þeirra vegna refsimáls sem höfðað hafði verið gegn þeim í Bandaríkjunum. Hjónin mótmæltu framsalskröfunni og lögðu fram ítarleg gögn fyrir dómi sem sýndu m.a. fram á að veruleg hætta væri á að þau fengju ekki réttláta málsmeðferð við rekstur sakamálsins fyrir dómstólum í Arizona fylki í Bandaríkjunum. Verulegar líkur væru einnig á að þau myndu sæta ómannúðlegri meðferð með því að vera flutt í járnum til áfangastaðar eftir reglum sem giltu um fangaflutninga í Bandaríkjunum og verða vistuð í gæsluvarðahaldi fangelsi í Maricopasýslu í Arizona. Sýnt var fram á að aðstæður í því fangelsi væru ómannúðlegar og vanvirðandi og ákvörðun íslenska ríkisins um að framselja þau bryti því gegn rétti þeirra samkvæmt 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hæstiréttur féllst á að lagaskilyrði til framsals hjónanna væru ekki uppfyllt og að stjórnvöldum bæri að gæta meðalhófsreglu í ákvörðunum sínum um framsal, m.a. að leita samninga við bandarísk stjórnvöld um að hjónin gætu farið sjálfviljug til Bandaríkjanna og unnt væri að setja tryggingu í stað gæsluvarðhaldsvistar á meðan mál þeirra væri rekið fyrir dómstól í Arizona. Hjónin sem mál þetta fjallaði um dvelja enn á Íslandi en dvalarleyfi þeirra hér á landi er þó útrunnið. Þegar þetta er ritað hefur ekki verið ákveðið hvort þeim verður vísað úr landi.
54. Heimildir til að synja útlendingum um landgöngu og vísa útlendingum úr landi eru í lögum um eftirlit með útlendingum nr. 45/1965. Ísland er aðili að samningi um réttarstöðu flóttamanna frá 1951 og viðauka við hann frá 1967. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. laganna er óheimilt að meina útlendingi landgöngu er hann ber að hann hafi orðið að leita sér hælis sem pólitískur flóttamaður enda teljist framburður hans sennilegur. Er hugtakið flóttamaður hér skýrt með hliðsjón af skilgreiningu 1. gr. flóttamannasamningsins. Sérstök stofnun, Útlendingaeftirlitið, úrskurðar um beiðni manns til að fá hæli hér á landi sem flóttamaður. Unnt er að kæra úrskurð Útlendingaeftirlitsins til dómsmálaráðuneytisins og er skylt að leiðbeina útlendingi um slíkan kærurétt. Nánari reglur um málsmeðferð slíkra mála eru í lögunum um eftirlit með útlendingum svo og í almennum reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar er m.a. mælt fyrir um andmælarétt útlendings til að koma að gögnum í máli sínu. Á síðustu árum fimm árum eru ekki dæmi um að fallist hafi verið á umsókn um hæli hér á landi, þ.e. að umsækjandi teljist flóttamaður í skilningi flóttamannasamningsins, en umsóknir um slíkt hafa verið tiltölulega fáar. Algengt er að mönnum sé snúið til baka til þeirra landa sem þeir komu frá, einkum Norðurlandanna, og þar séu hælisumsóknir þeirra til meðferðar hjá stjórnvöldum. Hins vegar eru nokkur dæmi þess að útlendingi sem sækir um hæli hafi verið veitt dvalarleyfi, t.d. vegna aðstæðna í heimalandi hans, sem réttlæta þó ekki að maður verði skilgreindur sem flóttamaður. Hér á eftir eru tölur frá síðustu fimm árum um umsóknir um hæli hér á landi og lýst er afgreiðslu sem slíkar umsóknir hlutu:

hælisumsóknir veitt dvalarleyfi sendir til baka
1992 3 0 3 sendir til baka til Noregs.
1993 7 3 2 sendir til Noregs, 2 til Svíþjóðar.
1994 0 - -
1995 4 4 -
1996 4 1 1 sendur til Noregs, 2 til Danmerkur.

55. Þess má geta að í þremur ofangreindra tilvika (1 frá 1995 og 2 frá 1996) nýttu umsækjendur rétt til þess kæra úrskurð útlendingaeftirlitsins um synjun hælis til dómsmálaráðuneytisins. Tveir þessara úrskurða voru staðfestir, en í einu tilviki var fallist á dvalarleyfi. Vert er að árétta að umræddur málskotsréttur var fyrst lögfestur í árslok 1993, en fyrir þann tíma voru slíkar ákvarðanir ekki kæranlegar.
4. grein.
56.Íslensk stjórnvöld telja að í íslenskum lögum séu fullnægjandi refsiákvæði um pyndingar, bæði líkamlegar og andlegar, sem lýst er í 1. gr. samningsins. Hér verður gerð nánari grein fyrir efni þeirra refsiákvæða sem þegar hafa verið nefnd, sem lýsa háttsemi sem felur í sér pyndingar refsiverðan verknað.
57. Hugtakið pyndingar er ekki notað í íslenskri refsilöggjöf. Íslensk refsilöggjöf byggir á meginstefnu á þeirri reglu að þar er refsing lögð við tiltekinni háttsemi eða verknað og afleiðing háttseminnar eða verknaðarins getur ráðið því hvaða refsiákvæðum er beitt. Líkamlegar pyndingar eru refsiverðar samkvæmt fjölmörgum ákvæðum almennra hegningarlaga. Segja má að í öllum ákvæðum laganna þar sem ásetningsverknaðir gegn lífi og limum einstaklingar eru gerðir refsiverðir séu ákvæði sem geri líkamlegar pyndingar refsiverðar. Í 217. gr. laganna er kveðið á um minniháttar líkamsárás, en slík brot varða sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í 218. gr. laganna er meiriháttar líkamsárás gerð refsiverð. Þar segir að hafi maður með vísvitandi líkamsárás valdið öðrum manni tjón á líkama eða heilbrigði og þessar afleiðingar árásarinnar verða taldar honum til sakar vegna ásetnings eða gáleysis, þá varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum eða sektum ef sérstakar málsbætur eru. Ef stórfellt líkams- eða heilsutjón hlýst af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ.á m. tækja sem notuð eru, svo og þegar sá sem sætir líkamsárárs hlýtur bana af atlögu varðar brot fangelsi allt að 16 árum.
58. Til viðbótar þessum tveimur megin ákvæðum almennra hegningarlaga um líkamsárásir eru refsiákvæði í 211. gr. laganna um manndráp, 225. gr. um ólögmæta nauðung, 226. gr. um að svipta mann frelsi og ýmis ákvæði í XXII. kafla laganna sem fjallar um kynferðisbrot. Loks má nefna að refsing er lögð við tilteknum andlegum pyndingum í 221. gr. um að koma ekki manni til hjálpar sem staddur er í lífsháska, þótt slíkt sé unnt án þess að eigin lífi eða heilbrigði sé stefnt í háska, 225. gr. sem fjallar um ólögmæta nauðung, 226. gr. sem fjallar um frelsissviptingu og ýmis ákvæði í XXII. kafla laganna um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.
59. Í almennum athugsemdum að framan voru talin nokkur sérrefsiákvæði í XIV. kafla laganna varðandi brot opinberra starfsmanna í starfi. Verður nú lýst efni þeirra ákvæða sem helst koma til álita í tengslum við skilgreiningu á pyndingum í 1. gr. samningsins, en þetta eru 131., 132., og 134. gr.
60. Í 131. gr. segir að beiti dómari eða annar opinber starfsmaður, sem á að halda uppi refsivaldi ríkisins, ólöglegri aðferð til þess að koma manni til játningar eða sagna, framkvæmir ólöglega handtöku, fangelsan eða rannsókn eða leggur að ólögum hald á skjöl eða aðra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.
61. Í 132. gr. eru sektir eða varðhald lagðar við því, nema þyngri refsing liggi við því að lögum, ef opinber starfsmaður gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, leit, fangelsan, framkvæmd refsingar eða haldsetningu eða brýtur aðrar þess konar reglur.
62. Samkvæmt 134. gr. varðar það varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum ef opinber starfsmaður misnotar aðstöðu sína til að neyða mann til að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta eitthvað ógert.
63. Loks segir í 138. gr. laganna að hafi opinber starfsmaður gerst sekur um refsilagabrot sem telja verður misnotkun á stöðu hans og við því brot er ekki lögð sérstök refsing sem broti í starfi hans, þá skuli hann sæta þeirra refsingu sem við brotinu liggur en þó svo aukinni að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.
64. 131., 132. og 134. gr. almennra hegningarlaga hafa verið túlkuð svo, þegar pyndingar eru annars vegar, að þau eigi einkum við um andlegar pyndingar af hálfu opinberra starfsmanna. Ef líkamlegar pyndingar sem lýst er í 1. gr.samningsins gegn pyndingun eiga sér stað, þá verður opinber starfsmaður jafnframt ákærður fyrir líkamsárás á grundvelli 217. eða 218. gr. almennu hegningarlaganna eftir því hversu alvarlegar líkamsmeiðingar eru. Samkvæmt framgreindri 138. gr. er hægt að auka refsinguna samkvæmt þessum ákvæðum um helming, þ.e. 50%. Í tveimur nýlegum refsidómum voru lögreglumenn dæmdir vegna harðræðis sem þeir beittu handtekna menn. Í fyrri dóminum frá 14. nóvember 1991 var lögreglumaður dæmdur til refsingar á grundvelli 218. og 138. gr. laganna en ekki þóttu efni til að beita einnig 132. gr. Í seinni dóminum frá 21. mars 1997 var lögreglumaður dæmdur til refsingar á grundvelli 217., 138. og 132. gr. laganna. Verða dómar þessir nánar raktir í umfjöllun um 12. og 13. gr. samningsins.
65. Í umfjöllun um 2. gr. samningsins var lýst sérreglu 135. gr. almennra hegningarlaga um hlutdeild, þ.e. þáttöku eða fyrirmæli, yfirboðara í pyndingabroti undirmanns síns, en slík brot eru litin mjög alvarlegum augum. Varðar slík þátttaka yfirmanns í brotinu allt að helmingi þyngri refsingu en þeirri sem liggur við brotinu. Almennar reglur um tilraun og hlutdeild manna í brotum á almennum hegningarlögum er að öðru leyti að finna í 20. og 22. gr. laganna. Meginreglan samkvæmt 20. gr. er að hver sá sem hefur tekið ákvörðun um að vinna verk sem refsing er lögð við í lögunum og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki sem miðar að því að framkvæma brotið, hefur, þótt verkið sé ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til brots. Heimilt er að dæma dæma lægri refsingu en mælt er fyrir um fullframin brot ef aðeins er um tilraun að ræða.
66. Meginreglan samkvæmt 22. gr. um hlutdeild, er að hver sá maður sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því að brot samkvæmt lögunum er framið skal sæta sömu refsingu og lögð er við brotinu.
5. grein.
67.Samkvæmt íslenskri löggjöf er unnt að fella brot samkvæmt 1. gr. samningsins undir íslenska refsilögsögu í öllum tilvikum sem talin eru í 5. gr. samningsins. Ítarlegar reglur um refsilögsögu íslenska ríkisins eru í 4.-6. gr. almennra hegningarlaga.
68. Til þess að geta uppfyllt þær skuldbindingar sem lýst er í 2. mgr. 5. gr. samningsins gegn pyndingum voru gerðar breytingar á 6. gr. almennra hegningarlaga með lögum nr. 142/1995 sem víkkuðu refsilögsögu íslenska ríkisins ef pyndingabrot eiga í hlut. Samkvæmt 9. tölul. 6. gr. laganna er nú unnt að refsa eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi sem lýst er í samningnum gegn pyndingum, þótt það sé framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess hver fremur hana. Mál samkvæmt þessu ákvæði verður þó aðeins höfðað eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra. Það sama gildir um önnur tilvik þar sem gerðar eru undantekningar frá því meginskilyrði um íslenska refsilögsögu að brot þurfi að vera framið á íslensku yfirráðasvæði, eða af íslenskum ríkisborgara eða af manni búsettum á Íslandi. Sem dæmi um önnur tilvik þar sem íslensk refsilögsaga er rýmkuð með þessum hætti má nefna saksókn vegna háttsemi sem lýst er í 1. gr. Evrópusamnings frá 27. janúar 1977 um varnir gegn hryðjuverkum og vegna háttsemi sem lýst er í alþjóðasamningi frá 18. desember 1979 um varnir gegn töku gísla. Aldrei hefur reynt á saksókn af hálfu íslenskra stjórnvalda og þar með ákvörðunarvald dómsmálaráðherra í þeim tilvikum þar sem íslensk refsilögsaga hefur verið rýmkuð með þessum hætti.
6. grein.
69.Heimildir til þess að grípa til þeirra úrræða sem lýst er í 1. mgr. 6. gr. samnningsins er einkum að finna í lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Samkvæmt 1. mgr. 97. gr. laganna er lögreglumönnum þannig heimilt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem getur sætt ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Samkvæmt 99. gr. laganna getur dómari einnig ákveðið handtöku eftir ósk ríkissakóknara eða lögreglu. Í lögunum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimild í 19. gr. til þess að handtaka mann sem er eftirlýstur af yfirvöldum í erlendu ríki vegna þess að hann er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem gæti orðið grundvöllur framsals samkvæmt lögunum. Um slíka handtöku og aðrar þvingunaraðgerðir, t.d. gæsluvarðhald, gagnvart manni við þær aðstæður gilda ákvæði laganna um meðferð opinberra mála með sama hætti og hann væri sakaður um samsvarandi afbrot hér á landi.
70. Réttur handtekins manns til að verða leiddur fyrir dómara án undandráttar ef setja á hann í gæslu er verndaður í 67. gr. stjórnarskrárinnar sem lýst var lauslega í almennum hluta skýrslunnar hér að framan, en í 102. gr. laganna um meðferð opinberra mála er sambærileg regla. XIII. kafli laganna um meðferð opinberra mála fjallar um gæsluvarðhald og skyldar ráðstafanir. Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laganna verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald ef fyrir hendi er rökstuddur grunur um að hann hafi framið verknað sem fangelsisrefsing liggur við enda hafi hann náð 15 ára aldri. Að auki þarf að uppfylla eitthvert fjögurra eftirfarandi skilyrða sem talin eru í ákvæðinu:
a. að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka,
b. að ætla megi að hann muni komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar,
c. að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið,
d. að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings eða hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna
71. Loks er sérstök heimild í 2. mgr. 103. mgr. laganna um meðferð opinberra mála til þess að úrskurða mann í gæsluvarðhald þótt framangreind skilyrði í a-d lið séu ekki uppfyllt ef sterkur grunur er um að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi enda verður að telja brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
72. Af þessu má sjá að heimildir til að færa mann til gæslu vegna gruns um brot sem lýst er í 1. gr. samningsins gegn pyndingum eru fullnægjandi samkvæmt íslenskum lögum. Einn algengasti grundvöllur gæsluvarðhaldsúrskurða hjá íslenskum dómstólum er í reynd a-liður 1. mgr. 103. gr sem fjallar um rannsóknarhagsmuni. Ætla má að hann geti komið til álita ef maður er grunaður um pyndingabrot. Einnig getur þar reynt á b-liðinn ef t.d. um ræðir útlending sem ætla má að reyni að komast úr landi. Loks getur 2. mgr. 103. gr. laganna komið til álita ef maður er grunaður um alvarlegar líkamlegar pyndingar, sem geta varðað allt að 16 ára fangelsi. Þess má loks geta að hægt er að beita svokölluðu farbanni í stað gæsluvarðhalds. Þannig getur dómari, samkvæmt 110. gr. laganna, lagt fyrir sakborning að halda sig á ákveðnu svæði eða bannað honum brottför af landinu.
73. Gæsluvarðhaldi eða skyldri ráðstöfun eins og farbanni verður að marka ákveðinn tíma í dómsúrskurði. Úrskurðinn er hægt að kæra til Hæstaréttar. Örðugt er að gefa almenna reglu um hversu lengi gæsluvarðhald stendur að meðaltali og tekur tíminn eðlilega mið af þeim atvikum og þörfum sem varðhaldið hvílir á. Fátítt er í framkvæmd dómstólanna að maður sé úrskurðaður í gæsluvarðhald í meira en 4-6 vikur. Styttri tími er algengari einkum þegar um ræðir gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Unnt er að framlengja gæsluvarðhald ef þörf þykir með nýjum dómsúrskurði til ákveðins tíma en dómstólar veita rannsóknaraðilum sakamála aðhald með því að gera strangar kröfur til þess að sýna fram á þörf áframhaldandi gæslu ef um ræðir rannsóknarhagsmuni. Á síðustu árum hefur rannsóknartími sakamála í alvarlegri brotum þar sem sakborningar sæta gæsluvarðhaldi og meðferð þeirra fyrir dómi styst verulega og eitt meginmarkmið nýrra lögreglulaga nr. 90/1996 sem tóku gildi 1. júlí 1997 var setja skilvirkari reglur um rannsókn sakamála og útgáfu ákæru.
74. Samkvæmt 108. gr. laga um meðferð opinberra mála skulu gæsluvarðhaldsfangar sæta þeirri meðferð sem nauðsynleg er til þess að gæslan komi að gagni og skal varast að beita þá hörku eða harðýðgi. Ákvæðið setur síðan frekari reglur um gæsluvarðhald m.a. um heimildir þeirra til að fá heimsóknir og senda og taka við bréfum. Þessar reglur, ásamt öðrum atriðum sem lúta að gæsluvarðhaldsvistinni, eru síðan nánar útfærðar í reglugerð um gæsluvarðahaldsvist nr. 179/1992. Að meginstefnu til er gæsluvarðhaldsfanga heimilt að nota síma ef rannsóknarhagsmunir standa því ekki í vegi, sbr. 62. gr. reglugerðarinnar. Einnig er gæsluvarðhaldsfanga heimilt að senda bréf skv. ákvæðum VII. kafla reglugerðarinnar en unnt ef kyrrsetja þau ef geta skaðað rannsókn á meintu broti hans. Loks er fjallað um rétt gæsluvarðhaldsfanga til þess að fá heimsóknir á tilteknum heimsóknartímum í ákvæðum VI. kafla reglugerðarinnar en unnt er að takmarka þann rétt vegna rannsóknarnauðsynja. Af þessu má sjá að gæslufangi hefur fullan rétt til þess að hafa samband til næsta viðeigandi fulltrúa þess ríkis þar sem hann er þegn, t.d. sendiráð, en mjög ólíklegt er að rannsóknarhagsmunir geti staðið í vegi fyrir þeim rétti. Loks er vert að vekja athygli á því að gæslufanga er ávallt heimilt að bera atriði sem varða gæsluvarðhaldsvistina, þ.m.t. takmarkanir hans á rétti til að hafa samband við aðra, undir dómara til úrskurðar.
75. Þess má geta að aldrei hefur reynt á það að maður sé úrskurðaður í gæsluvarðhald hér á landi vegna gruns um pyndingabrot sem lýst er í 1. og 4. gr. samningsins.
76. Um þau atriði sem lýst er í 4. mgr. 6. gr. samningsins eru ekki lögfestar sérstakar reglur, en ljóst er að íslensk yfirvöld myndu óhjákvæmilega strax hafa samband við ríki þar sem grunur leikur á að maður hafi framið pyndingar. Samvinna við stjórnvöld þess ríkis, t.d. um öflun sönnunargagna og aðra aðstoð við rannsókn málsins, er nauðsynleg forsenda þess að unnt sé að saksækja manninn fyrir íslenskum dómstólum, verði hann ekki framseldur til þess ríkis þar sem brotið er framið.
7. grein.
77.Ef maður er handtekinn vegna gruns um að hafa framið hér á landi brot þau sem lýst er í 1. og 4. gr. samningsins verður málið rannsakað hjá embætti ríkislögreglustjóra ef málið varðar brot lögreglumanns í starfi. Ef um ræðir brot annarra t.d. fangavarðar eða annars opinbers starfsmanns verður málið rannsakað af lögreglustjóra í því umdæmi þar sem brotið átti sér stað. Getur viðkomandi lögreglustjóri leitað til rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra sem aðstoðar við rannsókn alvarlegri brota. Ef maður er handtekinn grunaður um að hafa framið framangreind brot í erlendu ríki og verður ekki framseldur til þess ríkis myndi embætti ríkislögreglustjóra í öllum tilvikum annast rannsókn málsins.
78. Eftir að rannsókn máls lýkur gilda mismunandi reglur um ákvörðun saksóknar eftir því hvort brot hefur verið framið hér á landi eða erlendis. Hafi pyndingabrot verið framið hér á landi eða erlendis af íslenskum ríkisborgara eða manni búsettum hér á landi tekur ríkissaksóknari ákvörðun um saksókn. Samkvæmt 27. gr. laga um meðferð opinberra mála höfðar ríkissaksóknari aðeins mál vegna alvarlegustu brota, þ.m.t. allra mála sem varða brot í opinberu starfi, en ella er ákæruvaldið hjá einstaka lögreglustjórum. Hafi brotið verið framið erlendis af manni sem hvorki er íslenskur ríkisborgari né búsettur hér á landi gildir sérreglan sem nefnd var í umfjöllun um 5. gr. samningsins að mál verður aðeins höfðað eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra. Ástæðan fyrir þessari tilhögun er sú að rýmkuð refsilögsaga af þessu tagi er alger undantekning frá meginreglunni um ákveðin tengsl brotamanns eða brotsins sjálfs við landið. Er talin þörf á sérstaklega vandaðri athugun á því hvort rétt er að beita þessari undantekningarreglu um saksókn og að þykir eðlilegt að slíkt mat fari fram í dómsmálaráðuneytinu.
79. Íslensk lög veita engar heimildir til þess að slaka á kröfum um fyrirliggjandi sönnunargögn til höfðunar refsimáls og sakfellingar í tilvikum sem um ræðir í 2. mgr. 5. gr. Sú grundvallarregla ríkir í íslensku sakamálaréttarfari að maður sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi telst saklaus þar til sekt hans er sönnuð og er þessi regla tryggð í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Má einnig vísa til 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um sama efni. Einn mikilvægasti þátturinn í þessari reglu er síðan í 45. gr. laganna um meðferð opinberra mála, en þar segir að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu. Samkvæmt 112. gr. laganna um meðferð opinberra mála verður refsimál ekki höfðað gegn manni ef þau gögn sem liggja fyrir eftir rannsókn máls teljast ekki nægileg eða líkleg til sakfellingar. Gagnlaust væri að höfða mál undir slíkum kringumstæðum þar sem dómstólarnir eru ávallt bundnir af reglunni um að maður teljist saklaus uns sekt er sönnuð og að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði um sekt manns.
80. Réttur manna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólunum bæði í sakamálum og einkamálum, er tryggður í 70. gr. stjórnarskrárinnar. Efni ákvæðisins svipar að miklu leyti til 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Ítarlegar reglur um rannsókn sakamála og meðferð þeirra fyrir dómi eru í lögum um meðferð opinberra mála. Íslensk stjórnvöld telja að löggjöf þessi uppfylli að öllu leyti skilyrðið sem sett er fram í 3. mgr. 7. gr. samningsins um að manni sem refsimál er höfðað gegn vegna pyndingabrots, sé tryggð réttlát málsmeðferð á öllum stigum.
81. Of langt mál yrði að rekja í ítarlegu máli í skýrslu þessari réttindi sakbornings og meðferð máls fyrir dómi en vert er að benda á nokkur meginatriði varðandi réttarfar í sakamálum í íslenskri löggjöf. Með lögunum um meðferð opinberra mála sem tóku gildi 1. júlí 1992 var í fyrsta skipti að skilið að fullu á milli hlutverks ákæruvalds og lögreglu annars vegar og dómsvalds á rannsóknarstigi máls. Rannsókn brotamála er nú að öllu leyti í höndum ákæruvalds og lögreglu og dómari á aldrei frumkvæði að, né stýrir rannsókn. Hlutverk dómara á rannsóknarstigi máls takmarkast við úrlausn á ýmsum ágreiningsefnum sem aðilar bera undir hann.
82. Auk þess að afnema að fullu rannsóknarréttarfar og koma á ákæruréttarfari gerðu lögin margvíslegar réttarbætur sem stefndu sérstaklega að því að tryggja mönnum réttláta meðferð sakamála fyrir dómstólunum. Þannig tryggja nú bæði 70. gr. stjskr. stjórnarskrárinnar og einstaka ákvæði laganna um meðferð opinberra mála, að maður á alltaf rétt til að fá úrlausn sjálfstæðs og óhlutdrægs dómstóls um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi innan hæfilegs tíma og að málsmeðferð sé opinber. Þá eru tryggð í löggjöfinni réttindi sakaðs manns sem talin eru í 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 3. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Er þannig tryggður réttur sakaðs manns til þess að fá vitneskju um kæruefni, réttur til að fá sér skipaðan verjanda strax á fyrstu stigum málsins við rannsókn máls, nægur tími og aðstaða til að undirbúa vörn sína, réttur til að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum og réttur til ókeypis aðstoðar túlks, svo nokkuð sé nefnt, en hér eru ekki efni til að lýsa þessum reglum nánar.
8. grein.
83. Meginheimild íslenskrar löggjafar um framsal sakamanna eru lög nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum sem áður hafa verið nefnd. Sérstök lög nr 7/1962 gilda um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar en sambærileg löggjöf með gagnkvæmum framsalsheimildum gildir á framangreindum Norðurlöndum. Ísland er aðili að Evrópusamningi frá 1957 um framsal sakamanna og viðaukum við samninginn frá frá 1975 og 1978. Þá eru í gildi nokkrir framsalssamningar sem gerðir hafa verið við einstaka ríki. Þess má einnig geta að Ísland er aðili að Evrópusamningi um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 1970 og samningi um flutning dæmdra manna frá 1983. Á grundvelli þessara samninga voru sett sérstök lög, nr. 56/1993 um alþjóðlega samvinnu um gildi refsidóma. Sérstök lög, nr. 69/1963 gilda um fullnustu refsidóma sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.
84. Það er ekki skilyrði að sérstakur milliríkjasamningur hafi verið gerður við erlent ríki til þess að unnt sé að framselja sakamann þangað. Veitir 1. gr. laganna um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum sjálfstæða heimild til þess framselja þann sem er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað í erlendu ríki að uppfylltum nánari skilyrðum sem lögin setja fyrir framsali. Meðal þeirra skilyrða sem lögin setja fyrir framsali er sú meginregla 3. gr. laganna að verknaður sem er grundvöllur framsals geti varðað fangelsi í meira en eitt ár samkvæmt íslenskum lögum. Með tilvísun til umfjöllunar um 4. gr. samningsins varðandi refsingar samkvæmt íslenskum lögum fyrir pyndingabrot, er ljóst að þetta skilyrði stendur ekki í vegi fyrir því að maður verði framseldur til erlends ríkis.
85. Vert er að árétta skilyrði í 5.-7. gr. laganna sem fjallað var um í tengslum við 3. gr. samningsins um að heimilt sé að synja um framsal ef hætta er á að maður sæti þar pyndingum eða ofsóknum vegna ástæðna sem talin eru í ákvæðunum og beinast lífi hans og frelsi. Einnig geta mannúðarástæður leitt til þess að í sérstökum tilvikum megi synja um framsal.
86. Óheimilt er að framselja íslenska ríkisborgara samkvæmt 2. gr. laganna. Ef íslenskur ríkisborgari er grunaður um pyndingabrot, verður mál hans rannsakað hér á landi og hann saksóttur fyrir íslenskum dómstólum. Sérreglur gilda samkvæmt lögunum um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, en samkvæmt 2. gr. þeirra er unnt að framselja íslenskan ríkisborgara hafi hann verið búsettur síðustu tvö ár áður en brot var framið í því landi sem óskar framsals og þyngir refsing en 4 ára fangelsi liggi við brotinu eða samsvarandi broti eftir íslenskum lögum.
87. Beiðni um framsal á manni á grundvelli gildandi löggjafar um framsal, vegna gruns, ákæru eða dóms um að hann hafi framið brot sem lýst er í 1. gr. samningsins, hefur aldrei verið send íslenskum stjórnvöldum.
9. grein.
88. Í íslenskri löggjöf eru veittar heimildir til þess stjórnvöld geti aðstoðað erlend ríki með þeim hætti sem lýst er í 9. gr. samningsins. Helstu reglur þessa efnis eru í IV. kafla laganna um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Samkvæmt 22. gr. laganna er þannig heimilt að beita ákvæðum laga um meðferð opinberra mála til öflunar sönnunargagna til notkunar í refsimáli í öðru ríki, samkvæmt beiðni frá stjórnvöldum viðkomandi ríkis. Samkvæmt þessu er ekki skilyrði að sérstakur samningur um slíka réttaraðstoð hafi verið gerður við viðkomandi ríki, heldur verður lagaákvæði þetta grundvöllur réttaraðstoðar.
89. Nánari reglur um meðferð beiðna um réttaraðstoð eru í 22. og 23. gr. laganna um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Skilyrðið fyrir aðstoð íslenskra stjórnvalda er að verknaðurinn sem beiðnin tengist sé einnig refsiverður samkvæmt íslenskri löggjöf. Kemur ekki til álita að þetta skilyrði standi í vegi aðstoð íslenskra stjórnvalda vegna pyndingabrota, enda eru þau ótvírætt refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt 23. gr. laganna er íslenskum stjórnvöldum heimilt að fallast á beiðni erlends ríkis þar sem refsimál er rekið, um að senda þangað mann sem sem situr í gæsluvarðhaldi eða afplánar refsidóm hér á landi, til yfirheyrslu sem vitni í refsimálinu. Ef viðkomandi maður samþykkir ekki flutning skal héraðsdómari í Reykjavík kveða upp úrskurð um hvort lagaskilyrði til flutnings séu til staðar.
90. Ísland er aðili að Evrópusamningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 1959 og viðauka við hann frá 1978. Þess má einnig geta að sérstök lög nr. 49/1994 hafa verið sett um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu. Eru lögin sett á grundvelli samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að setja á stofn dómstól til að fjalla um mál manna sem eru grunaðir um, ákærðir fyrir eða dæmdir fyrir alvarleg brot á alþjóðlegum mannúðarreglum, frömdum í fyrrum Júgslavíu. Lögin veita heimildir til þess að verða við beiðnum dómstólsins eða saksóknara hans um framsal manna, um aðra réttaraðstoð, flutning á frelsissviptum mönnum til skýrslugjafar fyrir dómstólnum og fullnustu dóma alþjóðadómstólsins.
91. Ekki hefur reynt á beiðnir frá erlendum ríkjum um réttaraðstoð vegna pyndingarbrota á grundvelli framangreindrar löggjafar eða beiðnir frá alþjóðadómstólnum slíka aðstoð hjá íslenskum stjórnvöldum.
10. grein.
92.Reglur um skipun lögreglumanna, menntun þeirra og starfsskyldur eru í lögreglulögum nr. 90/1996. Dómsmálaráðherra skipar lögreglumenn til lögreglustarfa enda hafi þeir staðist próf frá Lögregluskóla ríkisins. Um það bil 600 lögreglumenn eru nú skipaðir í lögreglu ríkisins.
93. Lögregluskóli ríkisins er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir dómsmálaráðherra. Skólinn starfrækir grunnnámsdeild sem veitir lögreglunemum menntun í almennum lögreglufræðum og framhaldsdeild sem veitir starfandi lögreglumönnum símenntun, framhaldsmenntun og sérmenntun. Ríkislögreglustjóri auglýsir eftir nemum í skólann um land allt. Hann ákveður fjölda nemenda sem hefja skal nám ár hvert á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins. Umsækjendur um námsvist í lögregluskólanum verða að uppfylla ákveðin almenn skilyrði, s.s. að vera á aldrinum 20-35 ára, vera andlega og líkamlega heilbrigð, hafa lokið tiltekinni grunnmenntun og ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum. Þeir verða að standast sérstakt inntökupróf til þess að komast inn í skólann. Nám í lögregluskólanum skiptist í tvær annir. Áður en nám á síðari önn hefst skal ríkislögreglustjóri sjá nemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu ríkisins í a.m.k. átta mánuði. Á hverju ári eru að meðaltali teknir u.þ.b. 30 nýnemar inn í lögregluskólann. Nemendur við skólann eru nú 48 talsins.
94. Á fyrri önn lögreglunámsins eru m.a. kenndir grunnþættir í lögfræði á sviði refsiréttar og opinbers réttarfars. Farið er yfir ákvæði stjórnarskrárinnar með sérstakri áherslu á mannréttindaákvæði hennar. Á síðari önn lögreglunámsins er ítarlegri umfjöllun um mannréttindi. Markmið þess námskeiðs er að nemendur hafi yfirsýn yfir forsögu og forsendur mannréttindaákvæða í íslensku stjórnarskránni, þeim sé kynnt alþjóðleg samvinna um mannréttindamál á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins og helstu alþjóðasamningar um mannréttindi sem Ísland er aðili að, þ.m.t. samningurinn gegn pyndingum. Í verklegu námi og þjálfun eru nemendum m.a. kenndar handtökuæfingar, þannig að þeim verði kleift að framkvæma handtökur af öryggi, jafnvel þótt mótspyrna sé veitt og einnig er þeim kennd sjálfsvörn. Almennt má segja að við nám lögreglunema við Lögregluskóla ríkisins, við starfsþjálfun þeirra og í störfum lögreglunnar almennt sé rík áhersla lögð á þær siðferðiskröfur sem gerðar eru til lögreglu og að gætt sé réttra aðferða í starfi. Þetta á sérstaklega við í umgengni þeirra við handtekna menn. Öllum lögreglunemum og starfandi lögreglumönnum má vera ljóst að ill meðferð á handteknum mönnum varðar aga- eða refsiviðurlögum og að kvartanir á hendur lögreglu eru teknar til viðeigandi athugunar og meðferðar.
95. Hvað varðar hæfniskröfur og menntun yfirboðarara lögreglumanna má geta þess að allir 27 lögreglustjórar landsins eru lögfræðingar og er lögfræðimenntun skilyrði fyrir starfinu. Mannréttindafræðsla, þ.m.t. um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og helstu alþjóðasamninga er meðal kjarnagreina í laganámi. Þess má geta að dómsmálaráðuneytið sendi öllum lögreglustjórum til upplýsingar skýrslu Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum eftir heimsókn hennar sumarið 1993. Dómsmálaráðuneytið hefur einnig sent öllum lögreglustjórum sérprentun helstu alþjóðlegra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
96. Nýlega voru settar ítarlegri reglur en áður giltu um hæfiskröfur og menntun fangavarða með reglugerð nr. 11/1996 um skilyrði þess að vera ráðinn fangavörður og um menntun fangavarðar. Er reglugerðin sett á grundvelli laganna um fangelsi og fangavist. Þar eru sett almenn skilyrði sem umsækjandi um fangavarðarstarf verður að uppfylla, m.a. að hann skuli vera á aldrinum 20-40 ára, hafa óflekkað mannorð, vera reglusamur og háttvís og andlega og líkamlega heilbrigður auk þess sem krafa er gerð um lágmarksmenntun. Heimilt er að láta umsækjanda gangast undir sálfræðimat eða geðskoðun sé hennar talin þörf. Sérstök nefnd, skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, fangelsismálastofnunar og fangavarðafélagsins metur hvort umsækjandi uppfyllir almenn skilyrði. Fangelsismálastofnun starfrækir sérstaka fræðsludeild og skólanefnd, skipuð fulltrúum sömu stofnana og í nefnd um mat á umsækjendum, hefur yfirumsjón með skipulagi á menntun og fræðslu fangavarða. Grunnnám fangavarða skal standa í 6 mánuði og skiptist í 3 mánaða bóklegt nám auk líkamsþjálfunar og 3 mánaða verklegan þátt sem fer fram í fangelsum. Meðal námsgreina í fangavarðanáminu, er fræðsla um refsilög, lög um meðferð opinberra mála og framkvæmd refsinga. Einnig eru þar kenndar grunnreglur um mannréttindi og réttindi og skyldur fanga, auk fræðslu um mannleg samskipti. Þegar skýrsla þessi er rituð er unnið að námsskrá um fangavarðanámið. Verður þar m.a. lögð áhersla á þau mannréttindaákvæði sem lúta að banni við pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, bæði í stjórnarskrá og alþjóðasamningum um mannréttindi. Verða því sérstaklega kynntir Evrópusamningurinn um varnir gegn pyndingum og samningurinn gegn pyndingum.
97. Þeir einir geta hlotið fastráðningu í stöðu fangavarðar sem lokið hafa framangreindu grunnnámi og staðist próf og að öðru leyti sýnt með starfi sínu að þeir teljist hæfir til að gegna stöðunni að mati nefndarinnar. Þegar fangavörður hefur lokið grunnámi og reynslutíma í starfi skal hann stunda framhaldsnám sem stendur eina önn (minnst 300 klukkustundir). Á námið m.a. að auka alhliða þekkingu, hæfni og fagmennsku starfsmanna og stuðla að því að auka öryggi í fangelsum svo og styrkja aðstoðar- og leiðsagnarhlutverk fangavarða gagnvart föngum. Loks er stefnt að því að gefa fangavörðum kost á endurmenntunarnámskeiði innan 5 ára frá því þeir luku framhaldsnámi. Fjöldi starfandi fangavarða á landinu er nú í kringum 80.
98. Samkvæmt lögum um fangelsi og fangavist skal öðrum fremur ráða mann forstöðumann fangelsis sem hefur lokið viðurkenndu lokaprófi frá háskóla. Forstjóri fangelsismálastofnunar skal vera lögfræðingur.
99. Þess má loks geta að Dómarafélag Íslands í samvinnu við dómsmálaráðuneytið hélt nýlega námskeið fyrir dómara um mannréttindi í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Var samningurinn gegn pyndingum kynntur sérstaklega þar sem nýjasti mannréttindasamningurinn sem Ísland á aðild að. Dómsmálaráðuneytið hefur einnig sent öllum dómurum sérprentun helstu alþjóðlegra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
100. Þess má loks geta að bann við pyndingum er ekki sérstaklega orðað í starfsreglum lögeglumanna eða fangavarða. Er það álitið svo sjálfsagt að ekki þurfi að taka fram það sérstaklega. Hins vegar er vert að árétta að rík áhersla er á það lögð bæði í námi og starfsreglum þessara opinberu starfsstétta að gæta réttra aðferða í samskiptum sínum við fanga eða aðra frelsissvipta menn og hafa ávallt í huga fortakslaust bann við því að þeir beittir harðræði.
101. Sjúklingar njóta sérstakrar lagaverndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Samkvæmt 17. gr. laganna skulu heilbrigðisstafsmenn og aðrir sem starfs síns vegna hafa samskipti við sjúkling koma fram við hann af virðingu. Einnig er fjallað sérstaklega um rétt sjúklings til þess að neita læknismeðferð í 7. gr. laganna og skv. 10.gr. verður skriflegt samþykki sjúklings að liggja fyrir ef hann tekur þátt í vísindarannsóknum svo sem tilraunum á nýjum lyfjum.
102. Í lögræðislögum nr. 71/1997 eru sérreglur um meðferð manns sem er vistaður gegn vilja sínum á sjúkrahúsi. Samkvæmt ákvæðum laganna er unnt að ströngum skilyrðum uppfylltum að vista mann tímabundið á sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, eða á við alvarlega áfengisfíkn að stríða eða ofnautn ávana- og fíkniefna. Nauðungavistaður maður á m.a. rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings sérstaks ráðgjafa, og er þóknun hans greidd úr ríkissjóði.
103. Starfsreglur fyrir starfsfólk í heilsugæslu að öðru leyti en nú hefur verið nefnt byggjast fyrst og fremst á siðareglum heilbrigðisstétta, s.s. lækna og hjúkrunarfræðinga, þar sem rík áhersla er lögð á að meðferð sjúklinga sé mannúðleg og þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing og nærgætni. Bann við pyndingum er ekki hins vegar ekki orðað sérstaklega, enda er það talin sjálfsagt.
11. grein.
104. Í íslenskri löggjöf og reglum byggðum á henni gilda nú ítarlegar reglur um yfirheyrslur og fyrirkomulag við gæslu manna. Eftir heimsókn Evrópunefndarinnar um varnir gegn pyndingum til Íslands sumarið 1993, gerði hún m.a. athugasemdir við að formlegar reglur um yfirheyrslu skorti hér á landi, þar sem lýst væri nákvæmlega hvernig fara bæri að í hinum ýmsu atriðum. Einnig benti nefndin á að setja þyrfti skýrari reglur um rétt handtekins manns til þess tilkynnt yrði um handtökuna til náins ættingja eða annars þriðja aðila að eigin vali. Í tilefni af þessum athugasemdum Evrópunefndarinnar voru ýmsar breytingar gerðar á lögum um meðferð opinberra mála með lögum nr. 136/1996 til þess að bæta úr vöntun á skýrum reglum um framangreind atriði. Eru reglur um þetta efni í lögum um meðferð opinberra mála og reglugerð nr. 395/1997 um réttarstöðu handtekinna manna og yfirheyrslur hjá lögreglu. Í reglugerðinni eru einnig ákvæði um yfirheyrslu vitna, skýrslugjöf og hljóðupptöku við yfirheyrslur sakbornings og vitna og loks eru nákvæmar reglur um skráningu ýmissa atriða varðandi handtöku á mönnum og vistun handtekinna í fangageymslu lögreglu.
105. Samkvæmt 32. gr. laganna um meðferð opinberra mála og 7. gr. reglugerðarinnar ber m.a. að kynna sakborningi að honum sé ekki skylt að svara spurningum um sakarefni eða skýra sjálfstætt frá nokkru sem varðar það. Einnig ber að kynna honum rétt hans til að hafa réttargæslumann verjanda sér til stuðnings eða aðstoðar við yfirheyrsluna og á öllum stigum málsins. Samkvæmt 42. gr. laganna og 10. gr. reglugerðarinnar er réttargæslumanni eða verjanda alltaf heimilt að vera viðstaddur yfirheyrslu á sakborningi og má sakborningur ráðfæra sig við hann áður en hann svarar spurningu, nema lögregla telji það trufla skýrslustöku.
106. Í 33. gr. laganna og 8. gr. reglugerðarinnar eru nánari reglur um aðferðir við yfirheyrsluna og verður nú lýst meginefni þeirra. Spurningar til sakbornings skulu vera skýrar og ótvíræðar og ekki má rugla hann með ósannindum eða á annan hátt eða beita hann neins konar ólögmætri þvingun í orði eða verki. Sakborningi má ekki gefa fyrirheit um ívilnanir eða fríðindi til þess að hann játi eða gefi aðrar mikilvægar upplýsingar, enda séu slík fyrirheit ólögleg eða ekki á valdi yfirheyranda að veita þau. Lögreglumanni ber ávallt að vera rólegur og tillitssamur við yfirheyrslu. Ekki má beita úrræðum sem eru til þess fallin að draga úr meðvitund sakbornings eða hæfni til ákvarðanatöku. Reynt skal að komast hjá því að yfirheyra grunaðan mann sem talinn er vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Við yfirheyrslu skal leitast við að þreyta ekki sakborning og skal hann eiga kost á venjulegum máltíðum og fá nægilegan svefn og hvíld. Aldrei má yfirheyra sakborning lengur en sex klukkustundir í einu. Hafi sakborningur verið yfirheyrður í 16 klukkustundir á einum sólarhring, að meðtöldum hléum, ber honum átta klukkustunda hvíld uns hefja má yfirheyrslu að nýju.
107. Samkvæmt 2. mgr. 72. gr. laganna um meðferð opinberra mála skal við yfirheyrslu og aðrar rannsóknaraðgerðir lögreglu hafa einn greinargóðan og trúverðugan vott sé þess kostur. Með þessu ákvæði er jöfnum höndum stefnt að því að vottur sem er viðstaddur lögregluyfirheyrslu ætti að treysta sönnun um framburð sakbornings og vitna svo og að vernda sakborninga gegn hvers konar harðræði við yfirheyrsluna. Ljóst er að dregið hefur úr síðarnefnda hlutverki vottsins eftir að lögfestar voru reglur um fortakslausan rétt verjanda til að vera ávallt viðstaddur yfirheyrslur. Í framkvæmd eru það oftast lögreglumenn eða aðrir starfsmenn viðkomandi embættis sem eru vottar. Algengast er í reynd að vottur sé einungis viðstaddur upplestur eða yfirlestur á skýrslu sem þegar hefur verið tekin og staðfestingu hennar af hálfu sakbornings. Við skýrslutöku þegar um alvarleg sakarefni er að ræða svo og þegar skýrsla skiptir verulegu máli, t.d. vegna sönnunarstöðu máls, er vottur oftast viðstaddur skýrslutökuna sjálfa. Lögð er áhersla á að í vottun votts komi fram hvað hann sé að votta, t.d. hvort hann hafi verið viðstaddur yfirheyrslu eða eingöngu upplestur á skýrslu og undirritun hennar.
108. Þess má loks geta að sú grundvallarregla gildir að handtekinn maður fái læknisþjónustu þegar hann óskar eftir því. Ekki eru starfandi sérstakir lögreglulæknar. Ef læknis er talin þörf er annað hvort farið með handtekinn mann á þann stað þar sem starfrækt er almenn neyðarþjónusta lækna eða vakthafandi læknir sem sinnir neyðarþjónustu á viðkomandi svæði er kallaður til. Læknisskoðun á handteknum mönnum fer fram án nærveru eða áheyrnar lögreglu nema læknir óski annars.
109. Af framangreindum reglum má ráða að rík áhersla er lögð á að tryggja réttindi handtekins manns, bæði með því að setja ítarlegar reglur um framkvæmd yfirheyrslna og ekki síður að unnt sé að hafa eftirlit með meðferð hans. Mikilvægastur í þessu sambandi er skilyrðislaus réttur manns til að geta ávallt rætt við verjanda sinni og að verjandi geti undantekningarlaust verið viðstaddur yfirheyrslu. Einnig má árétta hlutverk votts sem er viðstaddir yfirheyrslur í alvarlegri málum. Þá má benda á að þeir læknar sem sinna handteknum mönnum eru á engan hátt háðir lögreglu heldur eru þeir starfsmenn hins almenna heilbrigðiskerfis og tilviljun ræður hvaða læknir er á vakt hverju sinni til að sinna neyðarþjónustu. Loks ber að hafa í huga grundvallarregluna sem áður hefur verið lýst að handtekinn mann beri að leiða fyrir dómara innan sólarhrings frá handtöku sem úrskurðar um hvor maður skuli settur í gæsluvarðhald eða hann látinn laus.
110. Eftir að maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli ákvæða laga um meðferð opinberra mála, gilda eftir sem áður framangreindar reglur um tilhögun á yfirheyrslu sakbornings og rétt hans til að ræða við verjanda sinn. Sérstakar reglur gilda hins vegar um gæsluvarðhaldsvistina, sbr. reglugerð um gæsluvarðhaldsvist nr. 179/1992, en efni hennar var lítillega lýst í umfjöllun um 6. gr. samningsins að framan. Reglugerð þessi er löng og ítarleg í 114 greinum og er ekki efni til að reifa efni hennar hér svo nákvæmt verði. Í megindráttum tekur reglugerðin á eftirfarandi atriðum: Þar er fjallað um móttöku og skráningu manna sem settir eru í gæsluvarðhald, tilhögun varðhaldsins, fæði gæsluvarðhaldsfanga, læknisþjónustu sem sinnt er af fangelsislækni, heimsóknir gæsluvarðhaldsfanga, rétt þeirra til bréfaskipta, símtala og aðgangs að fjölmiðlum, vinnu þeirra og ábyrgð á tjóni sem þeir valda og almenn ákvæði um réttindi þeirra og skyldur. Sérstaklega ítarleg ákvæði eru um öryggisráðstafanir gagnvart gæsluvarðhaldföngum, s.s. líkamsleit og líkamsrannsókn, valdbeitingu, notkun handjárna og vistun í öryggisklefa. Loks eru í reglugerðinni heimildir til að beita gæsluvarðhaldsfanga agaviðurlögum í sérstökum tilvikum.
111. Vert er að árétta þá grundvallarreglu 3. mgr. 108. gr. laganna um meðferð opinberra mála að gæsluvarðhaldsfanga er ávallt heimilt að bera atriði sem varða gæsluvarðhaldsvistina, þ.m.t. öll atriði sem varða meðferð hans undir dómara til úrskurðar.
112. Reglur um meðferð manna sem afplána refsidóm í fangelsi eru einkum í III. kafla laganna um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988 og reglur um öryggi í fangelsum og agaviðurlög gagnvart afplánunarföngum eru í IV. kafla laganna. Á grundvelli laganna hefur verið sett reglugerð nr. 119/1990 um bréfaskipti, símtöl og heimsóknir til afplánunarfanga. Meginregla er að afplánunarfangar geti sent og tekið við bréfum án afskipta, nema forstöðumaður telji nauðsynlegt að lesa bréf í einstaka tilvikum til að halda reglu í fangelsinu eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað. Þó mega fangelsisyfirvöld ekki lesa bréf til og frá eftirfarandi aðilum: Dómsmálaráðherra og dómsmálaráðuneyti, fangelsismálastofnun ríkisins, dómstólum, ríkissaksóknara, lögreglu, umboðsmanni Alþingis, Mannréttindanefnd Evrópu og verjanda fanga, hvort heldur í máli sem leiddi til refsidómsins sem hann afplánar eða í öðru sakamáli sem er rekið gegn honum.
113. Að lokum, í þessari umfjöllun um fyrirkomulag á gæslu frelsissviptra manna, má árétta heimildir manns sem er nauðungarvistaður á sjúkrahúsi samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997 til að fá sér skipaðan sérstakan persónulegan ráðgjafa sem gætir hagsmuna hans.
114. Hér að framan hefur verið lýst helstu reglum um yfirheyrslur handtekinna manna og gæslufanga svo og helstu reglum um gæslu og meðferð manna sem sæta handtöku, gæslu eða fangelsun. Ekki er hægt að tala um að tiltekið kerfisbundið eftirlit fari fram t.d. með þeim hætti að ákveðinn aðili annist sérstaklega slíkt eftirlit með reglubundnum heimsóknum á staði þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir. Þó má nefna óheftar heimildir Evrópunefndar um varnir gegn pyndingum til þess að heimsækja staði þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir, ræða við þá persónulega og kanna að öðru leyti aðbúnað þeirra og meðferð. Af framangreindum reglum má annars ráða að áhersla er lögð á fortakslausan rétt frelsissvipts manns til þess að geta alltaf haft samband við verjanda sinn, lækni eða persónulegan ráðgjafa auk aðstandenda sinna og að bréfaskipti hans við tilteknar opinberar stofnanir séu algerlega óheft til þess að hann geti komið fram kvörtun um meðferð á sér. Með þessu er stefnt að því að eftirlit með meðferð manna geti orðið virkt í reynd, enda tryggir íslensk löggjöf að kvartanir á hendur lögreglu eða öðrum opinberum starfsmönnunum um pyndingar eða aðra illa meðferð eða grunsemdir um slíkt verði teknar til viðeigandi athugunar eða meðferðar. Í umfjöllun um 12. og 13. gr. á samningsins hér á eftir verður nánar lýst þeim aðgerðum sem gripið verður til ef kvörtun berst yfirvöldum eða grunsemdir vakna um að pyndingar eða önnur ill meðferð hafi átt sér stað.
12. og 13. grein.
115. Hér verður í fjallað í einu lagi um óhlutdræga rannsókn að frumkvæði yfirvalda ef grunsemdir vakna um að pyndingar hafi átt sér stað, sbr. 12. gr. samningsins og rétt manns samkvæmt 13. gr samningsins til þess að koma fram kæru um að hann hafi verið beittur pyndingum eða annarri illri meðferð sem sæti óhlutdrægri rannsókn.
116. Í 35. gr. lögreglulaga nr 90/1996 segir að berist kæra á hendur lögreglumanni fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans eða vakni grunur um slík brot, skal lögreglustjóri þegar í stað tilkynna ríkissaksóknara um ætluð brot. Ákveður ríkissaksóknari hvort nánari rannsókn fer fram á meintu broti lögreglumanns. Embætti ríkislögreglustjóra starfrækir sérstaka rannsóknardeild þar sem m.a. eru rannsökuð öll mál vegna kæra á hendur lögreglumönnum vegna brots í starfi. Ríkissaksóknari stjórnar rannsókn slíks máls, en ekki ríkislögreglustjóri, svo sem á við um önnur brot sem rannsökuð eru hjá embætti hans. Ef rannsókn leiðir í ljós að háttsemi lögreglumanns sé líkleg til sakfellingar, höfðar ríkissakssóknari mál gegn honum fyrir dómstólunum. Á meðan kæra um meint brot lögreglumanns í starfi er til rannsóknar fær lögreglumaðurinn lausn um stundarsakir. Það veltur síðan á niðurstöðu rannsóknarinnar og hvort refsimál er höfðað, hvort lögreglumaðurinn fær áminningu frá yfirmanni sínum sem er viðkomandi lögreglustjóri eða endanlega lausn úr starfi.
117. Á síðustu fimm árum hafa komið til rannsóknar nokkrar kærur um misbeitingu valds við framkvæmd lögreglustarfa og þá í öllum tilvikum vegna valdbeitingar í tengslum við handtöku eða í fangageymslu lögreglu í kjölfar handtöku. Ekkert dæmi er um kæru þess efnis að lögreglumenn eða aðrir handhafar opinbers máls hafi þvingað menn til að gefa játningu eða upplýsingar í tengslum við rannsókn sakamáls. Hér á eftir má sjá tölur um fjölda kæra á hendur lögreglumönnum frá síðastliðnum fimm árum.
Fjöldi kæra um brot lögreglumanna í starfi
1993 5
1994 9
1995 5
1996 3
1997(-1.des.) 5
118. Í einu ofangreindra tilvika (kæra frá 1995) ákvað ríkissaksóknari að ákæra lögreglumann fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi.Var lögreglumaður ákærður fyrir að hafa hafa farið offari í starfi er hann hafði afskipti af manni sem þverskallaðist við fyrirmælum lögreglunnar um að slökkva eld sem hann hafði kveikt á almannafæri. Kom til átaka milli þeirra með þeim afleiðingum að maðurinn handleggsbrotnaði. Var lögreglumaðurinn ákærður fyrir brot á 1. mgr. 218. gr. (til vara 219. gr. sem fjallar um gáleysisbrot) og 138. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 10. september 1996 var lögreglumaðurinn sýknaður af ákærunni. Þótti vera sýnt fram á að kærandi hefði neitað að sinna fyrirmælum lögreglumanna sem komu á vettvang og ráðist að einum þeirra. Hefði lögreglan tekið hann tökum til að róa hann en hann hefði brotist um með þeim hætti að handleggur hans brotnaði. Miðað við aðdragandann að því að lögregla hélt manninum og aðstæður aðrar í þessu tilviki var ekki talið að lögreglumaðurinn hefði farið offari við handtökuna.
119. Ekki er skilyrði rannsóknar að kæra berist frá manni um að hann hafi verið beittur pyndingum. Ef grunur vaknar um slík brot hjá lögregluyfirvöldum geta þau að eigin frumkvæði óskað rannsóknar á þeim. Frá síðustu fimm árum er eitt dæmi um refsimál gegn lögreglumanni sem var rannsakað að frumkvæði lögreglustjórans í Reykjavík vegna gruns sem vaknaði um að lögreglumaður sem starfaði í liði hans hefði beitt harðræði í starfi haustið 1996. Í kjölfar rannsóknar var lögreglumaðurinn ákærður fyrir að hafa beitt handtekinn mann sem vistaður var í fangageymslu harðræði. Hafði viðkomandi lögreglumaður slegið hann nokkrum hnefahöggum í brjóst og síðu. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. mars 1997 var lögreglumaðurinn dæmdur fyrir minniháttar líkamsárás skv. 217. gr. almennu hegningarlaganna og brot í opinberu starfi sbr. 138. og 132. gr sömu laga til 30 daga varðhalds, skilorðsbundið í 2 ár. Í kjölfar dómsins var lögreglumanninum vikið úr embætti sínu að fullu
120. Auk áðurgreindra refsidóma frá 1996 og 1997 er eitt annað dæmi frá þessum áratug um refsimál gegn lögreglumanni vegna misbeitingar valds við handtöku. Með dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 1991 var lögreglumaður dæmdur til þriggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir brot á 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga (meiri háttar líkamsárás), vegna áverka sem hann veitti manni með mjög harkalegri handtöku. Hafði hinn handtekni m.a. skollið með höfuð í götu, sjö tennur brotnuðu og andlit hans skrámaðist verulega. Með dómi Hæstaréttar frá 25. janúar 1996 voru manninum dæmdar bætur úr hendi lögreglumannsins og ríkissjóðs fyrir fjártjón og miska, en um rétt manns til bóta verður að öðru leyti fjallað í tengslum við 14. gr. samningsins.
121. Þótt kæra um að lögreglumaður hafa sýnt af sér harðræði eða aðra slæma meðferð leiði ekki til þess að ákæra verði gefin út á hendur honum getur hún orðið tilefni áminningar lögreglustjóra til lögreglumanna sem heyra undir hann. Slík áminning getur orðið undanfari brottvikningar lögreglumanns úr starfi.
122. Fangi getur komið fram kvörtun um að fangavörður hafi beitt hann pyndingum til yfirmanns viðkomandi fangelsis, til fangelsismálastofnunar sem fer með yfirstjórn fangelsismála í landinu eða sent kæru þess efnis beint til lögreglustjóra þess umdæmis þar sem fangelsið er staðsett. Sérstakar reglur gilda um óhindruð bréfaskipti fanga við lögreglu og aðra opinbera aðila. Undir stjórn þess lögreglustjóra er málið síðan rannsakað ef tilefni þykir til og málið síðan sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn gegn fangaverði. Berist fangelsismálastjóra, sem er forstöðumaður fangelsismálastofnunar, vitneskja um pyndingar eða annað harðræði af hálfu fangavarðar, getur hann með sama hætti lagt fram kæru hjá lögreglustjóra vegna meints brots fangavarðar í starfi. Feli háttsemi fangavarðar ekki sér pyndingar, en sé engu að síður óviðurkvæmileg gagnvart fanga, getur yfirmaður fangelsis veitt viðkomandi fangaverði áminningu sem getur verið undanfari brottvikningar. Fangaverði verður veitt lausn frá starfi um stundarsakir á meðan opinber rannsókn fer fram á því hvort hann hafi framið refsivert brot gagnvart fanga.
123. Á síðustu fimm árum (kæra frá 1996) hefur einu sinni verið kvartað yfir meðferð fangavarðar á fanga. Fangi sem afplánaði refsidóm kærði til lögreglu að hann hefði þurft að þola vanvirðandi meðferð af hálfu fangavarðar. Lögregla kannaði málið en taldi ekki tilefni til frekari viðbragða og felldi málið niður. Ekki eru dæmi um tilvik frá þessu tímabili um að fangavörður hafi fengið áminningu fyrir að beita fanga harðræði.
124. Í framangreindum málum hefur ekki reynt á beiðni um sérstakar ráðstafanir til þess að vernda kæranda eða vitni fyrir illri meðferð eða hótunum sem rekja má til kæru eða skýrslna sem gefnar hafa verið. Í íslenskri löggjöf eru ekki lögfestar sérstakar reglur í þessu skyni. Ef slík tilvik koma koma upp er unnt að grípa til slíkra ráðstafana, t.d. sérstakrar lögregluverndar, ef leitt er í ljós að þörf fyrir hana sé til staðar. Vert er að árétta að samkvæmt ákvæðum starfsmannalaga nr. 70/1996 verður lögreglumanni veitt lausn frá starfi um stundarsakir á meðan rannsakað er hvort kæra um meint brot hans í starfi á við rök að styðjast. Verður honum síðan veitt lausn frá starfinu að fullu, hafi hann gerst sekur um refsiverða háttsemi. Sömu reglur gilda um fangaverði. Með þessu er tryggt að t.d. að fangi í gæsluvarðhaldi eða afplánun refsidóms hefur enga umgengni eða samskipti við opinberan starfsmann sem hann hefur kært vegna pyndinga eða annarrar illrar meðferðar, meðan á rannsókn málsins stendur.
125. Í almennum athugasemdum að framan var því m.a. lýst að hver sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangindum geti borið fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Frá því að embætti umboðsmanns var stofnað árið 1988 hefur engin kæra borist því sem varðaði pyndingar, annað harðræði eða ómannúðlega meðferð af hálfu opinbers starfsmanns gagnvart fanga eða manni frelsissviptum af öðrum ástæðum. Þess má þó geta að ein kvörtun hefur borist umboðsmanni Alþingis vegna handtöku og frelsissviptingar. Það var á árinu 1988. Sú kvörtun hlaut ekki efnislega afgreiðslu hjá umboðsmanni, þar sem of langt var um liðið frá handtöku og þar til kært var. Í svarbréfi umboðsmanns til kæranda í þessu máli kom fram sú afstaða hans að samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála væri ætlast til þess að kröfur í tilefni af athöfnum þeim sem kvörtun laut að væru bornar undir dómstóla og þar af leiðandi félli kvörtunin ekki undir starfssvið umboðsmanns.
126. Þess má loks geta að maður sem er vistaður nauðugur á sjúkrahúsi eftir ákvæðum lögræðislaga nr. 71/1997 getur samkvæmt 30. gr. laganna borið ákvörðun um nauðungarvistunina og þvingaða læknismeðferð sem hann sætir þar, undir dómstóla. Um úrræði sjúklinga almennt sem bera við að þeir hafi sætt illri meðferð á sjúkrahúsum eru að öðru leyti ákvæði í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990. Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun þess efnis til embættis landlæknis eða sérstakrar nefndar um sem fjallar um ágreiningsmál er koma upp í samskiptum almennings og starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar. Í nefndinni sitja þrír menn tilnefndir af Hæstarétti og skal formaður nefndarinnar vera lögfræðingur, en enginn þeirra má vera starfsmaður heilbrigðisþjónustunnar. Vakni grunur hjá landlækni eða framangreindri nefnd um ágreiningsmál um að starfsmaður í heilbrigðisþjónustu hafi framið refsivert brot í starfi verður málið kært til lögreglu.
127. Í lok þessarar umfjöllunar um úrræði manns sbr. 13. gr. samningsins má nefna alþjóðlegar kæruleiðir, annars vegar til Mannréttindanefndar Evrópu og hins vegar til nefndar sem tekur við kærum samkvæmt valfrjálsri bókun við alþjóðasamning um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi. Eins og nefnt var í almennum athugasemdum að framan vita íslensk stjórnvöld ekki til þess að kærur hafi borist samkvæmt framangreindum alþjóðlegum kæruleiðum um að íslenska ríkið hafi brotið gegn alþjóðlegum samningsskyldum sínum um bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
14. grein.
128. Íslensk löggjöf veitir manni sem hefur þolað pyndingar úrræði til þess að krefjast bóta fyrir dómstólum og að hann fái sanngjarnar og fullnægjandi bætur. Samkvæmt 176. gr. laganna um meðferð opinberra mála er unnt að dæma manni bætur úr ríkissjóði vegna handtöku, leitar á manni, rannsóknar á heilsu manns og gæsluvarðhalds hafi lögmæt skilyrði brostið til slíkra aðgerða eða þessar aðgerðir hafi verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Af þessu má sjá að bótaréttur er ekki takmarkaður við að maður hafi þolað pyndingar í skilningi 1. gr. samningsins. Ekki er skilyrði bótaréttar sakbornings að aðgerðir lögreglumanns eða annars opinbers starfsmanns hafi leitt til refsiábyrgðar hans.
129. Það skilyrði er sett fyrir ábyrgð ríkissjóðs að viðkomandi lögreglumaður eða annar opinber starfsmaður valdi tjóni í tengslum við starf sitt. Þegar opinber starfsmaður fer út fyrir starfsskyldur sínar með harkalegum eða óvenjulegum hætti í tengslum við löggæslustarf sitt stofnast þannig til ábyrgðar ríkisins. Unnt er að fá bætt bæði fjártjón og miska samkvæmt lögunum.
130. Manni sem krefst bóta vegna framangreindrar háttsemi lögreglumanns skal veita gjafsókn á báðum dómstigum, sbr. 178. gr. laga um meðferð opinberra mála en þó má dæma hann til greiðslu málskostnaðar eftir almennum reglum ef hann tapar máli.
131. Í skaðabótalögum nr. 50/1993 eru almennar reglur skaðabætur. Ef um ræðir pyndingar eða aðra illa meðferð opinbers starfsmanns við framkvæmd starfa sinna í öðrum tilvikum en í tengslum við rannsókn opinbers máls, er unnt að krefjast bóta úr ríkissjóði eftir ákvæðum skaðabótalaganna. Samkvæmt 1. gr. laganna skal sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningarbætur. Hafi líkamstjón varanlegar afleiðingar skal einnig greiða bætur fyrir miska og örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Samkvæmt 26. gr. laganna er unnt að dæma manni miskabætur án tillits til þess hvort líkamstjón verður, en þar segir að sá sem ábyrgð ber á ólömætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns skuli greiða þeim sem misgert er við miskabætur.
132. Verði ekki fallist á í dómsmáli að ríkissjóður beri skaðabótaábyrgð á athöfnum opinbers starfsmanns eftir reglum um vinnuveitendaábyrgð, vegna þess að þær eru í engum tengslum við starf hans, verður aðeins starfsmaðurinn sjálfur krafinn um skaðabætur. Samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af broti á almennum hegningarlögum. Með þessu er tryggt að þótt brotamaður sem dæmdur hefur verið til bótagreiðslu sé ekki borgunarmaður fyrir fjárhæðinni, ábyrgist ríkissjóður greiðslu bótanna upp að ákveðnu hámarki, og endurkrefur brotamann eftir því sem unnt er. Samkvæmt framangreindum lögum greiðir ríkissjóður bætur til brotaþola vegna líkamstjóns svo og vegna tjóns á fatnaði og öðrum persónulegum munum þar á meðal lágum fjárhæðum í reiðufé, sem tjónþoli bar á sér þegar líkamstjóninu var valdið. Ríkissjóður greiðir einnig bætur vegna miska og fyrir missi framfæranda.
133. Samkvæmt almennum skaðabótareglum, einkum 13. og 14. gr. skaðabótalaganna, er tryggður réttur bæði maka og barna til þess að krefjast bóta fyrir missi framfæranda.
134. Dómsmál þar sem ríkið er krafið um skaðabætur vegna aðgerða lögreglu í tengslum við rannsókn opinberra mála eru ekki fátíð, en mjög sjaldgæft er að þau fjalli um pyndingar eða aðra illa meðferð á mönnum. Oftast lúta þau að því að lagaskilyrði rannsóknaraðgerða hafi brostið, t.d. skilyrði gæsluvarðhalds, og hefur í nokkrum mæli verið fallist á að bótaábyrgð hafi stofnast á grundvelli framangreindra ákvæða laga um meðferð opinberra mála. Einnig eru dæmi um að bætur hafi verið dæmdar á grundvelli almennra skaðabótareglna vegna ólögmætrar frelsisskerðingar í tengslum við nauðungarvistun á sjúkrahúsi. Þess má geta að réttur til bótagreiðslna vegna ólögmætrar frelsissviptingar, án tillits til þess hvort hún tengist rannsókn opinbers máls eða í öðrum tilvikum, er tryggður í 4. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.
135. Hvað varðar bótakröfur vegna pyndinga eða annarra illrar meðferðar af hálfu opinberra starfsmanna, má finna tilvik þar sem krafist er bóta vegna líkamsmeiðinga við handtöku. Frá síðustu árum eru aðeins örfá dæmi um slík dómsmál. Í dómi Hæstaréttar frá 25. janúar 1996 voru manni dæmdar bætur úr hendi lögreglumanns og ríkissjóðs fyrir fjártjón og miska eftir líkamsmeiðingar sem hann varð fyrir við handtöku lögreglu. Viðkomandi lögreglumaður hafði áður verið dæmdur til refsingar fyrir líkamsmeiðingar, sbr. 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga í dómi Hæstaréttar frá 14. nóvember 1991. Um þann dóm var fjallað að framan í tengslum við 12. og 13. gr. samningsins. Í dómi Hæstaréttar frá 18. desember 1997 var ríkissjóður sýknaður af bótakröfu manns sem hélt því fram að hann hefði hlotið rifbeinsbrot í húsakynnum lögreglunnar í Reykjavík þar sem hann dvaldi í nokkrar klukkustundir í kjölfar handtöku í marsmánuði 1993. Þótti ekki sannað að áverkar hans yrðu raktir til þess að lögreglumenn hefðu beitt hann óþarfa harðræði í starfi. Í dóminum var hins vegar átalið að að meðferð máls þessa hjá lögreglunni í Reykjavík og hjá rannsóknarlögreglu ríkisins hefði verið verulega áfátt. Var þar sérstaklega litið til þess að þegar maðurinn kvartaði undan framkomu lögreglunnar tæplega mánuði eftir að handtakan átti sér stað, annaðist lögreglan í Reykjavík sjálf rannsókn málsins, þ.á m. yfirheyrslur á þeim lögreglumönnum sem bornir voru sökum, í stað þess að vísa kæru hans til rannsóknar á öðrum vettvangi. Málið barst síðar rannsóknarlögreglu ríkisins sem virtist þó ekki hafa hafa aðhafst neitt en sendi rannsóknargögn málsins til ríkissaksóknara í nóvember sama ár. Embætti ríkissaksóknara tilkynnti rannsóknarlögreglunni í apríl 1994 að ekki væru efni til frekari rannsóknar.
136. Þess má loks geta að framangreindar reglur um rétt manna til sanngjarna og fullra bóta gilda jafnt fyrir alla án tillits til þjóðernis eða hvort flóttamaður á í hlut, svo dæmi séu tekin.
137. Sjúkrahúsvistun eða önnur endurhæfing, bæði líkamleg og andleg, sem maður kann að þurfa eftir að hafa orðið fyrir pyndingum, er tryggð í íslenskri heilbrigðislöggjöf. Almenna reglan er að sjúklingar greiða ekki sérstaklega fyrir heilbrigðisþjónustu þegar þeir eru lagðir inn á sjúkrahús. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er utan sjúkrahúsa, þ.m.t. þjónusta sérfræðinga, er að hluta til greidd af sjúklingum. Ef kostnaður stofnast vegna sjúkraþjónustu sem maður þarfnast eftir að hafa verið beittur pyndingum verður þeim sem dæmdur er fyrir slíkt brot gert að greiða þann kostnað auk greiðslu skaðabóta fyrir fjártjón og miska.
15. grein.
138. Í íslenskum lögum eru ekki ákvæði sem banna berum orðum að yfirlýsing sem reynist hafa verið fengin með pyndingum sé notuð sem sönnunargagn við meðferð máls, enda gildir sú meginregla að dómari hafi frjálst sönnunarmat. Af þeirri ástæðu eru ekki sérstakar reglur í réttarfarslöggjöfinni sem banna að tiltekin sönnunargögn verði færð fram fyrir dómi eða kveða á um lögbundið sönnunarmat dómara í einstaka tilvikum. Þó ber að leggja til grundvallar við sönnun í sakamálum 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um að maður sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli teljast saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð og hvílir sönnunarbyrði um sekt sakbornings á ákæruvaldinu. Íslensk stjórnvöld líta svo á að reglur opinbers réttarfars um sönnunarfærslu í sakamálum tryggi að maður verði ekki sakfelldur á grundvelli játningar, ef fyrir liggur að hún hafi verið fengin fram með pyndingum, viðkomandi hefur horfið frá henni og önnur sönnunargögn eru ekki til staðar sem nægja til að sýna fram á sekt hans.
139. Önnur meginregla opinbers réttarfars er bein sönnunarfærsla fyrir dómi, sbr. 48. gr. laganna um meðferð opinbera mála. Þannig skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Af þeim sökum hafa lögregluskýrslur, sem ekki eru studdar með skýrslugjöf fyrir dómi, takmarkað sönnunargildi.
140. Hafi maður játað refsiverðan verknað í yfirheyrslu hjá lögreglu en dregur játningu sína síðar til baka fyrir dómi, metur dómari hvort skynsamleg ástæða sé til að ætla að játning sé röng. Haldi ákærður maður því fram að játning hafi verið fengin með pyndingum og frekari gögn eða atvik máls renna stoðum undir þá fullyrðingu hans, yrði slíkt rannsakað tafarlaust eftir þeim reglum sem lýst var í umfjöllun um 12. og 13. gr. samningsins að framan. Verði staðfest að játning sé hafi verið fengið fram með pyndingum eða annarri þvingun, yrði lögreglan beitt þeim refsiviðurlögum íslenskra laga sem lýst var í umfjöllun um 4. gr. samningsins. Slík játning verður ekki lögð til grundvallar við ákvörðun um sekt manns enda megi dómari álykta af aðstæðum að hún sé röng. Ef önnur ótvíræð sönnunargögn en hin ólöglega fengna játning eru á hinn bóginn færð fram fyrir dómi um að maður sé sekur um brot, verður hann á hinn bóginn sakfelldur teljist sekt hans þannig nægilega sönnuð.
141. Komi fram kæra um að játning hafi verið fengin fram með pyndingum eftir að óáfrýjaður héraðsdómur eða hæstaréttardómur gengur í sakamáli er unnt að taka málið upp á ný að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem lýst er í 184. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þannig er heimilt að taka mál upp á ný að kröfu dómfellds manns í eftirfarandi tilvikum:
* Ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk (1. mgr.).
* Ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hafi verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn (2. mgr.).
142. Einu sinni hefur reynt á kröfu dómfellds manns um endurupptöku refsimáls samkvæmt þessu ákvæði, þar sem því var m.a. borið við að játning hans fyrir lögreglu um að hafa framið tiltekin brot, sem síðar var staðfest fyrir dómi, hefði verið knúin fram með ólögmætu harðræði. Þar var um að ræða eitt umfangsmesta sakamál sem rekið hefur verið fyrir íslenskum dómstólum á síðari tímum og voru sex menn ákærðir í málinu fyrir ýmis brot, þ.m.t. tvö manndráp. Með dómi Hæstaréttar frá 22. febrúar 1980 var maðurinn, sem síðar krafðist endurupptöku málsins, sakfelldur fyrir stórfelldar líkamsárásir á tvo menn sem leiddu til dauða þeirra. Þegar málið var rekið fyrir héraðsdómi árið 1977 og Hæstarétti árið 1980 hafði maðurinn dregið játningar sínar til baka. Hélt hann því fram að þær hans hefðu verið fengnar með því að rannsóknarmenn og fangaverðir hefðu beitt hann ólögmætri harðneskju, leitt hann til ákveðinna frásagna, samræmt sögu hans við sögu annarra ákærðra í málinu og viðhaft aðrar óhæfilegar og ólögmætar rannsóknaraðferðir. Framangreindar fullyrðingar urðu tilefni þess að sérstök rannsókn fór fram á meintu harðræði gagnvart sakborningnum meðan hann var í gæsluvarðhaldi. Með hliðsjón af niðurstöðum hennar varð það niðurstaða Hæstaréttar í dómi sínum frá 22. febrúar 1980 að ekki yrði séð að játning hefði verið fengin með ólögmætum aðferðum af hálfu þeirra sem fóru rannsókn málsins. Var maðurinn sakfelldur á grundvelli játningar sinnar og annarra sönnunargagna sem þóttu liggja fyrir um sekt hans.
143. Síðla árs 1994 krafðist maðurinn endurupptöku á málinu, einkum á grundvelli þess að ný gögn hefðu komið fram sem ætla mætti að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins hefðu þau komið fyrir dómara áður en dómur gekk. Með ákvörðun Hæstaréttar frá 15. júlí 1997 var beiðni um endurupptöku málsins hafnað þar sem lagaskilyrðum 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð opinberra mála var ekki fullnægt. Byggðist sú niðurstaða aðallega á því að upplýsingar sem voru færð fram til stuðnings beiðninni um endurupptöku hefðu í meginatriðum legið fyrir Hæstarétti við uppkvaðningu dóms í málinu 22. febrúar 1980 og þar hefði verið tekin afstaða til þeirra. Í ákvörðuninni kemur fram að við meðferð beiðninnar væri haft í huga að Hæstiréttur taldi á sínum tíma vissa alvarlega galla vera á rannsókn þess, þótt ekki væri talið að þeir ættu að valda því að málið ónýttist eða ekki yrði af sakfellingu. Þessi gallar hefðu þó að líkindum einhverju ráðið um það að niðurstaða Hæstaréttar varð nokkuð hagfelldari hinum ákærðu en niðurstaða héraðsdóms.
144. Í fyrrnefndri ákvörðun Hæstaréttar frá 15. júlí 1997 var fallist á að dómfelldi hefði sætt ólögmætu harðræði í gæsluvarðhaldsvist sinni, einkum á tveggja mánaða tímabili. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 var það að nokkru kunnugt en frekari gögn hefðu þó komið fram um þetta. Hins vegar þóttu það vera einu atriðin sem færð hefðu verið fram og kæmu til álita til að geta orðið grundvöllur að endurupptöku málsins. Þau vörðuðu tímabil í gæsluvarðhaldsvist dómfellda sem annar vegar voru nokkrum mánuðum eftir að hann gaf skýrslur, þar sem hann játaði að eiga þátt í hvarfi annars mannsins og hins vegar mörgum mánuðum áður en hann gekkst við aðild sinni að hvarfi hins mannsins. Þótti liggja fyrir að hluti þess harðræðis sem dómfelldi varð fyrir hafi verið ætlaður sem agaviðurlög við brotum hans á reglum, sem giltu um gæsluvarðhaldsvistina. Þótt atriði þau, sem leidd hefðu verið í ljós, styrktu nokkuð fyrri ásakanir dómfellda um harðræði í gæsluvarðhaldsvistinni, var það mat réttarins að ekki hefðu komið fram nýjar upplýsingar sem líklegar væru til að hafa breytt niðurstöðu Hæstaréttar 22. febrúar 1980.
145. Niðurstaða Hæstaréttar um synjun á endurupptöku málsins varð tilefni mikillar umræðu í þjóðfélaginu, þar sem m.a. var rifjuð upp hin mikla umræða og fjölmiðlaumfjöllun sem rannsókn og dómsmeðferð sakamáls þessa fékk á síðari hluta áttunda áratugarins. Ljóst er að ýmsar brotalamir voru á þágildandi lagareglum um meðferð opinberra mála, ekki síst þeim sem vörðuðu réttindi sakborninga. Á þeim tuttugu árum sem liðin eru síðan hafa stórfelldar breytingar og réttarbætur átt sér stað á þessu sviði með setningu nýrra laga um meðferð opinberra mála þar sem réttarstaða sakbornings hefur verið bætt verulega. Auk þess hafa verið settar skýrar reglur um aðferðir við yfirheyrslu hjá lögreglu og meðferð manna í gæsluvarðahaldi, sem m.a. voru reifaðar hér að framan, einkum í umfjöllun um 11. gr. samningsins.
16. grein.
146. Í umfjöllun um 10.-13. gr. samningsins að framan hefur jöfnum höndum verið fjallað um ráðstafanir gegn pyndingum í skilningi 1. gr. samningins og ráðstafanir til þess að vernda menn fyrir fyrir grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Er því vísað til þeirrar umfjöllunar og eru ekki efni til að endurtaka hana sérstaklega hér.
147. Íslensk refsilöggjöf og reglur um vernd manna fyrir misnotkun opinbers valds eru ekki bundnar við að beitt sé pyndingum í skilningi 1. gr. samningsins. Refsiábyrgð opinbers starfsmanns eða annars handhafa opinbers valds, einkum samkvæmt 131. gr., 132 og 134. gr. nær því til athafna opinberra starfsmanna sem fela í sér grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðand meðferð eða refsingu. Má ráða þetta af orðalagi ákvæðanna þegar þar er t.d. rætt um "ólöglega aðferð" til að koma manni til sagna (131. gr.), "réttra aðferða" er ekki gætt við meðferð máls (132. gr.) og að opinber starfsmaður "misnoti aðstöðu sína" til að neyða mann til að gera eitthvað (133. gr.). Með hliðsjón af þessum refisákvæðum veitir íslensk löggjöf sambærilegar heimildir til þess unnt sé að kæra grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð til yfirvalda sem hlutast til um rannsókn á málinu.
148. Framangreindar reglur um bótarétt manna, t.d. um rétt til miskabóta án þess að líkamstjón hafi orðið, gilda einnig jafnt þótt ekki hafi verið um pyndingar að ræða í skilningi 1. gr. samningsins. Ef ekki kemur til refsiábyrgðar opinbers starfsmanns vegna háttsemi hans sem felur í sér grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, varðar slík háttsemi líka agaviðurlögum í starfi. Er þannig unnt að veita starfsmanni áminningu sem er undanfari brottvikningar ef hann verður aftur uppvís að slíkri háttsemi.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum