Hoppa yfir valmynd
07.05.2002 Innviðaráðuneytið

Samkomulag um rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna

Þann 6. maí undirritaði félagsmálaráðherra nýtt samkomulag 13 aðila um rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Samkomulagið gildir til 31. desember 2004. Aðilar að samkomulaginu eru ; Félagsmálaráðuneytið, Íbúðalánasjóður, Reykjavíkurborg, Búnaðarbanki Íslands hf., Íslandsbanki hf., Landsbanki Íslands hf., Samband íslenskra sparisjóða, Samband íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtökin, þjóðkirkjan, Landssamtök lífeyrissjóða, ASÍ og BSRB.

Ráðgjafarstofan var að frumkvæði félagsmálaráðherra sett á laggirnar í febrúar 1996 sem tilraunverkefni á vegum 17 aðila. Frá því að Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína og til dagsins í dag hafa rúmlega 3600 fjölskyldur fengið fjárhagsráðgjöf ásamt tillögum að lausn til viðkomandi aðila. Auk þess hefur þúsundum verið liðsinnt með ráðleggingum með símaviðtölum.

Á þeim tíma sem liðinn er hefur orðið breyting á fjölda samstarfsaðila og jafnframt hafa Íbúðalánasjóður, Reykjavíkurborg og lánastofnanir aukið þátttöku sína og styrk í samstarfinu. Ráðgjafarstofan hefur unnið mikilvægt starf í þágu fjölskyldna sem af ýmsum ástæðum hafa átt erfitt með að standa við skuldbindingar sínar og sjá sér farborða. Árangurinn grundvallast á öflugu starfsfólki og farsælu samstarfi þeirra aðila sem eru bakhjarlar starfseminnar og þeirra úrræða sem standa til boða.

Ráðgjafarstofan hóf starfsemi sína 1996. Á starfstíma Ráðgjafarstofunnar hafa orðið breytingar jafnt á eðli og einkennum vandamála sem og úrræðum til lausnar. Reynslan af starfi Ráðgjafarstofunnar hefur komið að góðu gagni varðandi tillögur um úrræði og forvarnastarf. Á fyrstu árunum var vandi vegna ábyrgðarskuldbindinga þriðja aðila tíður á borði ráðgjafanna. Í kjölfar ábendinga Ráðgjafarstofunnar gerðu stjórnvöld, lánastofnanir og Neytendasamtökin með sér samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þann 1. nóvember 2001 var undirritað endurnýjað og endurbætt samkomulag um notkun ábyrgðaskuldbindinga. Á árinu var einnig gerð breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, sem auka úrræði Íbúðalánasjóðs til að leysa vanda fólks sem komið er í greiðsluvandræði. Þá var samþykkt á Alþingi á árinu að afnema skattskyldu húsaleigubóta frá og með 1. janúar 2002, en sú breyting mun lækka húsnæðiskostnað láglaunafólks.

Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur unnið brautryðjendastarf á mörgum sviðum. Eitt af því tengist því innleiðingu viðmiðunar við útgjöld fjölskyldunnar sem grundvöll mats á greiðslugetu fjölskyldunnar. Viðmiðunartölur Ráðgjafarstofu hafa verið notaðar mjög víða og hafa sannað gildi sitt. Heimasíða Ráðgjafarstofunnar er ; http://www.rad.is

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum