Hoppa yfir valmynd
08.01.2003 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Varðveisla frímerkja og póstminja

Í dag var undirritað samkomulag um varðveislu frímerkja og póstminja er tengjast frímerkjaútgáfu milli Íslandspósts og Þjóðskjalasafns. Samkomulagið byggir á vinnu starfshóps samgönguráðuneytisins, Íslandspósts, Þjóðskjalasafns og Ríkisendurskoðunar.


Fyrir atbeina samgönguráðherra hefur verið undirritað samkomulag um varðveislu frímerkja og póstminja er tengjast frímerkjaútgáfu milli Íslandspósts og Þjóðskjalasafns. Samkomulagið byggir á vinnu starfshóps samgönguráðuneytisins, Íslandspósts, Þjóðskjalasafns og Ríkisendurskoðunar. Málið á sér upphaf við stofnun Pósts og síma hf á sínum tíma. Í samræmi við ákvæði laga nr. 103/1996, var í 4. gr. stofnsamningsins fyrir félagið ákveðið að frímerkjasöfn þau og aðrar póstminjar í vörslu Póst- og símamálastofnunar skyldu gerð að sjálfstæðri vörslustofnun póstminja í eigu ríkisins, með sérstakri löggjöf eða með öðrum hætti. Póstur og sími hf, og síðan Íslandspóstur hf. hafa haft með höndum varðveislu munanna til þessa, en nú hefur tekist samkomulag milli aðila um að Þjóðskjalasafn taki að sér varðveisluna.

Það sem um er að ræða er eftirfarandi:
1. Allt að 400 eintök allra íslenskra frímerkja sem út hafa verið gefin af póstmála-yfirvöldum. Í þennan flokk frímerkjasafnsins bætast 400 eintök, þ.e. viðeigandi fjöldi arka af hverju nýju frímerki sem út verða gefin. Safn þetta má aldrei skerða nema eftir lögmætri ákvörðun frá þar til bæru stjórnvaldi.
2. Allt að því jafn mörg frímerki og skv. 1. tölulið. Póstmálayfirvöld hafa haldið til haga þessum frímerkjum til þess að ráðstafa til frímerkjaskipta eða af öðru sérstöku tilefni.
3. Safn íslenskra frímerkja úr einkaeigu sem kennt er við safnara og fyrri eiganda, Hans Andreas Hals, sem var norskur stórkaupmaður með búsetu í Stokkhólmi. Safnið sem talið er eitt hið merkilegasta safn íslenskra frímerkja er verið hefur í einkaeigu var keypt á árinu 1946 og var kaupverðið um 100.000 sænskar krónur eða talið að jafnvirði eins Svíþjóðarbátanna sem þá var verið að flytja til landsins. Með safninu fylgja einnig ýmsar ritaðar heimildir.
4. Erlend frímerki sem póstmálastjórnir aðildarríkja Alþjóðapóstsambandsins hafa sent hingað í skiptum fyrir íslensk frímerki við útgáfu þeirra. Hér er um að ræða geysimikið safn erlendra frímerkja frá hátt á annað hundrað ríkjum.


Í tilefni af samkomulaginu hefur verið gerð heildarskrá um allar frímerkjaútgáfur frá 1873 til ársins 2000. Skránni hefur verið komið fyrir á heimasíðu samgönguráðuneytisins.

Þeir safngripir sem með samkomulaginu eru afhentir Þjóðskjalasafni til varðveislu hafa fyrst og fremst mikið menningarsögulegt gildi og engin tilraun hefur verið gerð til að meta þá til verðs en eins og áður segir var þess látið getið að kaupverð hins merkilega safns Hans Hals hefði verið hliðstætt við einn svokallaðra Svíþjóðarbáta sem Nýsköpunarstjórnin undir forystu Ólafs Thors lét smíða á sínum tíma. Þá má geta þess að skv. lauslegum útreikningum eru íslensku krónu og auramerkin í söfnunum að nafnverði nærri 25 milljónir króna, en það gefur hugmynd um hversu geysimikil verðmæti hér er um að ræða, enda skuldbindur Þjóðskjalasafn sig til að búa svo um safnið að ætíð þurfi tvo óskylda aðila til að opna hirslur þess.

Skrá um útgefin frímerki (pdf - 220Kb)



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum