Hoppa yfir valmynd
27.11.2003 Innviðaráðuneytið

Íbúðalánasjóður veiti 90% almenn íbúðalán

Hækkun lánshlutfalls almennra íbúðalána í 90% af verði hóflegrar íbúðar mun verða framkvæmd innan vébanda Íbúðalánasjóðs. Þetta er niðurstaða samráðs félagsmálaráðherra, forsætisráðherra, utanríkisráðherra og fjármálaráðherra sem kynnt hefur verið í ríkisstjórn.

Í kjölfar samráðsins hafa stjórnvöld tilkynnt fyrirhugaðar breytingar á hækkun lánshlutfallsins innan núverandi íbúðalánakerfis til Eftirlitsstofnunar EFTA.

Ákvörðun um hver hámarksfjárhæð húsnæðislána verður í breyttu íbúðalánakerfi og innleiðing hækkunar í áföngum liggur ekki fyrir.

Niðurstaða ráðherranna byggir á vinnu ráðgjafarhóps félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og viðskiptaráðuneytis sem félagsmálaráðherra skipaði til að vinna að tillögum um útfærslu á framtíðarskipulagi íbúðalána, einkum er varða það stefnumið ríkisstjórnarinnar að koma á 90% húsnæðislánum.

Ráðgjafarhópurinn hefur haft samráð við fjölda hagsmunaaðila í vinnu sinni. Þá fékk hópurinn til liðs við sig Árna Pál Árnason, sérfræðing í Evrópurétti, til að vinna að lögfræðilegri úttekt á því hvort starfsumgjörð Íbúðalánasjóðs væri í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt samningum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn, sbr, lög nr. 2/1993).

Einnig var óskað eftir umfjöllun um það hvort það samrýmdist sömu skuldbindingum ef Íbúðalánasjóði yrði heimilað að hækka lánshlutfall til almennra íbúðakaupa í allt að 90% af kaupverði. Hvort tveggja hefur verið véfengt, meðal annars af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.

Niðurstaða Árna Páls er sú að allar líkur séu á að núverandi íbúðalánakerfi, jafnt húsbréfakerfið og lánveitingar á félagslegum forsendum, standist ákvæði EES-samningsins um ríkisstyrki. Vafasamt sé að núverandi íbúðalánakerfi teljist ríkisstyrkur í skilningi samningsins og ef svo er, uppfylli hann reglur samningsins um þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Sú ríkisaðstoð sem kann að felast í þeirri aðstöðu sem Íbúðalánasjóður hefur til að veita þessa þjónustu, teljist því ekki óheimil ríkisaðstoð skv. 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Ríkisaðstoðin verði veitt einni stofnun sem ekki er í samkeppni í almennri fjármálastarfsemi og er ekki úr hófi miðað við það markmið sem stefnt er að með aðstoðinni.

Í ljósi þessa er það niðurstaða álitsins að hækkun lánshlutfalls almennra húsnæðislána í 90% ætti ekki að stangast á við reglur EES-samningsins um ríkisaðstoð. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ekki gert athugasemdir við núverandi húsnæðiskerfi. Hins vegar er eindregið mælt með því að áformin verði tilkynnt ESA, enda tryggir það endanlega afgreiðslu málsins, eyðir óvissu og kemur í veg fyrir deilur og málaferli á síðari stigum.

Af þessu áliti er ljóst að engar forsendur eru til að álykta sem svo að nauðsyn beri til að breyta núverandi húsnæðislánakerfi í grundvallaratriðum vegna EES-samningsins. Ekki er heldur unnt að álykta sem svo að aukning lánshlutfalls í 90% breyti þeirri niðurstöðu.

Á grundvelli álitsgerðarinnar og sambærilegs álits sérfræðinga fjármálaráðuneytisins á sviði ríkisstyrkjamála lagði ráðgjafarhópurinn til við félagsmálaráðherra að hækkun lánshlutfalls í 90% yrði framkvæmd innan Íbúðalánasjóðs og að breytingarnar yrðu kynntar ESA þótt hópurinn telji að fyrirhugaðar breytingar á hámarkshlutfalli íbúðalána stangist ekki á við ákvæði EES-samningsins. Tilkynning muni hins vegar eyða réttaróvissu bæði hvað varðar stöðu Íbúðalánasjóðs og núverandi íbúðalánakerfis sem og fyrirhugaðar breytingar.

Í lögfræðiáliti Árna Páls Árnasonar kemur einnig fram að ef breytt yrði um húsnæðislánakerfi í tengslum við hækkun lánshlutfalls sé óhjákvæmilegt að tilkynna um slík áform til ESA, svo fremi sem þau áform fælu í sér að ríkið kæmi að lánveitingum til íbúðakaupa með einhverjum hætti. Tillögur Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um nýtt húsnæðislánakerfi, sem byggi á lánveitingum bankanna til kaupenda sem Íbúðalánasjóður fjármagni, fela í sér tilkynningarskylda ríkisaðstoð til bankanna eins og þær hafa verið settar fram og ekki sé ljóst hvernig sú aðstoð geti samrýmst ákvæðum samningsins.

Skjal fyrir Acrobat Reader

Lögfræðiálit Árna Páls Árnasonar vegna 90% húsnæðislána

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum