Hoppa yfir valmynd
01.07.2008 Innviðaráðuneytið

Stjórnvöld munu skila Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) afstöðu sinni innan mánaðar

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent frá sér ákvarðanir í tengslum við formlegt rannsóknarferli sem hófst í júní 2006 í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins frá apríl 2006 þar sem hnekkt var niðurstöðu stofnunarinnar frá því í ágúst 2004. Komist hafði verið að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag sjóðsins væri ekki í andstöðu við ríkisstyrkjareglur samningsins. Fallist er á það sjónarmið íslenskra stjórnvalda að lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs byggi á lánafyrirgreiðslukerfi sem hafi verið til staðar fyrir gildistöku EES-samningsins. Sú niðurstaða takmarkar mjög mögulegar endurkröfur á Íbúðalánasjóð vegna ríkisaðstoðar við sjóðinn.

Í ákvörðun ESA er hins vegar sett fram sú bráðabirgðaniðurstaða að núgildandi ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs sé ekki í samræmi við ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins. Meginatriði þeirrar niðurstöðu er að ríkisaðstoð vegna félagslegra lána til íbúðakaupa sé ekki nægilega vel skilgreind og afmörkuð í núgildandi löggjöf. Tekið er fram að það sé ekki í verkahring ESA að koma fram með tillögur um nýtt fyrirkomulag Íbúðalánasjóðs. Það sé hlutverk stjórnvalda að setja nauðsynleg skilyrði í lög vegna félagslegra íbúðalána og sjá til þess að lán á venjulegum markaðsforsendum séu án ríkisaðstoðar.

Í ákvörðun ESA kemur jafnframt fram að ákveðið hafi verið að opna nýja formlega rannsókn sem byggist á því að samkvæmt 7. gr. laga um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997, sé Íbúðalánasjóður undanþeginn greiðslu ríkisábyrgðargjalds. Eru að mati ESA taldar líkur á að með setningu laganna hafi Íbúðalánasjóði verið veitt ný ríkisaðstoð sem beri að endurkrefja sjóðinn um. Er þeim sem hagsmuna kunna að hafa að gæta gefinn kostur á að senda stofnuninni athugasemdir af þessu tilefni. Verði það niðurstaða ESA að lokinni þessari rannsókn að um ólögmæta ríkisaðstoð hafi verið að ræða getur það leitt til þess að stjórnvöld þurfi að endurkrefja Íbúðalánasjóð um þá fjárhæð sem þessari ríkisaðstoð nemur frá 1998.



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum