Hoppa yfir valmynd
18.07.2008 Innviðaráðuneytið

Nýr lánaflokkur hjá Íbúðalánasjóði

Félags- og tryggingamálaráðherra hefur undirritað reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 458/1999, um lánaflokka Íbúðalánasjóðs. Með reglugerðinni er stofnaður nýr lánaflokkur hjá Íbúðalánasjóði sem heimilar lánveitingar til banka, sparisjóða og lánafyrirtækja með afhendingu íbúðabréfa til tímabundinnar endurfjármögnunar á íbúðalánum sem þessi fjármálafyrirtæki hafa veitt gegn veði í íbúðarhúsnæði hér á landi. Skilyrði fyrir lánveitingu er að hún sé til þess fallin að tryggja öryggi og framboð lána á íbúðalánamarkaði og eðlilega verðmyndun á íbúðamarkaði. Setning reglugerðarinnar er í samræmi við yfirlýsingu ríkistjórnarinnar frá 19. júní síðastliðnum þar sem kynntar voru aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði. Allt að 30 milljörðum króna verður varið til lánveitinga í þessum lánaflokki í formi íbúðabréfa sem eingöngu verða notuð í veðlánaviðskiptum við Seðlabanka Íslands.

Félags- og tryggingamálaráðherra mun jafnframt leggja fram á Alþingi í byrjun september næstkomandi frumvarp þar sem lagt verður til að Íbúðalánasjóði verði veitt heimild til að fjármagna og kaupa ný íbúðalán af fjármálafyrirtækjum. Þetta var ákveðið eftir ítarlega skoðun félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands. Verði frumvarpið að lögum er áætlað að verja til þessa allt að 30 milljörðum króna á þessu og næsta ári.

Tekið skal fram að framangreindar lagabreytingar sem fyrirhugaðar eru í september eru óháðar heildarendurskoðun laga um húsnæðismál sem jafnframt er fyrirhuguð á komandi löggjafarþingi sem hefst í október.

Tenging frá vef ráðuneytisinsReglugerðin á vef Stjórnartíðinda

Skjal fyrir Acrobat Reader Reglugerðin (PDF, 320KB)



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum