Hoppa yfir valmynd
24.09.2008 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Mikilvægar lagabreytingar á sviði fjarskiptamála

Tvær lagabreytingar er lúta að fjarskiptamálum voru samþykktar á Alþingi á dögunum og snertir önnur þeirra meðal annars gjald fyrir reikisímtöl og hin felur í sér breytingar á úrskurðarnefnd um fjarskipta- og póstmál.

Breytingar á lögum um fjarskipti nr. 81/2003 hafa í för með sér að fjarskiptafyrirtæki sem veita reikiþjónustu hérlendis verða að sjá til þess að heildsölu- og smásöluverð fyrir reikisímtöl í farsímaneti, sem á sér upphaf eða lýkur innan EES, sé ekki hærra en hámarksverð sem þar gildir. Fyrirtækjunum er einnig skylt að upplýsa notendur um kostnað við að hringja úr tal- og farsímaneti þeirra yfir í net annarra fjarskiptafyrirtækja.

Markmið þessara breytinga er að notendur almennra farsímaneta greiði ekki óhóflegt verð fyrir reikiþjónustu innan Evópska efnahagssvæðisins þegar síminn er notaður erlendis. ,,Þetta er gert til þess að ná fram öflugri neytendavernd og um leið til að tryggja samkeppni milli rekstraraðila farsímanetanna,” sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra þegar hann mælti fyrir lagabreytingunni á Alþingi.

Þá var breytt ákvæðum er fjalla um útgáfu Póst- og fjarskiptastofnunar á skírteinum sem heimila einstaklingum að starfrækja ákveðnar tegundir þráðlauss búnaðar svo sem talstöðva. Eru felldar niður skilyrðislausar kröfur um skírteini sem hætt eru að þjóna tilgangi sínum og er það gert í ljósi markmiða um einfaldari stjórnsýslu.

Breyting á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun nr. 69/2003 fjallar einkum um úrskurðarnefnd um fjarskipta- og póstmál og meðferð ágreiningsmála hjá nefndinni. Heimilt er nú að bera ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar undir dómstóla án þess að mál sé fyrst borið undir úrskurðarnefndina. Þá er skipunartímabili nefndarinnar stytt úr fimm árum í fjögur og skipar samgönguráðherra nú nefndarmenn án tilnefningar Hæstaréttar eins og verið hafði. Ekki var talið nauðsynlegt að leita tilnefningar Hæstaréttar vegna skipan nefndarmanna í ljósi þess að Síminn hefur nú verið einkavæddur.

Einnig er nú heimilað að taka upp málskotsgjald sem lögaðilum er gert að greiða skjóti þeir máli til úrskurðarnefndarinnar og skal það standa undir rekstri mála hjá nefndinni. Verður mælt fyrir um gjaldið og fleiri atriði er varða starfshætti nefndarinnar í reglugerð sem ráðherra setur.



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum