Hoppa yfir valmynd
15.10.2008 Innviðaráðuneytið

Úrræði Íbúðalánasjóðs fyrir heimili í greiðsluvanda efld

Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur með reglugerðarbreytingu rýmkað heimildir Íbúðalánasjóðs til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluvanda.

Íbúðalánasjóður hefur jafnframt mildað innheimtuaðgerðir stofnunarinnar með tilliti til ástands efnahagsmála.

Frestur frá gjalddaga til sendingu greiðsluáskorunar verður framvegis fjórir til fjórir og hálfur mánuður frá elsta ógreidda gjalddaga í stað tveggja til tveggja og hálfs mánaðar áður. Heimilt er að afturkalla nauðungarsölu gegn greiðslu þriðjungs vanskila í stað helmings vanskila áður og rýmingarferli uppboðsíbúða hefur verið lengt úr einum mánuði í þrjá mánuði. Þá hafa heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu á eldri íbúð verið rýmkaðar verulega. Íbúðalánasjóði bætist einnig það úrræði að lántakendur eigi val um að greiða eingöngu vexti og verðbætur af vöxtum í tiltekinn tíma, leiði það til lausnar á vandanum.

Umræddar heimildir koma til viðbótar eldri úrræðum, skuldbreytingum vanskila, lengingu lána og frystingu afborgana (höfuðstól, verðbótum og vöxtum) um allt að þrjú ár.

Úrræði Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluvanda lántakenda eiga við, hvort sem lánin eru í innlendri eða erlendri mynt, svo fremi að lánin heyri undir Íbúðalánasjóð.

Auk þeirra ákvarðana sem hér hefur verið lýst og hafa þegar tekið gildi mun félags- og tryggingamálaráðherra leggja fram á Alþingi frumvarp til laga sem heimilar Íbúðalánasjóði að lengja lán viðskiptavina sinna um allt að 30 ár í stað 15 ára áður og jafnframt að veita skuldbreytingarlán vegna greiðsluerfiðleika til allt að 30 ára í stað 15 ára áður. Einnig verða útfærðar reglur vegna mögulegrar útleigu Íbúðalánasjóðs á því húsnæði sem stofnunin kann að eignast á nauðungaruppboðum til fyrri íbúa, hvort sem um er að ræða húsnæði í eigu einstaklinga eða leigufélaga. Slík leiga yrði ávallt í takmarkaðan tíma í samræmi við hagsmuni beggja aðila.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum