Hoppa yfir valmynd
13.11.2008 Innviðaráðuneytið

Frumvarp um hlutabætur samþykkt á Alþingi

Frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa var samþykkt á Alþingi í dag. Markmið laganna er að sporna við vaxandi atvinnuleysi með því að ýta undir að atvinnurekendur semji um lægra starfshlutfall við starfsfólk sitt í stað þess að grípa til uppsagna. Lögin gera heimilt að greiða fólki sem er í hlutastarfi tekjutengdar atvinnuleysisbætur í lengri tíma en áður. Jafnframt verður skerðing atvinnuleysisbóta vegna launagreiðslna fyrir hlutastarf felld niður.

Við afgreiðslu þingsins var samþykkt breytingatillaga frá félags- og tryggingamálanefnd um að atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi verða greiddar frá 1. nóvember síðastliðnum til þeirra sem fullnægja skilyrðum laganna frá þeim tíma. Jafnframt var samþykkt tillaga nefndarinnar um aukinn sveigjanleika innan atvinnuleysistryggingakerfisins að því er varðar rétt sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta. Í því felst að einstaklingar sem starfa sjálfstætt munu eiga þess kost að taka að sér tilfallandi verkefni í stað þess að stöðva reksturinn alveg án þess að missa við það rétt til atvinnuleysisbóta. Skilyrði fyrir þessu eru meðal annars þau að viðkomandi einstaklingur tilkynni skattayfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstrinum sem leiði til tímabundins atvinnuleysis og skili til skattayfirvalda viðeigandi rekstrargögnum þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur.

Lögin hafa verið birt á heimasíðu Alþingis

Tenging frá vef ráðuneytisins Lög um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum