Hoppa yfir valmynd
02.11.2011 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjarskiptasjóður fái áfram hlutverk í uppbyggingu fjarskiptainnviða

Fjarskiptaáætlanir til fjögurra og tólf ára voru kynntar á fundi sem Skýrslutæknifélag Íslands stóð fyrir í samvinnu við innanríkisráðuneytið. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í ávarpi á fundinum að ætlunin væri að fjarskiptasjóður myndi starfa áfram til að fylgja eftir nýjum verkefnum við uppbyggingu fjarskipta eins og áætlunin gerði ráð fyrir.

Ögmundur Jónasson flutti ávarp á kynningarfundi um fjarskiptaáætlun. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var fundarstjóri.
Ögmundur Jónasson flutti ávarp á kynningarfundi um fjarskiptaáætlun. Steinunn Valdís Óskarsdóttir var fundarstjóri.

Drög að fjarskiptaáætlunum voru birt á vef ráðuneytisins fyrir nokkru og er unnt að gera athugasemdir til 10. nóvember.  Fram kom í máli ráðherra að ráðgert er að leggja áætlanirnar fyrir Alþingi í lok mánaðarins.

Ráðherra sagði brýnt að Íslendingar héltu því forskoti sem þeir hefðu náð með fyrri fjarskiptaáætlun, þ.e. uppbyggingu farsímakerfisins um landið og háhraðanettenginga fyrir alla sem þess óska. Verkefnið hefur verið unnið á markaðsforsendum en fjármagn frá fjarskiptasjóði kom til þar sem markaðsforsendur voru ekki fyrir hendi. ,,Við ætlum að halda forystu okkar í hlutfalli íbúa sem notfæra sér netið hvar sem þeir búa á landinu og ekki bara að bjóða netsamband heldur öruggt samband með hraða og bandbreidd eða afköstum sem nauðsynleg eru. Við ætlum líka að viðhalda og efla möguleika til gagnaflutninga um landið og til og frá landinu og við sjáum að á þessu sviði eru ýmsir atvinnumöguleikar sem við getum þróað í samráði og samstarfi við atvinnugreinina fjarskipti,” sagði ráðherra.

Áætlanir fléttaðar saman

Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, kynnti síðan forsendur og markmið áætlunarinnar. Sagði hann mikið samráð hafa verið við undirbúning áætlunarinnar meðal annars við Póst- og fjarskiptastofnun og sagði marga samráðsfundi verið haldna. Hann sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar að samþætta sem mest áætlanagerð og sagði ýmis tækifæri fólgin í því að flétta saman samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun.

Fjarskiptaáætlun 2011 til 2022 var kynnt á fundi í dag.Þá nefndi Sigurbergur að meðal verkefna framtíðarinnar samkvæmt áætluninni væri ljósleiðarahringtenging til landssvæða með yfir 5 þúsund íbúa og byggðakjarna með yfir þúsund íbúa. Einnig sagði hann að skilgreina þyrfti mikilvæga fjarskiptastaði og tengja þá raforku- og ljósleiðarastofnneti meðal annars vegna öryggis og almannavarna. Meðal markmiða fjarskiptaáætlunar sagði Sigurbergur að væri að minnka bilið milli þeirra sem hefðu aðstöðu til að tileinka sér upplýsingatækninnar og hinna sem hefðu það ekki.

Þorleifur Jónasson og Stefán Snorri Stefánsson frá Póst- og fjarskiptastofnun ræddu öryggismál og mikilvægi fjarskiptainnviða. Sögðu þeir hlutverk PFS að stuðla að útbreiðslu fjarskiptakerfa og skilvirkri stjórnun tíðnisviðsins, einnig að stuðla að opnun póstmarkaða. Þeir kynntu einnig mikilvægi þess að koma á öryggis- og viðbragðshópi fyrir landið sem hefði það hlutverk að stuðla að viðbrögðum við netárásum og slíkri ógn. Slíkur hópur ætti að starfa á vegum hins opinbera en hann ætti samt ekki að koma í stað núverandi öryggisstarfsemi notendahópsins heldur væri viðbótarstuðningur.

Fjarskiptaáætlun 2011 til 2022 var kynnt á fundi í dag.

Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, fjallaði um snertifleti fjarskiptaáætlunar og upplýsingasamfélagsins en verkefni þess flytjast brátt í innanríkisráðuneytið og sagði þau falla betur að verkefnasviði þess. Hún sagði eðlilegt að þekking, aðferðafræði og verkfæri verði samnýtt á sviði upplýsingatækni og fjarskipta og eðlilegt væri að auka samstarf við sveitarfélög á þessum sviðum.

Í lokin gafst fundarmönnum kostur á að bera fram spurningar og síðan dró Gunnar Svavarsson, formaður stjórnar fjarskiptasjóðs, saman helstu atriði sem fram komu.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum