Hoppa yfir valmynd
06.11.2013 Innviðaráðuneytið

Teymi fjögur: 1. fundur um hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði

  • Fundarheiti og nr. fundar: Samvinnuhópur um framtíðarskipan húsnæðismála: 1. fundur teymis 4.  Hlutverk stjórnvalda við veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytið, 6. nóvember kl. 14-16.
  • Málsnúmer: VEL13060104.
  • Mætt: Bolli Þór Bollason (fundarstjóri, verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála), Guðbjartur Hannesson (þingflokkur Samfylkingarinnar), Daníel Hafsteinsson (Búmenn), Elín Hirst (þingflokkur Sjálfstæðisflokksins), Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins), Halldór Auðar Svansson (þingflokkur Pírata), Sigurbjörn Skarphéðinsson (Félag fasteignasala), Tryggvi Þórhallsson (Samband íslenskra sveitarfélaga), Vilhjálmur Bjarnason (Hagsmunasamtök heimilanna) ásamt Lísu Margréti Sigurðardóttur (velferðarráðuneyti) og Sigrúnu Jönu Finnbogadóttur (velferðarráðuneyti) sem rituðu fundargerð.
  • Forföll: Erling G. Kristjánsson (Samtök leigjenda á Íslandi), Gestur Guðjónsson (þingflokkur Bjartrar framtíðar) Ólöf Birna Björnsdóttir (þingflokkur Framsóknarflokksins), Soffía Guðmundsdóttir (Íbúðalánasjóður) og Yngvi Örn Kristinsson (Samtök fjármálafyrirtækja) voru fjarverandi.

  • Fundarritarar: Sigrún Jana Finnbogadóttir og Lísa Margrét Sigurðardóttir.

D A G S K R Á

1. Kynning fundarstjóra á fyrirkomulagi vinnunnar og sviðsmyndum um framtíðarskipan húsnæðismála.

Í upphafi fundar fór fundarstjóri yfir að gert sé ráð fyrir að teymin fjögur skili stuttum og hnitmiðuðum skýrslum um næstu mánaðamót. Jafnframt kom fram að unnt sé að byggja á þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin í tengslum við hlutverk teymisins, einkum sé unnt að líta til skýrslu starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs sem aðgengileg er á vef velferðarráðuneytisins. Þá kom fram að vinna þessa teymis komi til með að tengjast vinnu annarra teyma innan samvinnuhóps um framtíðarskipan húsnæðismála, sérstaklega því teymi sem hefur það hlutverk að móta tillögur um fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána á Íslandi (teymi 1).

Fram kom að verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hafi óskað eftir því að greining fari fram hjá óháðum ráðgjöfum á fjórum svokölluðum „sviðsmyndum“ um framtíðarskipan húsnæðismála sem byggjast annars vegar á þeim sviðsmyndum sem settar voru fram í skýrslu starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs og hins vegar á hugmyndum sem komið hafa fram af hálfu þingmanna um framtíð Íbúðalánasjóðs. Umræddar sviðmyndir fela í sér:

  1. Stofnun heildsölubanka (til umfjöllunar í teymi 1) og hlutverk Íbúðalánasjóðs einskorðist við að veita félagsleg lán. Sjóðurinn hafi þó heimild til að veita almenn lán til að bregðast við markaðsbresti.
  2. „Danska leiðin“, sbr. tillögur ASÍ.
  3. Sameining Íbúðalánasjóðs og Landsbankans.
  4. Ríkið dragi sig út af húsnæðislánamarkaðnum og leggi Íbúðalánasjóð niður.

2. Kynning á fulltrúum í teyminu.

Fundarmenn kynntu sig stuttlega og greindu frá því fyrir hönd hvaða aðila þeir sitji í teyminu.

3. Kynning fundarstjóra á verkefninu og umræður teymis þar um.

Fram kom að ríkisaðstoðarreglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) setji starfsemi Íbúðalánasjóðs ákveðin takmörk en sjóðurinn nýtur ríkisaðstoðar í formi ríkisábyrgðar. Í samskiptum við Eftirlitsstofnun EFTA í tengslum við yfirstandandi rannsókn stofnunarinnar á ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs hafa íslensk stjórnvöld lýst yfir vilja sínum  til að grípa til aðgerða til að tryggja að hlutverk sjóðsins takmarkist við að veita svokallaða „þjónustu í almannaþágu“ (e. services of a general economic interest) þannig að sjóðurinn sé ekki í almennri samkeppni á húsnæðislánamarkaði enda er slíkt með tilliti til samkeppnissjónarmiða ekki talið samræmast ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins. Í því skyni að tryggja að starfsemi Íbúðalánasjóðs samræmist ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins voru gerðar breytingar á lögum um húsnæðismál í júní 2012 en þau lög gilda meðal annars um lánveitingar sjóðsins. Rætt var um að teymið þurfi að kynna sér vandlega mál Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð til Íbúðalánasjóðs.

Jafnframt kom fram að vinnan í teyminu verði að miða við að draga úr líkum á svokölluðum húsnæðisbólum. Þá kom fram það sjónarmið að afskipti stjórnvalda af húsnæðislánum eigi að vera eins lítil og unnt er en þó sé ljóst að taka þurfi tillit til stöðunnar eins og hún er í dag og hún sé útgangspunkturinn. Jafnframt kom fram að margt í svokallaðri „dönsku leið“ virðist vera vænlegt.

Fram komu sjónarmið um mikilvægi þess að hafa einhvers konar „neyðarventil“ eins og Íbúðalánasjóð á húsnæðislánamarkaði. Í því sambandi var bent á að með sviðsmynd 1 sé gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður veiti fyrst og fremst félagsleg lán en hafi þó heimild til að bregðast við markaðsbresti, t.d. á landsbyggðinni, með almennum lánveitingum.

4. Næsti fundur

Ákveðið var að fá kynningu á skýrslu starfshóps um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs ásamt kynningu á „dönsku leiðinni“ svokölluðu á næsta fundi teymisins. Ákveðið var að næsti fundur skuli haldinn í velferðarráðuneytinu þann 12. nóvember 2013, kl. 12.30-14.30.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum