Hoppa yfir valmynd
26.11.2013 Innviðaráðuneytið

Teymi þrjú: Fjórði fundur um skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum

  • Nefndarheiti: Teymi  3 – Skilvirk félagsleg úrræði í húsnæðismálum.
  • Nr. fundar: 4.
  • Staður og stund: Velferðarráðuneytinu, 26. nóvember 2013, kl. 11.30.
  • Fundarstjóri: Elsa Lára Arnardóttir.
  • Mætt: Arnaldur Máni Finnsson (Innangarðs), Ásta G. Hafberg (Samtök leigjenda), Björn Arnar Magnússon (Brynja hússjóður Öryrkjabandalagsins), Gunnhildur Gunnarsdóttir (Íbúðalánasjóður), Hólmsteinn Brekkan (Þingflokkur Pírata), Kristinn Dagur Gissurarson (Þingflokkur Framsóknarflokksins), Magnús Norðdahl (Alþýðusamband Íslands) og Þorbera Fjölnisdóttir (Sjálfsbjörg) og Þorsteinn Kári Jónsson (Þingflokkur Bjartrar framtíðar).
  • Forföll: Björk Vilhelmsdóttir (Reykjavíkurborg) og Gyða Hjartardóttir (Samband íslenskra sveitarfélaga).
  • Fundarritari: Sigrún Jana Finnbogadóttir.

D A G S K R Á

1. Fundargerðir lagðar fram.

Fundargerðir fyrstu tveggja funda voru lagðar fram en ákveðið að fresta samþykki fundargerða til næsta fundar.

2. Skýrsla vinnuhóps um húsnæðisbætur.

MN upplýsti teymið um þær hugmyndir sem uppi eru í teymi 1 sem hefur það hlutverk að fjalla um fyrirkomulag fjármögnunar almennra húsnæðislána á Íslandi. Í umræðum kom fram að sá grundvallarmunur væri á dönsku leiðinni og Reykjavíkurleiðinni sem fjallað var um á síðasta fundi teymisins; að annars vegar væri um að ræða niðurgreiðslu á húsnæðinu og hins vegar styrk til íbúanna; stefna stjórnvalda nú væri sú að styrkja ekki húsnæðið sjálft heldur fólkið sem býr í því. Hins vegar kom fram að þetta tvennt útilokaði ekki hvort annað því með dönsku leiðinni yrði opnað fyrir möguleika til að fá aðgang að fjármögnunarleiðum en sveitarfélög kæmu svo með stuðning af ýmsu tagi einnig.

Upp kom sú hugmynd að taka upp tímabundin félagsleg úrræði og var dæmi tekið um úrræði í Bretlandi sem felst í því að ef tímabundnir erfiðleikar koma upp, til dæmis atvinnuleysi eða veikindi, sé hægt að sækja um að ríkið greiði af húsnæði viðkomandi í tiltekinn tíma. Jafnframt kom fram að mögulega mætti skoða einhvers konar úrræði fyrir eldra fólk sem býr í eignum sem það hefur varla efni á að búa í þrátt fyrir litla greiðslubyrði af lánum sem hvíla á eigninni. Þannig væri hægt að stuðla að því að viðkomandi gæti haldið áfram að búa í eigninni. Enn fremur var bent á að ekki væri aðeins um eldra fólk að ræða heldur væru fleiri í svipuðum sporum. Þá kom fram að rétt væri að skoða úrræði fyrir fólk sem þarf að fá að búa eitt og sér, það er ekki í blandaðri byggð.

Að því er varðar skýrslu vinnuhóps um húsnæðisbætur frá maí 2012 kom fram að gera yrði athugasemd við tekjuskerðingu sem lagt væri til í skýrslunni. Fram kom að gera yrði ráð fyrir að ekki yrði tekið tillit til tekna barna sem búa á heimilinu. Jafnframt kom fram sú hugmynd að leggja mætti til að tveir eða fleiri einstaklingar sem leigja saman gætu allir fengið húsnæðisbætur og bæturnar greiðist þannig ekki vegna húsnæðisins heldur þeirra sem í því búa. Þá kom fram að nauðsynlegt kynni að vera að gera breytingar á lögum um lögheimili þegar foreldrar eru með sameiginlega forsjá barna sinna og búa á sitthvorum staðnum þannig að barnið geti átt lögheimili á báðum stöðum.

Ákveðið var að leggja skýrsluna til grundvallar tillögum teymisins og vinna út frá henni. Þannig komi teymið með ábendingar um það sem betur mætti fara og hugmyndir að tímabundnum úrræðum og annars konar lausnum.

2. Kynning HB á lausnum á bráðavanda.

HB kynnti lausnir Pírata á þeim bráðavanda sem myndast hefur á húsnæðismarkaði og er kynningin aðgengileg á eftirfarandi vefslóð: http://vel.is/media/velferdarraduneyti-media/media/framtidarskipan-husnaedismala/Husnaedisstefna-Piratar-Bradavandi-1.pdf

Í umræðum um kynningu HB kom fram að heppilegast væri að setja hústökulög, svipuð þeim sem gilda í Danmörku, en þannig yrði eigendum gert skylt að leigja út það húsnæði sem stendur tómt.

3. Næsti fundur.

Ákveðið að næsti fundur yrði haldinn þann 3. desember 2013, kl. 13 í velferðarráðuneytinu.

 

Fleira var ekki tekið fyrir.

Sigrún Jana Finnbogadóttir

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum