Hoppa yfir valmynd
18.03.2014 Innviðaráðuneytið

Ráðgjafarskýrsla um framtíðarskipan húsnæðismála

Byggingaframkvæmdir
Byggingaframkvæmdir

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur fengið í hendur sameiginlega skýrslu ráðgjafafyrirtækjanna KPMG og Analytica með greiningum og tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála. Skýrslan er innlegg í vinnu verkefnisstjórnarinnar sem reiknar með því að skila félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum sínum í lok apríl.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála 9. september 2013 í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda íslenskra heimila sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor.

Við stefnumótunarvinnuna hefur áhersla verið lögð á víðtækt samráð og gegnsæi í störfum þeirra sem að verkinu koma til að skapa sátt um framtíðarskipan húsnæðismála, enda miklir hagsmunir í húfi sem varða alla landsmenn. Félags- og húsnæðismálaráðherra ákvað í þessu skyni að skipa samvinnuhóp með breiðri fylkingu hagsmunaaðila sem hefur starfað með verkefnisstjórninni. Einnig var opnað sérstakt vefsvæði um stefnumótunarvinnuna þar sem áhugasamir geta nálgast upplýsingar og gögn sem starfinu tengjast.

Hlutverk verkefnisstjórnarinnar

Stefnumótunarvinna verkefnisstjórnarinnar felur meðal annars í sér að koma með tillögur að nýju húsnæðislánakerfi þar sem einnig er horft til þess að tryggja virkan leigumarkað og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem þess þurfa með. Verkefnisstjórnin hefur í samræmi við skipunarbréf skoðað fyrirmyndir frá hinum Norðurlandaþjóðunum og nýtt sér vinnu starfshóps sem skilaði skýrslu um framtíðarhorfur og hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Innlegg í vinnu verkefnisstjórnarinnar

Ráðgjafafyrirtækin Analytica og KPMG hafa unnið ýmsa greiningarvinnu og stillt upp sviðsmyndum fyrir verkefnisstjórnina. Í ljósi þess hve margt var áþekkt í niðurstöðum þeirra og ályktunum óskaði verkefnisstjórnin eftir því að þau drægju vinnu sína saman í eina sameiginlega skýrslu og hefur hún nú verið birt á vefsvæði verkefnisins um framtíðarskipan húsnæðismála. Tillögur ráðgjafafyrirtækjanna eru innlegg í hluta af verkefnum verkefnisstjórnarinnar ásamt tillögum fjögurra sérfræðiteyma á vegum samvinnuhópsins. Ráðgjafarskýrslan verður á næstunni rædd á fundi með samvinnuhópnum.

Áhersla er lögð á ýtarlegt samráðsferli af hálfu verkefnisstjórnarinnar gagnvart eftirlitsaðilum, fjármálastofnunum og öðrum hagsmunaaðilum, svo sem aðilum vinnumarkaðarins.

Verkefnisstjórnin stefnir að því að skila ráðherra tillögum sínum í lokaskýrslu um framtíðarskipan húsnæðismála í lok apríl.

Þeim sem vilja koma á framfæri ábendingum um málefni sem ætla má að þarfnist skoðunar og varða framtíðaskipan húsnæðismála er bent á að senda tölvupóst til [email protected] með efnislínunni: Framtíðarskipan húsnæðismála.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum