Hoppa yfir valmynd
16.12.2015 Innviðaráðuneytið

Frumvarp um almennar íbúðir lagt fram á Alþingi

Fjölbýli
Fjölbýli

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga sem fjallar um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. Markmiðið er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna með auknu framboði á hagkvæmu leiguhúsnæði þar sem húsnæðiskostnaður er í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Miðað er við að ríki og sveitarfélög veiti stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum. Þannig verði stuðlað að framboði leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði fyrir þá sem á því þurfa að halda, s.s. námsmenn, ungt fólk, aldraðir, fatlað fólk og fólk sem annars væri í erfiðleikum með að sjá sér fyrir húsnæði vegna félagslegra aðstæðna eða fjárhagsvanda.

2.300 nýjar íbúðir á fjórum árum

Frumvarp um almennar íbúðir tekur að ýmsu leyti mið af tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem skilaði ráðherra tillögum sínum í maí 2014. Einnig er með frumvarpinu fylgt eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá því í maí 2015. Í þessu felst m.a. að lagður er grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Sett er það viðmið að leiga einstaklings með lágar tekjur nemi ekki hærra hlutfalli en 20–25% af tekjum. Í samræmi við yfirlýsinguna er gert ráð fyrir að byggja 2.300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. á árunum 2016–2019.

Heildstæð löggjöf um húsnæðismál

Frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi í dag er fjórða og síðasta frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðismál sem lagt verður fram á Alþingi á haustþingi. Saman er þessum frumvörpum ætlað að leggja grunn að nýrri heildarlöggjöf á sviði húsnæðismála.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum