Hoppa yfir valmynd
05.04.2017 Heilbrigðisráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Frítekjumörk vegna húsnæðisbóta hækkuð afturvirkt

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra hefur staðfest breytingu á reglugerð um húsnæðisbætur sem hækkar þau viðmið tekna sem leigjendur geta haft áður en þær skerða rétt þeirra til húsnæðisbóta. Reglugerðin er afturvirk og gildir frá gildistöku laga um húsnæðisbætur 1. janúar 2017.

Með reglugerðarbreytingunni er brugðist við misræmi sem orðið hefur á milli framfærsluviðmiðs almannatrygginga miðað við þann sem býr einn og frítekjumarka húsnæðisbótakerfisins frá því að lög um húsnæðisbætur voru samþykkt á Alþingi síðastliðið sumar. Þannig verður tryggt að lífeyrisþegi almannatrygginga sem býr einn og hefur ekki aðrar tekjur sér til framfærslu eigi rétt á óskertum húsnæðisbótum, líkt og ráð var fyrir gert þegar lögin voru samþykkt. Misræmi þetta skapaðist við 13,5% hækkun framfærsluviðmiðsins um síðustu áramót en lög um húsnæðisbætur voru samþykkt á Alþingi 2. júní síðastliðinn og miðuðust frítekjumörk laganna fyrir þann sem býr einn þá við framfærsluviðmið almannatrygginga.

Með breytingunni verður frítekjumark þess sem býr einn 3.373.000 kr. (var 3.100.000 kr), ef tveir eru í heimili verður frítekjumarkið 4.461.064 kr. (var 4.100.000 kr.), ef þrír eru í heimili verður frítekjumarkið 5.222.710 (var 4.800.000 kr.) og ef heimilismenn eru fjórir eða fleiri verður frítekjumarkið 5.657.936 (var kr. 5.200.000).

Þar sem reglugerðin gildir frá 1. janúar 2017 verða greiðslur húsnæðisbóta endurreiknaðar og skal Vinnumálastofnun greiða leigjendum mismuninn sem þeim ber fyrir leigu íbúðarhúsnæðis í janúar, febrúar og mars 2017 eigi síðar en 30. apríl næstkomandi.

Áætlað er að kostnaður vegna breytingar þessarar nemi rúmlega 214 m.kr. árið 2017 miðað við núverandi fjölda samþykktra umsókna um húsnæðisbætur.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum