Hoppa yfir valmynd
02.06.2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Viljayfirlýsing ríkis og borgar um aukið framboð lóða

Benedikt Jóhannesson og Dagur B. Eggertsson undirrituðu viljayfirlýsinguna. - mynd
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um að vinna sameiginlega að þróun og skipulagningu á lóðum og löndum í Reykjavík sem eru ýmist í eigu eða í umráðum ríkisins, með aukið framboð lóða að markmiði. Komist allar spildur í uppbyggingu gætu byggst um 1.100 íbúðir, auk mögulegrar uppbyggingar til viðbótar við núverandi áætlanir í landi Keldna sem gæti að lágmarki bætt við um 900 íbúðum.


Gert er ráð fyrir að íbúðirnar nýtist ekki síst ungu fólki við fyrstu íbúðakaup.

Aðilar munu hvor um sig tilnefna tvo fulltrúa til að vinna að og framfylgja viljayfirlýsingu þessari. Vinna þessi skal taka til neðangreindra svæða og miða að því að útfæra samning fyrir hvert svæði fyrir sig á grundvelli þeirra aðferða sem lýst er hér að neðan. Stefnt skal að því að samningar liggi fyrir eigi síðar en 15. september næstkomandi, að því er segir í viljayfirlýsingunni.

Viljayfirlýsingin gildir í meginatriðum um fjóra flokka eigna ríkisins í Reykjavík. Í fyrsta lagi eru eignir sem ríkið hefur eignast með kaupum og getur átt bæði við um fasteignir og lóð. Í öðru lagi eru eignir sem ríkið hefur keypt eða byggt með hefðbundnum hætti og hefur yfir að ráða lóðarréttindum frá Reykjavíkurborg. Í þriðja lagi eru lóðir sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað ríkinu undir tiltekna starfsemi á vegum ríkisins en ekki eru fullnýttar með þeim hætti. Í fjórða lagi lóðir sem litið verður til í lengri framtíð.

Aðkoma ríkisins mun byggjast á því sjónarmiði að eðlilegt mats- eða markaðsverð fáist fyrir þær fasteignir í eigu ríkisins sem falla undir fyrsta og annan flokk hér að framan. Þá skal líta til útfærslu á samningi frá 2013 um kaup Reykjavíkurborgar á lóð ríkissjóðs við Skerjafjörð. Um þá lóð gildir ábataskiptasamningur og ákvæði um sölu til hæstbjóðanda.

Eftirfarandi lóðir falla undir viljayfirlýsinguna:

Landhelgisgæslulóð við Seljaveg
Lóðin eru um 3.200 m2 að stærð. Ríkissjóður á bygginguna Seljaveg 32 sem er á lóðinni og er leigð Sambandi íslenskra myndlistamanna. Leikskólinn Dvergasteinn hefur samkvæmt sérstöku samkomulagi við ríkissjóð afnot af hluta lóðarinnar undir færanlega leikskólabyggingu. Auk þess er á lóðinni gamla Farsóttarhúsið, sem gæti hentað til flutnings. Miða skal við að á lóðinni rísi íbúðir sem henti ungu fólki til fyrstu kaupa. Ríkissjóður selji Reykjavíkurborg lóðina og húsið að undangengnu óháðu og sameiginlegu verðmati þegar tillaga að breyttu deiliskipulagi liggur fyrir. Áætlað er að lóð og núverandi hús rúmi um 75 íbúðir.

Lóð Borgarspítala
Ríkið í samráði við Landspítala og Reykjavíkurborg mun kanna hvort unnt sé að minnka núverandi lóð Borgarspítala, þar sem uppbygging fyrir Landspítalann verður við Hringbraut. Áætlað er að reiturinn geti rúmað um 150 íbúðir. Miða skal við að á lóðarhlutanum rísi íbúðir sem henti ungu fólki til fyrstu kaupa. Huga þarf að núverandi starfsemi spítalans sem og framtíðarnýtingu spítalabyggingar­innar.

Lóð Listaháskólans að Laugarnesvegi 91
Gert er ráð fyrir að framtíðarstaðsetning Listaháskóla Íslands verði könnuð með aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytis og skipulag reitsins taki eftir atvikum mið af því. Athugað verði hvort unnt sé að skipuleggja íbúðabyggð á reitnum samhliða þeirri starfsemi. Áætlað er að reiturinn geti rúmað um 150 íbúðir. Ríkissjóður og Reykjavíkurborg munu sam­eigin­lega láta vinna verðmat um verðmæti lóðarhlutans sem miðar við byggingar­magn í aðalskipulagi og ábataskiptum varðandi það sem er umfram það.

Keldur, Keldnaholt.
Í vinnu við deiliskipulag verði þeim byggingum og starfsemi ríkisins sem áfram verða á svæðinu afmarkaðar lóðir. Aðrir hlutar svæðisins verði skipulagðir sem íbúðabyggð, en einnig sem atvinnustarfsemi. Gerður verður samningur um kaup Reykjavíkurborgar á landinu og fylgt þeim samningsgrunni sem gilti um kaup Garðabæjar á Vífilsstöðum. Í því felst að gerður verður ábataskiptasamningur milli aðila með grunnverði og ábataskiptum til 40 ára. Gert verði ráð fyrir að a.m.k. fjórðungur nýrra íbúða verði hugsaður fyrir leigjendur og ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er gert ráð fyrir að á landi Keldna geti risið um 400 íbúðir og um 50.000 m2 af atvinnuhúsnæði og á Keldnaholti um 100.000 m2 af atvinnuhúsnæði á síðari hluta aðalskipulagstímabilsins. Forsendur fyrir umtalsverðri uppbyggingu íbúðarhúsnæðis umfram það sem aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 heimilar, er að samgöngumál svæðisins verði leyst með tilkomu borgarlínu. Þar gætu bæst við að lágmarki 900 íbúðir.

Lóð Sjómannaskólans við Háteigsveg.
Ekki eru uppi áform hjá ríkissjóði um frekari uppbyggingu á lóðinni. Ríkissjóður og Reykjavíkurborg eru sammála um að skólanum verði afmörkuð hæfileg lóð miðað við þarfir hans. Aðrir hlutar svæðisins gangi til Reykjavíkurborgar til uppbyggingar íbúða­húsnæðis og unnin verði í deiliskipulagsbreyting fyrir reitinn er miði að því að þar rísi íbúðir fyrir námsmenn og íbúðir sem henti ungu fólki til fyrstu kaupa. Áætlað er að mögulegt sé að byggja um 120 íbúðir á lóðinni.

Veðurstofureitur
Svæðið er ekki fullnýtt. Ekki eru uppi áform hjá ríkissjóði um frekari upp­byggingu á svæðinu. Ríkissjóður og Reykjavíkurborg eru sammála um að Veðurstofunni ásamt nauðsynlegri starfsemi henni tengt verði afmörkuð hæfileg lóð miðað við þarfir. Aðrir hlutar svæðisins gangi til Reykjavíkurborgar til uppbyggingar íbúðahúsnæðis og unnin verði deili­skipu­lagsbreyting fyrir reitinn er miði að því að þar rísi íbúðir fyrir námsmenn og íbúðir sem henti ungu fólki til fyrstu kaupa. Áætlað er að reiturinn geti rúmað um 150 íbúðir. Samhliða mun Reykjavíkurborg í samráði við Veðurstofuna finna mælum Veðurstofunnar nýjan stað í borgarlandinu.

Svæði við Þjórsárgötu og Þorragötu
Reiturinn er um 1.670 m2 að stærð. Svæði þetta var áður hluti af flugvallarsvæði, en er nú utan þess. Ríkissjóður selji Reykjavíkurborg lóðina að undan­gengnu óháðu og sameiginlegu verðmati.

Lóð við við hlið Þjóðarbókhlöðunnar

Nýting lóðar ríkisins á gatnamótum Hringbrautar og Suðurgötu verður tekinn til skoðunar með tilliti til framtíðarnýtingar.

Viljayfirlýsing fjármála- og efnahagsráðherra og borgarstjórans í Reykjavík um að vinna sameiginlega að þróun og skipulagningu á lóðum og löndum í Reykjavík sem eru ýmist í eigu eða í umráðum ríkisins (pdf)

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum