Hoppa yfir valmynd

Sýnishorn - Uppsögn leigusala á ótímabundnum leigusamningi

Sýnishorn nr. 2:
Uppsögn leigusala á ótímabundnum leigusamningi.


Jón Jónsson
Ingólfstorgi 50
101 Reykjavík

UPPSÖGN LEIGUSALA Á ÓTÍMABUNDNUM
LEIGUSAMNINGI

Ég undirritaður, Páll Pálsson, leigusali samkvæmt ótímabundnum leigusamningi, dags. 15. maí 1996, um leiguhúsnæðið Ingólfstorg 50, Reykjavík, segi yður, Jóni Jónssyni, leigjanda samkvæmt samningnum, hér með upp samningnum með lögboðnum fyrirvara. Uppsagnarfrestur er 6 mánuðir samkvæmt 2. tölulið 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994.*
Uppsagnarfrestur telst hefjast fyrsta dag næsta mánaðar eftir að uppsögn þessi var send, þ.e. hinn 1. nóvember 1998 og lýkur því hinn 30. apríl 1999, sbr. 1. mgr. 57. gr. húsaleigulaga.
Á það skal bent að leigjandi skal hafa lokið rýmingu og frágangi hins leigða eigi síðar en kl. 13.00 næsta dag eftir að uppsagnarfresti lýkur, þ.e. hinn 1. maí 1999, sbr. 1. mgr. 57. gr. húsaleigulaga.
Áður en leigjandi flytur úr húsnæðinu skal hann gefa leigusala upp það heimilisfang sem erindi og tilkynningar, er leigusali getur þurft að koma til hans, má og skal senda til, sbr. 68. gr. húsaleigulaga.

Reykjavík, 10. október 1998.


Virðingarfyllst,

_____________________________
Páll Pálsson, kt. 010145-2229
Skólavörðustíg 199

----------------------------------------------

* Lengd uppsagnarfrests er háð tegund leiguhúsnæðis og lengd leigutíma, sbr. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, auk þess sem unnt er, að ákveðnu marki, að semja á annan veg, sbr. 2. gr. laganna. Sjá nánari upplýsingar á bakhlið.



Til upplýsingar fyrir leigusala


1. Uppsagnarfrestur ótímabundins leigusamnings skal, skv. 56. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, vera:

  1. Einn mánuður af beggja hálfu á geymsluskúrum og þess háttar húsnæði til hvers sem það er notað.
  2. Þrír mánuðir af beggja hálfu á einstökum herbergjum.
  3. Sex mánuðir af beggja hálfu á íbúðarhúsnæði, en íbúðarhúsnæði telst hvert það húsnæði þar sem fjölskylda getur haft venjulega heimilisaðstöðu. Hafi leigjandi haft íbúðarhúsnæði á leigu lengur en tólf mánuði skal uppsagnarfrestur af hálfu leigusala vera tólf mánuðir sé um að ræða lögaðila sem í atvinnuskyni leigir út viðkomandi íbúðarhúsnæði.
  4. Sex mánuðir af beggja hálfu á atvinnuhúsnæði fyrstu fimm ár leigutímans, níu mánuðir næstu fimm ár og síðan eitt ár eftir tíu ára leigutíma.

Almennt er ekki unnt að semja um styttri uppsagnarfrest af hálfu leigusala en mælt er fyrir um hér að ofan. Þó ber þess að geta að lögin eru frávíkjanleg hvað atvinnuhúsnæði varðar, sbr. 2. gr. húsaleigulaga.

2. Lengd uppsagnarfrests ræðst af leigutíma. Miðað er við þann tíma sem liðinn er þegar uppsögn er send, sbr. 2. mgr. 57. gr. húsaleigulaga.

3. Sending uppsagnar.Uppsögn þessi skal send með sannanlegum og tryggilegum hætti, t.d. í ábyrgðarpósti eða símskeyti. Sé þess gætt hefur uppsögnin þá þýðingu og þau réttaráhrif sem henni er ætlað að hafa, jafnvel þótt hún komi afbökuð, of seint eða alls ekki til viðtakanda, sbr. 13. gr. húsaleigulaga.

4. Skil leiguhúsnæðis. Að leigutíma loknum skal leigjandi skila húsnæðinu í hendur leigusala ásamt tilheyrandi fylgifé í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi, sbr. 63. gr. húsaleigulaga.

5. Um forgangsrétt leigjanda íbúðarhúsnæðis og tilkynningar þar að lútandi vísast til 51. og 52. gr. húsaleigulaga.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum