Hoppa yfir valmynd

Yfirkjörstjórnir

Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Yfirkjörstjórnir eru kosnar af Alþingi og eru skipaðar fimm mönnum og fimm til vara. Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn. Við ákveðnar aðstæður getur kjörstjórnarmaður þurft að víkja sæti, til dæmis ef til úrskurðar er mál, sem varðar maka hans eða ættingja. Yfirkjörstjórnir skulu eins og aðrar kjörstjórnir halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.

Yfirkjörstjórnir

Umdæmi
Formaður
Sími
Netfang
Norðvesturkjördæmi
Ingi Tryggvason
860 2181
[email protected]
Norðausturkjördæmi
Gestur Jónsson  
896 4365
[email protected]
Suðurkjördæmi
Þórir Haraldsson
664 1890
[email protected]
Suðvesturkjördæmi
Huginn Freyr Þorsteinsson
821 3434
[email protected]
Reykjavíkurkjördæmi suður
Heimir Herbertsson
899 7769
[email protected]
Reykjavíkurkjördæmi norður
Erla S. Árnadóttir
864 9849
[email protected]

Aðsetur yfirkjörstjórna á kjördag  

Reykjavíkurkjördæmi norður: Ráðhús Reykjavíkur. Talning atkvæða fer fram í Laugardalshöll.

Reykjavíkurkjördæmi suður: Hagaskóli í Reykjavík. Talning atkvæða fer fram í Laugardalshöll.

Norðvesturkjördæmi: Hótel Borgarnes í Borgarnesi. Talning atkvæða fer fram á sama stað.

Norðausturkjördæmi: Verkmenntaskólinn á Akureyri. Talning atkvæða fer fram í sal Brekkuskóla við Skólastíg á Akureyri.

Suðurkjördæmi: Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi. Talning atkvæða fer fram á sama stað.

Suðvesturkjördæmi: Íþróttahúsið Kaplakriki, Hafnarfirði. Talning atkvæða fer fram á sama stað.

Framboð

Yfirkjörstjórn í hverju kjördæmi tekur á móti framboðum vegna kosninga til Alþingis 25. september 2021, eigi síðar en kl. 12 á hádegi 10. september 2021. Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram, og skal aðsetur hennar liggja eins vel við samgöngum og kostur er. Ef yfirkjörstjórn berst listi með fleiri nöfnum en tilskilið er, þá nemur hún burt af listanum öftustu nöfnin sem eru umfram tilskilda tölu. Sama gildir ef yfirkjörstjórn berst framboðslisti þar sem nafn manns stendur án þess að leyfi hans fylgi með eða ef maður hefur leyft nafn sitt á fleiri en einum lista. Ef yfirkjörstjórn verður vör við að sami kjósandi er meðmælandi með fleiri en einu framboði, skal hún ekki telja hann meðmælanda neins þeirra.

Úrskurðir um framboð o.fl.

Daginn eftir að framboðsfrestur rennur út heldur yfirkjörstjórn fund og athugar hvort að einhverjir gallar eru á framkomnum framboðum. Finnist gallar er umboðsmönnum lista gefinn kostur á að leiðrétta þá og má veita frest í því skyni. Ef gallar sem yfirkjörstjórn hefur bent á eru ekki leiðréttir innan tilsetts frests kveður hún upp úrskurð um hvort listi skuli fyrir það teljast ógildur. Verði ágreiningur innan yfirkjörstjórnar ræður afl atkvæða úrslitum.

Úrskurði yfirkjörstjórnar má umboðsmaður framboðslista skjóta til landskjörstjórnar innan sólarhrings frá því hann var kveðinn upp.

Merking framboðslista með bókstaf

Yfirkjörstjórn merkir síðan framboðslista með bókstaf með hliðsjón af auglýsingu dómsmálaráðuneytisins um listabókstafi stjórnmálasamtaka. Þegar merkingu framboðslista er lokið sendir hún þá til landskjörstjórnar ásamt öllum gögnum sem þeim fylgdu, en landskjörstjórn tekur þá listana til meðferðar og úrskurðar um merkingar listanna ef þörf krefur. Landskjörstjórn endursendir síðan yfirkjörstjórn listana jafnframt því sem hún sendir dómsmálaráðuneytinu listana eins og þeir eru endanlega birtir.

Kjörgögn

Um leið og yfirkjörstjórn hefur fengið kjörgögn í hendur frá dómsmálaráðuneytinu útdeilir hún þeim til undirkjörstjórna. Hver undirkjörstjórn skal fá jafnmarga seðla og kjósendur eru á kjörskrá í hennar kjördeild og a.m.k. 10% umfram það. Þar sem kosnar eru sérstakar kjörstjórnir, þ.e. kjörstjórnir sem hafa umsjón með undirkjörstjórnum á stöðum þar sem kjördeildir eru fleiri en ein, er heimilt að afhenda þeim kjörseðla óflokkaða fyrir kjördeildir og annast þær þá afhendingu kjörseðlanna til undirkjörstjórna.

Hverri sendingu skal láta fylgja blindraspjöld, tilkynning um framboðslista, kosningaleiðbeiningar og sérprentun laga um kosningar til Alþingis. Þá skulu fylgja með sendingunni sex sterk umslög með áprentaðri utanáskrift til yfirkjörstjórnar, þar sem prentað hefur verið í neðra framhorn á tvö þeirra Ónýtir seðlar, á tvö Ágreiningsseðlar og á tvö Afgangsseðlar. Auk þess skal yfirkjörstjórn láta fylgja stórt umslag með áprentaðri utanáskrift sinni og á efra framhorni nafn kjördeildarinnar og skal í það umslag leggja hin umslögin.
Við talningu atkvæða gerir svo yfirkjörstjórn grein fyrir þeim seðlum sem ekki hafa verið afgreiddir til undirkjörstjórna.

Talning

Úrskurðir yfirkjörstjórnar í ágreiningsmálum um gildi utankjörfundarkjörseðils
Ef ágreiningur skapast innan kjörstjórnar eða milli kjörstjórnar og umboðsmanns lista um hvort utankjörfundaratkvæði sé gilt eða ógilt, er það bókað í kjörbók og síðan sent til úrskurðar hjá yfirkjörstjórn.

Móttaka atkvæðakassa og annarra kjörgagna
Yfirkjörstjórn tekur á móti atkvæðakössum, innsigluðum af kjörstjórnum og eftir atvikum einnig af umboðsmönnum, og öðrum kjörgögnum. Ef yfirkjörstjórn er stödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum.

Talning fyrir opnum dyrum
Yfirkjörstjórn auglýsir með nægum fyrirvara stund og stað þar sem hún kemur saman til að opna atkvæðakassa og telja atkvæði. Talning skal fara fram fyrir opnum dyrum svo að kjósendum gefist kostur á að vera viðstaddir eftir því sem húsrúm leyfir.

Í viðurvist umboðsmanna framboðslista opnar svo yfirkjörstjórn atkvæðasendingarnar úr hverri kjördeild eftir að hafa kannað hvort að innsigli þeirra séu í lagi. Yfirkjörstjórn skal þá kanna hvort tala kjósenda, sem greitt hafa atkvæði samkvæmt kjörbókum undirkjörstjórna, sé í samræmi við afhenta atkvæðaseðla og skráðar athugasemdir undirkjörstjórna. Síðan er tæmt úr atkvæðakössum í ílát og innihaldi þeirra blandað saman. Að viðstöddum umboðsmönnum lista eru kjörseðlar flokkaðir eftir listabókstöfum og taldir undir stjórn yfirkjörstjórnar.

Gildur eða ógildur seðill?
Nú kemur yfirkjörstjórn, eftir atvikum umdæmiskjörstjórn, og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur um gildi kjörseðils skal úrskurða ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess. Ef ágreiningur verður innan kjörstjórnar um gildi kjörseðils ræður afl atkvæða úrslitum. Verði hins vegar ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur skal leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.

Niðurstöður talningar kunngerðar
Þegar atkvæði hafa verið talin færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabók og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Þess skal gætt að samtala atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í kjördæminu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.

Alþingi úrskurðar um gildi kosninganna
Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir dómsmálaráðuneytinu eftirrit af gerðabók sinni varðandi kosninguna ásamt ágreiningsseðlum sem ráðuneytið leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim. Þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna geymir yfirkjörstjórn alla notaða kjörseðla undir innsigli þar sem gildum og ógildum kjörseðlum er haldið sér. Ef eigi er þörf á að skoða seðlana frekar að því búnu, er kjörseðlunum eytt.

Yfirkjörstjórn skal síðan innsigla allar kjörskrár og senda dómsmálaráðuneytinu, sem geymir þær í eitt ár.

Atkvæðatala hvers lista fundin
Yfirkjörstjórn reiknar út atkvæðatölu hvers lista og hvers frambjóðanda eftir að öll atkvæði hafa verið talin. Skal hún tafarlaust senda landskjörstjórn skýrslu sína þar sem tilgreind er tala kjósenda á kjörskrá, hvernig atkvæði hafa fallið á hvern framboðslista fyrir sig og atkvæðatölur hvers frambjóðanda. Landskjörstjórn lætur yfirkjörstjórnum í té eyðublöð undir þessar skýrslur.

Kosningum frestað og uppkosningar

Kjörseðlar komast ekki til skila
Ef kosning fer ekki fram vegna þess að kjörseðlasending kemst ekki til skila, skal yfirkjörstjórn endurnýja sendinguna svo fljótt sem verða má og kveður þá undirkjörstjórn til kjörfundar að nýju.

Kosningu frestað vegna veðurs
Undirkjörstjórn getur að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur óviðráðanlegar ástæður eins og óveður hindra að kosning geti fram haldið. Skal þá kosning fara fram að nýju innan viku.

Atkvæðasending frá kjördeild kemst ekki til skila
Ef kosning hefur farið fram en atkvæðasending frá kjördeild kemst ekki til skila til yfirkjörstjórnar, lætur yfirkjörstjórn nýja kosningu fara fram í kjördeildinni innan viku.

Síðast uppfært: 21.11.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum