Hoppa yfir valmynd

Spurningar og svör fyrir kjósendur

Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, samanber framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en klukkan 10 tveimur dögum fyrir kjördag, þ.e. 23. september 2021.

Leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl.

Eyðublað:

Umsókn um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi

Um þá sem búsettir eru erlendis, en eiga kosningarrétt hér á landi og eru á kjörskrá annað hvort í Reykjavíkurkjördæmi suður eða norður, gildir 2. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.  Þar segir að í suðurkjördæmi komi þeir sem fæddir eru fyrri hluta hvers mánaðar en í norðurkjördæmi þeir sem fæddir eru síðari hluta hvers mánaðar. Landskjörstjórn ákveður hvar mörkin skuli vera í mánuði, sbr. 1. mgr. 7. gr.  Landskjörstjórn birtir ákvörðun sína fyrir hverjar kosningar til Alþingis, sjá vefsíðu landskjörstjórnar: https://www.landskjor.is/.

Kjósanda sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða atkvæði þar. Með sama hætti fer um vistmenn í fangelsi. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag. 

Alþingi samþykkti nú í vor bráðabirgðaákvæði við lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, sem gerir þeim sem eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar kleift að kjósa.

Sýslumenn skulu, hver í sínu umdæmi, í samráði við sóttvarnayfirvöld, skipuleggja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna þeirra sem ekki geta sótt kjörfund á kjördag eða greitt atkvæði á þeim stað þar sem regluleg utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram sökum þess að þeir eru í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar. Skal sýslumaður auglýsa hvar og hvenær slík atkvæðagreiðsla fer fram en hún má þó ekki hefjast fyrr en fimm dögum fyrir kjördag, þ.e. 20. september 2021.

Kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördag sökum þess að hann er í einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar er heimilt að greiða atkvæði á dvalarstað. Beiðni þar um skal berast hlutaðeigandi sýslumanni, ásamt staðfestingu heilbrigðisyfirvalda á að viðkomandi sé í einangrun fram yfir kjördag, eigi síðar en kl. 10 á kjördag, sé kjósandi staddur í því kjördæmi sem hann á kosningarrétt í, annars eigi síðar en kl. 10 tveimur dögum fyrir kjördag, þ.e. 23. september 2021. Sama á við um þann sem er í sóttkví af sömu ástæðu og er ókleift að greiða atkvæði utan dvalarstaðar. Skal þá kjósandi gera grein fyrir hvers vegna honum sé ókleift að greiða atkvæði utan dvalarstaðar. Synja má kjósanda um að greiða atkvæði á dvalarstað telji sóttvarnayfirvöld að atkvæðagreiðslu verði ekki við komið án þess að tefla heilsu kjörstjóra eða annarra í hættu. Sú ákvörðun er endanleg.

Kjósandi sem er í sóttkví eða einangrun vegna COVID-19 farsóttarinnar telst hvorki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt né undirrita fylgibréfið og því skal kjörstjóri veita honum aðstoð við það án þess að nokkur annar sjái.

Ekki er heimilt að verða við beiðni um heimakosningu sem borin er fram á kjördag. Slík beiðni þarf að berast hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en klukkan 10 tveimur dögum fyrir kjördag, þ.e. 23. september 2021

Sveitarstjórnir skulu gera kjörskrár á grundvelli kjörskrárstofna sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Sveitarstjórn skal leggja fram kjörskránna almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða á öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag.

Þau stjórnmálasamtök sem bjóða fram lista við kosningar til Alþingis geta fengið aðgang að kjörskrá hjá Þjóðskrá Íslands. Aðgangur skal veittur án endurgjalds. Heimilt er að nýta aðganginn í þágu eftirlits með framkvæmd kosninga, til að sannreyna hverjir séu kjósendur og koma upplýsingum á framfæri við þá í aðdraganda kosninga. Óheimilt er að birta kjörskrána eða einhverjar upplýsingar úr henni opinberlega eða miðla henni. Við vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðinu skulu stjórnmálasamtök uppfylla skilyrði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla öll kosningarréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár. Sjá nánar um kosningarrétt hér.

https://www.stjornarradid.is/verkefni/kosningar/althingiskosningar/kjosendur-leidbeiningar/kosningarrettur-og-kjorskra/

Hver sem er getur gert athugasemdir til sveitarstjórnar um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til sveitarstjórnar fram á kjördag. 

Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Tilefni slíkra leiðréttinga er einkum öflun eða missir íslensks ríkisfangs eða andlát á tímabilinu frá viðmiðunardegi kjörskrár til kjördags. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag. Óheimilt er að breyta kjörskrá vegna breytts lögheimilis hafi tilkynning um nýtt lögheimili ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir 21. ágúst 2021. 

Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi einstaklingum um leiðréttingar á kjörskrá, svo og þeirri sveitarstjórn er málið getur varðað. Sveitarstjórn skal jafnframt tilkynna hlutaðeigandi kjörstjórn um leiðréttingar á kjörskrá, svo og oddvita yfirkjörstjórnar. 

Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er heimil. Kjósandi sem ætlar að kjósa utan kjörfundar verður að mæta til kjörstjóra og gera grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi) eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Sjá nánar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Stjórnmálasamtök bera ábyrgð á að framboðslistar, á þeirra vegum, uppfylli þau skilyrði kosningalaga um framboð, sem lög gera ráð fyrir. Gæta skal þess að tilgreina skýrlega nöfn frambjóðenda, kennitölu, stöðu eða starfsheiti og heimili til þess að enginn vafi geti leikið á því hverjir eru í kjöri. Í þeim tilgangi að stuðla að samræmi og einfalda framkvæmd hefur landskjörstjórn tekið saman almennar leiðbeininar um framsetningu framboðslista við kosningar til Alþingis. 

https://www.landskjor.is/media/althingiskosningar/Almennar-leidbeiningar-um-framsetningu-frambodslista-vid-kosningar-til-Althingis.pdf 

sjá einnig leiðbeiningar á vefsíðu landskjörstjórnar:

https://www.landskjor.is/leidbeiningar/ 

Nauðsynlegt er að kjósandi geti gert grein fyrir sér áður en hann fær afhentan kjörseðil. Algengast er að kjósandi framvísi svokölluðum kennivottorðum, þ.e.  persónuskilríki með nafni og mynd og eftir atvikum undirskrift, svo sem vegabréfi, ökuskírteini, greiðslukorti eða nafnskírteini.

Ef slíkum kennivottorðum er ekki til að dreifa getur kjósandi gert grein fyrir sér á annan hátt, t.d. með því að leiða vitni sem kjörstjórn/kjörstjóri tekur gild. Það er komið undir mati kjörstjórnar/kjörstjóra  hverju sinni hvenær kjósandi telst hafa gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt.

Sveitarfélög auglýsa kjörstaði við kosningar til Alþingis. Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi. Þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr. Dómsmálaráðuneytið safnar saman upplýsingum um kjörstaði og tengir í slíkar upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaga eftir því sem þær berast.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sýslumönnum hérlendis. Upplýsingar um embætti sýslumanna er hægt að nálgast hér:

https://www.syslumenn.is/

Sýslumenn geta ákveðið að atkvæðagreiðsla skuli fara fram á aðalskrifstofu þeirra eða í útibúi. Þá getur sýslumaður ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofunnar, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar erlendis er alfarið í höndum utanríkisráðuneytisins. Hægt er að kjósa á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða hjá kjörræðismanni samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis og auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla geti farið fram. Lista yfir staðsetningu sendiráða og ræðismanna og nánari upplýsingar er að finna á stjornarradid.is/sendiskrifstofur/.

Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í heiminum vegna COVID-19 farsóttarinnar, geta óhjákvæmilega komið upp þau tilvik, vegna sóttvarnaráðstafana stjórnvalda á hverjum stað, að aðgengi kjósenda að kjörstöðum erlendis verði takmarkað. Kjósendum er bent á að hafa samband við sendiskrifstofur og/eða sendiherra sem hafa yfirlit yfir hvar er unnt að kjósa.

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili 21. ágúst 2021. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu í kjörskrá. 

Þeir íslenskir ríkisborgarar, sem lögheimili eiga erlendis og sem kosningarétt eiga við alþingiskosningarnar, eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili hér á landi. 

Þeir sem lögheimili áttu í Reykjavík skiptast þannig milli Reykjavíkurkjördæmanna að þeir sem fæddir eru 1. til 15. hvers mánaðar eru á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður en þeir sem fæddir eru 16. dag mánaðar eða síðar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hið sama gildir um þá sem skráðir eru með ótilgreint lögheimili í Reykjavík á viðmiðunardegi kjörskrár. 

Eftir viðmiðunardag kjörskrár munu kjósendur geta kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá. 

Fyrirspurnum varðandi kjörskrá ber að beina til Þjóðskrár Íslands, [email protected].

Öllum framboðslistum skal skilað með nauðsynlegum fylgigögnum til yfirkjörstjórnar þeirrar sem í hlut á eigi síðar en kl. 12 á hádegi þann dag þegar þrjár vikur eru til kjördags. Yfirkjörstjórnir auglýsa hvenær þær taka við framboðum.

Allir íslenskir ríkisborgarar sem eru 18 ára og eldri á kjördag og eiga lögheimili hér á landi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fimm vikum fyrir kjördag eiga kosningarrétt við kosningar til Alþingis.  

Erlendir ríkisborgarar eiga ekki kosningarrétt við alþingiskosningar og eru því ekki á kjörskrá. Eina undantekningin eru danskir ríkisborgarar, sem eiga kosningarrétt samkvæmt lögum nr. 85/1946, það er þeir sem voru búsettir á Íslandi 6. mars 1946 eða einhvern tíma á síðustu 10 árum fyrir þann tíma. 

Íslenskur ríkisborgari, sem náð hafa 18 ára aldri og átt hefur lögheimili hér á landi, á kosningarrétt í átta ár frá því að hann flutti lögheimili af landinu, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag. Þessir einstaklingar eru teknir á kjörskrárstofn, án umsóknar, í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili. 

Íslenskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili erlendis lengur en í átta ár, talið frá 1. desember næstum fyrir kjördag og náð hafa 18 ára aldri á kjördag verða að sækja um til Þjóðskrár Íslands að verða teknir á kjörskrá. Fullnægjandi umsókn þarf að hafa borist Þjóðskrá Íslands fyrir 1. desember ári áður en kosningar fara fram. Þessir einstaklingar eru teknir á kjörskrárstofn í því sveitarfélagi þar sem þeir áttu síðast skráð lögheimili, samanber b-lið 1. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.  

Umsókn íslensks ríkisborgara sem búsettur er erlendis um að verða tekinn á kjörskrá á Íslandi, sjá umsóknareyðublöð á vef Þjóðskrár Íslands: 
https://skra.is/umsoknir/eydublod-umsoknir-og-vottord/stok-vara/?productid=e31c246c-6eb4-11e6-943e-005056851dd2 . 

Nokkuð ítarlegar leiðbeiningar um listabókstafi er að finna í 37. gr. a. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og hvetur ráðuneytið þá sem huga á framboð að kynna sér hana vel, sem og allan VII. kafla laganna er fjallar um framboð. Í 1. mgr. 37. gr. a.  kemur m.a. fram að ráðuneytið skuli halda skrá um listabókstafi þeirra stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar og birta skránna opinberlega með auglýsingu.

Auglýsing um listabókstafi stjórnmálasamtaka í Stjórnartíðindum.

Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf, bjóða fram lista við alþingiskosningar, skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringjum áður en framboðsfrestur rennur út. Tilkynningunni skulu fylgja meðmæli 300 kjósenda. Rétt er að taka fram að ráðuneytið getur ekki tekið tilkynningu um listabókstaf til formlegrar meðferðar fyrr en fyrir liggur undirritun 300 kjósenda.

Hægt er að sækja um listabókstaf inn á Ísland.is og safna þar meðmælum. Við innskráningu þarf að nota rafræn skilríki. Einnig er hægt að sækja um á pappír og safna meðmælum þannig. Í þeim tilgangi að stuðla að samræmi og einfalda framkvæmd hefur dómsmálaráðuneytið gert fyrirmynd af meðmælendablaði sem hægt er að safna undirskriftum á, kjósi stjórnmálsamtökin að safna meðmælum á pappír. 

Eyðublað - Meðmæli með umsóknum um úthlutun listabókstafs vegna kosninga til Alþingis

Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 300 kjósendum. Hún skal dagsett og skal greina nafn kjósanda, kennitölu hans og heimili.

Hafa ber í huga að í kosningum til Alþingis hefur hvorki broddstöfum (Á, Í, Ó o.s.frv.) verið úthlutað né bókstöfunum Ð, X og Ö, þar sem þeir geta auðveldlega valdið ruglingi og þar með aukið hættu á ógildingu atkvæða – einkum utankjörfundaratkvæða.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. a. laga nr. 24/2000 ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.

Ef frambjóðandi deyr áður en kosning fer fram, en eftir að framboðsfrestur er liðinn eða á næstu þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur er liðinn, má innan viku, ef fullur helmingur meðmælenda listans krefst þess, setja annan mann í stað hins látna á listann, enda sé fullnægt öðrum almennum skilyrðum um framboðið.

Þeir sem hafa áhuga á að starfa á kjörstað eða innan kjördeilda á kjördag skulu hafa samband við viðkomandi kjörstjórn eða sveitarstjórn.

Ef atkvæði er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá getur hann skilið atkvæðabréfið þar eftir og látið það sjálfur í atkvæðakassa sem er á kjörstað.

Ef atkvæði er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar kjósandinn sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst en kjósandi kostar sjálfur sendinguna.

Bréfið með atkvæðinu skal stíla á sýslumanninn eða kjörstjórnina í því umdæmi sem kjósandi er á kjörskrá.

Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Meðmælum með framboðslista er bæði hægt að safna rafrænt inn á Ísland.is og einnig á pappír. 

Áður en rafræn söfnun meðmæla með framboðslista getur hafist skulu hlutaðeigandi stjórnmálasamtök tilkynna dómsmálaráðuneytinu hver hafi fyrir þeirra hönd heimild til þess að stofna söfnunina. Tilkynna skal einn aðalmann og einn til vara og tilgreina fullt nafn og kennitölu viðkomandi. Þegar tilkynning berst ráðuneytinu skal það eins fljótt og auðið er tryggja að unnt sé að hefja söfnun meðmæla á Ísland.is. Við innskráningu þarf að nota rafræn skilríki.

Í þeim tilgangi að stuðla að samræmi og einfalda framkvæmd hefur dómsmálaráðuneytið gert fyrirmynd af meðmælendablaði sem hægt er að safna undirskriftum á, kjósi stjórnmálsamtökin að safna meðmælum á pappír.

Eyðublað: (setja link)

Fyrirmynd meðmælendalista vegna listabókstafs 

Stjórnmálasamtök geta safnað meðmælum bæði á pappír og rafrænt.

Í 32. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 kemur fram að framboðslista skuli fylgja yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Tilgreina skal nafn, kennitölu hans og heimili. Fjöldi skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Sem dæmi má nefna að Suðurkjördæmi hefur 10 þingsæti. Meðmælendur fyrir Suðurkjördæmi skulu því vera á bilinu 300-400.

Kjósendur á erlendri grundu bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila á Íslandi. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því umdæmi þar sem kjósandinn telur sig vera á kjörskrá. Sendiumslagið skal merkja viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn og á bakhlið umslagsins skal færa inn tilteknar upplýsingar um kjósandann sjálfan. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili á Íslandi sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja sendiumslagið ofan í annað umslag. Bréfið með atkvæðinu skal stíla á sýslumanninn eða kjörstjórnina í því umdæmi sem kjósandi er á kjörstjórn.

Hægt er að senda utankjörfundaratkvæði með pósti eða koma því á einhvern annan hátt í hendur hlutaðeigandi kjörstjórnar en það verður að berast fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Eftir að framboðsfrestur rennur út getur sá sem er á framboðslista ekki dregið framboð sitt á listanum til baka. Það er einungis heimilt að bæta nýjum nöfnum á framboðslista, eftir að framboðsfresti er lokið ef frambjóðandi á þeim lista hefur látist.

Hver sem er getur í raun stofnað stjórnmálasamtök og þarf ekki leyfi stjórnvalda til þess. Rétturinn til að stofna stjórnmálasamtök grundvallast á 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, en þar segir m.a. að menn eigi rétt á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

Nei, það er ekki heimilt. Berist yfirkjörstjórn meðmælendalistar þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði, og verður kjósandinn þá ekki talinn meðmælandi neins þeirra.

Í 2. mgr. 37. gr. a. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 kemur fram að heiti nýrra stjórnmálasamtaka megi ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. 37. gr a. 

Heimilt er að kjósa á öðrum kjörstað en þar sem kjósandi er á kjörskrá ef kjörstaðurinn er innan sama kjördæmis. Í því tilviki skal kjósandi gefa sig fram við kjörstjórn/hverfiskjörstjórn þar sem kjósandi ætlar að kjósa, óska eftir á sérstöku eyðublaði að fá að kjósa á þeim kjörstað og afsala sér jafnframt kosningarrétti á þeim stað sem hann er skráður á kjörskrá. Kjörstjórnin á þeim kjörstað þar sem kjósandi kýs staðfestir afsalið og tilkynnir kjörstjórninni þar sem kjósandi er á kjörskrá.    

Eyðublað: Afsal kosningarréttar vegna óskar um flutning milli kjörstaða 

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira