Hoppa yfir valmynd

Gagnsæi í stjórnmálabaráttu

Um fjármál stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu þeirra er fjallað í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirranr. 162/2006. Lögin er hægt að nálgast hér; https://www.althingi.is/lagas/nuna/2006162.html.  

Í lögunum er kveðið á um heimildir stjórnmálasamtaka til að taka við framlögum til starfsemi sinna eða til kosningabaráttu og einnig um hámarksframlög og kostnað vegna kosningabaráttu.  

Ríkisendurskoðun hefur gefið út leiðbeiningar  um reikningshald stjórnmálasamtaka og skil þeirra á upplýsingum til Ríkisendurskoðunar. 

Stjórnmálasamtök skulu fyrir 1. nóvember ár hvert skila ríkisendurskoðanda reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr. laga nr. 162/2006, árituðum af endurskoðendum.

Ríkisendurskoðandi skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta ársreikning stjórnmálasamtaka. Auk þess skal ríkisendurskoðandi birta nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 300.000 kr.

Stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, er óheimilt að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra.

Hver sem tekur við framlögum, eða jafnvirði þeirra, sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. laga nr. 162/2006 eða hærri framlögum en heimilt er skv. 7. gr. sömu laga skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Hver sem skilar ekki upplýsingum eða skýrslum samkvæmt ákvæðum laga þessara til ríkisendurskoðanda innan tilgreindra tímamarka skal sæta sektum. Sama gildir séu veittar upplýsingar ekki í samræmi við settar reglur.

Stjórnmálasamtök, kjörnir fulltrúar þeirra og frambjóðendur, sem og frambjóðendur í persónukjöri, sem taka þátt í að fjármagna eða birta efni eða auglýsingar í tengslum við stjórnmálabaráttu án þess að fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra, sbr. 12. gr. laga nr. 162/2006, skulu sæta sektum. 

Gera skal lögaðilum sekt fyrir framangreind brot.

Síðast uppfært: 30.6.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum