Listabókstafir
Úthlutun listabókstafa og heiti nýrra stjórnmálasamtaka
Dómsmálaráðuneytið tekur ákvörðun um bókstaf nýrra stjórnmálasamtaka að fenginni umsókn þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.
Leiðbeiningar um listabókstafi er að finna í I. kafla D laga um starfsemi stjórnamálasamtaka, nr. 162/2006, en sá kafli fjallar um framboð stjórnmálasamtaka. Í 2. gr. k laganna kemur fram að að afloknum kosningum til Alþingis skuli ráðuneytið taka saman skrá um listabókstafi og heiti stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við kosningarnar. Skal skráin birt í B-deild Stjórnartíðinda eigi síðar en átta vikum eftir hverjar almennar alþingiskosningar.
Eftir birtingu ofangreindrar auglýsingar hefur eftirfarandi auglýsing verið birt:
Umsókn um listabókstaf
Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf, bjóða fram lista við alþingiskosningar, skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringjum áður en framboðsfrestur rennur út.
Umsókninni skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda, þar sem mælt er með heiti stjórnmálasamtakanna og listabókstaf. Yfirlýsingin skal dagsett og skal greina nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili, en meðmælandi skal vera kosningarbær, þ.e. að vera orðinn 18 ára þegar hann skráir sig á meðmælendalista. Rétt er að taka fram að ráðuneytið getur ekki tekið umsókn um listabókstaf til formlegrar meðferðar fyrr en fyrir liggur undirritun 300 kjósenda.
Stjórnmálasamtök geta safnað meðmælum bæði rafrænt og á pappír.
Hægt er að sækja um listabókstaf á Ísland.is og safna þar meðmælum. Við innskráningu skal nota rafræn skilríki. Einnig er hægt að sækja um á pappír og safna meðmælum þannig. Eyðublað sem hægt er nota til að safna undirskriftum, kjósi stjórnmálsamtökin að safna meðmælum á pappír er að finna hér.
Eyðublað: Fyrirmynd meðmælendalista vegna listabókstafs
Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá. Ráðuneytið tilkynnir þeim stjórnmálasamtökum sem eru á skrá ráðuneytisins yfir listabókstafi um beiðnina. Að því loknu tekur ráðuneytið ákvörðun um úthlutunina með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka sem eru á skrá yfir samtök sem boðið hafa fram lista í undangengnum alþingiskosningum.
Ráðuneytið hefur litið svo á, að öllu jöfnu, að aðrir bókstafir en þeir sem fram koma á skrá ráðuneytisins um listabókstafi, teljist lausir. Hins vegar ber að hafa í huga að í kosningum til Alþingis hefur broddstöfum (Á, Í, Ó o.s.frv.) ekki verið úthlutað né heldur bókstöfunum X og Ð, þar sem þeir geta auðveldlega valdið ruglingi og þar með aukið hættu á ógildingu atkvæða – einkum utankjörfundaratkvæða.
Beiðni stjórnmálasamtaka sem ætla að bjóða fram til Alþingis um að breyta heiti sínu.
Óski samtök, sem skráð eru á skrá ráðuneytisins yfir listabókstafi, að breyta heiti sínu skulu þau tilkynna það ráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Um það gildir það sama og varðandi heiti nýrra stjórnmálasamtaka þ.e. heitið má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skránni.
Framboð - leiðbeiningar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.