Hoppa yfir valmynd

Listabókstafir

Úthlutun listabókstafa og heiti nýrra stjórnmálasamtaka.

Dómsmálaráðuneytið heldur skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skrána skal birta með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar en séu kosningar fyrirskipaðar með svo stuttum fyrirvara að þetta verði ekki gert er auglýsingin birt innan þriggja sólarhringa.

Auglýsingu dómsmálaráðuneytisins eftir kosningar til Alþingis 2017 er hægt að nálgast hér:

Árið 2019, úthlutaði ráðuneytið nýjum bókstaf, sjá auglýsingu: 

Árið 2021, úthlutaði ráðuneytið nýjum bókstaf, sjá auglýsingu:

Umsókn um listabókstaf í kosningum til Alþingis.

Hyggist stjórnmálasamtök sem hafa ekki skráðan listabókstaf bjóða fram lista við alþingiskosningar skal það tilkynnt dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Tilkynningin skal undirrituð af a.m.k. 300 kjósendum. Hún skal dagsett og skal greina nafn kjósanda, kennitölu hans og heimili. Ekkert í lögum mælir gegn því að sama aðili undirriti tilkynningu vegna umsóknar um listabókstaf og sé einnig meðmælandi framboðs, sbr. 32. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

Þegar tilkynningin hefur borist ráðuneytinu, óskar það, án tafar, eftir því við Þjóðskrá Íslands og stofnunin fari yfir nöfn þeirra sem undirritað hafa tilkynninguna til þess að athuga hvort þeir uppfylli skilyrði kosningarréttar. Er ávallt óskað eftir flýtimeðferð hjá Þjóðskrá. Jafnframt tilkynnir ráðuneytið þeim stjórnmálasamtökum sem eru á skrá (þ.e. þeim sem buðu fram í síðust kosningum til Alþingis og hafa fengið úthlutað listabókstaf síðan), um ný stjórnmálasamtök sem tilkynnt eru og um ósk þeirra um listabókstaf. Þegar staðfesting frá Þjóðskrá Íslands hefur borist ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum.

Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá. Það mat liggur hjá dómsmálaráðuneytinu.

Leiðbeiningar um listabókstafi er að finna í 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og hvetur ráðuneytið þá sem huga á framboð að kynna sér ákvæðið vel, sem og allan VII. kafla laganna er fjallar um framboð.

Í 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, er hvorki gert ráð fyrir að litið sé til þess hvaða listabókstafi stjórnmálasamtök hafa notast við í kosningum til sveitarstjórna né heldur að þeim samtökum sem einvörðungu hafa boðið fram lista við slíkar kosningar sé gefið færi á að veita umsögn áður en fram fer úthlutun listabókstafs fyrir kosningar til Alþingi.

Þegar litið er til samspils laga um kosningar til Alþingis og laga um kosningar til sveitarstjórna er ljóst að þeim framboðum sem bjóða fram lista við alþingiskosningar er veittur forgangur til listabókstafa umfram þau framboð sem einungis bjóða fram í kosningum til sveitarstjórna. Í því sambandi skal bent á að við kosningar til sveitarstjórna er að jafnaði notast við mun fleiri listabókstafi en við kosningar til Alþingis. Ef litið væri til þess við úthlutun listabókstafa fyrir alþingiskosningar er ljóst að möguleikar nýrra stjórnmálasamtaka til að fá úthlutað listabókstaf fyrir slíkar kosningar væru takmarkaðir umtalsvert.

Ráðuneytið hefur litið svo á, að öllu jöfnu, að aðrir bókstafir en þeir sem fram koma á skrá ráðuneytisins sem birt er skv. 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, teljast lausir. Hins vegar ber að hafa í huga að í kosningum til Alþingis hefur broddstöfum (Á, Í, Ó o.s.frv.) ekki verið úthlutað né heldur bókstöfunum X og Ð, þar sem þeir geta auðveldlega valdið ruglingi og þar með aukið hættu á ógildingu atkvæða – einkum utankjörfundaratkvæða.

Beiðni stjórnmálasamtaka sem ætla að bjóða fram til Alþingis um að breyta heiti sínu.

Óski samtök, sem skráð eru (þ.e. á skrá ráðuneytisins skv. 38. gr.), að breyta heiti sínu skulu þau tilkynna það ráðuneytinu eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Um það gildir það sama og varðandi heiti nýrra stjórnmálasamtaka þ.e. heitið má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. 38. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira