Hoppa yfir valmynd

Atkvæðagreiðsla á kjördag

Hvar og hvenær á að kjósa?

Kjósandi kýs í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili á viðmiðunardegi kjörskrár, þ.e. fimm vikum fyrir kjördag. Eftir viðmiðunardag kjörskrár munu kjósendur geta kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá.

Sveitarfélög auglýsa kjörstaði og mörg þeirra birta einnig aðrar kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum.

Kjörstaðir skulu opnaðir á bilinu kl. 9-12 og skal sveitarstjórn auglýsa nákvæma tímasetningu með nægum fyrirvara. Meginreglan er að atkvæðagreiðslu megi ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slitið eigi síðar en kl. 22 á kjördag.

Hvernig fer atkvæðagreiðslan fram?

Kjósandi mætir á kjörstað, finnur sína kjördeild, framvísar skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi), lætur merkja við nafni sitt á kjörskrá og fær kjörseðil. Ef hann á rétt á að greiða atkvæði samkvæmt kjörskránni afhendir kjörstjórn honum einn kjörseðil.

Þegar kjósandi hefur tekið við kjörseðlinum fer kjósandi með hann inn í kjörklefann. Í kjörklefanum skal vera blýantur og spjald jafnstórt kjörseðli með upphleyptum listabókstöfum og blindraletri.

Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með blýantinum kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa. Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til. Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans. Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.

Réttur til að fá nýjan kjörseðil

Láti kjósandi sjá hvernig hann hefur greitt atkvæði sitt er seðillinn ónýtur og má ekki leggja hann í atkvæðakassann. Ef kjósanda verður þetta á eða ef hann setur skakkt kjörmerki á seðil eða seðill krotast hjá honum af vangá á hann rétt á að fá nýjan kjörseðil. Skal hann þá afhenda kjörstjórninni hinn fyrri seðil.

Ef kjósandi þarf aðstoð við að kjósa?

Í kjörklefanum er spjald með blindraletri með upphleyptu nafni hvers frambjóðanda. Þá eiga þeir sem geta ekki merkt sjálfir við á kjörseðlinum sínum, vegna sjónleysis eða þess að þeir geta ekki notað höndina til að fylla út kjörseðilinn, rétt á aðstoð í kjörklefanum.

Ef kjósandi er ekki fær um að kjósa hjálparlaust vegna sjónleysis eða þess að hann getur ekki ritað á kjörseðilinn með eigin hendi getur hann tilnefnt einn úr kjörstjórninni til að veita sér aðstoð í kjörklefanum. Sá sem aðstoðina veitir er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósandanum fer þar á milli. Kjörstjórnarmanni er óheimilt að bjóða aðstoð að fyrra bragði en kjósandi getur óskað eftir henni.

Kjósandi getur jafnframt óskað eftir því að fulltrúi sem kjósandi hefur valið aðstoði sig í kjörklefanum og skal kjörstjórnin verða við því ef kjósandi getur með skýrum hætti tjáð þann vilja sinn. Þótt kjósandi geti ekki með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þann vilja þinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósanda við atkvæðagreiðsluna. Þá þarf kjósandi að leggja fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandi hafir valið þennan tiltekna fulltrúa til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Sjá lista yfir réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk á eftirfarandi vefslóð:

Þessum fulltrúa er óheimilt að aðstoða fleiri en einn kjósanda með þessum hætti við hverjar kosningar. Fulltrúinn er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað.

Eyðublöð:

Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Ákvörðun kjörstjórnar skal bókuð í kjörbókina með tilgreindum ástæðum. Ákvörðun kjörstjórnar er endanleg. Heimili kjörstjórn fulltrúa að aðstoða kjósandann í kjörklefanum skal kjörfundi haldið áfram. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Við atkvæðagreiðslu á kjörfundi er fulltrúa kjósandans óheimilt að gerast fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.

Heimild til að kjósa á öðrum kjörstað

Heimilt er að kjósa á öðrum kjörstað en þar sem kjósandi er á kjörskrá ef kjörstaðurinn er innan sama kjördæmis. Í því tilviki skal kjósandi gefa sig fram við kjörstjórn/hverfiskjörstjórn þar sem kjósandi ætlar að kjósa, óska eftir á sérstöku eyðublaði að fá að kjósa á þeim kjörstað og afsala sér jafnframt kosningarrétti á þeim stað sem hann er skráður á kjörskrá. Kjörstjórnin á þeim kjörstað þar sem kjósandi kýs staðfestir afsalið og tilkynnir kjörstjórninni þar sem kjósandi er á kjörskrá.

Eyðublað:

Síðast uppfært: 13.8.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum