Hoppa yfir valmynd

Kjördæmi og kjörstaðir

Kjördæmi

Landinu er skipt í sex kjördæmi og kjósendur neyta kosningarréttar síns eftir þeim reglum og með þeim skilyrðum er lög um kosningar til Alþingis setja.

Kjördæmin eru:

Norðvesturkjördæmi

Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.

Norðausturkjördæmi

Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fjarðabyggð og Múlabyggð.

Suðurkjördæmi

Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Sveitarfélagið Hornafjörður, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurbær, Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Sveitarfélagið Vogar.

Suðvesturkjördæmi

Til þess teljast eftirtalin sveitarfélög: Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.

Reykjavíkurkjördæmi suður og norður

Landskjörstjórn auglýsir mörk Reykjavíkurkjördæma norður og suður eigi síðar en fjórum vikum fyrir kjördag, í samræmi við lög um kosningar til Alþingis.

Kjördæmamörk

Kjörstaðir

Sveitarfélög auglýsa kjörstaði við kosningar til Alþingis. Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi. Þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr. Dómsmálaráðuneytið safnar saman upplýsingum um kjörstaði og tengir í slíkar upplýsingar á vefsíðum sveitarfélaga eftir því sem þær berast.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sýslumönnum hérlendis. Upplýsingar um embætti sýslumanna er hægt að nálgast hér:

Sýslumenn geta ákveðið að atkvæðagreiðsla skuli fara fram á aðalskrifstofu þeirra eða í útibúi. Þá getur sýslumaður ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum kjörstað utan aðalskrifstofunnar, svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans. 

Kjósanda sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða atkvæði þar. Með sama hætti fer um vistmenn í fangelsi. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag. 

Þá sjá sýslumenn um framkvæmd utankjörfundarkosninga í heimahúsum en kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, samanber framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag. Ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi sýslumann eigi síðar en tveimur dögum fyrir kjördag. 

Erlendis skal atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fara fram á skrifstofu sendiráðs, á sendiræðisskrifstofu eða á skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur og ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu þeirra kjörgagna sem þurfa að berast kjörstjórum erlendis. 

Utanríkisráðuneytið auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis.

Sjá einnig...

Síðast uppfært: 18.11.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum