Hoppa yfir valmynd

Framboð - leiðbeiningar

Kjörgengi til forseta

Í stjórnarskránni er kveðið á um að hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu, sé kjörgengur til forseta Íslands. Um kosningarrétt til Alþingis sjá 1. og 2. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.

Samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands sker Hæstiréttur Íslands úr ef ágreiningur er um kjörgengi frambjóðanda. Í lögunum segir jafnframt að um kosningaathöfnina sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.

Framboð

Framboðum til forsetakjörs skal skila til dómsmálaráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag, þ.e. fyrir miðnætti föstudaginn 22. maí 2020. Lokað verður fyrir rafræna söfnun meðmælenda kl. 23.59 hinn 19. maí 2020. Ef nauðsynlegt er að safna meðmælum eftir þann tíma, skal sú söfnun einungis fara fram á pappír. Slíkum meðmælum skal skila til viðkomandi yfirkjörstjórnar samkvæmt samkomulagi við hana.

Yfirkjörstjórnir auglýsa í byrjun maímánaðar hvar og hvenær þær taki við meðmælendalistum til staðfestingar á kosningabærni meðmælenda. Til hægðarauka við yfirferð á meðmælendalistum munu frambjóðendur geta veitta ákveðnum aðila umboð til að skrá upplýsingar um meðmælendur í meðmælendakerfi Þjóðskrár Íslands. Er frambjóðendum bent á að snúa sér til Þjóðskrár Íslands vegna þessa.

Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningabærra manna, en mest 3000, er skiptist þannig eftir landsfjórðungum:

Úr Sunnlendingafjórðungi (þ.e.  Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Vestmannaeyjabær, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grindavíkurbær, Suðurnesjabær, Reykjanesbær, Sveitarfélagið Vogar, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Kópavogsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Kjósarhreppur, Akraneskaupstaður, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur og Borgarbyggð sunnan Hvítár) séu minnst 1224 meðmælendur, en mest 2448.

Úr Vestfirðingafjórðungi (þ.e. Borgarbyggð vestan Hvítár, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Stykkishólmsbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Húnaþing vestra vestan Hrútafjarðar) séu minnst 59 meðmælendur, en mest 117.

Úr Norðlendingafjórðungi (þ.e. Húnaþing vestra norðan Hrútafjarðar, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður, Akrahreppur, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyrarbær, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Norðurþing vestan Reykjaheiðar og Tjörneshreppur) séu minnst 160 meðmælendur, en mest 320.

Úr Austfirðingafjórðungi (þ.e. Norðurþing austan Reykjaheiðar, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður) séu minnst 57 meðmælendur, en mest 115.

Söfnun meðmælenda með rafrænum hætti: Frá og með 17. apríl 2020 er boðið upp á rafræna skráningu á meðmælendalista vegna forsetakosninga sem fram fara þann 27. júní 2020. Frambjóðandi eða umboðsmaður hans sem óskar þess að safna meðmælendum rafrænt skal til­kynna það til Þjóðskrár Íslands sem mun, eins skjótt og auðið er frá því að beiðni berst, tryggja að skráning meðmælenda geti farið fram í meðmælendakerfi Þjóð­skrár Íslands.

Söfnun meðmælenda á pappír: Jafnframt er unnt að safna meðmælendum með hefðbundnu sniði, þ.e. á pappír. Dómsmálaráðuneytið hefur látið gera eyðublöð sem sá sem hyggst bjóða sig fram til forseta getur nýtt sér til söfnunar meðmælenda. Sérstakt eyðublað er gert fyrir hvern landsfjórðung og má nálgast þau hér að neðan:

Forsetaefni geta jafnframt útbúið eigin eyðublöð, en gæta skal þess að tilgreina nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili, en auk þess þarf að koma skýrt fram að þeir sem undirriti skjalið séu með því að mæla með framboði tiltekins einstaklings við forsetakjör 27. júní 2020.

Mikilvægt er að á sérhverju blaði sem meðmælendur rita á, komi skýrlega fram að verið sé að mæla með framboði tiltekins einstaklings við forsetakjör 27. júní 2020.

Frágangur og móttaka meðmælendalista

Hafi meðmælum eingöngu verið safnað með rafrænum hætti, nægir að frambjóðandi eða umboðsmaður hans tilkynni viðkomandi yfirkjörstjórn að óskað sé yfirferðar á hinum rafræna meðmælendalista, t.d. með tölvupósti. Hægt er að nálgast upplýsingar um formenn yfirkjörstjórna á eftirfarandi vefslóð:

Hafi meðmælum verið safnað á pappír, þarf frambjóðandi eða umboðsmaður hans að mæta til yfirkjörstjórnar á þeim tíma sem auglýstur hefur verið, leggja fram listana og óska yfirferðar á þeim. Það sama gildir hafi söfnunin farið fram bæði með rafrænum hætti og á pappír, þ.e. frambjóðandi eða umboðsmaður hans þarf þá að mæta á fund yfirkjörstjórnar og óska yfirferðar á báðum listunum.

Yfirkjörstjórn gefur eingöngu út vottorð um meðmælendur úr eigin kjördæmi. Meðmælum skal því skila til yfirkjörstjórnar í því kjördæmi þar sem viðkomandi meðmælandi á lögheimili. Landsfjórðungaskiptingin hefur ekki áhrif hvað þetta varðar, heldur skal afhending meðmælandanna taka mið af lögheimilisskráningu viðkomandi.  

Ef á sama meðmælaendablaði eru meðmælendur með kosningarrétt í fleiri en einu kjördæmi, þá mun sú yfirkjörstjórn sem afhent hefur verið slíkt meðmælendablað veita aðstoð þannig að koma megi meðmælum í rétt kjördæmi.

Framboð - leiðbeiningar

Sjá einnig...

Síðast uppfært: 20.6.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum