Hoppa yfir valmynd

Sýslumenn

Atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á Íslandi fer fram hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Sýslumaður getur einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað í umdæminu. Einnig ákveður hann hvaða starfsmenn hans skuli vera kjörstjórar og ræður aðra trúnaðarmenn til þeirra starfa. Sýslumenn auglýsa hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram, með þeim hætti sem venja er á hverjum stað að birta opinberar auglýsingar.

Upplýsingar frá öllum sýslumannsembættum landsins um kjörstaði og afgreiðslutíma vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar má nálgast á vefsíðu sýslumanna.

Kjörskrár

Hlutast til um að kjörskrá verði samin
Ef kjörskrá hefur ekki verið samin eða lögð fram í tæka tíð eða um það hefur ekki verið fylgt ákvæðum  laga, skal sýslumaður, jafnskjótt og hann fær vitneskju um það, gera nauðsynlegar ráðstafanir til að kjörskrá verði tafarlaust samin og það leiðrétt sem skort hefur á að færi lögum samkvæmt.

Kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar

Afgreiðsla kjörgagna
Dómsmálaráðuneytið lætur í té kjörgögn við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Atkvæðagreiðsla hjá sýslumönnum, sjá hér að framan.

Framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á stofnunum, í fangelsum, í heimahúsi og svo framvegis.
Kjósanda sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilsmaður á dvalarheimili aldraðra eða heimili fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða atkvæði þar. Með sama hætti fer um vistmenn í fangelsi. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en þremur vikum fyrir kjördag, laugardaginn 6. júní 2020.

Um tímasetningar vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á sjúkrahúsum, í fangelsi og á dvalarheimilum aldraðra sjá vef sýslumanna.

Þá sjá sýslumenn um framkvæmd utankjörfundarkosninga í heimahúsum en kjósanda sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, samanber framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 6. júní 2020, ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þ.e. 23. júní 2020, fyrir klukkan 16.

Hvernig fer með atkvæðið?
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá, þá skilur hann þar eftir bréf með atkvæði sínu og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa.

Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.

Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild í því kjördæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá fyrir lok kjörfundar á kjördag.

Síðast uppfært: 22.6.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum