Hoppa yfir valmynd

Undirkjörstjórnir

Í hverri kjördeild skal vera undirkjörstjórn kosin af sveitarstjórn og skal hún skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn. Við ákveðnar aðstæður getur kjörstjórnarmaður þurft að víkja sæti, t.d. ef til úrskurðar er mál, sem varðar maka hans eða ættingja. Undirkjörstjórnir skulu eins og aðrar kjörstjórnir halda gerðabók. Þeim er þó heimilt að nota sérstök eyðublöð í stað gerðabókar í sveitarfélagi þar sem kosin er sérstök yfirkjörstjórn. Undirkjörstjórnum er gert að bóka um allt sem kosningalög mæla fyrir um og jafnframt það sem máli skiptir um kosningaathöfnina.

Kjörgögn

Móttaka kjörgagna
Undirkjörstjórnir taka við kjörseðlum og öðrum kjörgögnum frá yfirkjörstjórn, t.d. blindraspjöldum, kosningaleiðbeiningum og sérprentun sem dómsmálaráðuneytið gefur út með lögum um framboð og kjör forseta Íslands,  lögum um kosningar til Alþingis og stjórnarskránni. Þá fá undirkjörstjórnir einnig send sex sterk umslög, á tvö þeirra skal prentað í neðra framhornið Ónýtir seðlar, á tvö Ágreiningsseðlar og á tvö Afgangsseðlar. Með þessum umslögum skal fylgja eitt stórt og sterkt umlag með áprentaðri utanáskrift til yfirkjörstjórnar og á efra framhorni nafn kjördeildarinnar og skal í það umslag leggja hin umslögin.

Atkvæðagreiðsla á kjörfundi

Fullskipuð kjörstjórn viðstödd setningu kjörfundar
Þegar er kjörfundur er settur skal fullskipuð kjörstjórn vera viðstödd eða varamenn í forföllum þeirra og skal auglýsa upphaf kjörfundar með hæfilegum fyrirvara.

Hlutverk undirkjörstjórna við kosningarathöfnina
Meðan á kosningarathöfn stendur skal kjörstjórnin sitja við borð í kjörfundarstofunni. Aldrei má nema einn úr kjörstjórn ganga út úr kjörfundarstofunni í senn og felur hann þá öðrum úr kjörstjórninni verk sitt á meðan nema varamaður sé tiltækur. Kosningarathöfnin byrjar með því að oddviti kjörstjórnar leggur fram seðlaböggul þann sem hann hefur fengið frá yfirkjörstjórn og skal þess gætt hvort innsiglin séu heil eða böggullinn beri þess merki að hann hafi verið opnaður. Því næst opnar oddviti kjörstjórnar böggulinn og skal telja seðlanna og bera saman við töluna  sem tilgreind er í bréfi yfirkjörstjórnar.

Þá skal oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna (eða tveir meðkjörstjórar) kjörhafa hvor sitt eintak af kjörskránni og merkja við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.

Kjörfundarstofan
Áður en atkvæðagreiðsla hefst skal kjörstjórn gæta þess að atkvæðakassinn, sem sveitarstjórn leggur til,  sé tómur og síðan læsa honum.

Í kjörfundarstofu skal festa upp á áberandi stað kosningaleiðbeiningar sem dómsmálaráðuneytið lætur í té.

Kjörstjórnin getur ákveðið að ekki séu aðrir inni í kjörfundarstofunni en þeir sem starfa við framkvæmd kosninganna, auk kjósenda sem ætla að greiða atkvæði. Þá er kjörstjórn heimilt að takmarka fjölda kjósenda í kjörfundarstofu ef þörf þykir til að halda uppi reglu.

Kosningaáróður á kjörstað
Kjörstjórn skal sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

Athugar hvort kjósandi sé á kjörskrá
Þegar kjósandi mætir á kjörstað gerir hann kjörstjórn grein fyrir sér, svo sem með því segja til sín og framvísa skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi), eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjórnar. Ef hann á rétt á að greiða atkvæði afhendir kjörstjórn honum einn kjörseðil.

Kjörstjórn má ekki meina neinum sem er á kjörskrá, að greiða atkvæði nema hann hafi afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild og greitt atkvæði annars staðar. Þá gildir sömuleiðis að engum sem ekki er á kjörskrá, má kjörstjórn leyfa að greiða atkvæði nema hann sanni með vottorði að nafn hans standi á kjörskrá í annarri kjördeild innan sama kjördæmis og hann hafi afsalað sér þar atkvæðisrétti enda sé vottorðið gefið út af kjörstjórn viðkomandi kjördeildar.

Eyðublöð

Aðstoð við kjósanda

Ef kjósandi er ekki fær um að kjósa hjálparlaust vegna sjónleysis eða þess að hann getur ekki ritað á kjörseðilinn með eigin hendi getur hann tilnefnt einn úr kjörstjórninni til að veita sér aðstoð í kjörklefanum. Sá sem aðstoðina veitir er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósandanum fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina. Aðstoð skal þó aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Kjósandi verður sjálfur að biðja um aðstoð.

Kjörfundi slitið
Kjörfundi má ekki slíta fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að hann hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning að atkvæðagreiðslu megi slíta ef allir sem eru á kjörskrá hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukkustundir ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó slíta eigi síðar en kl. 22 á kjördag. Þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eiga þó rétt á að greiða atkvæði.

Utankjörfundaratkvæði
Ef kjörstjórn berst atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar skal fyrst athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Síðan eru bréfin talin og borin saman við þær skrár sem þeim fylgir.
Utankjörfundaratkvæði koma í tveimur umslögum. Fyrst er atkvæði sett í svokallað kjörseðilsumslag, sem síðan er sett ásamt fylgibréfi í sendiumslag. Kjörstjórnin opnar sendiumslögin og kannar hvort taka skuli utankjörfundaratkvæði til greina, t.d. hvort sendandinn sé á kjörskrá, hafi afsalað sér kosningarrétti í viðkomandi kjördeild eða hafi látist fyrir kjördag. Ef taka á atkvæðið til greina er sett sérstakt merki við nafn kjósandans á kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.

Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni (sveitarfélaginu) skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og hvort unnt sé að koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild en ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.

Verkefni kjörstjórnar eftir að kjörfundi lýkur

Þegar atkvæðagreiðslu er lokið kannar kjörstjórn á ný  þau utankjörfundaratkvæði sem henni hafa borist. Ef sá sem atkvæðið er frá er á kjörskrá og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni. Ef atkvæðisbréf er hins vegar ekki tekið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið. Ef atkvæði berst frá kjósanda sem ekki er á kjörskrá í kjördeildinni skal senda slík atkvæðisbréf sérstaklega til yfirkjörstjórnar.

Ágreiningur um gildi atkvæðis
Ef ágreiningur skapast innan kjörstjórnar eða milli kjörstjórnar og umboðsmanna um hvort utankjörfundaratkvæði sé gilt eða ógilt, skal bóka nákvæmlega í kjörbókina í hverju ágreiningurinn er fólginn og leggja kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfi aftur í sendiumslagið og senda það til úrskurðar yfirkjörstjórnar.

Afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassa og önnur kjörgögn
Þegar atkvæðagreiðslu hefur verið slitið og kjörseðilsumslög sem borist hafa utan kjörfundar og tekin hafa verið gild, látin í atkvæðakassann, skal oddviti kjörstjórnar ganga frá í sérstakt umslag öllum þeim seðlum sem ónýst hafa, í annað umslag öllum þeim utankjörfundaratkvæðum sem ágreiningur er um og í hinu þriðja öllum ónotuðum seðlum sem afgangs eru. Þegar umslögunum þremur hefur verið lokað skal ganga frá þeim ásamt lykli að atkvæðakassanum í aðalumslagið og loka því. Þau umslög skulu notuð sem yfirkjörstjórn hefur sent í þessu skyni.

Eftir að bókun hefur verið lokið og kjörbókin undirrituð af kjörstjórn skal oddviti kjörstjórnar ganga frá öllu saman í umbúðir innsiglaðar af kjörstjórn, þ.e. atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók eða afriti úr kjörbók og utankjörfundaratkvæðum sem eiga að fara í aðra kjördeild. Gæta verður þess að eftir að kjörstjórn hefur gengið frá kjörgögnum á þennan hátt mega hin innsigluðu gögn og innsigli kjörstjórnar ekki vera í vörslu sama manns. Gögnin eru síðan send yfirkjörstjórn þegar í stað á öruggan hátt og skal yfirkjörstjórn gefa viðurkenningu fyrir móttöku.

Ef yfirkjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan.

Þegar kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni sendir hún kjörskráreintök þau sem notuð voru við kosninguna í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar.

Atkvæði utan kjörfundar þarf að hafa borist í einhverja kjördeild í kjördæminu fyrir lok kjörfundar. Atkvæði sem þannig berst og ekki næst að senda í þá kjördeild þar sem kjósandinn er á kjörskrá skulu send yfirkjörstjórn eða hverfiskjörstjórn, ef því er að skipta. Við meðferð slíkra atkvæða ber að kanna á kjörskrá hvort kjósandi hafi þegar neytt atkvæðisréttar síns.

Kosningum frestað og uppkosningar

Kosning ferst fyrir
Undirkjörstjórn boðar til kjörfundar að nýju innan viku ef kosning ferst fyrir í einhverri kjördeild á hinum ákveðna degi sökum óveðurs eða af öðrum óviðráðanlegum orsökum.

Ef kosning hins vegar ferst fyrir af því að kjörseðlasending berst ekki skal undirkjörstjórn tafarlaust tilkynna það yfirkjörstjórn sem endurnýjar sendinguna svo fljótt sem verða má. Undirkjörstjórn kveður svo til kjörfundar að nýju innan viku.

Ef kosin hefur verið sérstök kjörstjórn skv. 2. mgr. 15. gr. laga um kosningar til Alþingis tekur hún ofangreindar ákvarðanir í stað undirkjörstjórna.

Kosningu frestað vegna veðurs
Undirkjörstjórn getur að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur óviðráðanlegur ástæður eins og óveður hindra að kosning geti fram haldið og allir kjörstjórnarmenn eru sammála um frestunina. Skal þá kosning fara fram að nýju innan viku.

Kjörfundur settur á ný
Þegar kjörfundur er settur hinn síðari kjördag opnar kjörstjórn umbúðir þær sem kjörgögnin eru í.

Kosningu frestað vegna veðurs

Undirkjörstjórn getur að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur óviðráðanlegur ástæður eins og óveður hindra að kosning geti fram haldið og allir kjörstjórnarmenn eru sammála um frestunina. Skal þá kosning fara fram að nýju innan viku.

Ef kosin hefur verið sérstök kjörstjórn samkvæmt. 2. mgr. 15. gr. laga um kosningar til Alþingis tekur hún ofangreinda ákvörðun í stað undirkjörstjórnar.

Kjörfundur settur á ný

Þegar kjörfundur er settur hinn síðari kjördag opnar kjörstjórn umbúðir þær sem kjörgögnin eru í viðurvist frambjóðenda eða umboðsmanna þeirra. Sé umboðsmaður ekki mættur kveður hún til valinkunnan mann til að vera umboðsmaður frambjóðanda. Sé ekki unnt að fullnægja þessu ákvæði má þó opna umbúðir og hefja kosningu þegar klukkustund er liðin frá setningu kjörfundar.

Skýrslur til Hagstofu Íslands

Kjörstjórnir senda Hagstofu Íslands skýrslu um kosninguna ritaða á eyðublöð sem Hagstofan lætur í té.

Síðast uppfært: 22.6.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum