Hoppa yfir valmynd

Yfirkjörstjórnir

Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Yfirkjörstjórnir eru kosnar af Alþingi og eru skipaðar fimm mönnum og fimm til vara. Það er borgaraleg skylda að taka sæti í kjörstjórn. Við ákveðnar aðstæður getur kjörstjórnarmaður þurft að víkja sæti, til dæmis ef til úrskurðar er mál, sem varðar maka hans eða ættingja. Yfirkjörstjórnir skulu eins og aðrar kjörstjórnir halda gerðabækur og bóka gerðir sínar.

Upplýsingar um formenn yfirkjörstjórna og aðsetur þeirra á kjördag er unnt að nálgast hér.

Kjörgögn

Kjörgögnum útdeilt
Þegar yfirkjörstjórn hefur fengið kjörgögn í hendur frá dómsmálaráðuneytinu útdeilir hún þeim til undirkjörstjórna. Hver undirkjörstjórn skal fá jafnmarga seðla og kjósendur eru á kjörskrá í hennar kjördeild og a.m.k. 10% umfram það. Þar sem kosnar eru sérstakar kjörstjórnir, þ.e. kjörstjórnir sem hafa umsjón með undirkjörstjórnum á stöðum þar sem kjördeildir eru fleiri en ein, er heimilt að afhenda þeim kjörseðla óflokkaða fyrir kjördeildir og annast þær þá afhendingu kjörseðlanna til undirkjörstjórna.

Seðlarnir skulu sendir í vönduðum umbúðum sem yfirkjörstjórn innsiglar með embættisinnsigli sínu svo vandlega að ekki sé auðið að opna umbúðirnar og ná út seðlum án þess að brjóta innsiglið.

Hverri sendingu kjörseðla skal fylgja blindraspjöld, kosningaleiðbeiningar og sérprentun viðeigandi laga. Þá skulu fylgja með sendingunni sex sterk umslög með áprentaðri utanáskrift til yfirkjörstjórnar, þar sem prentað hefur verið í neðra framhorn á tvö þeirra Ónýtir seðlar, á tvö Ágreiningsseðlar og á tvö Afgangsseðlar.

Auk þess skal yfirkjörstjórn láta fylgja stórt og sterkt umslag með áprentaðri utanáskrift sinni og á efra framhorni nafn kjördeildarinnar og skal í það umslag leggja hin umslögin.

Við talningu atkvæða gerir svo yfirkjörstjórn grein fyrir þeim seðlum sem ekki hafa verið afgreiddir til undirkjörstjórna.

Kosningum frestað og uppkosningar

Kjörseðlar komast ekki til skila
Ef kosning fer ekki fram vegna þess að kjörseðlasending kemst ekki til skila, skal undirkjörstjórn tafarlaust tilkynna það yfirkjörstjórn sem endurnýjar sendinguna svo fljótt sem verða má og kveður þá undirkjörstjórn til kjörfundar að nýju innan viku.

Kosningu frestað vegna veðurs
Undirkjörstjórn getur að fengnu samþykki yfirkjörstjórnar, frestað kosningu í kjördeild eftir að hún er hafin ef hún telur óviðráðanlegar ástæður eins og óveður hindra að kosning geti fram haldið. Skal þá kosning fara fram að nýju innan viku.

Atkvæðasending frá kjördeild kemst ekki til skila
Ef kosning hefur farið fram en atkvæðasending frá kjördeild kemst ekki til skila til yfirkjörstjórnar, lætur yfirkjörstjórn nýja kosningu fara fram í kjördeildinni innan viku.

Síðast uppfært: 22.6.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum