Hoppa yfir valmynd

Táknmál

Sveitarstjórnarkosningar 26. maí 2018

 

Kosið verður til sveitarstjórna 26. maí næstkomandi. Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga er á hendi sveitarfélaga. Auk þeirra og kjörstjórna koma að framkvæmdinni ýmsir opinberir aðilar. Má þar helst nefna dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, sýslumenn og Þjóðskrá Íslands. Þessir aðilar vinna að því að heildarframkvæmd kosninga fari fram með skýrum og traustum hætti.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur hafist 31. mars 2018.

Hægt er að greiða atkvæði hjá sýslumönnum um allt land og auglýsa þeir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram og á þann hátt á hverjum stað sem venja er þar að birta opinberar auglýsingar. Auk þess má greiða atkvæði á sjúkrahúsum, dvalar- og vistheimilum, í fangelsum, og í heimahúsum í samráði við sýslumann á hverjum stað. Nánari upplýsingar er að finna á vef sýslumanna, syslumenn.is.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis fer fram í skrifstofum sendiráða eða fastanefnda hjá alþjóðastofnunum, í sendiræðisskrifstofum eða skrifstofum kjörræðismanna samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Það auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram erlendis og birtir nánari upplýsingar þar um á vef utanríkisráðuneytisins, utanrikisraduneyti.is.

Kjörskrá

Enginn getur neytt kosningarréttar nema að nafn hans sé á kjörskrá þegar kosning fer fram.

Á kjörskrá skal taka alla íslenska ríkisborgara sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, 5. maí 2018. Óheimilt er því að breyta kjörskrá ef tilkynning um nýtt lögheimili hefur ekki borist Þjóðskrá Íslands fyrir þann tíma.

Einnig skal taka á kjörskrá danska, finnska, norska og sænska ríkisborgara sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðra erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.

Íslenskir ríkisborgarar sem stunda nám á Norðurlöndunum, og sem þurft hafa að flytja lögheimili sitt þangað vegna ákvæða samnings Norðurlandanna um almannaskráningu, glata ekki kosningarrétti sínum vegna þess.

Kjósendur munu geta kannað hvar þeir eru á kjörskrá hér á vefnum. Með því að slá inn kennitölu kjósanda kemur upp nafn hans, lögheimili og sveitarfélag. Í mörgum tilvikum birtast einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild.

Kjörstaðir

Atkvæðagreiðslan fer fram á sömu kjörstöðum og almennt er notast er við í kosningum. Sveitarfélög munu auglýsa nánar um kjörstaðina skömmu fyrir kjördag, m.a. hvenær þeir eru opnir, hvar þeir eru, hvernig skipt er í kjördeildir, o.fl.

Síðast uppfært: 28.12.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum