Kjósendur - leiðbeiningar
Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 26. maí 2018, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 5. maí 2018.
Einnig eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.
Þjóðskrá Íslands hefur tekið upp nýtt umsóknarferli varðandi skráningu námsmanna á Norðurlöndunum á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar. Breytingarnar felast í því að umræddir námsmenn þurfa nú að tilkynna það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að þeir séu námsmenn til þess að vera teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.
Tilkynninguna skal senda rafrænt á eyðublaði K-101 sem er að finna á vef Þjóðskrár Íslands. Tilskilið er að framvísa staðfestingu á námsvist. Gert er ráð fyrir því að makar og skyldulið námsmanna tilkynni sig á sama hátt með tilvísun í viðkomandi námsmann. Senda þarf inn nýja tilkynningu fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar.
Um atkvæðagreiðslu á kjördag
Hvar á ég að kjósa?
Þú kýst í því sveitarfélagi þar sem þú átt skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag. Þegar nær dregur kosningum munt þú geta skoðað rafræna kjörskrá hér á vefnum og þar kemur kjörstaður og kjördeild upp hjá stærstu sveitarfélögunum. Sveitarfélög auglýsa kjörstaði og mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum.
- Nánar um kjörstaði (þegar nær dregur kosningum)
Hvernig fer atkvæðagreiðslan fram?
Þú mætir á kjörstað, finnur þína kjördeild, framvísar skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi), lætur haka við nafnið þitt á kjörskrá og færð kjörseðil. Að því búnu ferðu með kjörseðilinn inn í næsta lausa kjörklefa.
Á kjörseðlinum eru listabókstafir og heiti stjórnmálasamtaka/-flokka í framboði og undir þeim eru nöfn frambjóðenda hvers lista í tölusettri röð.
Í kjörklefanum er blýantur sem þú notar til þess að setja kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem þú vilt kjósa.
Þú mátt jafnframt:
- Breyta röð frambjóðenda á þeim lista sem þú kýst. Þá setur þú tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem þú vilt hafa efst á lista, 2 fyrir þann sem þú vilt hafa annan í röðinni o.s.frv.
- Hafna frambjóðanda á þeim lista sem þú kýst með því að strika yfir nafn hans.
Gættu að því að kjörseðillinn þinn getur orðið ógildur ef þú t.d.:
- Gerir villandi eða misvísandi merki á seðilinn.
- Breytir öðrum lista en þeim sem þú kýst.
Þegar þú hefur merkt við þann lista sem þú kýst, brýtur þú seðilinn í sama brot og hann var í þegar þú tókst við honum þannig að letrið snúi inn, ferð út úr kjörklefanum og setur seðilinn í kjörkassann.
Hvað ef ég geri mistök á kjörseðlinum eða einhver sér hvernig ég greiddi atkvæði?
Ef einhver sér hvað er á kjörseðlinum áður en þú setur hann í kassann er seðillinn ónýtur og þú átt rétt á að fá nýjan seðil og fara aftur inn í kjörklefa. Hið sama gildir ef þú hefur gerir mistök við ritun á kjörseðilinn. Þú þarft þá að skila kjörstjórn fyrri seðlinum.
En ef ég þarf aðstoð við að kjósa?
Í kjörklefanum er spjald með blindraletri með upphleyptum bókstaf hvers framboðslista. Þá eiga þeir sem geta ekki merkt sjálfir við á kjörseðlinum sínum, vegna sjónleysis eða þess að þeir geta ekki notað höndina til að fylla út kjörseðilinn, rétt á aðstoð í kjörklefanum.
Ef kjósandi er ekki fær um að kjósa hjálparlaust vegna sjónleysis eða þess að hann getur ekki ritað á kjörseðilinn með eigin hendi getur hann tilnefnt einn úr kjörstjórninni til að veita sér aðstoð í kjörklefanum enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Kjörstjórnarmanni er óheimilt að bjóða þeim aðstoð að fyrra bragði er þannig þarfnast hjálpar.
Kjósandi getur jafnframt óskað eftir því að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur aðstoði sig í kjörklefanum og skal kjörstjórnin verða við því ef kjósandinn getur sjálfur með skýrum hætti tjáð þann vilja sinn. Þó kjósandi geti ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þennan vilja sinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandinn hafi valið sjálfur þennan tiltekna fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. (Sjá lista yfir réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk á vefsíðum Þroskahjálpar og velferðarráðuneytisins.) Fulltrúanum er óheimilt að aðstoða fleiri en einn kjósanda með þessum hætti við hverjar kosningar. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað.
Kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Kosning utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn.
Nauðsynlegt er að kjósandi geti gert grein fyrir sér áður en hann fær afhentan kjörseðil. Algengast er að kjósandi framvísi svokölluðum kennivottorðum, þ.e. persónuskilríki með nafni og mynd og eftir atvikum undirskrift, svo sem vegabréfi, ökuskírteini, greiðslukorti eða nafnskírteini.
Ef slíkum kennivottorðum er ekki til að dreifa getur kjósandi gert grein fyrir sér á annan hátt, t.d. með því að leiða vitni sem kjörstjórn/kjörstjóri tekur gild. Það er komið undir mati kjörstjórnar/kjörstjóra hverju sinni hvenær kjósandi telst hafa gert grein fyrir sér á fullnægjandi hátt.
Gerð kjörskrár
Sveitarstjórnir sjá um að kjörskrár séu gerðar og lagðar fram eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag. Á kjörskrá skal taka alla þá sem kosningarrétt eiga í viðkomandi sveitarfélagi og er skráning á kjörskrá skilyrði þess að fá að greiða atkvæði.
Kjörskrá skal rita á eyðublöð sem Þjóðskrá Íslands lætur í té og skal farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum hennar. Þjóðskrá Íslands sendir sveitarstjórnum kjörskrárstofn fljótlega eftir viðmiðunardag kjörskrár.
Kjörskrá skal liggja frammi á skrifstofu sveitarfélags eða öðrum hentugum stað á almennum skrifstofutíma til kjördags.
Hvar ertu á kjörskrá?
Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag. Flutningur lögheimilis eftir þann tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá.
Þegar nær dregur kosningum munu kjósendur geta kynnt sér hér á vefnum hvar þeir eru skráðir á kjörskrá.
-
Uppfletting í kjörskrárstofni
Athugasemdir við kjörskrá
Hver sem er getur gert athugasemdir til sveitarstjórnar um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til sveitarstjórnar fram á kjördag.
Afgreiðsla athugasemda:
Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar á henni. Tilefni slíkra leiðréttinga er einkum öflun eða missir íslensks ríkisfangs eða andlát á tímabilinu frá viðmiðunardegi kjörskrár til kjördags. Slíkar leiðréttingar má gera fram á kjördag.
Tilkynningar um leiðréttingar:
Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi einstaklingum um leiðréttingar á kjörskrá, svo og þeirri sveitarstjórn er málið getur varðað.
Upplýsingar um kjörstaði á kjördag
Sveitarfélög auglýsa kjörstaði við sveitarstjórnarkosningar og mörg þeirra birta einnig kjörfundarupplýsingar á vefjum sínum.
Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi en þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr.
Dómsmálaráðuneytið gefur út kosningaleiðbeiningar og skulu þær hanga uppi í kjörfundarstofu og annars staðar á kjörstað á áberandi stað.
Upplýsingar um kjörstaði á kjördag.
Lista yfir sveitarfélög og vefsíður þeirra er að finna hér á kosningavefnum og á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Meginreglan er að til að geta kosið í sveitarstjórnarkosningum verður viðkomandi að hafa skráð lögheimili á Íslandi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 5. maí 2018.
Undantekning frá meginreglunni eru námsmenn á Norðurlöndunum. Þeir halda kosningarréttinum þó þeir hafi skráð lögheimili á hinum Norðurlöndunum. Þeir þurfa hins vegar að tilkynna Þjóðskrá Íslands um að þeir skuli teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Um er að ræða nýja framkvæmd hjá Þjóðskrá Íslands.
Tilkynningun um að verða teknir á kjörskrá skal senda rafrænt á eyðublaði K-101 sem er að finna á vef Þjóðskrár Íslands. Nauðsynlegt er að leggja jafnframt fram staðfestingu á námsvist. Gert er ráð fyrir því að makar og skyldulið námsmanna tilkynni sig á sama hátt með tilvísun til viðkomandi námsmanns. Senda þarf inn nýja tilkynningu fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar.
Nánari upplýsingar er að finna á vef Þjóðskrár Íslands www.skra.is.
Hvorki bréfkosning né rafræn kosning er heimil. Samkvæmt kosningalögum þurfa allir kjósendur að gefa sig persónulega fram hjá kjörstjóra.
Sjá hér nánar um kjörskrá
Ef atkvæðið er greitt hjá sýslumanni í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Sýslumanni er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst.
Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Eftir að kjósandi hefur greitt atkvæði hjá kjörstjóra er kjörseðilsumslag og fylgibréf sett í forprentað umslag (sendiumslag) ætlað viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn og lokað fyrir. Á bakhlið þess eru upplýsingar um kjósanda sem hann verður að fylla út svo atkvæðið rati á réttan stað. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili á Íslandi sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja þetta umslag ofan í annað og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn.
Hægt er að senda utankjörfundaratkvæði með pósti eða koma því á einhvern annan hátt í hendur hlutaðeigandi kjörstjórnar en það verður að berast fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá
Kjörstaðir eru almennt opnir frá kl. 9 árdegis til kl. 22 að kvöldi en þó geta kjörstjórnir ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr.
Upplýsingar um kjörstaði (er nær dregur kosningum)
Kjósendur - leiðbeiningar
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.