Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin og stendur til kjördags, laugardaginn 26. maí 2018.
Kosning utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn.
Kjörstaðir
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:
Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað í umdæminu. Sýslumenn auglýsa hvar og hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar getur farið fram. Upplýsingar frá öllum sýslumannsembættum landsins um kjörstaði og afgreiðslutíma vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar má nálgast á vefsíðu sýslumanna.
Erlendis:
Á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða í skrifstofu kjörræðismanns samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis. Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til kjörstjóra erlendis og auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla geti farið fram.
- Utanríkisráðuneytið
- Sending atkvæða sem greidd eru utan kjörfundar erlendis, sjá aðsetur sýslumanna og starfsstöðvar þeirra
Á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum: Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Hið sama gildir um fangelsi og vistmenn þeirra. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag.
Í heimahúsi: Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, samanber framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, 22. maí 2018, fyrir klukkan 16.
- Leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl.
- Umsóknareyðublað um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi.
Um borð í íslensku skipi. Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri.
Skipstjórar, sem eru kjörstjórar við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, skulu gæta þess að til séu í skipinu fyrir kosningar nægar birgðir kjörgagna til utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Það er skylda skipstjóra á íslenskum skipum, þá er fyrirskipaðar eru kosningar, að láta skipshöfnina vita um kjördaginn jafnskjótt og þeir vita um kosninguna.
Hvernig fer kosning fram utan kjörfundar?
- Kjósandi, sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar, skal gera kjörstjóra grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa kennivottorði eða nafnskírteini, eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Að því búnu fær kjósandi afhent kjörgögn sem eru kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag.
- Kosning fer fram í einrúmi og þar ritar kjósandi eða stimplar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa.
- Á kjörseðli við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru hvorki heiti stjórnmálasamtaka né nöfn frambjóðenda. Vilji kjósandi breyta röð frambjóðenda á listanum sem hann kýs ritar hann nöfn frambjóðenda og tölusetur þau, 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vil hafa annað í röðinni, o.s.frv. Vilji kjósandi hafna frambjóðanda á lista sem hann kýs skal rita nafn hans og strika svo yfir það.
- Ef um óbundnar kosningar er að ræða í sveitarfélaginu þar sem ekki er kosið á milli framboðslista, ritar kjósandi á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang þeirra aðal- og varamanna er hann kýs. Tilgreina skal varamenn í þeirri röð sem kjósandi kýs að þeir taki sæti.
- Eftir að kjósandi hefur stimplað eða ritað atkvæði sitt á kjörseðilinn, skv. 3. eða 4. tölulið hér að framan, leggur hann kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið og límir það aftur.
- Því næst fyllir kjósandi út fylgibréfið og undirritar það í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.
- Kjósandi leggur síðan fylgibréfið og kjörseðilsumslagið í sendiumslagið, límir það aftur og áritar það til sýslumannsins eða kjörstjórnarinnar í því umdæmi þar sem hann telur sig vera á kjörskrá. Loks ritar kjósandi nafn sitt, kennitölu og lögheimili greinilega á bakhlið sendiumslagsins.
- Kjósandi annast sjálfur og kostar sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst. Kjósandi sem greiðir atkvæði hjá sýslumanni í sveitarfélagi þar sem hann er á kjörskrá leggur bréfið í atkvæðakassa þar.
Kjósandi þarf aðstoð við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar
Ef kjósandi skýrir kjörstjóra svo frá að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina og ástæðu hennar skal geta á fylgibréfinu. Aðstoð við að árita kjörseðil skal því aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða að fyrra bragði þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.
Kjósandi sem er í framangreindri stöðu getur einnig óskað eftir því að í stað kjörstjóra aðstoði hann fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur. Kjörstjóri skal þá gera hlé á atkvæðagreiðslunni þar til aðrir kjósendur, sem kunna að vera viðstaddir, hafa lokið við að greiða atkvæði og skal fulltrúi kjósandans jafnframt víkja frá. Kjörstjóri tekur beiðni kjósanda strax til úrskurðar og er ákvörðun hans endanleg.
Kjörstjóri skal hann heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúans. Þó kjósandi geti ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra þennan vilja sinn skal kjörstjóri þó heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandinn hafi valið sjálfur þennan tiltekna fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna.
Sjá lista yfir réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk:
Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Heimili kjörstjóri fulltrúa kjósanda að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna skal atkvæðagreiðslu haldið áfram og aðstoðarinnar getið á fylgibréfinu. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli við atkvæðagreiðsluna. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Aðeins er heimilt að vera fulltrúi eins kjósanda við sömu kosningu.
Hvernig fer með atkvæðið?
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í umdæmi þar sem kjósandi er á kjörskrá þá skilur hann þar eftir atkvæðisbréfið og skal sjálfur láta bréfið í venjulegan atkvæðakassa. Atkvæðakassinn skal innsiglaður af kjörstjóra ásamt hlutaðeigandi kjörstjórn.
Ef atkvæðið er greitt hjá kjörstjóra í öðru umdæmi en því sem kjósandi er á kjörskrá, þá annast og kostar hann sjálfur sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst en kjósandi kostar sjálfur sendinguna.
Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá.
Utankjörfundaratkvæði skal vera komið í hendur kjörstjórnar fyrir lok kjörfundar á kjördag svo að hægt sé að taka það til greina við kosninguna.
Sá sem tekur að sér að koma bréfinu með utankjörfundaratkvæðinu í kjördeild má afhenda það kjörstjórninni í kjördæmi kjósanda.
Sending atkvæða sem greidd eru utan kjörfundar erlendis
Kjósendur á erlendri grundu bera sjálfir ábyrgð á því að koma atkvæðum sínum til skila á Íslandi. Senda skal atkvæði til sýslumanns eða kjörstjórnar í því sveitarfélagi þar sem kjósandinn telur sig vera á kjörskrá.
Eftir að kjósandi hefur greitt atkvæði hjá kjörstjóra er atkvæðið sett í kjörseðilsumslag og það límt aftur. Kjörseðilsumslagið og útfyllt fylgibréf er því næst sett í sendiumslag ætlað viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn (á skrifstofu hlutaðeigandi sveitarfélags) og lokað fyrir. Á bakhlið þess eru upplýsingar um kjósanda sem hann verður að fylla út svo atkvæðið rati á réttan stað. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili á Íslandi sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja þetta umslag ofan í annað og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn.
Hægt er að senda utankjörfundaratkvæði með pósti eða koma því á einhvern annan hátt í hendur hlutaðeigandi kjörstjórnar en það verður að berast fyrir lok kjörfundar á kjördag svo hægt sé að taka það til greina við kosninguna. Nægjanlegt er að koma bréfi með utankjörfundaratkvæði í einhverja kjördeild þess sveitarfélags þar sem kjósandi er á kjörskrá.
- Listi yfir embætti sýslumanna
- Uppfletting í kjörskrá (er nær dregur kosningum)
Fyrirgerir atkvæðagreiðsla utan kjörfundar rétti manns til að greiða atkvæði á kjördag?
Nei, kjósanda er heimilt að greiða atkvæði á kjördag þótt hann hafi greitt atkvæði utan kjörfundar og kemur utankjörfundaratkvæði hans þá ekki til greina við kosninguna.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.