Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga
Framkvæmd og undirbúningur kosninga
Reglulegar sveitarstjórnarkosningar fara fram á fjögurra ára fresti samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Framkvæmd sveitarstjórnarkosninga er á hendi hvers sveitarfélags fyrir sig, en dómsmálaráðuneytið hefur jafnframt hlutverk við undirbúning og framkvæmd kosninganna.
Í kjölfar sameiningar sveitarfélaganna Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar í eitt sveitarfélag, sbr. auglýsingu nr. 658/2020 og á grundvelli 125. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 ákvað samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að boðað skyldi til sveitarstjórnarkosninga í sameinuðu sveitarfélagi þann 19. september 2020. Nýkjörin sveitarstjórn tekur við stjórn hins sameinaða sveitarfélags þann 4. október 2020 og á sama tíma tekur sameiningin gildi.
Fulltrúar í sveitarstjórnum skulu kjörnir í leynilegum almennum kosningum sem geta verið með tvennu móti þ.e.:
- bundnar hlutfallskosningar þar sem kosning er bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær eða
- óbundnar kosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð en allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því. Óbundin kosning fer einungis fram ef enginn framboðslisti kemur fram áður en framboðsfresti lýkur eða ef of fá nöfn eru á framkomnum listum til að sveitarstjórn verði fullskipuð.
Gerð kjörskrár
Sveitarstjórnir sjá um að kjörskrár séu gerðar og skal gerð þeirra lokið í tæka tíð fyrir framlagningu.
Kjörskrá skal rita á eyðublöð sem Þjóðskrá Íslands lætur í té og skal farið nákvæmlega eftir leiðbeiningum hennar. Þjóðskrá Íslands sendir sveitarstjórnum kjörskrárstofn fljótlega eftir viðmiðunardag kjörskrár. Á kjörskrá skal skrá eftirfarandi: Nafn kjósanda, heimilisfang (lögheimili) og kennitölu. Einnig skal skrá þjóðerni ef um erlendan ríkisborgara er að ræða.
Á kjörskrá skal taka þá íbúa sveitarfélags sem uppfylla öll kosningarréttarskilyrði á viðmiðunardegi kjörskrár. Nánari upplýsingar um kosningarrétt er að finna hér. Sveitarstjórn ber að gæta þess að taka ekki aðra einstaklinga á kjörskrá en ótvírætt eiga kosningarrétt samkvæmt ákvæðum laga. Rétt er að ítreka að ávallt skal miða við skráð lögheimili samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands þremur vikum fyrir kjördag.
Þar sem skilyrði skráningar á kjörskrá eru skýr eiga sveitarstjórnir ekki að þurfa að gera margar leiðréttingar á þeim kjörskrárstofni sem Þjóðskrá Íslands lætur þeim í té. Tilefni slíkra leiðréttinga eru einkum öflun eða missir íslensks ríkisfangs eða andlát á tímabilinu frá viðmiðunardegi kjörskrár til kjördags.
Kjörskrá skal undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra hennar. Sveitarstjórn skal leggja kjörskrá fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða á öðrum hentugum stað eigi síðar en tíu dögum fyrir kjördag. Sveitarstjórn skal auglýsa hvar kjörskrá liggur frammi á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast vegna kjörskrár og gera leiðréttingar á henni ef skilyrði þess eru fyrir hendi. Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag. Sveitarstjórn skal þegar tilkynna hlutaðeigandi einstaklingum um leiðréttingar á kjörskrá, svo og sveitarstjórnum þeim er málið getur varðað. Jafnframt skal tilkynna hlutaðeigandi yfirkjörstjórn um leiðréttingu á kjörskrá.
Ef sveitarstjórn vanrækir sitt hlutverk varðandi samningu eða framlagningu kjörskrár er það hlutverk viðkomandi sýslumanns að bregðast við. Skal sýslumaður þá þegar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að bæta úr því sem á vantar.
Hlutverk sveitarstjórna og kjörstjórna
Á grundvelli auglýsingar nr. 658/2020, hafa sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Djúpvogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar kosið þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjórnir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils, skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, skulu vera undirkjörstjórnir við kosningarnar, nema annað verði ákveðið.
Í yfirkjörstjórn eru:
- Bjarni G. Björgvinsson, formaður – sími 669-7982, netfang: [email protected],
- Ásdís Þórðardóttir,
- Björn Aðalsteinsson.
Varamenn:
- Guðni Sigmundsson,
- Þórunn Hálfdánardóttir,
- Arna Christiansen.
Formenn undirkjörstjórna:
- Borgarfjarðarhreppur:
- Djúpavogshreppur:
- Fljótsdalshérað:
- Seyðisfjarðarkaupstaður: Ásta Guðrún Birgisdóttir, netfang. [email protected]
Kjörstjórnir skipta sjálfar með sér verkum og eru óháðar ákvörðunarvaldi sveitarstjórnar í störfum sínum. Sé fulltrúi í kjörstjórn á framboðslista í viðkomandi kosningum skal hann víkja sæti.
Allur kostnaður vegna sveitarstjórnarkosninga greiðist úr sveitarsjóði, þar á meðal er kostnaður vegna kjörnefndar sem skipa þarf ef sveitarstjórnarkosningar eru af einhverjum ástæðum kærðar til sýslumanns.
Yfirkjörstjórn hefur yfirumsjón með framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í viðkomandi sveitarfélagi en þar sem sveitarfélagi er ekki skipt upp í kjördeildir gegnir hún jafnframt hlutverki undirkjörstjórnar. Meðal verkefna yfirkjörstjórnar eru móttaka framboðslista og úrskurðir um gildi þeirra, gerð kjörseðla sem notaðir eru við atkvæðagreiðslu á kjörfundi og dreifing þeirra til undirkjörstjórna, úrskurðir um gildi vafaatkvæða, talning atkvæða og uppgjör kosninga, og útgáfa kjörbréfa til aðal- og varamanna í nýkjörinni sveitarstjórn.
Undirkjörstjórnir skulu vera jafnmargar kjördeildum í sveitarfélaginu. Undirkjörstjórn sér um framkvæmd atkvæðagreiðslu í viðkomandi kjördeild á kjördag.
Samkvæmt 16. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna skal sá sem sæti á í kjörstjórn víkja sæti ef hann er í kjöri til sveitarstjórnar í bundnum hlutfallskosningum. Einnig skal kjörstjórnarmaður víkja sæti ef til úrskurðar er mál er varðar maka hans eða þann sem er skyldur honum eða mægður í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar.
Kjörseðill við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar
Kjörgögn til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru: kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag, svo og stimplar með listabókstöfum.
Á kjörseðli og kjörseðilsumslagi skal prentað að um sé að ræða kjörseðil og kjörseðilsumslag. Fylgibréf og sendiumslag skulu þannig gerð að á þau megi auðveldlega rita þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í lögunum. Dómsmálaráðuneytið kveður nánar á um gerð þessara kjörgagna.
Dómsmálaráðuneytið sér um gerð, útlit, frágang og prentun kjörseðla, kjörseðilsumslaga, fylgibréfa og sendiumslaga ásamt stimplum með listabókstöfum við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og sendingu þessara kjörgagna til sýslumanna og utanríkisráðuneytisins.
Utanríkisráðuneytið annast afgreiðslu kjörgagna til sendiráða, fastanefnda hjá alþjóðastofnunum, sendiræðisskrifstofa, kjörræðismanna eða annarra kjörstjóra sem utanríkisráðuneytið tilnefnir sérstaklega.
Kjörseðill við atkvæðagreiðslu á kjörfundi
Yfirkjörstjórnir sveitarfélaga sjá um gerð, útlit, frágang og prentun kjörseðla, sem notaðir verða á kjörfundi, og framsendingu þeirra til undirkjörstjórna.
Kjörseðlar til atkvæðagreiðslu á kjörfundi skulu vera úr haldgóðum pappír sem prent eða skrift sést ekki í gegnum, a.m.k. 125 g/m² að þyngd, og skal skipta um lit kjörseðla við hverjar sveitarstjórnarkosningar.
Í fyrirsögn efst á kjörseðli skal tilgreina að um sé að ræða sveitarstjórnarkosningar í tilteknu sveitarfélagi, dagsetningu þeirra og ártal. Prenta skal framboðslista hvern við annars hlið í röð eftir bókstöfum þeirra og skal ætla hverjum lista um 6 sm breidd en lengd skal miðuð við fulla löglega tölu frambjóðenda. Niður undan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa yfir miðjum listanum, skulu vera nöfn frambjóðenda listans í réttri röð ásamt stöðu og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Listarnir skulu aðgreindir með feitum langstrikum og skal að minnsta kosti 1/2 sm breitt bil vera fyrir framan nöfnin á hverjum lista.
Þess skal getið um hvern lista fyrir hvaða stjórnmálasamtök eða annað framboð hann er í kjöri á þann hátt að prenta með skýru letri neðan við listabókstafinn en ofan við nöfnin á listanum: Listi … (nafn stjórnmálasamtaka eða annars framboðs).
Ef um óbundnar kosningar er að ræða skal kjörseðill vera tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.
Kjörseðil skal brjóta saman þannig að óprentaða hliðin snúi út.
Kosningaúrslit
Bundnar hlutfallskosningar - listakosningar
Fyrst eru talin öll atkvæði sem hver listi hefur hlotið og er þá fundin atkvæðatala hvers lista.
Þá þarf að finna hve margir frambjóðendur hafa náð kosningu sem aðalmenn af hverjum lista og er það gert með eftirfarandi aðferð:
- Deila skal atkvæðatölum listanna með tölunum 1, 2, 3, 4 o.s.frv. Útkomutölur eru skráðar fyrir hvern lista.
- Fyrsta fulltrúa fær sá listi kjörinn sem hæstu útkomutölu hefur. Sú tala er síðan felld niður. Annan fulltrúa fær sá listi sem nú hefur hæstu útkomutölu. Þessu skal fram haldið uns úthlutað hefur verið jafnmörgum fulltrúum og kjósa á.
- Nú eru of fá nöfn á lista þegar til úthlutunar kemur skv. 2. tölul. og skal þá ganga fram hjá þeim lista við frekari úthlutun.
- Nú eru tvær eða fleiri útkomutölur jafnháar þegar að þeim kemur skv. 2. tölul. og skal þá varpa hlutkesti um röð þeirra.
Til þess að finna hvaða frambjóðendur hafa náð kosningu á hverjum lista skal kjörstjórn reikna frambjóðendum atkvæðatölu á eftirfarandi hátt:
- Kjörstjórn tekur saman þá kjörseðla þar sem engin breyting hefur verið gerð á listanum. Þar telst efsta nafn listans vera í fyrsta sæti, næsta nafn í öðru sæti o.s.frv.
- Næst tekur kjörstjórn alla þá kjörseðla þar sem kjósendur hafa gert einhverjar breytingar á röð frambjóðenda og telur atkvæði hvers frambjóðanda í hvert sæti listans.
- Nöfnum frambjóðenda á listanum er nú raðað þannig að sá sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. sæti hlýtur það sæti. Sá frambjóðandi, að þessum slepptum, sem hlotið hefur flest atkvæði í 1. og 2. sæti samanlagt hlýtur 2. sætið o.s.frv. uns raðað hefur verið í sæti svo mörgum frambjóðendum listans að ljóst sé hverjir teljast fulltrúar hans og hverjir varafulltrúar.
Þeir einstaklingar sem ekki hafa náð kjöri sem aðalmenn af framboðslista teljast varamenn í réttri röð.
Óbundnar kosningar
Talin eru atkvæði sem hver einstaklingur fær.
Þeir sem flest atkvæði fá sem aðalmenn eru réttkjörnir aðalmenn.
Hafi tveir eða fleiri hlotið jafnmörg atkvæði sem aðalmenn og geta ekki báðir eða allir náð kjöri skal varpa hlutkesti.
Varamenn skulu vera jafnmargir og aðalmenn og er röð varamanna ákveðin með eftirfarandi hætti:
- Varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur samanlagt í 1. sæti á lista yfir varamenn að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns.
- Varamaður er sá sem flest atkvæði hlýtur í 2. sæti lista varamanna að viðbættum þeim atkvæðum sem hann hlaut í sæti aðalmanns og í 1. sæti á lista varamanna.
Kosning annarra varamanna ákvarðast á sama hátt uns fyllt er í sæti þau sem kjósa skal í.
Nú fá tveir menn jafnmörg atkvæði samanlagt í sæti varamanns og skal þá hlutkesti ráða hvor hlýtur sætið. Sá sem ekki hlýtur sætið tekur sæti næsta varamanns og færast þá þeir varamenn sem á eftir koma um set.
Hvenær tekur ný sveitarstjórn við störfum?
Nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag og jafnskjótt lætur fráfarandi sveitarstjórn af störfum. Fulltrúi í sveitarstjórn getur krafist frestunar á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar sem teknar eru frá kjördegi og þar til nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum og skal á leggja mál að nýju fyrir hana á fyrsta fundi hennar. Nú er mál þannig vaxið að framkvæmd ákvörðunar þolir enga bið og verður þessa úrræðis þá ekki neytt, enda sé heimild til afgreiðslu málsins í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi ráðuneytisins.
Kosningakærur
- Kæru skal afhenda hlutaðeigandi sýslumanni innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.
- Sýslumaður skipar þriggja manna nefnd til að úrskurða í málinu.
- Nefndin leitar umsagnar viðkomandi yfirkjörstjórnar sem skal skila umsögn innan viku.
- Nefndin skal úrskurða innan viku frá því að umsögn berst.
- Heimilt er að kæra úrskurð nefndarinnar til dómsmálaráðuneytisins innan sjö daga.
Í 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna er tekið fram að gallar á framboði eða kosningu leiði ekki til ógildis kosninga nema ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.
Áhrif úrskurðar um ógildi kosninga
Ef nefndin, sem sýslumaður skipar, úrskurðar kosningar ógildar áður en fráfarandi sveitarstjórn skal víkja (ný sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag) skal fráfarandi sveitarstjórn sitja þar til kosning hefur farið fram að nýju og nefndin úrskurðað um kærur sem fram kunna að koma.
Ef nefndin úrskurðar kosningar gildar skal nýkjörin sveitarstjórn taka við störfum 15 dögum eftir kjördag jafnvel þótt úrskurðurinn hafi verið kærður til dómsmálaráðuneytisins eða málinu stefnt fyrir dómstóla.
Nú ógildir ráðuneytið kosningar eftir að nýkjörin sveitarstjórn hefur tekið við störfum og skal hún þá sitja þar til nýjar kosningar hafa farið fram og úrskurðað hefur verið um kærur sem fram kunna að koma.
Ef kosning er úrskurðuð ógild skal sitjandi sveitarstjórn í samráði við yfirkjörstjórn boða til nýrra kosninga í sveitarfélaginu og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar.
Fari aukakosning/uppkosning fram innan sex mánaða frá fyrri kosningu skal kosið samkvæmt sömu kjörskrá. Fari kosning fram síðar skal gera nýja kjörskrá.
Óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll
- Að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, að svipta mann eða ógna manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni, að heita á mann fé eða fríðindum ef kosning fari svo eða svo, að torvelda öðrum sókn á kjörfund eða til utankjörfundarkjörstaðar, svo og að beita þvingunarráðstöfunum í sambandi við kosningar.
- Að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með ræðuhöldum, prentuðum eða skriflegum ávörpum eða auglýsingum, með því að bera eða hafa uppi merki stjórnmálasamtaka, merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum þar sem kosning fer fram, svo og í næsta nágrenni.
- Að hafa merki stjórnmálasamtaka, merki lista eða önnur slík auðkenni á bifreiðum meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma.
- Að gefa ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra, svo sem um nafn, aldur, búsetu í landinu, heimilisfang eða annað, sem leiðir eða leitt getur til þess að maður verði settur á kjörskrá sem ekki á rétt á að vera þar, eða maður ekki settur á kjörskrá eða tekinn út af kjörskrá sem á rétt á að vera þar, eða maður verði látinn greiða atkvæði í stað annars manns er stendur á kjörskrá; hér undir heyrir sérstaklega ef maður telur sig til málamynda eiga lögheimili í sveitarfélagi, aðeins til þess að verða settur þar á kjörskrá.
- Að gefa út villandi kosningaleiðbeiningar.
- Að rangfæra atkvæðagreiðslu, hvort heldur er með því að eyðileggja eða breyta atkvæði sem greitt hefur verið eða á annan hátt.
Refsiákvæði
Það varðar sektum, ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum, ef sveitarstjórn, kjörstjórn, utankjörfundarkjörstjóri eða embættismaður haga fyrirskipaðri framkvæmd laga þessara vísvitandi á ólöglegan hátt eða vanrækja hana.
Það varðar sektum:
- Ef maður býður sig fram til setu í sveitarstjórn vitandi að hann er ekki kjörgengur.
- Ef maður býður sig fram á fleiri listum en einum.
- Ef kjósandi ónýtir af ásettu ráði atkvæðaseðil sinn við kosningu á kjörfundi eða við kosningu hjá utankjörfundarkjörstjóra.
- Ef kjósandi sýnir af ásettu ráði hvernig hann kýs eða hefur kosið.
- Ef maður njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið.
- Ef kjósandi gerir sér upp sjónleysi eða önnur forföll til að fá aðstoð við kosningu.
- Ef maður vanrækir af ásettu ráði að koma til skila atkvæðabréfi sem honum hefur verið trúað fyrir eða tefur vísvitandi fyrir sendingu atkvæða og kjörgagna.
- Ef maður gefur ónákvæmar eða villandi upplýsingar um sig eða aðra á þann hátt sem greint er í d-lið 92. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, (ákvæði um óleyfilegan kosningaáróður og kosningaspjöll), ef ekki liggur þyngri refsing við eftir öðrum ákvæðum þessara laga eða eftir öðrum lögum.
- Ef maður gefur út villandi kosningaleiðbeiningar.
Það varðar sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum:
- Ef kjörstjórnarmaður eða utankjörfundarkjörstjóri njósnar um hvernig kjósandi kýs eða hefur kosið eða gefur vísvitandi villandi kosningaleiðbeiningar.
- Ef kjörstjórnarmaður eða utankjörfundarkjörstjóri eða fulltrúi kjósanda, sem veitir aðstoð, segir frá því hvernig kjósandi, sem hann hefur aðstoðað, hefur greitt atkvæði.
- Ef kjörstjórnarmaður, utankjörfundarkjörstjóri, póstur eða sá sem tekið hefur að sér flutning kjörgagna eða atkvæðakassa tefur fyrir að það komist til skila.
- Ef maður torveldar öðrum sókn á kjörfund eða atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
- Ef maður greiðir atkvæði á tveimur stöðum við sömu sveitarstjórnarkosningar.
- Ef maður ber fé eða fríðindi á mann eða heitir manni fé eða fríðindum til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði, eða ef maður sviptir mann eða ógnar manni með sviptingu atvinnu eða hlunninda í sama skyni.
- Ef maður tekur fé eða fríðindi fyrir að greiða atkvæði, láta vera að greiða atkvæði eða að greiða atkvæði á ákveðinn hátt.
- Ef fulltrúi kjósanda skv. 63. gr. (ákvæði um aðstoð á kjörstað) gerist fulltrúi annars kjósanda við sömu kosningu.
Það varðar fangelsi allt að fjórum árum:
- Ef maður beitir þvingunarráðstöfunum eða ofbeldi eða hótunum um ofbeldi til að raska kosningafrelsi manns, annað hvort á þann hátt að meina honum að greiða atkvæði eða neyða hann til að greiða atkvæði á annan veg en hann vill.
- Ef maður vísvitandi rangfærir atkvæðagreiðslu, með því að glata atkvæði, breyta atkvæði, skemma eða glata atkvæðasendingu, búa til kjörseðla, er líkjast mjög þeim sem notaðir eru við kosningu, og hagnýtir þá sjálfur eða lætur þá frá sér til þess að aðrir geti hagnýtt þá, rugla úrslit talningar atkvæða eða með öðrum hætti.
Sveitarstjórnarkosningar 2020 - sameining
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.