Hoppa yfir valmynd

Kjósendur við sveitarstjórnarkosningar 2020

Kosningarréttur 

Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri á kjördag, 19. september 2020, og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 29. ágúst 2020.

Einnig eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, enda fullnægi þeir að öðru leyti framangreindum skilyrðum.

Þjóðskrá Íslands hefur tekið upp nýtt umsóknarferli varðandi skráningu námsmanna á Norðurlöndunum á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar. Breytingarnar felast í því að umræddir námsmenn þurfa nú að tilkynna það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að þeir séu námsmenn til þess að vera teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

Tilkynninguna skal senda rafrænt á eyðublaði K-101 sem er að finna á vef Þjóðskrár Íslands. Tilskilið er að framvísa staðfestingu á námsvist. Gert er ráð fyrir því að makar og skyldulið námsmanna tilkynni sig á sama hátt með tilvísun í viðkomandi námsmann. Senda þarf inn nýja tilkynningu fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar.

Atkvæðagreiðsla á kjördag

Kjósandi kýs í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 29. ágúst 2020.  Nánar um kjörstaði (þegar nær dregur kosningum)

Kjósandi mætir á kjörstað, finnur sína kjördeild, framvísar skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi), lætur haka við nafnið sitt á kjörskrá og fær kjörseðil. Að því búnu fer hann með kjörseðilinn inn í næsta lausa kjörklefa.

Á kjörseðlinum eru listabókstafir og heiti stjórnmálasamtaka/-flokka í framboði og undir þeim eru nöfn frambjóðenda hvers lista í tölusettri röð.

Í kjörklefanum er blýantur sem kjósandi notar til þess að setja kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa.

Kjósandi má jafnframt:

  • Breyta röð frambjóðenda á þeim lista sem hann kýs. Þá setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst á lista, 2 fyrir þann sem hann vill hafa annan í röðinni o.s.frv.
  • Hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs með því að strika yfir nafn hans.

Kjörseðillinn getur orðið ógildur ef kjósandi t.d.:

  • Gerir villandi eða misvísandi merki á seðilinn.
  • Breytir öðrum lista en þeim sem hann kýs.

Þegar kjósandi hefur merkt við þann lista sem hann kýs, brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum þannig að letrið snúi inn, fer út úr kjörklefanum og setur seðilinn í kjörkassann.

Ef einhver sér hvað er á kjörseðlinum áður en kjósandinn setur hann í kassann er seðillinn ónýtur og hann á rétt á að fá nýjan seðil og fara aftur inn í kjörklefa. Hið sama gildir ef hann hefur gerir mistök við ritun á kjörseðilinn. Kjósandi þarf þá að skila kjörstjórn fyrri seðlinum.

Í kjörklefanum er spjald með blindraletri með upphleyptum bókstaf hvers framboðslista. Þá eiga þeir sem geta ekki merkt sjálfir við á kjörseðlinum sínum, vegna sjónleysis eða þess að þeir geta ekki notað höndina til að fylla út kjörseðilinn, rétt á aðstoð í kjörklefanum.

Ef kjósandi er ekki fær um að kjósa hjálparlaust vegna sjónleysis eða þess að hann getur ekki ritað á kjörseðilinn með eigin hendi getur hann tilnefnt einn úr kjörstjórninni til að veita sér aðstoð í kjörklefanum enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Kjörstjórnarmanni er óheimilt að bjóða þeim aðstoð að fyrra bragði er þannig þarfnast hjálpar.

Kjósandi getur jafnframt óskað eftir því að fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur aðstoði sig í kjörklefanum og skal kjörstjórnin verða við því ef kjósandinn getur sjálfur með skýrum hætti tjáð þann vilja sinn. Þó kjósandi geti ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn þennan vilja sinn skal kjörstjórn heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandinn hafi valið sjálfur þennan tiltekna fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk, https://www.stjornarradid.is/gaeda-og-eftirlitsstofnun/rettindagaesla-fyrir-fatlad-folk/#Tab0

Fulltrúanum er óheimilt að aðstoða fleiri en einn kjósanda með þessum hætti við hverjar kosningar. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli í kjörklefanum. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað.

Þagnarheit fulltrúa á kjördag

Óbundnar kosningar

Í sumum minni sveitarfélögum eru kosningarnar óbundnar. Það þýðir að kjósendur velja alfarið sjálfir þá einstaklinga sem þeir vilja kjósa í sveitarstjórn úr hópi þeirra sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu.

Kjósandi fær þá afhentan tvískiptan kjörseðil. Á efri hluta hans skrifar hann fullt nafn og heimilisfang þeirra einstaklinga sem hann vill að taki sæti í sveitarstjórn. Á neðri hluta seðilsins skrifar hann síðan fullt nafn og heimilisfang þeirra einstaklinga sem hann vill að verði varamenn í sveitarstjórn og númerar þá í þeirri röð sem hann vill að þeir taki sæti.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gat hafist laugardaginn 25. júlí 2020 og stendur til kjördags 19. september 2020. Kosning utan kjörfundar er því aðeins gild að notuð séu hin fyrirskipuðu kjörgögn.

Á Íslandi fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram á sérstökum kjörstað í umdæminu. Upplýsingar um afgreiðslutíma sýslumanna má nálgast á vefsíðu sýslumanna.

Erlendir fer atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fram á skrifstofu sendiráðs, í sendiræðisskrifstofu eða hjá kjörræðismanni samkvæmt nánari ákvörðun utanríkisráðuneytisins. Utanríkisráðuneytið getur þó ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fari fram á öðrum stöðum erlendis. Senda skal atkvæði til sýslumannsins á Austurlandi eða yfirkjörstjórar í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdagshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaða.

Upplýsingar um sendiskrifstofur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins. 

https://www.stjornarradid.is/sendiskrifstofur/

Upplýsingar um kjörræðismenn eftir löndum.

Ráðuneytið vekur athygli á að það getur tekið nokkra daga fyrir atkvæði sem greitt er utan kjörfundar og póstsent á hefðbundinn hátt að berast til yfirkjörstjórnar. Þá má ætla í ljósi þess ástands sem nú ríkir í heiminum vegna COVID-19 farsóttarinnar, séu póstsamgöngur mun hægari en ella. Þá geta óhjákvæmilega komið upp þau tilvik, vegna sóttvarnaráðstafana stjórnvalda á hverjum stað, að aðgengi kjósenda að kjörstöðum erlendis verði takmarkað. Kjósendum er bent á að hafa samband við sendiskrifstofur og/eða sendiherra sem hafa yfirlit yfir hvar er unnt að kjósa.

Þá skal það áréttað að kjósandi getur ávallt valið að koma atkvæðisbréfi sínu til viðkomandi kjörstjórnar á annan hátt heldur en að póstleggja það.

Á sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra, stofnunum fyrir fatlað fólk og í fangelsum

Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða er vistmaður þar, eða er heimilismaður á dvalarheimili aldraðra eða á stofnun fyrir fatlað fólk, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni/heimilinu. Hið sama gildir um fangelsi og vistmenn þeirra. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 29. ágúst 2020.

Í heimahúsi

Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, samanber framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi þremur vikum fyrir kjördag, þ.e. 29. ágúst 2020, en ósk um atkvæðagreiðslu í heimahúsi verður að bera fram við hlutaðeigandi kjörstjóra eigi síðar en fjórum dögum fyrir kjördag, þ.e. 15. september 2020, fyrir klukkan 16.

Leiðbeiningar um framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra o.fl.

Umsóknareyðublað um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi.

Um borð í íslensku skipi: Kjósandi, sem er í áhöfn eða farþegi um borð í íslensku skipi í siglingum erlendis eða á fjarlægum miðum, má kjósa um borð í skipinu. Skipstjóri eða sá sem hann tilnefnir skal vera kjörstjóri.

Framkvæmd kosningar utan kjörfundar

Kjósandi, sem greiða vill atkvæði utan kjörfundar, skal gera kjörstjóra grein fyrir sér, svo sem með því að framvísa skilríkjum (t.d. ökuskírteini eða vegabréfi) eða á annan fullnægjandi hátt að mati kjörstjóra. Að því búnu fær kjósandi afhent kjörgögn sem eru kjörseðill, kjörseðilsumslag, fylgibréf og sendiumslag.

Á kjörseðli við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eru ekki nöfn frambjóðenda eða lista, heldur er kjörseðillinn auður. Kjósandi skal aðstoðarlaust og án þess að nokkur annar sjái, rita eða stimpla á kjörseðilinn fullt nafn þess frambjóðanda sem hann vill kjósa.

Eftir að kjósandi hefur ritað atkvæði sitt á kjörseðilinn leggur hann kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið og límir það aftur.

Því næst fyllir kjósandi út fylgibréfið og undirritar það í viðurvist kjörstjóra sem vottar atkvæðagreiðsluna.

Kjósandi leggur síðan fylgibréfið og kjörseðilsumslagið í sendiumslagið, límir það aftur og áritar það til sýslumannsins á Austurlandi eða yfirkjörstjórar í sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdagshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaða. Loks ritar kjósandi nafn sitt, kennitölu og lögheimili greinilega á bakhlið sendiumslagsins. Vilji kjósandi ekki að nafn hans, kennitala og lögheimili sé sýnilegt öðrum er honum heimilt að setja sendiumslagið ofan í annað umslag og merkja það viðkomandi sýslumanni eða kjörstjórn.

Kjósandi annast sjálfur og kostar sendingu atkvæðisbréfs síns. Kjörstjóra er þó skylt, ef kjósandi óskar þess, að koma bréfinu í póst. Kjósandi sem greiðir atkvæði hjá sýslumanni í sveitarfélagi þar sem hann er á kjörskrá getur lagt bréfið í atkvæðakassa þar.

Ef kjósandi skýrir kjörstjóra svo frá að hann sé ekki fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi, enda er hann bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina og ástæðu hennar skal geta á fylgibréfinu. Aðstoð við að árita kjörseðil skal því aðeins veitt að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða að fyrra bragði þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.

Kjósandi sem er í framangreindri stöðu getur einnig óskað eftir því að í stað kjörstjóra aðstoði hann fulltrúi sem hann hefur valið sjálfur. Kjörstjóri skal þá gera hlé á atkvæðagreiðslunni þar til aðrir kjósendur, sem kunna að vera viðstaddir, hafa lokið við að greiða atkvæði og skal fulltrúi kjósandans jafnframt víkja frá. Kjörstjóri tekur beiðni kjósanda strax til úrskurðar og er ákvörðun hans endanleg.

Kjörstjóri skal heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra vilja sinn óþvingað um að hann óski aðstoðar fulltrúans. Þótt kjósandi geti ekki sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjóra þennan vilja sinn skal kjörstjóri þó heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna leggi kjósandinn fram vottorð réttindagæslumanns, sem starfar samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þar sem staðfest er að kjósandinn hafi valið sjálfur þennan tiltekna fulltrúa sér til aðstoðar við atkvæðagreiðsluna.

Hægt er að nálgast lista yfir réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk á eftirfarandi vefslóð: https://www.stjornarradid.is/gaeda-og-eftirlitsstofnun/rettindagaesla-fyrir-fatlad-folk/#Tab0

Vottorð réttindagæslumanns.

Uppfylli kjósandi ekki framangreind skilyrði verður ekki af atkvæðagreiðslu með þessum hætti. Heimili kjörstjóri fulltrúa kjósanda að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna skal atkvæðagreiðslu haldið áfram og aðstoðarinnar getið á fylgibréfinu. Fulltrúi kjósanda er bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem honum og kjósanda fer á milli við atkvæðagreiðsluna. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað. Aðeins er heimilt að vera fulltrúi eins kjósanda við sömu kosningu. Í því skyni staðfestir hann heit sitt áður en atkvæði er greitt með undirritun á sérstakt eyðublað.

Þagnarheit fulltrúa utan kjörfundar.

               

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum