Hoppa yfir valmynd

Upplýsingar fyrir yfirkjörstjórnir

Fundur yfirkjörstjórnar um framkomna framboðslista

Þegar framboðsfrestur er liðinn skal yfirkjörstjórn halda fund um yfirferð framboðslista. Umboðsmönnum framboðslista skal veittur kostur á að vera viðstaddir. Finnist gallar á framboðslista á þessum fundi yfirkjörstjórnar skal gefa hlutaðeigandi umboðsmönnum kost á að leiðrétta þá. Má veita frest í því skyni eftir því sem tími og atvik leyfa, að jafnaði sólarhring. 

Gallar á framboðslista sem ekki hafa verið leiðréttir innan tilskilins frests koma til ákvörðunar yfirkjörstjórnar þegar hún tekur framboðslista til meðferðar. 

Ákvörðun yfirkjörstjórnar

Yfirkjörstjórn boðar umboðsmenn framboðslista til fundar eigi síðar en þremur sólarhringum og fjórum stundum eftir að framboðsfrestur rennur út. Á fundinum skal yfirkjörstjórn greina frá meðferð sinni á einstökum framboðslistum og tilkynna um ákvarðanir sínar. Ákvörðun yfirkjörstjórnar má umboðsmaður skjóta til úrskurðarnefndar kosningamála innan 20 klukkustunda. Úrskurður nefndarinnar skal liggja fyrir innan tveggja sólarhringa eftir að kærufrestur rennur út.

Ef á framboðslista eru fleiri nöfn en tilskilið er skal yfirkjörstjórn nema burt af listanum öftustu nöfnin sem eru fram yfir tilskilda tölu. Sama á við um lista meðmælenda.

Yfirkjörstjórn skal við meðferð framboðslista merkja lista stjórnmálasamtaka með hliðsjón af auglýsingu um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu alþingiskosningar, sjá auglýsingu nr. 225/2022. Ef framboðslistar eru ekki bornir fram af stjórnmálasamtökum merkir yfirkjörstjórn sveitarfélags þá í stafrófsröð eftir því sem þeir hafa borist eða eftir samkomulagi við umboðsmenn listanna.

Ef yfirkjörstjórn berst listi er nafn manns stendur á án þess að skriflegt leyfi hans fylgi, eða maður hefur skriflega leyft nafn sitt á fleiri listum en einum, skal yfirkjörstjórn nema það nafn burt af listanum eða listunum. Sama á við um meðmælendur.

Ekki má bjóða sig fram á fleiri framboðslistum en einum. Þá má sami kjósandi ekki mæla með fleiri en einum lista við sömu kosningar. Frambjóðendur á lista geta ekki verið meðmælendur hans. Kjörstjórnarfulltrúar geta ekki verið meðmælendur framboðslista.

Auglýsing framboðslista

Þegar yfirkjörstjórn hefur úrskurðað um gildi framkominna framboðslista auglýsir hún framboðslistana eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag. Um efni og birtingu auglýsingar framboðslista fer eftir reglugerð um efni auglýsinga, birtingarhátt o.fl.

Einstaklingur á lista deyr eftir lok framboðsfrests

Ef frambjóðandi deyr áður en kosning fer fram, en eftir að framboðsfrestur er liðinn skal yfirkjörstjórn færa þá frambjóðendur sem koma á eftir hinum látna á listanum upp um sæti. Ef unnt er skal auglýsa listann þannig breyttan með sama hætti og segir að ofan.

Einungis einn framboðslisti berst fyrir lok framboðsfrests

Ef aðeins einn framboðslisti berst skal yfirkjörstjórn framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa.Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en þeim fresti lýkur verður framkominn framboðslisti sjálfkjörinn.

Frambjóðandi á lista hættir við eftir lok framboðsfrests en fyrir kjördag

Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs á framboðslista stjórnmálasamtaka fram til þess að frestur til þess að skila framboðum rennur út. Eftir að framboðsfrestur rennur út getur sá sem er á framboðslista ekki dregið framboð sitt á listanum til baka.

Síðast uppfært: 8.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum